Ólafur Ragnar veitir umboð til stjórnarmyndunar

Ólafur Ragnar Grímsson Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á von á gesti fyrir hádegið. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, mun ganga á fund hans innan stundar og biðjast lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Í kjölfar þess mun Ólafur Ragnar í fyrsta skipti á sínum forsetaferli veita formlegt umboð til stjórnarmyndunar. væntanlega til Geirs til myndunar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Ólafur Ragnar hefur verið húsbóndi á Bessastöðum í ellefu ár. Allan þann tíma hefur hann eflaust beðið mjög óþreyjufullur eftir því að veita formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Það er komið að þeim tímapunkti. Allt frá því að Ólafur Ragnar tók við forsetaembættinu þann 1. ágúst 1996 hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks setið við völd og verið algjört formsatriði að halda því samstarfi áfram þar sem hún hélt þingmeirihluta í kosningunum 1999 og 2003. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson unnu hratt og vel eftir báðar kosningarnar til að tryggja nýja stjórn mjög fljótt.

Nú kemur í fyrsta skipti til hans kasta að veita almennt stjórnarmyndunarumboð þar sem fráfarandi starfsstjórn er til staðar og staðan við myndun stjórnar er nokkuð opin. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þetta er upphaf ferlis þar sem Ólafur Ragnar getur loksins leikið þann örlagavald sem hann hefur eflaust alltaf viljað vera í íslenskum stjórnmálum. Ekki bendir þó til þess ef marka má stöðu mála og viðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem flestir virðast gefa sér að lykti fljótt og vel með nýrri ríkisstjórn flokkanna.

Það er ekki mikill vafi á því að Ólafur Ragnar Grímsson hefur beðið allan forsetaferil sinn eftir svona tækifæri til að vera pólitískur örlagavaldur. Það ferli verður þó eflaust með öðrum formerkjum en hann átti von á, og hefði orðið hefði fráfarandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallið í kosningunum fyrir sex dögum. Í stað þess sat hún áfram en nú reynir á hlutverk hans fyrst að stjórnarflokkarnir ákváðu að halda ekki samstarfinu áfram og opna pólitísku stöðuna hérlendis, í fyrsta skiptið í tólf ár.

En samt sem áður verður gestakoman á Bessastaði innan stundar tækifærið fyrir Ólaf Ragnar til að vera mikilvægur hlekkur á milli stjórnmálamanna við myndun ríkisstjórnar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að forsetinn á sjötugsaldri á Bessastöðum, sem sjálfur var pólitískur refur og margreyndur stjórnmálamaður fyrir forsetaferilinn, fær hlutverkið sem hann hefur viljað svo lengi eða verður einfaldlega milliliður við myndun stjórnar, rétt eins og Vigdís Finnbogadóttir var jafnan.

Það eru spennandi dagar framundan í íslenskum stjórnmálum og áhugaverðir tímar sem hefjast með gestakomunni á Bessastaði fyrir hádegið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Björn

Maður er ansi smeykur við að Grísinn hlusti á gamla flokksfélaga sinn í Alþýðubandalaginu, og veiti IGS umboðið. 

Þessum manni er ekki treystandi þegar kemur að stjórnmálum.

Maður verður bara að treysta á heilbrigða skynsemi, og að þau orð IGS síðan í gær um að ekkert leikrit væri í gangi og það væri traust á milli hennar og Mr. Haarde, standist.  

Guðmundur Björn, 18.5.2007 kl. 10:32

2 Smámynd: Steingrímur Páll Þórðarson

Þetta er voða dramatískt hjá þér Stebbi.. Haha

Steingrímur Páll Þórðarson, 18.5.2007 kl. 11:19

3 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Ólafur hefur lýst því yfir í þessu máli að hann sé á réttu línunni þ.e. hann virðir þingræðið. Hann hefur sem sagt ekki alveg frjálsar hendur um hvern hann velur. Hann getur talað við flokksformenn. Ef tveir flokksformenn sem samanlagt hafa meiri hluta á bak við sig lýsa því yfir að þeir séu í viðræðum þá verður forseti að veita þeim sem þeir óska að stýri stjórnarmyndun - umboðið. Um leið og Forsætisráðherra biður lausnar biður forseti hann um að sitja áfram þar til ný stjórn hefur verið mynduð. Framsókn og Sjálfstæðimenn eru þannig enn við völd og verða þar til þessi nýviðreisn sem er í burðarliðnum tekur við.

Jón Sigurgeirsson , 18.5.2007 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband