Geir og Ingibjörg Sólrún hefja viðræður á morgun

Ingibjörg Sólrún og Geir Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, tilkynntu á blaðamannafundi í Alþingishúsinu laust eftir kl. 17:00 að þau hefðu náð samkomulagi um að hefja stjórnarmyndunarviðræður á morgun. Þær hefjast formlega eftir að Geir hefur beðist lausnar fyrir fráfarandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á fundi hjá forseta á Bessastöðum í fyrramálið.

Það verður fróðlegt að fylgjast með stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þar verður farið yfir öll helstu mál og kannað hversu vel flokkarnir nái saman. Eflaust munu forystumenn flokkanna helst vilja að þetta gangi frekar hratt fyrir sig svo að ný og öflug ríkisstjórn geti sem fyrst tekið við völdum af fráfarandi starfsstjórn. Þau mál sem helst verða í deiglunni verða utanríkismál, sérstaklega Evrópumál, stóriðjumálin, skattamál og velferðarmálin. Þetta verður allt í kastljósi umræðunnar næstu dagana þegar að Geir og Ingibjörg Sólrún setjast yfir málefnin.

Það er greinilegt að grunnur hefur verið lagður um nokkra stund að þessum stjórnarmyndunarviðræðum áður en Geir H. Haarde og Jón Sigurðsson tilkynntu síðdegis um endalok stjórnarsamstarfsins. Það var vel ljóst fyrir hádegið hvert stefndi og tíðindin um að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ætluðu að láta reyna á samstarf kemur engum stjórnmálaáhugamanni að óvörum, ætti altént ekki að gera það. En nú reynir á þennan stærsta stjórnarkost. Það hefur lengi verið talað um þetta samstarf víða í hyllingum og talað um hann með rómanseruðum brag í takt við gömlu viðreisn eða Viðeyjarstjórnina 1991-1995, sem mörgum var eftirsjá að.

Fyrst og fremst reynir á hvernig þau passi saman sem forystuteymi á næstu fjórum árum; þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þau brostu fallega til hvors annars og fjölmiðlanna fyrir stundu og halda glöð til viðræðnanna eftir að Geir hefur fengið formlegt umboð til stjórnarmyndunar úr hendi forsetans á morgun. Það eru spennandi tímar framundan í íslenskum stjórnmálum, á því leikur giska lítill vafi.

mbl.is Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjast væntanlega á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt ákvörðun - Geir og Ingibjörg Sólrún funda í dag

Geir og Ingibjörg Sólrún Það leikur enginn vafi á því í huga mér að það var rétt ákvörðun að binda enda á stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Grunnur samstarfsins var brostinn, þetta hafði sést mjög vel síðustu dagana og engin önnur ákvörðun í stöðunni nema að stokka spilin upp og líta í aðrar áttir. Það var auðvitað rétt upphafsskref í viðræðum eftir kosningarnar á laugardag að ræða við Framsóknarflokkinn og kanna hver grunnur mála væri. Það hefur verið ljóst síðustu daga að mikið hefur vantað á.

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir munu hefja stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar strax í dag og mun fyrsti fundur þeirra verða nú á fimmta tímanum. Eins og fyrr segir mun Geir H. Haarde biðjast lausnar á Bessastöðum í fyrramálið og helgin fer í að mynda nýja ríkisstjórn. Það er ekki mikill vafi í huga mér yfir því að þessir flokkar muni mynda stjórn og verður fróðlegt að sjá hversu hratt þessum flokkum gangi að ná saman.

Það mun eflaust taka samt sem áður einhvern tíma að mynda grunn undir nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það þarf að byggja upp nýjan stjórnarsáttmála og byggja undirstöður nýs samstarfs. Það er auðvitað mjög gagnlegt hversu stórir þingflokkar tilheyra Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Ekki verður deilt um styrkleika aflanna, en það verða eflaust einhver málefni sem þarf að útkljá vel til að byrja með. En heilt yfir sjást fáir farartálmar á leiðinni. Ég tel að báðum flokkum sé það mjög í mun að tryggja að þeir nái saman.

Það er gömul þjóðsaga að okkur sjálfstæðismönnum sé illa við Ingibjörg Sólrúnu Gísladóttur. Hún hefur aldrei unnið með Sjálfstæðisflokknum og verið andstæðingur okkar. Sú tíð virðist á enda runnin. Ég held að heilt yfir geti Geir og Ingibjörg Sólrún unnið vel saman og tryggt traustan grunn undir málin sem framundan eru. En á það verður að reyna og eðlilegast að þessi valkostur sé fyrstur á borðið nú við lok stjórnarsamstarfsins.

Sögulegu samstarfi lokið - rætt við Samfylkinguna

Jón Sigurðsson og Geir H. Haarde Það eru vissulega mikil tíðindi að stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sé lokið og það var vissulega merkileg stund áðan að hlusta á blaðamannafund Geirs H. Haarde og Jóns Sigurðssonar í Stjórnarráðinu þar sem endalok samstarfsins voru kynnt formlega. Flokkarnir hafa unnið saman frá vorinu 1995 og eiga að baki tólf ára farsælt samstarf og hafa unnið saman heilsteypt og gott verk.

Geir H. Haarde mun segja af sér fyrir hönd fráfarandi ríkisstjórnar í fyrramálið á fundi með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að Bessastöðum og væntanlega munu Geir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, nota helgina til að leggja grunn að nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Þetta ætti að vera mjög farsæll stjórnarkostur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þetta yrði mjög voldug ríkisstjórn, sem hefði 43 þingsæti á Alþingi, og hefði sterkt umboð til uppstokkunar á mörgum sviðum.

Það voru mjög merkilegir tímar vorið 1995 þegar að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur bundust saman um að mynda ríkisstjórn. Það er merkileg saga að baki og það væri þarfaverk fyrir einhvern sérfræðinginn að setjast niður og fara yfir þessi tólf ár, sem hafa verið merkilegur og heilsteyptur tími fyrir íslenska þjóð. En það kemur ævinlega að leiðarlokum og svo er nú um þetta farsæla samstarf. Það hefur blasað við stóran hluta vikunnar að eitthvað væri ekki eins og það ætti að sér að vera og grunnur samstarfsins væri orðinn mjög veikburða. Það var erfitt að halda til verkanna á akrinum með svo veikan grunn.

Það eru spennandi tímar framundan. Ég lít svo á að þessir tveir flokkar sem nú taka upp viðræður um myndun stjórnar geti náð góðum grunni. Það er mjög góður mannskapur á bakvið slíkt samstarf og ég held að það gæti orðið farsælt. Það hefur blasað við eins og ég hef sagt hér að byrjað hefur verið að mynda grunninn undir viðræður. Það er mikilvægt. Ég tel að það muni ganga vel og hratt saman með þessum flokkum og þeir ættu að hafa sterkt umboð til verka. Það verður ekki efast um sterka stöðu flokkanna, enda fara þarna tveir stærstu flokkar landsins.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessum formlegu stjórnarmyndarviðræðum. Viðræðurnar fram til þessa hafa auðvitað ekki verið formlegar stjórnarmyndunarviðræður, enda héldu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur þingmeirihluta sínum. En nú er þessu tólf ára skeiði lokið og nýtt tekur við. Ég ætla að vona að það verði ekki síður farsælt fyrir íslensku þjóðina.

mbl.is Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar lokið

JSGHH Stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem staðið hefur í tólf ár, er lokið. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, eru að ræða þau mál á blaðamannafundi á þessari stundu. Sjálfstæðisflokkurinn mun ræða fyrst samstarf við Samfylkinguna, eins og ég greindi frá hér fyrir stundu.

Það kemur ekki að óvörum að svona hafi farið. Það hefur blasað við í dag að þessu samstarfi væri í raun lokið. Ég skrifaði hér nokkuð ítarlega færslu um málið eftir fréttaskrif Morgunblaðsins og skrifaði áðan færslu um væntanlegar viðræður við Samfylkinguna.

Nú tekur við að mynda nýja ríkisstjórn í landinu. Nú mun Geir H. Haarde, forsætisráðherra, ganga á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og segja af sér formlega. Viðræður við Samfylkinguna eru þegar hafnar og halda nú áfram.

Viðræður Sjálfstæðisflokks við Samfylkingu hafnar?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Þær kjaftasögur ganga fjöllunum hærra að óformlegar viðræður séu hafnar milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Eftir því sem sagan segir eigi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, að vera í forsvari óformlegra viðræðna við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar. Ljóst er að hópur þingmanna vilji láta reyna á viðræður við Samfylkinguna og talað sé mjög áberandi saman.

Enn hefur ekkert verið ákveðið sem túlkast gæti sem endapunktur stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er þó ljóst að óvissa er yfir stöðunni, enn meiri en áður hefur talist. Ljóst er af fundi þingflokks Framsóknarflokksins að þar er andi óvissu yfir hópnum og erfitt að lesa í stöðuna. Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði fyrir þann fund að loft væri lævi blandið en hefur ekki viljað útskýra það neitt frekar.

Það er ljóst að mjög líður að örlagastund í ákvarðanatöku um það hvort meiri alvara komist á viðræður stjórnarflokkanna um áframhaldandi samstarf eða hvort haldið verði í aðrar áttir umræðna um stjórnarmyndun. Það hefur ekki farið framhjá neinum kjaftasögur um að þreifingar séu uppi um myndun stjórnar og greinilegt að allir angar eru úti sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins þar sem menn kanna hug manna og ræða saman, svo sem eðlilegt hlýtur að teljast.

Greinilegar efasemdir hafa komið fram innan Sjálfstæðisflokksins og koma vel fram í fréttaskrifum í dag. Það má ljóst vera að brátt verður staða mála vissari og meira hægt að fullyrða í þessum efnum. Það er ljóst að spenna er í lofti og flestum stjórnmálaáhugamönnum langar til að vita meira en hálfkveðnar vísur. Eflaust er stutt í að staða mála skýrist meira en það sem kjaftasögur mögulega segja.

mbl.is Framsóknarmenn vilja ekki ræða um fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er stjórnarsamstarfið að líða undir lok?

Jón Sigurðsson og Geir H. HaardeÞað er mjög greinilegt að efasemdir hafa aukist verulega innan Sjálfstæðisflokksins síðustu daga um það hvort að halda eigi áfram stjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn. Frétt Morgunblaðsins í dag um þessar efasemdir koma mér ekki að óvörum. Ég persónulega er að komast á þá skoðun að samstarfinu sé lokið vegna óvissunnar innan Framsóknarflokksins og ég tel það eiginlega einsýnt að Framsókn verði að byggja sig upp utan ríkisstjórnar.

Það er ljóst að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er eins tæpur og hann getur orðið. Það er ekki beinlínis hægt að gera nein kraftaverk í stjórnarsamstarfi með 32 þingmenn, í samstarfi þar sem engin umdeild kraftmikil mál geta í raun komið til sögunnar og þar sem stóla verður á það að hver einn og einasti þingmaður megi ekki bregða sér af bæ nema að til staðar sé varamaður við minnstu breytingar. Það er ljóst að þetta er tæpt. Það hafa margir sjálfstæðismenn talað fyrir því að reyna þann valkost þrátt fyrir það. En ef svo á að vera þarf allt að vera í lagi.

Eins og fram kom hjá mér hér í morgun er athyglisvert að sjá forna höfðingja innan Framsóknarflokks skrifa í blöðin með þann áberandi boðskap sinn að flokkurinn sé umboðslaus og eigi að sleikja sárin í stjórnarandstöðu á næstu misserum. Mér fannst grein Ingvars Gíslasonar, fyrrum menntamálaráðherra, mjög hnitmiðuð og afgerandi í senn. Þar er ekki töluð nein tæpitunga. Það virðist ekki vera neinn einhugur innan Framsóknarflokksins með framhald mála. Ef að staða mála á þeim bænum er orðin svo tæp að kanna verður hvern einasta miðstjórnarmann til að athuga hvort að stjórnarsamstarfið verði mögulega samþykkt á slíkum fundi þar er öllum ljóst að tæpt stendur.

Mér finnst þessi ríkisstjórn hafa gert marga góða hluti og samstarf flokkanna sem hana mynda hefur verið mjög heilsteypt og vandað í þau tólf ár sem hún hefur starfað. Staða mála nú er með þeim hætti að velta verður fyrir sér framhaldinu. Þetta stendur mjög tæpt og það er ljóst að stjórn verður ekki mynduð með neinni alvöru ef ekki helst heilsteypt samvinna um að halda áfram af krafti. Mér finnst þessar viðræður sem staðið hafa síðustu daga verið óvenju litlausar og hægar. Það virðist lítið sem ekkert hafa gerst. Tvísýnan innan Framsóknarflokksins er orðin æpandi áberandi og ekki minnkar óvissan á þeim bænum.

Það er ljóst að gangi þetta ekki verður að horfa í aðrar áttir. Þar er ekkert annað sem kemur til greina nema tveggja flokka stjórn með annað hvort Samfylkingunni eða VG. Það er ljóst skv. skoðanakönnunum að landsmenn vilja frekar samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Mér finnst það nú líklegra að sá kostur verði kannaður á undan VG. Það árar með þeim hætti finnst mér að menn vilji frekar viðreisn falli stjórnin uppfyrir, eins og við segjum. Það fer ekki á milli mála að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, virðist tala fyrir þeim kosti en hann gæti orðið umdeildur innan Sjálfstæðisflokksins.

Mér finnst komið að örlagastund í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þar verða viðræður að fara að komast á meiri spöl en þann sem við blasir. Að mínu mati finnst mér líkur á þessu samstarfi minnka og mér persónulega er farið að finnast minna til um þann kost koma en jafnan áður. Það valda margir hlutir, sérstaklega þeir sem fyrr eru nefndir. Það er þó ljóst að þetta veltur fyrst og fremst á afstöðu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. Ég treysti dómgreind hans í þessu máli, að velja rétt með heill og hag Sjálfstæðisflokksins í ljósi.

En það er ljóst að það verða pólitísk þáttaskil ljúki samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks nú á næstu dögum. En það verður að segjast alveg eins og er að líkur á að haldið verði áfram eru að minnka stórlega. Það er þó löngu sannreynt að það opnast alltaf ný og spennandi tækifæri við þáttaskil.


mbl.is Vaxandi vantrú á framhald stjórnarsamstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vita hvorki hvaðan er komið né hvert skal halda

Jón Sigurðsson Ég verð að viðurkenna að Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, virkaði á mig í kvöldfréttum í gærkvöldi eins og maður sem vissi hvorki hvaðan hann væri að koma né hvert hann vildi eiginlega halda. Það voru mjög undarleg svör óvissunnar sem komu frá honum og greinilegt að mun meiri óvissa er innan Framsóknarflokksins með stöðu mála en mér hafði eiginlega órað fyrir.

Jón er vissulega í mjög erfiðri pólitískri stöðu, sem hlýtur að teljast um leið pínleg fyrir Framsóknarflokkinn. Það er mjög sárt fyrir flokksformann að ná ekki kjöri sem alþingismaður og eiga ekki heldur neina möguleika á aðkomu að þinginu sem varaþingmaður mögulega í öðru ljósi. Þegar að Geir Hallgrímsson féll af þingi vorið 1983 sem formaður Sjálfstæðisflokksins og Ólafur Ragnar Grímsson varð formaður Alþýðubandalagins utan þings árið 1987 áttu þeir möguleika á aðkomu að þinginu sem varaþingmenn. Báðir urðu ráðherrar eftir að hafa ekki náð á þing.

Það blasir við að eini möguleiki Jóns Sigurðssonar á að koma nærri þingstörfum næstu fjögur árin, eða allavega fram að næsta flokksþingi Framsóknarflokksins, er með því að vera áfram ráðherra í ríkisstjórn. Ella situr hann mæddur til hliðar með annan fulltrúa flokksins sem talsmann hans inni í þingsölum og í forystu þingstarfanna almennt. Sá aðili væri án nokkurs vafa Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sem Halldórsarmurinn gat ekki sætt sig við sem flokksformann eftir dramatíska afsögn Halldórs Ásgrímssonar á Þingvöllum fyrir tæpu ári og í öllum vandræðunum sem á eftir fylgdu og þar til að Jón Sigurðsson var sóttur til verka í Seðlabankann.

Það virðist blasa við að forysta Framsóknarflokksins vilji horfa til stjórnarsamstarfs áfram. Þar virðist fremst fara í flokki Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, en úr hennar kjördæmi koma þrír af sjö þingmönnum Framsóknarflokksins eftir þessar alþingiskosningar. Valgerði hugnast lítt að halda til vistar sem óbreyttur alþingismaður í stjórnarandstöðu hafandi náð varnarsigri í Norðausturkjördæmi við erfiðar aðstæður, tekist að slá niður Samfylkinguna og VG sem ógnuðu stöðu Framsóknarflokksins, og standa keik, og í raun vera með sterkustu stöðuna innan flokksins. Vandi málsins virðist vera ólga innan grasrótar flokksins með að sitja áfram í stjórn.

Það er auðvitað mikið veikleikamerki fyrir Jón Sigurðsson ef það þarf að double check-a hvern einn og einasta miðstjórnarmann í Framsóknarflokknum til að kanna hvort að stjórnarsamstarf njóti stuðnings. Alla jafna er þátttaka í ríkisstjórn undir valdi formanns flokksins og hann hefur traust og styrkleika til að vega og meta stöðu flokksins sem hann leiðir. Það virðist ekki vera raunin innan Framsóknarflokksins. Þar ræður óvissan ein og ólga virðist vera um kostina í stöðunni, hvort halda eigi áfram eður ei. Það virðist vera um framtíð flokksins að tefla að margra mati. Þetta er óvissa sem er mjög áberandi, einkum í augum trúnaðarmanna Sjálfstæðisflokksins.

Í dag ritar Ingvar Gíslason, fyrrum menntamálaráðherra og leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra hinu forna, athyglisverða og áberandi grein í Fréttablaðið. Þar tjáir hann andstöðu sína við áframhaldandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og gengur skrefinu lengra með því að tala hreint út um þá afstöðu að Framsóknarflokkurinn eigi að fara í stjórnarandstöðu og byggja sig upp - hann sé umboðslaus til áframhaldandi stjórnarsetu. Þessi skoðun Ingvars ómar áberandi tjáningu Steingríms Hermannssonar, fyrrum forsætisráðherra og flokksformanns.

Jón Sigurðsson stendur ekki vel á þessum örlagatímum á sínum stjórnmálaferli og fyrir flokkinn sem hann leiðir, sem varð fyrir sögulegu pólitísku áfalli um liðna helgi. Það er ekki óeðlilegt að hann sé hugsi yfir framtíðinni. Eftir því sem hikið verður þó meira og áberandi en það sem sást greinilega á tröppum Stjórnarráðsins í gær minnka líkurnar á stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það hefur verið örlagaríkt og tryggt miklar framfarir.

En kannski er nú komið að leiðarlokum. Sjáum við endalok þessa samstarfs í dag eða á morgun? Það verður svo sannarlega fróðlegt að sjá.

Bloggfærslur 17. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband