Er stjórnarsamstarfið að líða undir lok?

Jón Sigurðsson og Geir H. HaardeÞað er mjög greinilegt að efasemdir hafa aukist verulega innan Sjálfstæðisflokksins síðustu daga um það hvort að halda eigi áfram stjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn. Frétt Morgunblaðsins í dag um þessar efasemdir koma mér ekki að óvörum. Ég persónulega er að komast á þá skoðun að samstarfinu sé lokið vegna óvissunnar innan Framsóknarflokksins og ég tel það eiginlega einsýnt að Framsókn verði að byggja sig upp utan ríkisstjórnar.

Það er ljóst að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er eins tæpur og hann getur orðið. Það er ekki beinlínis hægt að gera nein kraftaverk í stjórnarsamstarfi með 32 þingmenn, í samstarfi þar sem engin umdeild kraftmikil mál geta í raun komið til sögunnar og þar sem stóla verður á það að hver einn og einasti þingmaður megi ekki bregða sér af bæ nema að til staðar sé varamaður við minnstu breytingar. Það er ljóst að þetta er tæpt. Það hafa margir sjálfstæðismenn talað fyrir því að reyna þann valkost þrátt fyrir það. En ef svo á að vera þarf allt að vera í lagi.

Eins og fram kom hjá mér hér í morgun er athyglisvert að sjá forna höfðingja innan Framsóknarflokks skrifa í blöðin með þann áberandi boðskap sinn að flokkurinn sé umboðslaus og eigi að sleikja sárin í stjórnarandstöðu á næstu misserum. Mér fannst grein Ingvars Gíslasonar, fyrrum menntamálaráðherra, mjög hnitmiðuð og afgerandi í senn. Þar er ekki töluð nein tæpitunga. Það virðist ekki vera neinn einhugur innan Framsóknarflokksins með framhald mála. Ef að staða mála á þeim bænum er orðin svo tæp að kanna verður hvern einasta miðstjórnarmann til að athuga hvort að stjórnarsamstarfið verði mögulega samþykkt á slíkum fundi þar er öllum ljóst að tæpt stendur.

Mér finnst þessi ríkisstjórn hafa gert marga góða hluti og samstarf flokkanna sem hana mynda hefur verið mjög heilsteypt og vandað í þau tólf ár sem hún hefur starfað. Staða mála nú er með þeim hætti að velta verður fyrir sér framhaldinu. Þetta stendur mjög tæpt og það er ljóst að stjórn verður ekki mynduð með neinni alvöru ef ekki helst heilsteypt samvinna um að halda áfram af krafti. Mér finnst þessar viðræður sem staðið hafa síðustu daga verið óvenju litlausar og hægar. Það virðist lítið sem ekkert hafa gerst. Tvísýnan innan Framsóknarflokksins er orðin æpandi áberandi og ekki minnkar óvissan á þeim bænum.

Það er ljóst að gangi þetta ekki verður að horfa í aðrar áttir. Þar er ekkert annað sem kemur til greina nema tveggja flokka stjórn með annað hvort Samfylkingunni eða VG. Það er ljóst skv. skoðanakönnunum að landsmenn vilja frekar samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Mér finnst það nú líklegra að sá kostur verði kannaður á undan VG. Það árar með þeim hætti finnst mér að menn vilji frekar viðreisn falli stjórnin uppfyrir, eins og við segjum. Það fer ekki á milli mála að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, virðist tala fyrir þeim kosti en hann gæti orðið umdeildur innan Sjálfstæðisflokksins.

Mér finnst komið að örlagastund í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þar verða viðræður að fara að komast á meiri spöl en þann sem við blasir. Að mínu mati finnst mér líkur á þessu samstarfi minnka og mér persónulega er farið að finnast minna til um þann kost koma en jafnan áður. Það valda margir hlutir, sérstaklega þeir sem fyrr eru nefndir. Það er þó ljóst að þetta veltur fyrst og fremst á afstöðu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. Ég treysti dómgreind hans í þessu máli, að velja rétt með heill og hag Sjálfstæðisflokksins í ljósi.

En það er ljóst að það verða pólitísk þáttaskil ljúki samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks nú á næstu dögum. En það verður að segjast alveg eins og er að líkur á að haldið verði áfram eru að minnka stórlega. Það er þó löngu sannreynt að það opnast alltaf ný og spennandi tækifæri við þáttaskil.


mbl.is Vaxandi vantrú á framhald stjórnarsamstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Ágæt samantekt hjá þér Stefán Friðrik!
Í mínum huga eru skilaboð kjósenda nokkuð skýr. Meiri hluti þeirra vill hafa D áfram í ríkisstjórn en með öðrum samstarfsflokki en B. Fólkið hafnar B, er það ekki alveg ljóst? Áframhaldandi samstarf D og B gæti reynst Geir mjög erfitt þegar til lengri tíma er litið. Hann hlýtur að líta til annaðhvort S eða V. Það eru aðeins tvö vandamál hjá S og þau heita Ingibjörg og Össur. Eikki auðveld vandamál að leysa.  A.ö.l. væri ekki erfitt fyrir D og S að vinna saman. Vandamálið hjá V er afskaplega gamaldags afstaða Steingríms til ýmissa mála svo sem aðildin að Nato og til einkavæðingar o.fl. Hann þyrfti að slaka verulega á sínum skoðunum í þeim efnum. F gæti komið inn í myndina en ég sé ekki alveg í hendi mér hvernig það ætti að vera á annan hátt en til uppfyllingar. Ég veðja á S og V ef Steingrímur nær að slaka á. Ég hef reyndar takmarkað vit á þessu öllu en hef þó gaman af að spekúlera eins og fleiri.     

Júlíus Valsson, 17.5.2007 kl. 11:43

2 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Ég hef alltaf litið á þá tilburði að halda áfram stjórnarsamstarfinu sem göfugmannlegan leik Framsóknar meðan Geir myndar stjórn. Í besta falli er hann biðleikur.

Jón Sigurgeirsson , 17.5.2007 kl. 13:05

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Já Stefán Friðrik,þu ert rökfastur og mjög gaman að lesa þina umfjöllun á þessum hlutum Pólitik og fl, næstum eins og maður sjalfur vill sagt hafa en kemur ekki orðum að/Eg bið spendur um kvað skeður /Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 17.5.2007 kl. 13:06

4 Smámynd: Hagbarður

Ég held að það þurfi sterka stjórn til að taka á þeim vanda sem við blasir hjá okkur. Þegar verðbólgan mælist um 6%, en er líklega nær 15% þegar tekið hefur verið t.t. 10% styrkingu krónunnar frá áramótum og niðurfellingu vörugjalda og lækkunar vsk á matvæli. Holskeflan á eftir að ríða yfir okkur þegar krónan tekur þeim breytingum til lækkunar sem hún þarf að gera til að hægt sé að stunda einhverja framleiðslu hér á landi. Skera þarf niður ríkisútgjöld og spara í opinberum rekstri og haga ríkisútgjöldunum þannig að vextir hér aðlagi sig að því sem er í löndunum í kringum okkur. Sterka stjórn þarf til að stöðva Hrunadansinn og stýra hagkerfinu í gegnum þá aðlögun sem nauðsynleg er til að við náum jafnstöðu m.v. eðlilega gengisskráningu krónunnar. Jafnframt þarf að stokka upp einkaleyfiskerfin í fiskveiðistjórnun og landbúnaði. Opna fyrir aðgengi, leggja af vernd hinna fáu, og stuðla að því að einkaframtakið fái drifið áfram nauðsynlegar úrbætur og framþróun í þessum greinum almenningi til hagsbóta.

Hagbarður, 17.5.2007 kl. 13:37

5 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Greinargóð stöðulýsing hjá þér Stefán Friðrik. Það mætti segja að nú væri komið að miðtaflinu í góðri skák í þessu stjórnarmyndunartafli. Hver leikur í stöðunni núna skiptir sköpum. Það er vissulega rétt metið hjá Þorgerði Katrínu að stjórn Sjálfstæðisflokksins með Samfylkingunni gæti náð fram ákveðnum áherslubreytingum í stjórn landsins í frelsisátt en þá verður að taka með í reikninginn að þó þingmannatalan bendi til að sterkrar meirihlutastjórnar þá getur sá meirihluti verið ótraustur þegar á reynir. Það sem mælir með þessari stjórn er að Samfylkingin hefur sterk ítök í verkalýðshreyfingunni og framundan eru erfiðir kjarasamningar. Á móti kemur þó að of mikil tilslökun í launakröfum getur komið ríkisstjórninni um koll. Hvað svo með Evrópusambandið og landbúnaðarmál? Hvað með stöðu Ingibjargar sem formanns og yfirlýsingagleði Össurar og Árna Páls? Allt þetta þurfa forystumenn Sjálfstæðisflokksins að meta. Á móti kemur að stjórn með VG yrði að öllum líkindum áhættuminni og áreynsluminni stjórnarsamstarf því eins og ég hef fært rök fyrir þá eru Vinstri-Grænir hinn nýji Framsóknarflokkur - en þó upprunalegi Framsóknarflokkur Jónasar frá Hriflu - sem upphaflega talaði um að Framsóknarflokkurinn væri vinstri flokkur að norrænni fyrirmynd.

Jón Baldur Lorange, 17.5.2007 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband