Pólitísk þáttaskil á uppstigningardegi

Ingibjörg Sólrún og Geir Mikil pólitísk þáttaskil hafa átt sér stað á þessum uppstigningardegi. Tólf ára farsælu stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er lokið og eftir hádegið á morgun munu stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefjast eftir að Geir H. Haarde hefur beðist lausnar á Bessastöðum og fengið þar formlega umboð forseta Íslands til stjórnarmyndunar.

Ég fór yfir tólf ára samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ítarlegum pistli hér á vefnum þann 23. apríl sl. en þann dag voru tólf ár liðin frá því að ríkisstjórn flokkanna tók fyrst við völdum undir forsæti Davíðs Oddssonar. Svo virðist vera sem að sagan frá vorinu 1995 er þetta samstarf kom til sögunnar hafi endurtekið sig með kaldhæðnislega líkum hætti í dag. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðið að segja skilið við þetta samstarf og horfir til nýs samstarfsflokks. Hann horfðist í augu við sama veikburða þingmeirihlutann þá og nú blasir við, í meira að segja sömu hlutföllum samstarfsflokka og vorið 1995, og allar aðstæður eru vissulega ótrúlega líkar.

Samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lýkur með brigslyrðum Guðna Ágústssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, í garð Sjálfstæðisflokksins, en hann talaði mjög hvasst í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna og sérstaklega í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í kvöld. Það var merkilegt að heyra þau orð. Þetta er auðvitað hans stíll, en ég skil vel að hann sé ósáttur við að missa væntanlega ráðherrastól eftir átta ára setu. Það hefur blasað við alla vikuna að hraðinn var rólegur í viðræðum flokkanna og öllum ljóst að meirihlutinn var orðinn mjög tæpur og varla starfhæfur.

Það var sjálfsagt að láta reyna á þetta samstarf en ég tel að það sé heilt yfir mat flestra sjálfstæðismanna að þessu samstarfi væri lokið og ekki neinn sá grunnur eftir í því sem treystandi væri á í raun. Ég var kominn á þá skoðun í gær að þessu samstarfi væri lokið og grunnurinn brostinn. Það er samt ekki þannig að þetta samstarf hafi verið afleitur valkostur en meirihlutinn var ekki starfhæfur. Það verður allt að vera í lagi til að halda upp í vegferð til fjögurra ára og sá grunnur var brostinn. Það er vissulega erfið ákvörðun að segja skilið við þetta samstarf en þetta var rétt ákvörðun.

Það er greinilegt að VG og Framsóknarflokkur eru verulega ósátt við stöðu mála. Það kom vel fram í kuldalegum viðbrögðum Guðna Ágústssonar og Steingríms J. Sigfússonar í Kastljósi í kvöld. Ég er ekki hissa á því. Þetta verður veik stjórnarandstaða sem þeir munu fara fyrir, aðeins 20 manna hópur. Það tekur reyndar við að Steingrímur J. Sigfússon muni nú leiða stjórnarandstöðu og þar með verða Framsóknarflokkur og Frjálslyndi flokkurinn. Staða Framsóknarflokksins í yfirvofandi stjórnarandstöðuvist er óviss, enda er formaður flokksins utan þings og því mikil óvissa yfir forystu hópsins þar.

Það eru spennandi tímar framundan. Helgin mun fara í að byggja nýtt stjórnarsamstarf. Ég vona að það muni ganga fljótt og vel saman með flokkunum og stjórnarskipti geti gengið tiltölulega hratt fyrir sig. Það er mikilvægt. En það er auðvitað eftirsjá eftir löngu og farsælu samstarfi. Í heild sinni er staða mála of veik til að þar verði haldið áfram og það verður að horfa fram á veginn í slíkri stöðu en ekki í baksýnisspegilinn. Það verður að láta reyna á nýja kosti þegar að við blasir að þetta samstarf er ekki lengur starfhæft og í raun orðið lamað, sem við blasir með stöðu mála í þessu ljósi með eins sætis meirihluta.

Í heildina tel ég farsæla tíma framundan með nýrri ríkisstjórn. Ég vona að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vinni farsælt og gott verk og þar náist fyrst og fremst góður málefnagrunnur. Það er lykilverkefni núna og það verður áhugavert að sjá hversu hratt það verk gengur. Ég tel að það sé mikilvægt að árangur náist í þeim efnum helst vel innan næstu fimm til sjö daga. Nú ganga Geir og Ingibjörg Sólrún til þessa verks og ég tel að heilt yfir sé sátt innan beggja flokka um framtíð mála.

En þetta er dagur sviptinga og atburðirnir hafa gerst mjög hratt á síðustu tólf klukkustundum. En í þessum sviptingum felast tækifæri sem báðir flokkar munu vonandi nýta vel til nýrrar forystu í landsmálum.

mbl.is Ingibjörg Sólrún: VG vildi ekki mynda stjórn með Framsóknarflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér þótti stíllinn dapurlegur hjá Guðna í kvöld og samsæriskenningin með ólíkindum. Mér þótti útspil þeirra félaganna um möguleikann á V-B-S ekki trúverðugt eins og ég hef rætt um í blogginu mínu í kvöld. En eitt þóttist ég greina mjög afgerandi og það voru þessi skýru skilaboð frá Ingibjörgu að hún ætlaði ekki að taka þátt í einhverri refskák með öðrum flokkum heldur vera heil í þeirri ákvörðun sem tekin hefur verið, þ.e. stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 01:17

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Anna. Já, ég er sammála um það. Engir kærleikar hafa verið milli þessara flokka og þessi nýfengni kærleikur er hálfgert sjónarspil, hlægilegt mjög að mínu mati.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.5.2007 kl. 02:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband