Sjálfstæðisflokkurinn drottnar yfir Suðurkjördæmi

Könnun í Suðurkjördæmi Skv. kjördæmakönnun Gallups í Suðurkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn með fimm kjördæmakjörna þingmenn og rúmlega 10% meira fylgi en í kosningunum 2003. VG bætir við sig miklu fylgi á meðan að Samfylking og Framsóknarflokkur missa talsvert fylgi og kjördæmakjörinn mann. Íslandshreyfingin nær ekki flugi.

Mikla athygli vekur að aðeins tvær konur mælast inni, báðar frá Sjálfstæðisflokknum. Aðeins einn Suðurnesjamaður mælist inni, Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, en þetta er fjölmennasta svæði kjördæmisins.

Sjálfstæðisflokkurinn: 40,9% - (29,2%)
Samfylkingin: 24% - (29,7%)
Framsóknarflokkurinn: 14,2% - (23,7%)
VG: 13,7% - (4,7%)
Frjálslyndi flokkurinn: 4,8% - (8,7%)
Íslandshreyfingin: 2,2%
Baráttusamtökin 0,3%

Þingmenn skv. könnun

Árni M. Mathiesen (Sjálfstæðisflokki)
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Björk Guðjónsdóttir
Unnur Brá Konráðsdóttir

Björgvin G. Sigurðsson (Samfylkingu)
Lúðvík Bergvinsson

Guðni Ágústsson (Framsóknarflokki)

Atli Gíslason (VG)

Fallin skv. könnun

Drífa Hjartardóttir
Guðjón Hjörleifsson
Gunnar Örn Örlygsson (féllu öll í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins)

Þetta er merkileg mæling vissulega. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin tapa eins og fyrr segir nokkru fylgi og missa þingmann. Þetta virðist vera fylgistrendið um allt land. Sérstaklega er áfall Framsóknarflokksins mikið í könnuninni og yrði útkoma í einhverri líkingu við þetta umtalsvert pólitískt áfall fyrir Guðna Ágústsson, varaformann Framsóknarflokksins. Frjálslyndir mælast örlítið lægri kjörfylginu 2003 og missa þingmann sinn. Íslandshreyfingin virðist ekki vera að fá neitt alvöru start og virðist vandræði flokksins vera að sjást vel í fylgisleysi.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel yfir kjörfylginu og með fimm kjördæmakjörna þingmenn. Sá fimmti er reyndar mjög tæpur, en þetta er gríðarlega góð mæling. Þeir fengu vondar kosningar í þessu sterka kjördæmi sínu árið 2003, en þar varð mjög vondur klofningur með sérframboði þingmannsins Kristjáns Pálssonar þess valdandi að flokkurinn missti forystu á svæðinu til Samfylkingarinnar og hlaut ekki fjórða manninn. Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að ná fyrri flugi og endurheimta lykilstöðu í góðu vígi sínu.

VG bætir umtalsverðu fylgi við sig og eru greinilega á mikilli siglingu í kjördæminu undir forystu Atla Gíslasonar. Þeir hafa þó verið að mælast með tvo en missa nú nokkuð fylgi milli kannana og hafa nú aðeins Atla inni. Ef marka má þessa mælingu eru Bjarni Harðarson og Róbert Marshall báðir utan þings, sem hljóta að teljast mikil tíðindi. Það er þó stutt í þá báða í þessari mælingu og er t.d. Framsóknarflokkurinn að bæta stöðu sína milli kjördæmakannana.

Það er auðvitað gleðiefni að sjá þessa góðu stöðu sjálfstæðismanna en ég tel að stóra stjarna þeirra í þessum kosningum verði vinkona mín, Unnur Brá - í fimmta sætinu. Hún mælist þarna inni, sem eru mikil gleðitíðindi. Hún er greinilega í baráttusætinu þeirra og er hiklaust ferskasti kosturinn í baráttusæti þarna. Það er greinilegt að hún er að stimpla sig inn þarna og á marktæka möguleika á þingsæti skv. þessu.

En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna. Margir eru þó óákveðnir og spennandi 20 dagar sannarlega framundan í kosningabaráttunni þar.

mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig tveimur þingmönnum í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

Sæll Stebbi. Svo virðist samkvæmt þessari könnun að Árni Johnsen hafi fengið uppreisn æru? Eða hvað?!

kveðja, Gunnþór 

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson, 22.4.2007 kl. 15:33

2 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Sælir piltar.

það var alveg ljóst að Árni Johnsen hefur mikið persónufylgi í suðurkjördæmi og hann á vafalítið stóran þátt í þessu. Mér lýst vel á að Unnur Brá verði þingmaður vonandi að það gangi eftir.

Ingólfur H Þorleifsson, 22.4.2007 kl. 15:57

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Gunnþór: Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að endurheimta fyrri ráðandi stöðu í Suðurkjördæmi. Það eru góð tíðindi. Fari kosningar svona í Suðurkjördæmi eða með viðlíka hætti er það merki þess að fólk vilji Árna á þing og það væri afgerandi dómur fólks þarna. Það er mjög einfalt mál. Við þurfum endilega að hittast fljótlega yfir kaffibolla og rabba um pólitíkina.

Ingólfur: Já, ég vona að Unnur Brá nái á þing. Það er eflaust bjartsýni, en samt möguleikinn er til staðar og ég er ekki í vafa um að Unnur Brá er sterkasti frambjóðandi sjálfstæðismanna í topp fimm og mesta framtíðarefnið. Hvort sem hún verður fyrsti varaþingmaður eða þingmaður er framtíðin hennar þarna. Einfalt mál það.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.4.2007 kl. 16:13

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Við erum kát hér, segi bara að ég vona svo innilega að Unnur Brá komist inn hún er þvílíkur kvenkostur og málefnaleg manneskja. Hlakka til 12.maí.

Ásdís Sigurðardóttir, 22.4.2007 kl. 16:55

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, Ásdís, þetta er alveg frábær könnun og góð staða sem kemur þarna í ljós. Hún Unnur Brá er mjög öflug og ég tel að hún sé framtíðarmanneskja í landsmálunum þarna. Enginn vafi á því.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.4.2007 kl. 17:56

6 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Voðalega eruð þið eitthvað hamingjusöm í himinblámanum. Í mínum huga eru skoðanakannanir léttvægt bull. Geta verið afar leiðandi og heilaþvegið blásaklaust fólk. Í leiðinni má náttúrulega sjá spaugilegu hliðina á þessu. Segjum nú að í einni könnun Gallup, rétt fyrir kosningadag, kæmi fram að stjórnin væri fallin og ný stjórn í sjónmáli og þú félagi Stefán stæðir inní kjörklefanum og myndir ekki hvað þú ættir að kjósa og úllen dúllen doff xið færi á VG, er ekki vissara að fara að kaupa gítarstillara fyrir Árna ha  

gleðilegt sumar

Pálmi Gunnarsson, 22.4.2007 kl. 18:09

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Heill og sæll Pálmi

Það er alltaf gaman að spá í skoðanakönnunum. Sérstaklega er áhugavert að fá kjördæmakannanir sem sýna local-stöðuna enn betur en ella. En ég hef reyndar alltaf verið þeirrar skoðunar að það eigi að loka á skoðanakannanir og auglýsingar síðustu tvo sólarhringana fyrir kjördag, með sama hætti og er í Frakklandi, til að gefa kjósendum ráðrúm í friði til að ákveða sig. En þetta kveikir hita í baráttunni og gefur ágætispælingar. En könnun er aldrei kosningar og ber að höndla sem slíkt. Þess vegna er alltaf best að miða við síðustu kosningar við kannanir en ekki síðustu könnun.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.4.2007 kl. 18:21

8 Smámynd: Svartinaggur

Hér gera menn því skóna að Árni Johnsen hafi fengið uppreisn æru og hafi mikið persónufylgi. Hmmmm... mér þætti gaman að vita hvað kjósendur á Suðurlandi eru að hugsa. Eru menn búnir að gleyma sakamálinu og því sem því fylgdi af hálfu ÁJ? Það virðist einu gilda hversu mikill skandall kemur upp; Íslenskir kjósendur hafa ekki minni á við meðal gullfisk. Það eru ekkert svo margir mánuðir síðan að ÁJ kom í sjónvarpi og sagðist iðrast þess að hafa gert MISTÖK! Hann gerði EKKERT RANGT - BARA TÆKNILEG MISTÖK! Ef þetta lýsir ekki fullkominni siðblindu - hvað gerir það þá?

Hvað er eiginlega að gerast í hausnum á fólki þarna á Suðurlandi?

Svartinaggur, 23.4.2007 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband