25.4.2007 | 19:35
Jóhannesi Geir sparkað úr Landsvirkjun

Jóhannes Geir var þingmaður Framsóknarflokksins hér i NE kjörtímabilið 1991-1995, en hann skipaði þriðja sætið á lista flokksins, á eftir Valgerði Sverrisdóttur, í kosningunum 1987, 1991 og 1995 og náði aðeins kjöri í kosningunum 1991. Framsókn klofnaði í kosningunum 1987 vegna sérframboðs Stefáns Valgeirssonar en vann góðan sigur í kosningunum 1991 og hlaut þá þrjá menn undir forystu Guðmundar Bjarnasonar. Jóhannes Geir féll í kosningunum 1995 vegna fækkunar þingmanna í kjördæminu.
Það eru stórtíðindi að forysta Framsóknarflokksins slái af Jóhannes Geir. Hann var áhrifamaður hjá flokknum hér og var auk þingmennskunnar um árabil í stjórn KEA og stjórnarformaður KEA um langt skeið. Eftirmaður hans verður Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi og fyrrum pólitískur aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, sem er ennfremur fráfarandi varaþingmaður í Suðvesturkjördæmi. Það mun hafa komið til hvassra orðaskipta vegna þeirrar ákvörðunar að slá Jóhannes Geir af innan ráðherrahóps Framsóknarflokksins.
Mun þetta vera ákvörðun Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, sjálfs. Fróðlegt hvað Valgerður hafi sagt um þetta fall fyrrum samstarfsmanns síns í stjórnmálum, maður sem hún skipaði sjálf oftar en einu sinni til formennsku, verandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra í tæp sjö ár. Það er kaldhæðnislegt að heyra þessi tíðindi örskotsstundu eftir að birtist skoðanakönnun Gallups sem sýnir Framsóknarflokkinn í sögulegri fylgislægð hér í kjördæminu, sem hefur í áratugi verið lykilsvæði Framsóknarflokksins í stjórnmálum, eiginlega allt frá stofnun flokksins.
Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða eftirmál þessi tíðindi hafa, sem eru vissulega mjög stór og afdráttarlaus fyrir Jóhannes Geir Sigurgeirsson, fyrrum bændahöfðingja hér nyrðra.
![]() |
Jóhannes Geir víkur úr stjórnarformennsku í Landsvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.4.2007 | 17:57
Sterk staða Sjálfstæðisflokksins - Framsókn hrynur

Sjálfstæðisflokkurinn: 31,3% - (23,5%)
VG: - 21,7% (14,1%)
Samfylkingin: 21,5% - (23,4%)
Framsóknarflokkurinn: 18% - (32,8%)
Frjálslyndir: 5,9% - (5,6%)
Íslandshreyfingin: 1,3%
Baráttusamtökin: 0,3%
Þingmenn skv. könnun
Kristján Þór Júlíusson (Sjálfstæðisflokki)
Arnbjörg Sveinsdóttir
Ólöf Nordal
Steingrímur J. Sigfússon (VG)
Þuríður Backman
Kristján L. Möller (Samfylkingu)
Einar Már Sigurðarson
Valgerður Sverrisdóttir (Framsóknarflokki)
Birkir Jón Jónsson
Fallinn af þingi
Sigurjón Þórðarson
Þetta er merkileg mæling vissulega. Þessi könnun er augljóslega gríðarlegt áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Valgerður Sverrisdóttir er nú fyrsti þingmaður kjördæmisins og forystumaður langstærsta flokksins í kjördæminu. Fari þetta á einhvern viðlíka veg og þessi könnun greinir frá er sá sess fokinn út í veður og vind og hún orðin leiðtogi 20% mínus framboðs í kjördæminu. Höskuldur virðist ekki vera að takast að skila fylgi héðan frá Akureyri. Fylgið mælist aðeins 15% hér á Akureyri t.d. sem er sama fylgi og flokkurinn hlaut hér í afhroðinu mikla í fyrra. Sú staða er alveg óbreytt, það er mjög athyglisvert.
Þessi könnun er ekki góð fyrir VG. Það er öllum ljóst. Kannanir hafa sýnt Steingrím J. og hans fólk með allt upp í 35% fylgi hér en sá meðbyr er farinn og flokkurinn stendur á pari við Samfylkinguna. Þeir eru vissulega nokkuð yfir kjörfylginu en þetta er könnun sem sýnir enn og aftur að Björn Valur Gíslason er ekki að fara að hljóta kjördæmakjör. Enda var nokkur vörn yfir tali Steingríms J. í kjördæmaþætti áðan. Birst hafa eins og fyrr segir kannanir síðustu vikur sem hafa jafnvel sýnt fjóra vinstri græna á þingi í kjördæminu. Það eru greinilega algjörir órar og Björn Valur færist sífellt fjær möguleika á þingsæti.
Samfylkingin tapar fylgi, þrátt fyrir að vera með Akureyringa í þriðja og fjórða sæti, bloggvinkonurnar mínar góðu Láru og Möggu Stínu. Þar er tveir miðaldra þingmenn í efstu sætum. Það kemur því ekki að óvörum að þeir keyra á konunum héðan frá Akureyri. Staða flokksins hér á Akureyri virðist vera góð og hefur flokkurinn styrkt sig hér aftur á kostnað vinstri grænna, enda er meiri veruleiki yfir stöðu Láru en Dillu Skjóldal, sundþjálfara og varabæjarfulltrúa hér á Akureyri. Enda munu Samfylkingarmenn heyja baráttuna á tali um möguleika Láru, sem er mesta stjarnan þeirra í stöðunni.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel og er að bæta við sig mjög miklu fylgi. Það heyrðist á tali Kristjáns Þórs í kjördæmaþættinum áðan. Hann var þar syngjandi sæll og glaður. Hann getur ekki annað. Samkvæmt þessu eru hann, Abba, Ólöf og Valdi á réttri leið og að fá mikinn meðbyr. Kristján Þór er í þessari stöðu mjög öruggur sem fyrsti þingmaður kjördæmisins og möguleikar hans á ráðherrasæti fari Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn aukast til muna með svo afgerandi kjördæmasigri hér. Kristján Þór ætlar greinilega að taka þessa baráttu sem reyndur stjórnmálamaður og hann kemur sterkur til leiks í baráttuna.
Ef marka má þessa mælingu er mjög stutt í Þorvald Ingvarsson inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er mjög góð staða. Það er ánægjulegt fyrir okkur hér að sjá sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins á svæðinu og þetta eru góð skilaboð í baráttuna. Okkar fólk þarf nú að sækja þetta fylgi. Ef marka má stöðuna viðrar vel, stórsigur blasir við og það er öllum ljóst að rödd Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi á þingi og innan flokksforystunnar styrkist til muna með svona góðum sigri á heimaslóðum.
En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna hér. Margir eru þó enn óákveðnir og þar ráðast örlög frambjóðendanna hér í baráttusætum. Það leikur lítill vafi á því að spennandi 17 dagar eru sannarlega framundan í kosningabaráttunni hér.
![]() |
Sjálfstæðisflokkur og VG bæta við sig í Norðausturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.4.2007 kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2007 | 16:35
Umdeild tillaga felld á prestastefnu á Húsavík
Umdeild tillaga presta og guðfræðinga um að prestum verði heimilað að annast hjónavígslu samkynhneigðra var felld á prestastefnu á Húsavík í dag. 22 greiddi atkvæði með henni en 64 voru andvígir tillögunni. Niðurstaðan er því mjög afgerandi ákvörðun og því ljóst væntanlega að málamiðlun biskups verður ofan á er á hólminn kemur.
Mikil umræða hafði verið um það hvað myndi gerast á Húsavík. Pressa hefur verið greinileg eftir að réttindi samkynhneigðra jukust með lögum ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu að kirkjan gengi skrefið til fulls. Það er ljóst af þessu að sá vilji er ekki fyrir hendi innan þjóðkirkjunnar.
Það verður fróðlegt að heyra hvert framhald málsins verður. En það er greinilegt að vindar frjálsræðis í þessum efnum eru ekki afgerandi innan þjóðkirkjunnar.
![]() |
Tillaga um hjónavígslu samkynhneigðra felld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.4.2007 | 15:36
Spreyjað á Valgerði Sverrisdóttur fyrir austan
Þetta er þekkt slagorð andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar sem sést hefur í mótmælum. Það er athyglisvert að sjá þessi brögð í kosningabaráttunni fyrir austan og að skilti framsóknarmanna séu skemmd með svo áberandi hætti.
Það verður athyglisvert að sjá hvort að Framsókn fær meiri gusur á sig í kosningabaráttunni fyrir austan.
![]() |
Auglýsingaskilti Framsóknarflokksins á Egilsstöðum skemmd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.4.2007 | 14:15
Átök á prestastefnu - biskup vill málamiðlun
Öllum er ljóst að prestastefna sem nú stendur á Húsavík gæti markað þáttaskil. Tillaga 40 presta og guðfræðinga um að gefa skuli samkynhneigða saman með sama hætti og gagnkynhneigða er mjög afgerandi orðuð. Samþykkt slíkrar tillögu myndi marka mikil þáttaskil. Það eru miklar fylkingamyndanir í þessu máli og þarna koma upp á yfirborðið klassískar fylkingar íhaldssamra og frjálslyndra presta þjóðkirkjunnar.
Nú hefur Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, mælst til þess að prestastefna samþykki álit kenninganefndar um að prestum verði heimilað að staðfesta samvist samkynhneigðra en ekki að gefa þá saman í hjónaband. Ræða biskups í morgun á prestastefnu bar allan blæ málamiðlunar, reyna að leysa málið með málamiðlun í stað þess að komi til afgerandi kosningar um valkostina og breytinga á stöðu mála. Þar er reynt að lægja þessar öldur og leysa hnútana í þessu máli, hörð átök fylkinganna.
Í áliti kenninganefndar sem lögð hefur verið fram til umræðu á prestastefnu og biskup vék að kemur fram að prestum verði heimilað að staðfesta samvist samkynhneigðra en ekki gefa samkynhneigða saman í hjónaband. Greinilegt er að forsenda kenninganefndar sé að hefðbundin skilgreining hjónabands sem sáttmáli karls og konu sé hlutur sem ekki verði raskað en að þjóðkirkjan viðurkenndi önnur sambúðarform og stöðu þeirra með þeim hætti án þess að gefa saman fólk beint.
Biskup benti jafnframt á að með þessari niðurstöðu skipaði þjóðkirkjan sér í flokk með þeim kirkjum sem lengst hafa gengið. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi málamiðlun á Húsavík verði niðurstaða prestastefnunnar eða hvort átök verði engu að síður um málið allt.
![]() |
Biskup segir skiljanlegt að verklag kirkjunnar þyki varfærið og fálmkennt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.4.2007 | 04:46
Unnið að ævisögu Ólafs Ragnars Grímssonar
Drög munu nú hafa verið lögð að útgáfu ævisögu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, sem eigi að koma út um jólin. Mun Guðjóni Friðrikssyni hafa verið falið verkefnið að halda utan um verkið. Það er varla við því að búast að ævisagan verði litlaus og lítt áberandi. Persónan sem er miðpunktur hennar hefur búið á forsetasetrinu að Bessastöðum nú í ellefu ár og hefur upplifað sorgir og gleði þar.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur alltaf verið umdeildur maður. Honum tókst að kasta af sér grímu umdeilds stjórnmálamanns árið 1996 með athyglisverðum hætti og hljóta atkvæði fólks úr ólíkum áttum, meira að segja þeirra sem aldrei hefðu kosið hann í þingkosningum, eftir skrautlegan stjórnmálaferil í forystu Alþýðubandalagsins og sem óvinsæll fjármálaráðherra sem sýndur var í gervi Skattmanns í Áramótaskaupi ein áramótin er hann sat á ráðherrastóli. Honum tókst að byggja nýja ímynd, allt í einu varð pólitíski klækjarefurinn að reffilegum statesman sem lækkaði röddina og breytti sér úr vígreifu ljóni í ljúfasta lamb.
Stóra stjarna forsetakosninganna 1996 var þó ekki síður Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, fyrri eiginkona Ólafs Ragnars, sem lék lykilrullu í sigrinum mikla. Þau voru saman í forsetaframboði og hún markaði sér annan sess en eiginkonur fyrri forsetaframbjóðanda og var þungamiðja í baráttunni, einkum þó sem formaður stuðningsmannafélags hans sem hélt utan um baráttuna. Guðrún Katrín sló í gegn og tók virkan þátt í baráttunni uns yfir lak. Hún var ekki síður hinn afgerandi sigurvegari júníkvöldið þegar að Ólafur Ragnar tók kjöri eftir að hafa tekist að vinna kosningarnar með glæsibrag.
Guðrún Katrín varð stór hluti forsetaembættisins við forsetaskiptin - hún hafði lykilstöðu og var ekki bara settleg eiginkona forseta, hún var ólík fyrri forsetafrúm þjóðarinnar. Hennar naut þó ekki lengi við. Hún greindist með hvítblæði rúmi ári eftir kjör Ólafs Ragnars og eftir erfiða meðferð við meininu virtist henni hafa tekist að yfirstíga veikindin. Bakslagið kom í júní 1998. Hún greindist aftur og hélt til Seattle þar sem hinsta vonin var til staðar á krabbameinsstofnun. Allt kom fyrir ekki. Guðrún Katrín lést í október 1998. Hún var íslensku þjóðinni harmdauði.
Þjóðarsorg var í landinu þessa októberdaga er komið var með líkkistu hennar heim í haustkaldri snjókomu og hún var kvödd. Andlát hennar var gríðarlegt áfall fyrir forsetann og hann gekk þá í gegnum sína erfiðustu daga á embættisferlinum. Það verður fróðlegt að lesa umfjöllun um þessa dimmu daga er forsetinn kvaddi eiginkonu sína í kastljósi fjölmiðlanna. En hann fann hamingjuna að nýju hjá Dorrit Moussaieff nokkru eftir lát Guðrúnar Katrínar og þau giftust við rólega athöfn að Bessastöðum á sextugsafmæli forsetans.
Pólitísk átök hafa orðið á forsetaferli Ólafs Ragnars. Allir muna eftir örlagadeginum mikla 2. júní 2004 þegar að hann synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar og beitti málskotsréttinum margfræga, 26. grein stjórnarskrár, í beinni sjónvarpsútsendingu á dramatískum blaðamannafundi á Bessastöðum. Hinn dauði bókstafur laganna, eins og Ólafur Ragnar kallaði hann árið 1977, lifnaði við í örlagaríkri ákvörðun hans. Áralöng átök Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars urðu umfjöllunarefni í fréttatímum og fræg gjá myndaðist milli aðila.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur vissulega frá mörgu að segja. Árin ellefu á Bessastöðum hafa verið örlagaríkur tími á ævi hans og verið eftirminnilegur tími, einkum pólitískt, í sögu landsins. Eflaust mun frásögn af þeim verða áhugaverð í bókaskrifum. En bókin kemur á þeim tímapunkti að þriðja kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímssonar rennur brátt sitt skeið. Ákvörðun um framhaldið er handan við hornið.
Er bókin uppgjör við litríkan forsetaferil að leiðarlokum eða er hún hinn dramatíski upphafspunktur þess að Ólafur Ragnar Grímsson feti í fótspor Ásgeirs Ásgeirssonar og Vigdísar Finnbogadóttur; horfi til fjórða kjörtímabilsins. Þegar að stórt er spurt verður víst æði oft fátt um svör. Það eru þó örlagaríkir tímar framundan fyrir húsbóndann á Bessastöðum hvort sem verður ofan á að lokum.