Pólitísk vonbrigði Ingibjargar Sólrúnar

ISG og Össur Það fer ekki á milli mála að stjórnmálaferill Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hefur verið hin mesta sorgarsaga allt frá því að hún sagði af sér embætti borgarstjóra er R-listinn logaði stafnanna á milli í desember 2002. Pólitísk vonbrigði Ingibjargar Sólrúnar einkennast nú af vondu gengi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum og slakri útkomu hennar í vinsældarmælingum meðal kvenna.

Í ítarlegri leiðtogaumfjöllun á Stöð 2 í kvöld fóru Þóra Kristín Ásgeirsdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson yfir stjórnmálaferil og ævi Ingibjargar Sólrúnar. Helst var þar sjónum beint auðvitað að þessu kjörtímabili og einkum þeim umskiptum á ferli Ingibjargar Sólrúnar hvernig hún breyttist úr sigursælri vonarstjörnu vinstrimanna úr þrennum borgarstjórnarkosningum í flokksformann sem á ekki sjö dagana sæla og reynir í tímahraki að bjarga sér frá grimmum pólitískum endalokum sem eru fyrirsjáanleg nái hún ekki að byggja flokkinn upp til vegs og virðingar.

Mesta athygli í þættinum vöktu ummæli Össurar Skarphéðinssonar. Aldrei fyrr hefur það verið staðfest með hve dramatískum hætti formannsslagurinn milli svilanna lék samskipti þeirra. Það blasti við öllum að hann hjó mjög nærri rótum vináttu þeirra og fjölskyldutengsla. Baráttan varð hörð og óvægin. Það munum við öll. Össur ber harm sinn greinilega í hljóði yfir að hafa ekki fengið að leiða flokk sinn lengur og hafa fengið sparkið svo fast á viðkvæman stað. Hann brosir enn í gegnum tárin eins og fegurðardrottningarnar en biturðin leynir sér svo sannarlega ekki.

Það verður gríðarlegt áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu nái hún ekki markmiðum sínum, efla Samfylkinguna, bæta fylgi hennar og gera flokkinn að mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Allar skoðanakannanir í óratíma sýna mikið fylgistap frá kjörfylginu 2003 fyrir flokkinn í kosningunum eftir 19 daga. Mismikið er fylgistapið þó. Sumar kannanir sýna um eða jafnvel yfir 10% fall frá kosningunum 2003. Slík staða myndi veikja verulega stöðu Ingibjargar Sólrúnar. Það blasir við. Veikari staða flokks og fylgishrap veikir jú um leið stöðu leiðtogans. 

Þegar skipperinn er hættur að fiska þarf að skipta um í brúnni sagði Jón Baldvin um árið. Verður sú spurning ekki ofarlega á baugi innan Samfylkingarinnar eftir kosningar fiski skipperinn ekki? Fari Samfylkingin eins illa út úr kosningum og mælingar segja eru örlög formannsins giska ráðin.

Þá verður spurt; hver verður næsti formaður Samfylkingarinnar? Hver getur leitt þennan flokk til öndvegis? Það er óumflýjanlegt í pólitískum veruleika þess flokks sem tapar stórt með fornan vonarneista í brúnni.

12 ára afmæli ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 199512 ár eru í dag liðin frá því að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hófst. Það var sunnudaginn 23. apríl 1995 sem ráðherraefni flokkanna komu saman á Bessastöðum á ríkisráðsfundi og tóku við embættum sínum. Stjórnin hafði verið mynduð eftir að upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem setið hafði að völdum í 4 ár, hafði slitnað með miklum hvelli.

Í alþingiskosningunum sem fram höfðu farið þann 8. apríl 1995 hafði Sjálfstæðisflokkur misst eitt þingsæti frá þingkosningunum 1991, hlotið 25 í stað 26 en Alþýðuflokkurinn misst þrjá þingmenn, farið úr 10 í 7. Meirihluti flokkanna var því naumur, aðeins 1 þingsæti. Flokkarnir höfðu 32 þingmenn en þáverandi stjórnarandstaða 31 þingsæti. Munaði Alþýðuflokknum mjög um tilkomu Þjóðvaka, sérframboðs Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hafði farið úr ríkisstjórn og klofið sig frá flokknum eftir að hafa tapað fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni í harðvítugu formannskjöri. Segja má að klofningurinn hafi verið afdrifaríkur, enda misstu þau bæði öll pólitísk völd með honum.

Í kjölfar kosninganna 1995 tóku við stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Fljótt varð ljóst að grunnurinn var brostinn og meirihlutinn of naumur til að leggja í ferðalag til fjögurra ára með aðeins eins sætis meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn sleit því viðræðunum um páskahelgina 1995 og Davíð Oddsson sagði af sér fyrir hönd stjórnarinnar þriðjudaginn 18. apríl 1995. Við tóku stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hittust sömu helgi og handsöluðu samkomulag um stjórnarmyndunarviðræður eftir umleitanir annarra um að koma þeim saman.

Eftir nokkurra daga viðræður var samkomulag flokkanna um samstarf staðfest af æðstu stofnunum þeirra. Að því loknu voru ráðherrar flokkanna valdir og tóku þeir við embættum sínum á fyrrnefndum fundi að Bessastöðum á þessum apríldegi í vorsólinni á Álftanesi. Allir þekkja söguna sem fylgir í kjölfarið. Samstarfið stendur enn, sem er til marks um hversu farsællega það hefur starfað og leitt farsæl mál til lykta með mikla samstöðu og kraft að leiðarljósi. Í Íslandssögunni hefur ekkert stjórnarsamstarf staðið lengur, en nærri stendur þó viðreisnarstjórnin svokallaða, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem sat í tólf ár ennfremur, 1959-1971.

Upphaflega var fjöldi ráðherra í stjórninni 10. Að loknum þingkosningunum 1999 var ákveðið að fjölga ráðherrunum í 12 og hefur svo verið síðan. Á þessum áratug hafa 26 setið í stjórninni, 13 frá hvorum flokki. Enginn hefur setið í stjórninni allan tímann. Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum haustið 2005 og Halldór Ásgrímsson sumarið 2006. Björn Bjarnason hefur lengst verið í stjórninni, en hann var menntamálaráðherra 1995-2002 en varð dómsmálaráðherra vorið 2003 og verið í stjórninni síðan. Aðeins Björn Bjarnason og Geir H. Haarde hafa setið í stjórninni frá fyrsta kjörtímabili hennar, 1995-1999.

Stjórnin hefur gengið í gegnum tvennar kosningar, árin 1999 og 2003, og hefur þingmeirihluti stjórnarinnar veikst í báðum kosningunum. Við stofnun hafði stjórnin 40 þingsæti af 63. Sjálfstæðisflokkur hafði 25 þingsæti en Framsóknarflokkurinn 15. Eftir þingkosningarnar 1999 tapaði stjórnin tveim þingsætum í heildina. Framsóknarflokkur missti þrjú þingsæti, hlaut 12 en Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig einum þingmanni og hlaut 26 í stað 25 áður. Í þingkosningunum 2003 veiktist þingmeirihlutinn nokkuð. Þá missti Sjálfstæðisflokkurinn 4 þingsæti, hlaut 22 í stað 26, en Framsóknarflokkurinn hélt sínum 12.

Davíð Oddsson hafði verið forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og var það áfram við upphaf samstarfs flokkanna vorið 1995. Hann sat á forsætisráðherrastóli allt til 15. september 2004. Sömdu flokkarnir um það við upphaf núverandi kjörtímabils að forsætisráðuneytið færðist þá formlega yfir til Halldórs en þess í stað myndi Sjálfstæðisflokkurinn hljóta 7 ráðherra af 12. Davíð varð utanríkisráðherra er Halldór varð forsætisráðherra. Er Halldór sagði af sér forsætinu í júní 2006 varð Geir H. Haarde, eftirmaður Davíðs sem formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra í hans stað.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessum áratug eru eftirtaldir:

Sjálfstæðisflokkur
Davíð Oddsson (1991-2005)
Friðrik Sophusson (1991-1998)
Þorsteinn Pálsson (1991-1999)
Halldór Blöndal (1991-1999)
Björn Bjarnason (1995-2002 og frá 2003)
Geir H. Haarde (frá 1998)
Árni M. Mathiesen (frá 1999)
Sturla Böðvarsson (frá 1999)
Sólveig Pétursdóttir (1999-2003)
Tómas Ingi Olrich (2002-2003)
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (frá 2003)
Sigríður Anna Þórðardóttir (2004-2006)
Einar Kristinn Guðfinnsson (frá 2005)

Framsóknarflokkur
Halldór Ásgrímsson (1995-2006)
Páll Pétursson (1995-2003)
Ingibjörg Pálmadóttir (1995-2001)
Finnur Ingólfsson (1995-1999)
Guðmundur Bjarnason (1995-1999)
Guðni Ágústsson (frá 1999)
Valgerður Sverrisdóttir (frá 1999)
Siv Friðleifsdóttir (1999-2004 og frá 2006)
Jón Kristjánsson (2001-2006)
Árni Magnússon (2003-2006)
Jón Sigurðsson (frá 2006)
Jónína Bjartmarz (frá 2006)
Magnús Stefánsson (frá 2006)

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde 2006Áratugur er ekki langur tími í sögu íslensku þjóðarinnar: segja má að sá tími sé eins og örskotsstund á langri vegferð. Hinsvegar leikur enginn vafi á því að það er sögulegt og mikil tíðindi að tveir flokkar hafi setið í forystu ríkisstjórnar landsins svo lengi sem raun ber vitni og unnið saman að forystu stjórnmála landsins.

Þegar saga ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Davíðs, Halldórs og Geirs verður gerð upp í sögubókum framtíðarinnar mun hennar eflaust verða minnst fyrir góðan árangur og nokkuð farsæla forystu. Margt hefur áunnist og breytingar á þjóðfélaginu verið miklar á þessum tíma.

Þingkosningar verða eftir 19 daga. Eitt stærsta spurningamerkið tengt þeim er hvort að Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki tekst fjórðu kosningarnar í röð að ná þingmeirihluta og því hvort að stjórnin heldur velli. Ef marka má nýjustu skoðanakannanir mun svo fara, en það er þó alveg ljóst að þetta eru mjög tvísýnar kosningar og fróðlegt að sjá hver staðan verður að morgni 13. maí.


"Ljóskan" í menntamálaráðuneytinu

JBH Það var með ólíkindum að heyra Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra, kalla Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformann Sjálfstæðisflokksins, "ljóskuna" í menntamálaráðuneytinu í Silfri Egils í gær. Þessi karlremba í Jóni Baldvini er honum algjörlega til skammar.

Ætla valkyrjurnar, bloggvinkonur mínar, á Trúnó, ekki að skrifa grein um þessa karlrembu Jóns Baldvins?

Boris Jeltsín látinn

Boris Jeltsín Boris Jeltsín, fyrrum forseti Rússlands, er látinn, 76 ára að aldri. Jeltsín var aðalleikari í atburðarásinni eftirminnilegu í upphafi tíunda áratugarins er Sovétríkin liðu undir lok og kommúnistaveldin í Austur-Evrópu bognuðu stig af stigi eftir fall Berlínarmúrsins. Hann varð fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Rússlands eftir einræðisstjórn kommúnista og var einn valdamesti maður heims á örlagatímum í alþjóðastjórnmálum eftir þáttaskilin sem urðu óneitanlega er Sovétríkin gufuðu upp.

Það er ansi sterkt í minningunni hvernig að Jeltsín greip frumkvæðið í Sovétríkjunum þegar að veldi kommúnismans hrundi eins og dómínókubbaröð. Hann tók af skarið er hik var á mörgum lykilmönnum og hann spilaði lykilhlutverk í því að brjóta valdaránið í Sovétríkjunum í ágúst 1991 á bak aftur. Hann markaði sér ógleymanlegan sess þar sem hann stóð upp á skriðdrekanum í miðborg Moskvu á þeim örlagaríka degi að Gorbachev hafði verið lokaður af í stofufangelsi í sumarleyfi á Krím-skaga og rændur völdum.

Jeltsín varð aðalleikari á svæðinu með þessu táknræna frumkvæði. Valdarán harðlínukommanna sem reyndu að snúa vörn í sókn fór út um þúfur. Gorbachev kom aftur heim til Moskvu eftir þessa örlagaríku ágústdaga en staðan var gjörbreytt. Jeltsín var við völd, hann hafði náð lykilstöðu sem talsmaður lýðræðis og frjálsræðis í augum vesturveldanna og Gorbachev horfði á stöðuna breytast dramatískt. Veldi kommúnistanna hrundi hratt eftir þetta. Kommúnistaflokkurinn var lagður niður fyrir lok ágústmánaðar og Jeltsín sem forseti Rússlands tók forystu. Sovétríkin liðuðust í sundur fyrir árslok 1991 og Gorbachev stóð eftir snupraður sem leiðtogi ríkis sem ekki var lengur til.

Jeltsín var mjög litríkur þjóðarleiðtogi. Hann náði að blómstra eftir að Gorbachev hrökklaðist frá völdum og Sovét-tíminn leið undir lok. Jeltsín var þekktur fyrir eftirminnilegan lífsstíl. Hann var mjög heilsulaus meginhluta forsetaferilsins og gekkst undir nokkrar mjög tvísýnar hjartaaðgerðir. Feluleikurinn með veikindi hans er eftirminnilegur, en hann stóð mjög tæpt á árinu 1996 er hann gekkst undir tvísýna og erfiða hjartaaðgerð sem haldið var í fyrstu leyndri fyrir fjölmiðlum en síðar opinberuð eftir að sýnt var fram á að myndir sem áttu að sýna forsetann við störf voru í raun eldgamlar og settar fram til að reyna að loka á orðróm.

Jeltsín vann eftirminnilegt endurkjör á árinu 1996 þrátt fyrir erfið veikindi. Þá var sennilega baráttan gegn fornum kommúnistum undir merkjum sósíalista tvísýnust. Jeltsín tókst að vinna andstæðingana með ansi sterkum hætti þá, en kosningarnar voru tvísýnni þá milli fylkinga en var eftir að Jeltsín fór frá, í forsetakosningunum 2000 og 2004. Drykkjusemi Jeltsíns var eftirminnileg ennfremur en ástríða hans á vodka fór ekki framhjá neinum. Þekkt voru drykkjulæti hans jafnvel í opinberum heimsóknum. Hann stjórnaði hljómsveit í Þýskalandsför og svaf af sér fund með forsætisráðherra Írlands í viðkomu til Dublin svo fátt sé nefnt. 

Þrátt fyrir að flestir hafi ekki átt von á að Jeltsín færi fram í forsetakosningunum 2000 kom mörgum að óvörum að hann skyldi segja af sér í áramótaræðu á skrifstofu sinni í Kreml á gamlársdag 1999. Náði Jeltsín að koma öllum á óvart og hann yfirgaf forsetaembættið og Kreml með tilþrifamiklum hætti með snöggum hætti, þvert á það sem margir höfðu átt von á. Tíð forsætisráðherraskipti einkenndu forsetaferil Jeltsíns. Undir lok forsetaferilsins lagði Jeltsín allt traust sitt á KGB-manninn forna Vladimir Putin. Hann varð starfandi forseti við afsögnina og var kjörinn í mars 2000 og hefur setið við völd, ægisterkur, alla tíð síðan.

Jeltsín markaði söguleg þáttaskil á litríkum stjórnmálaferli. Hann var umdeildur og stuðaði mjög á forsetaferlinum. En hann var einn lykilþátttakenda í sögulegri atburðarás sem lengi verður í minnum höfð.

mbl.is Boris Jeltsín fyrrum Rússlandsforseti látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prinsessa fæðist í Danmörku

Friðrik, Kristján og Mary Það er augljós þjóðargleði í Danmörku vegna fæðingar prinsessunnar, dóttur Friðriks, krónprins, og Mary, krónprinsessu. Það er svosem varla furða, enda er þetta fyrsta prinsessan sem fæðist í Danmörku í 61 ár, en Anna María Grikkjadrottning, yngsta systir Margrétar II Danadrottningar og eiginkona Konstantíns Grikkjakonungs, fæddist árið 1946.

Það er þegar farið að tala um það í Danmörku að prinsessan muni hljóta nafnið Margrét, í höfuðið á ömmu sinni drottningunni. Ekki kæmi það að óvörum. Það er reyndar alltaf viss sjarmi frá dönsku konungsfjölskyldunni í huga Íslendinga. Það eru ekki nema 63 ár síðan að danski þjóðhöfðinginn var um leið sá íslenski og því hafa tengsl Danmerkur og Íslands því auðvitað alltaf verið mjög mikil. Kristján X, afi Margrétar, var síðasti danski kóngurinn yfir Íslandi eins og flestir vita.

Það er nokkur glans yfir Friðrik krónprins og fjölskyldu hans og virðist stefna í góða tíma fyrir dönsku krúnuna þegar að hann erfir ríkið af móður sinni. Fyrir áratug hefði fáum órað fyrir því að hann yrði ráðsettur og öflugur fjölskyldufaðir, enda gengu frægar sögur af líferni hans og stöðugleiki var ekki beinlínis á honum. En það hefur allt breyst mjög eftir að hann tók saman við Mary Donaldson og það er mikill virðugleikablær yfir þessum hluta fjölskyldunnar.

Það stefnir í farsæla framtíð krúnunnar og konungsfjölskyldunnar, sem eitt sinn var jú æðsta valdafjölskylda Íslands.

mbl.is Nýfædd prinssessa fyrir augu almennings í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Par auglýsir eftir staðgöngumóður í Mogganum

Það vakti mikla athygli mína og eflaust fleiri annarra að sjá auglýsingu í sunnudagsblaði Moggans þar sem par óskar eftir konu sem gæti hugsað sér að ganga með barn fyrir það. Kemur sérstaklega  fram að notaður yrði fósturvísir frá parinu. Eins og flestir vita er ekki löglegt að gera slíkt hérlendis, því yrði slíkt gert erlendis. Það er mjög merkilegt að sjá slíka auglýsingu, en það leikur varla vafi á því að þetta sé í fyrsta skipti sem svona nokkuð gerist hérna heima. Ef það eru önnur tilfelli endilega bendið þá á það.

Fjallað var um þetta í kvöldfréttum Stöðvar 2 og rætt við lækni sem sagðist ekki telja rétt að taka fyrir þann möguleika að fólk geti eignast barn með þessum hætti og bendir á það sem við blasir að fyrir sum pör sé þetta eini möguleiki þeirra til að eignast börn. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki hvaða lög gilda í þessum efnum utan Íslands, en hér heima er eflaust móðir barns skráð móðir hans með afgerandi hætti. Eflaust er þetta opnara erlendis. Þetta allavega opnar spurningar og pælingar sem hafa lítið verið í deiglunni hérna heima.

Það er altént svo að ekkert sem bannar fólki að fara út til að fara í gegnum svona ferli. Á Stöð 2 var rætt við nokkrar konur og þær spurðar um hvort þær væru tilbúnar til að ala barn annars fólks og voru þær ekki beint jákvæðar fyrir því. Það verður fróðlegt að heyra umræðuna um þetta. Það er þó hægt að fullyrða að þessi Moggaauglýsing opnar pælingar í þessum efnum og fróðlegt að heyra ýmsar skoðanir.

Þar sem ljóst er að slíkt er ekki löglegt hér heima er það úr sögunni, en mér finnst ekki rétt að loka á slíkt erlendis þar sem slíkt er löglegt. Að því leyti tek ég undir skoðanir læknisins sem rætt var við á Stöð 2.

Bloggfærslur 23. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband