Geir og Ingibjörg Sólrún hefja viðræður á morgun

Ingibjörg Sólrún og Geir Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, tilkynntu á blaðamannafundi í Alþingishúsinu laust eftir kl. 17:00 að þau hefðu náð samkomulagi um að hefja stjórnarmyndunarviðræður á morgun. Þær hefjast formlega eftir að Geir hefur beðist lausnar fyrir fráfarandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á fundi hjá forseta á Bessastöðum í fyrramálið.

Það verður fróðlegt að fylgjast með stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þar verður farið yfir öll helstu mál og kannað hversu vel flokkarnir nái saman. Eflaust munu forystumenn flokkanna helst vilja að þetta gangi frekar hratt fyrir sig svo að ný og öflug ríkisstjórn geti sem fyrst tekið við völdum af fráfarandi starfsstjórn. Þau mál sem helst verða í deiglunni verða utanríkismál, sérstaklega Evrópumál, stóriðjumálin, skattamál og velferðarmálin. Þetta verður allt í kastljósi umræðunnar næstu dagana þegar að Geir og Ingibjörg Sólrún setjast yfir málefnin.

Það er greinilegt að grunnur hefur verið lagður um nokkra stund að þessum stjórnarmyndunarviðræðum áður en Geir H. Haarde og Jón Sigurðsson tilkynntu síðdegis um endalok stjórnarsamstarfsins. Það var vel ljóst fyrir hádegið hvert stefndi og tíðindin um að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ætluðu að láta reyna á samstarf kemur engum stjórnmálaáhugamanni að óvörum, ætti altént ekki að gera það. En nú reynir á þennan stærsta stjórnarkost. Það hefur lengi verið talað um þetta samstarf víða í hyllingum og talað um hann með rómanseruðum brag í takt við gömlu viðreisn eða Viðeyjarstjórnina 1991-1995, sem mörgum var eftirsjá að.

Fyrst og fremst reynir á hvernig þau passi saman sem forystuteymi á næstu fjórum árum; þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þau brostu fallega til hvors annars og fjölmiðlanna fyrir stundu og halda glöð til viðræðnanna eftir að Geir hefur fengið formlegt umboð til stjórnarmyndunar úr hendi forsetans á morgun. Það eru spennandi tímar framundan í íslenskum stjórnmálum, á því leikur giska lítill vafi.

mbl.is Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjast væntanlega á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán.

Mér finnst það afar ósmekklegt af hálfu Sjálfstæðismanna að hafa farið á bak við Framsóknarmenn með þessum hætti eftir 12 ára hnökralaust og farsælt samstarf.

Að vera í einhverjum þykjustuviðræðum við Framsókn, meðan verið er að tala við Samfylkingarfólk í alvöru, í bakherbergjum.

Það var greinilegt í Kastljósi í kvöld að bæði Steingrímur J og Guðni Ágústsson telja mjög góðar líkur á að þeirra flokkar geti náð saman með Samfylkingunni með Ingibjörgu sem forsætisráðherra, nú eða jafnvel Jón Sigurðsson eins og Guðni ýjaði að.

Þetta þýðir einfaldlega vonda samningstöðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ef Ingibjörg fær ekki sitt fram í samningum við Geir, hleypur hún bara til vinstri og verður forsætisráðherra í nýrri vinstrisjtórn þessara þriggja flokka.

Óheilindi af þessu tagi draga stundum dilk á eftir sér.

Vonandi verður sá dilkur ekki vinstri stjórn, undir forystu Framsóknar.

Kveðja,

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 20:27

2 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Vinstri stjórn undir forystu Framsóknar?

Það yrði þá aldeilis vinstri stjórn!

Mér finnst líklegra en þessi utópíska vinstristjórn sem Kári spekúlerar um, að S og D nái ekki saman, og úr verði stjórnmálabandalag sem engann hefði órað fyrir.. DV! 

Steinn E. Sigurðarson, 17.5.2007 kl. 20:52

3 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Hver segir í raun að Geir hafi verið óheiðarlegur í viðræðum, menn eru tapsárir þegar þeir ná ekki inn og tala samkvæmt því og ég sé að sumir hér að ofan gleypa við því

Inga Lára Helgadóttir, 17.5.2007 kl. 22:21

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Það er augljóst, að Jón Sig og Guðni hafa ekki talast mikið við ef ummæli þeirra beggja eru skoðuð. Burtséð frá öllum úrslitum þá finnst mér Jón komast ansi vel frá þessu öllu þegar upp er staðið. Hann tapaði en tekur tapinu með karlmennsku og með heiðarlegum hætti. Gott hjá þér Jón! (ég kaus hann ekki).

Júlíus Valsson, 17.5.2007 kl. 22:44

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Kári: Það var auðvitað ljóst allt frá kosninganótt að þetta væri mjög tæpt. Mér fannst mikilvægt að láta á þetta reyna. Það hefur blasað við eftir því sem liðið hefur á vikuna að þetta myndi ekki ganga. Rólegheitagangur innan Framsóknar var mjög áberandi mikill. Ég tel að þetta sé rétt ákvörðun, enda tel ég að þessi stjórn hefði ekki getað verið sterk í sínum verkum og ég get ekki betur séð en að hefði hún setið lengur hefði það verið stjórn sem ekki hefði verið á vetur setjandi í raun. Hvað varðar vinstristjórn tel ég að það yrði aldrei sterkt. Óheilindi VG og Framsóknar hafa verið vel ljós og leikrit Guðna og Steingríms í kvöld var mjög hlægilegt eftir að VG vildi pota í Framsókn á vondan stað með tilboði um ekki neitt. Ekki voru framsóknarmenn glaðlegir yfir því. En svona er þetta bara. Finnst það þó fjarstæðukennt að telja Jón bóg til forsætis með sjö manna þingflokk.

Steinn: Það verður að ráðast. Viltu þannig stjórn Steinn minn? Veit ekki hvað sé best. Hinsvegar tel ég best að láta á þetta reyna. Hinsvegar verður staða mála að ráðast. Ég tel að þessi stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar muni verða mynduð.

Inga Lára: Vel skrifað, gott komment.

Júlíus: Tek undir þetta. Jón hefur tekið þessu af mun meiri karlmennsku en Guðni Ágústsson. Við hverju bjóst Framsókn. Þar hafa ekki komið nein skýr svör og meirihlutinn var enginn.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.5.2007 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband