Vandræðalegt mál fyrir Jónínu Bjartmarz

Jónína Bjartmarz Ég verð að viðurkenna að ég varð alveg gapandi hissa í kvöld þegar að ég heyrði fréttir af tengslum Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, og suður-amerískrar konu sem veittur var íslenskur ríkisborgararéttur þrátt fyrir að hún hefði aðeins dvalið á landinu í 15 mánuði á dvalarleyfi námsmanna.

Fram kom í umfjöllun Ríkissjónvarpsins og Kastljóss í kvöld að aðstæður konunnar hefðu verið allt aðrar en þeirra sem fengu íslenskt ríkisfang á sama tíma. Það er alveg ljóst að þetta er mjög vandræðalegt mál fyrir Jónínu, það lítur ekki vel út að mínu mati.

Viðkomandi kona mun vera með lögheimili á heimili Jónínu og vera unnusta sonar hennar. Þetta er mál sem er ekki gott að mínu mati. Tengsl ráðherrans við svona viðkvæmt mál vekur ansi margar spurningar. Það verður að fá svör við þeim með almennilegum hætti tel ég.

mbl.is Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Páll hjá Landsvirkjun í aðeins eitt ár?

Páll Magnússon Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, er orðinn stjórnarformaður Landsvirkjunar. Fái Framsóknarflokkurinn skellinn mikla eftir 16 daga sem kannanir hafa sýnt lengi og hann missi völdin verður strax farið að spyrja sig að því hver verði eftirmaður Páls í þessum mjúka stól valda og áhrifa. Þá kæmi til sögunnar nýr iðnaðarráðherra með aðrar áherslur og úr öðrum flokki og ráðherrar úr öðrum áttum. Sá ráðherra myndi líta í aðrar áttir eftir formanni hjá Landsvirkjun í aðdraganda nýs aðalfundar. Það blasir við öllum.

Ég skil ekki þessa fléttu hjá Framsókn. Hún lítur frekar undarlega út í sannleika sagt. Hverju mun Páll áorka hjá Landsvirkjun færi það svo að hann yrði bara í ár í þessum stól? Hvernig verður jafnvel fyrir hann að vinna með ráðherra úr öðrum flokki, enda engin trygging fyrir því að Framsókn verði áfram í ríkisstjórn. Þetta er flétta sem kemur óvænt. Ég taldi að Jóhannes Geir yrði áfram þetta eina ár og svo myndi nýr ráðherra með sterkt umboð eftir kosningar taka af skarið.

En þetta er mjög athyglisvert allt saman. Það verður athyglisvert að sjá hvað verður um Pál, hvort hann verði bara í ár í þessum stól. En, Páll er greinilega mikils metinn hjá formanni Framsóknarflokksins og gamla Halldórsarminum. Þessi flétta þarf varla að koma að óvörum þrátt fyrir allt sé litið í innsta kjarna Framsóknar. En eftir stendur hinsvegar spurningin; verður Páll hjá Landsvirkjun í aðeins eitt ár? Svar fæst von bráðar svosem.

mbl.is Páll Magnússon stjórnarformaður Landsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhannes Geir settur af - átök innan Framsóknar?

Jóhannes Geir Sigurgeirsson Jóhannes Geir Sigurgeirsson, fyrrum alþingismaður Framsóknarflokksins, verður settur af sem stjórnarformaður Landsvirkjunar á aðalfundi í dag. Tíðindin af því að forysta Framsóknarflokksins hefði ákveðið að slá hann af vöktu mikla athygli í gærkvöldi. Sögusagnir ganga nú um átök innan flokksins, einkum milli ráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi, vegna málsins. Það vekur óneitanlega ýmsar spurningar að skipt sé um formann 16 dögum fyrir alþingiskosningar.

Mun Jóhannes Geir hafa lýst yfir vilja sínum til að sitja eitt ár enn, en hann hefur verið stjórnarformaður í tíu ár. Mun Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hafa viljað skipta um og velur til verksins Pál Magnússon, bæjarritara í Kópavogi og aðstoðarmann Valgerðar Sverrisdóttur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu 1999-2006. Páll er eins og flestir vita bróðir Árna Magnússonar, fyrrum félagsmálaráðherra, sem eitt sinn var talinn krónprins Framsóknarflokksins rétt eins og Finnur Ingólfsson, sem fyrst skipaði reyndar Jóhannes Geir til formennsku hjá Landsvirkjun.

Umfjöllun Moggans í morgun vekur athygli. Þar er vísað til þess að Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, sem hefur ekki verið þekkt fyrir kærleika í garð Páls Magnússonar sé ekki ánægð með upphefð hans með þessum hætti. Hún reynir að eyða þessu tali með skammarhjali í garð Moggans á vef sínum í morgun. Ekki eru það sannfærandi orð satt best að segja er hugsað er til valdaátakanna innan Framsóknarflokksins þar sem litlir kærleikar voru með Páli og Siv.

En Jóhannes Geir er greinilega hættur að skipta máli í augum forystu Framsóknarflokksins. Það að hann sé settur af með valdi af forystu flokksins sem hann var þingmaður fyrir um skeið og hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir um árabil vekur talsverða athygli. Það er merkilegt að sjá svona atburðarás svo skömmu fyrir kosningar.

VG í sókn - pólitískt áfall þriggja flokksformanna

Könnun í Reykjavík suður Ný skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Reykjavík suður var birt í kvöld, 17 dögum fyrir þingkosningar, á kjördæmafundi Stöðvar 2 í Orkuveituhúsinu. Þar er VG í mikilli sókn og meira en tvöfaldar það. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin tapa nokkru fylgi - Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur flokka í kjördæminu. Framsóknarflokkurinn nær enn ekki manni í kjördæminu en Frjálslyndir standa nærri kjörfylginu. Nýju framboðin ná ekki flugi.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með fjögur kjördæmakjörin þingsæti og Samfylkingin mælist með þrjú - halda sínum mönnum. VG bætir við sig kjördæmakjörnum manni. Frjálslyndi flokkurinn er með nær jafnmikið fylgi og Framsóknarflokkurinn sem missir kjördæmakjörinn mann. Skv. því eru inni; Geir H. Haarde, Björn Bjarnason, Illugi Gunnarsson og Ásta Möller (Sjálfstæðisflokki), Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir (Samfylkingu), Kolbrún Halldórsdóttir og Álfheiður Ingadóttir (VG). Mikil óvissa er yfir því hvaða flokkar hljóta jöfnunarsætin.

Sjálfstæðisflokkurinn: 32,6% (38,3%)
Samfylkingin 26,6% (33,3%)
VG: 23,2% (9,3%)
Framsóknarflokkurinn: 6,7% (11,3%)
Frjálslyndi flokkurinn: 6,2% (6,6%)
Íslandshreyfingin: 4,2%
Baráttusamtökin 0%

Stöð 2 var með góða umfjöllun á stöðu mála í þættinum í kvöld, sem ég gat ekki horft á í kvöld og var að enda við að sjá nú eftir miðnættið vegna anna. Þar voru góðar umræður og í raun var merkilegast að sjá hversu mjög VG er að bæta við sig og hve mikið fall Sjálfstæðisflokksins er í kjördæmi formanns flokksins, sem er ekki beint í samræmi við kannanir Gallups og er satt best að segja grafalvarleg tíðindi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að mínu mati 17 dögum fyrir þingkosningar. Framsókn er ekki enn að mælast með Jónínu inni en hafa þó bætt sig miðað við Gallup-könnunina sem birtist um síðustu helgi.

Samfylkingin er enn nokkuð undir kjörfylginu sem hljóta að teljast mikil tíðindi fyrir flokk sem hefur verið í stjórnarandstöðu árum saman og með fyrrum borgarstjóra í Reykjavík í fararbroddi lista. Þetta er þó fyrsta könnunin um nokkuð skeið sem sýnir Ástu Ragnheiði kjördæmakjörna. Jón Magnússon stendur nærri þingsæti í þessari mælingu og gæti komist inn sem jöfnunarmaður fengju frjálslyndir yfir 5% landsfylgi. Íslandshreyfingin mælist lítil í kjördæmi formannsins, Ómars Ragnarssonar, sem mælist ekki inni. Það hlýtur að vera áfall fyrir þau, enda ekki beint sem að var stefnt við stofnun flokksins.

Þessi könnun er án nokkurs vafa mikið pólitískt áfall þriggja flokksformanna; Geirs, Ingibjargar Sólrúnar og Ómars. Færu kosningar með þessum hætti væri það mjög dapurlegt gengi þeirra og VG yrði í raun sigurvegarinn í kjördæminu - eini flokkurinn sem bætti einhverju að ráði við sig. Þessi könnun sýnir fylgistap fyrir Sjálfstæðisflokkinn á viðkvæmu svæði og það yrði ekki gott fyrir formann flokksins að fá svona vonda mælingu í kosningum. Ingibjörg Sólrún virðist eiga í mikilli varnarbaráttu í þessum kosningum, enda fór hún fram til formennsku flokksins til að efla hann. Ómar fær skell í svona mælingu, enda mikið lagt undir.

Áhugavert var að fylgjast með umræðunum. Heilt yfir voru þær áhugaverðar en ekki mikil tíðindi. Rætt var um flugvöllinn í Vatnsmýrinni en birt var könnun þarna þar sem fram kom að fleiri í kjördæminu vilji hann á sama stað en færa hann. Þetta er mjög sérstakt kjördæmi, það er helmingur eins sveitarfélags. Það kom til sögunnar til að trygga jafnari vægi atkvæða í borginni og er því auðvitað bara strik á blaði. Þetta er í raun ein heild á bakvið þessi tvö borgarkjördæmi og því ekki beint hægt að tala um staðtengda pólitík í öðru kjördæminu frekar en hinu. Hagsmunir þeirra fara svo sannarlega saman.

Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Reykjavík suður að því er virðist. Miklar sveiflur eru milli kannana og erfitt að trúa hvað er rétt og hvað er vafamál. Enda eru kannanir aðeins vísbendingar á langri og tvísýnni leið. Þessi könnun sýnir vel bylgju til VG og vonda stöðu Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks. Þarna eru þrír formenn í nokkrum vanda ef þessar tölur endurspegla þ.e.a.s. veruleikann.

Rúmur hálfur mánuður er til kosninga. Það stefnir í öfluga og beitta baráttu þar sem allt verður lagt í sölurnar. Held að þetta verði með beittustu kosningabaráttum til þessa og eflaust verða þessar tvær vikur mjög massífar, sérstaklega einmitt í Reykjavík, þar sem formennirnir þrír leggja mikið undir og mega ekki við miklum skakkaföllum er úrslitin verða greind.

Vond könnun fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Geir H. Haarde Ég dreg enga dul á það að könnun Félagsvísindastofnunar í Reykjavík suður og birt var í kvöld er ekki góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kjördæmi formanns flokksins. Mæling af þessu tagi mun ekki verða viðunandi útkoma. Reyndar er þetta mikið frávik frá t.d. könnunum Gallups í þessu kjördæmi.

Aðeins eru nokkrir dagar síðan að birtist könnun sem sýndi Sjálfstæðisflokkinn með yfir 40% fylgi þar og ekki langt frá kjördæmadegi Rásar 2 þar sem sama staða birtist með áberandi hætti. En það ber að sjálfsögðu að taka þessa könnun alvarlega. Þetta er mjög vond mæling og afgerandi merki þess að það er ekkert gefið fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessum kosningum.

Það verður að berjast fyrir hverju einasta atkvæði og vinna vel til að landa sigri aðfararnótt 13. maí. Það segir þessi könnun okkur sjálfstæðismönnum. Það verður að horfast í augu við vondar mælingar og það geri ég hiklaust. Þetta er umhugsunarverð mæling, en ég hef fulla trú á að félagar mínir í Reykjavík undir forystu forsætisráðherrans fari mun hærra en þetta.

Ég hef haft lítinn tíma til að skrifa í kvöld. Ég mun skrifa nánar um þessa könnun með sama hætti og aðrar kjördæmakannanir Félagsvísindastofnunar fyrir Stöð 2 fljótlega.

mbl.is VG bætir við sig í Reykjavík suður samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband