VG í sókn - pólitískt áfall þriggja flokksformanna

Könnun í Reykjavík suður Ný skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Reykjavík suður var birt í kvöld, 17 dögum fyrir þingkosningar, á kjördæmafundi Stöðvar 2 í Orkuveituhúsinu. Þar er VG í mikilli sókn og meira en tvöfaldar það. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin tapa nokkru fylgi - Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur flokka í kjördæminu. Framsóknarflokkurinn nær enn ekki manni í kjördæminu en Frjálslyndir standa nærri kjörfylginu. Nýju framboðin ná ekki flugi.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með fjögur kjördæmakjörin þingsæti og Samfylkingin mælist með þrjú - halda sínum mönnum. VG bætir við sig kjördæmakjörnum manni. Frjálslyndi flokkurinn er með nær jafnmikið fylgi og Framsóknarflokkurinn sem missir kjördæmakjörinn mann. Skv. því eru inni; Geir H. Haarde, Björn Bjarnason, Illugi Gunnarsson og Ásta Möller (Sjálfstæðisflokki), Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir (Samfylkingu), Kolbrún Halldórsdóttir og Álfheiður Ingadóttir (VG). Mikil óvissa er yfir því hvaða flokkar hljóta jöfnunarsætin.

Sjálfstæðisflokkurinn: 32,6% (38,3%)
Samfylkingin 26,6% (33,3%)
VG: 23,2% (9,3%)
Framsóknarflokkurinn: 6,7% (11,3%)
Frjálslyndi flokkurinn: 6,2% (6,6%)
Íslandshreyfingin: 4,2%
Baráttusamtökin 0%

Stöð 2 var með góða umfjöllun á stöðu mála í þættinum í kvöld, sem ég gat ekki horft á í kvöld og var að enda við að sjá nú eftir miðnættið vegna anna. Þar voru góðar umræður og í raun var merkilegast að sjá hversu mjög VG er að bæta við sig og hve mikið fall Sjálfstæðisflokksins er í kjördæmi formanns flokksins, sem er ekki beint í samræmi við kannanir Gallups og er satt best að segja grafalvarleg tíðindi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að mínu mati 17 dögum fyrir þingkosningar. Framsókn er ekki enn að mælast með Jónínu inni en hafa þó bætt sig miðað við Gallup-könnunina sem birtist um síðustu helgi.

Samfylkingin er enn nokkuð undir kjörfylginu sem hljóta að teljast mikil tíðindi fyrir flokk sem hefur verið í stjórnarandstöðu árum saman og með fyrrum borgarstjóra í Reykjavík í fararbroddi lista. Þetta er þó fyrsta könnunin um nokkuð skeið sem sýnir Ástu Ragnheiði kjördæmakjörna. Jón Magnússon stendur nærri þingsæti í þessari mælingu og gæti komist inn sem jöfnunarmaður fengju frjálslyndir yfir 5% landsfylgi. Íslandshreyfingin mælist lítil í kjördæmi formannsins, Ómars Ragnarssonar, sem mælist ekki inni. Það hlýtur að vera áfall fyrir þau, enda ekki beint sem að var stefnt við stofnun flokksins.

Þessi könnun er án nokkurs vafa mikið pólitískt áfall þriggja flokksformanna; Geirs, Ingibjargar Sólrúnar og Ómars. Færu kosningar með þessum hætti væri það mjög dapurlegt gengi þeirra og VG yrði í raun sigurvegarinn í kjördæminu - eini flokkurinn sem bætti einhverju að ráði við sig. Þessi könnun sýnir fylgistap fyrir Sjálfstæðisflokkinn á viðkvæmu svæði og það yrði ekki gott fyrir formann flokksins að fá svona vonda mælingu í kosningum. Ingibjörg Sólrún virðist eiga í mikilli varnarbaráttu í þessum kosningum, enda fór hún fram til formennsku flokksins til að efla hann. Ómar fær skell í svona mælingu, enda mikið lagt undir.

Áhugavert var að fylgjast með umræðunum. Heilt yfir voru þær áhugaverðar en ekki mikil tíðindi. Rætt var um flugvöllinn í Vatnsmýrinni en birt var könnun þarna þar sem fram kom að fleiri í kjördæminu vilji hann á sama stað en færa hann. Þetta er mjög sérstakt kjördæmi, það er helmingur eins sveitarfélags. Það kom til sögunnar til að trygga jafnari vægi atkvæða í borginni og er því auðvitað bara strik á blaði. Þetta er í raun ein heild á bakvið þessi tvö borgarkjördæmi og því ekki beint hægt að tala um staðtengda pólitík í öðru kjördæminu frekar en hinu. Hagsmunir þeirra fara svo sannarlega saman.

Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Reykjavík suður að því er virðist. Miklar sveiflur eru milli kannana og erfitt að trúa hvað er rétt og hvað er vafamál. Enda eru kannanir aðeins vísbendingar á langri og tvísýnni leið. Þessi könnun sýnir vel bylgju til VG og vonda stöðu Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks. Þarna eru þrír formenn í nokkrum vanda ef þessar tölur endurspegla þ.e.a.s. veruleikann.

Rúmur hálfur mánuður er til kosninga. Það stefnir í öfluga og beitta baráttu þar sem allt verður lagt í sölurnar. Held að þetta verði með beittustu kosningabaráttum til þessa og eflaust verða þessar tvær vikur mjög massífar, sérstaklega einmitt í Reykjavík, þar sem formennirnir þrír leggja mikið undir og mega ekki við miklum skakkaföllum er úrslitin verða greind.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Það er of mikill munur á skoðanakönnunum hérna í Rvík að ég geti alveg tekið mark á þeim um hlutfallslegan styrk flokkana.

Tel líklegra, að styrkurinn sé einhversstaðar á milli Mogga/RUV og Stöð Tvö niðurstaðna.

 Marka þetta á þeirri svona tilfinningu, sem er á kosningaskrifstofunum.  ÞAr er mjög oft grynnra á hinn pólitíska púls en menn almennt vilja viðurkenna.

Þann són hef ég tamið mér að hlusta grannt eftir og hef ekki ómerkari menn fyrir mér í því en Eykon og ,,Móa" (Magnús Óskarson) heitna og varla hafa verið nákvæmari kosningasmalar til á landi hér.

 Einnig sagði hann Baddi Jún heitinn, heiðursmaður  á Akureyri, að kvakið í kjósendum, heyrðist hvað best þar og svo öldurhúsunum (í tilfelli Badda KEA barinn) 

hitt er ég hræddur við, að Samfylkingin noti starfsmenn í heilbrigðisstéttunum til að fara með áróður, líkt og stjórnandi fólk á geðheilbrigðissviði á Landsanum.  Það er að vísu ekkert nýtt hjá þeim og hefði auðvitað átt að taka hraustar á þessu liði.

Mín óskastjórn er eins og margur veit  D  + VG   Þjóðholl og verkadrjúg stjón, að ég held

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 26.4.2007 kl. 09:49

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góðar hugleiðingar Bjarni. Gaman að lesa þessi skrif, ég er sammála þeim að mestu leyti.

mbk frá Ak

Stefán Friðrik Stefánsson, 28.4.2007 kl. 12:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband