Jóhannes Geir settur af - átök innan Framsóknar?

Jóhannes Geir Sigurgeirsson Jóhannes Geir Sigurgeirsson, fyrrum alþingismaður Framsóknarflokksins, verður settur af sem stjórnarformaður Landsvirkjunar á aðalfundi í dag. Tíðindin af því að forysta Framsóknarflokksins hefði ákveðið að slá hann af vöktu mikla athygli í gærkvöldi. Sögusagnir ganga nú um átök innan flokksins, einkum milli ráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi, vegna málsins. Það vekur óneitanlega ýmsar spurningar að skipt sé um formann 16 dögum fyrir alþingiskosningar.

Mun Jóhannes Geir hafa lýst yfir vilja sínum til að sitja eitt ár enn, en hann hefur verið stjórnarformaður í tíu ár. Mun Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hafa viljað skipta um og velur til verksins Pál Magnússon, bæjarritara í Kópavogi og aðstoðarmann Valgerðar Sverrisdóttur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu 1999-2006. Páll er eins og flestir vita bróðir Árna Magnússonar, fyrrum félagsmálaráðherra, sem eitt sinn var talinn krónprins Framsóknarflokksins rétt eins og Finnur Ingólfsson, sem fyrst skipaði reyndar Jóhannes Geir til formennsku hjá Landsvirkjun.

Umfjöllun Moggans í morgun vekur athygli. Þar er vísað til þess að Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, sem hefur ekki verið þekkt fyrir kærleika í garð Páls Magnússonar sé ekki ánægð með upphefð hans með þessum hætti. Hún reynir að eyða þessu tali með skammarhjali í garð Moggans á vef sínum í morgun. Ekki eru það sannfærandi orð satt best að segja er hugsað er til valdaátakanna innan Framsóknarflokksins þar sem litlir kærleikar voru með Páli og Siv.

En Jóhannes Geir er greinilega hættur að skipta máli í augum forystu Framsóknarflokksins. Það að hann sé settur af með valdi af forystu flokksins sem hann var þingmaður fyrir um skeið og hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir um árabil vekur talsverða athygli. Það er merkilegt að sjá svona atburðarás svo skömmu fyrir kosningar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Á heimasíðu Sivjar www.siv.is eru þessar samsæriskenningar slegnar af í eitt skipti fyrir öll. Bloggaði um þetta hjá mér...

Gestur Guðjónsson, 26.4.2007 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband