Ekki verður vist Páls löng hjá Landsvirkjun

Páll Magnússon Það er ekki mánuður liðinn frá því að forysta Framsóknarflokksins sparkaði Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, fyrrum þingmann flokksins, af formannsstóli stjórnar Landsvirkjunar og setti Pál Magnússon, bæjarritara í Kópavogi, í stað hans. Þá voru aðeins 16 dagar til alþingiskosninga. Það útspil vakti mikla athygli eins og kunnugt er. Nú þegar að Framsóknarflokkurinn er að missa völd í landsstjórninni blasir við öllum að formannsvist Páls hjá Landsvirkjun verður ekki langlíf.

Ég skildi ekki þessa fléttu hjá Framsókn. Hún leit frekar undarlega út í sannleika sagt. Hvers vegna var skipt kortéri fyrir kosningar og án þess að vitað væri hver leiddi mál í landsstjórninni eftir kosningarnar? Nú er ljóst að hann verður hámark í þessum stóli í eitt ár og ekki verða áhrif hans mikil þar innanborðs. Þetta var auðvitað flétta sem kom mjög óvænt og var hlægilega vandræðaleg fyrir Framsóknarflokkinn. Ég taldi fyrirfram að Jóhannes Geir yrði áfram þetta eina ár og svo myndi nýr ráðherra með sterkt umboð eftir kosningar taka af skarið.

En þetta er mjög athyglisvert allt saman. Það verður athyglisvert að sjá hvað verður um Pál, hversu lengi úr þessu hann verður formaður, en örlög hans á þessum stóli eru auðvitað ráðin.

Árni Johnsen og Björn Bjarnason lækka um sæti

Alþingi Landskjörstjórn hefur nú gefið formlega út kjörbréf til þeirra 63 alþingismanna sem náðu kjöri í þingkosningunum 12. maí sl. Ljóst er að Árni Johnsen, alþingismaður, og Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, lækkuðu um eitt sæti í kosningunum í kjördæmum sínum vegna útstrikana. Í ljósi þessa verða Björn og Árni þriðju á listum Sjálfstæðisflokksins í kjördæmum sínum.

Þetta eru í sjálfu sér ekki ný tíðindi, enda hafa þau blasað við allt frá kosninganótt þegar að tíðindi um útstrikanir urðu ljósar. Þetta eru þó í sjálfu sér ólík tilfelli. Annar þeirra sem lækkaði vegna útstrikana varð fyrir því að auðmaður í nöp við frambjóðandann hvatti í mjög áberandi heilsíðuauglýsingum í öllum dagblöðum til yfirstrikunar á hann í massavís og hinn er umdeildur frambjóðandi sem á að baki hneykslismál og fangelsisvist sem hlaut uppreist æru með umdeildum hætti og verið umdeildur innan flokks síns allt frá því að hann náði kjöri í prófkjöri að nýju og afar óheppileg ummæli um afbrot sín.

Það eru mörg ár síðan að viðlíka atburður hefur átt sér stað. Staða þessara frambjóðenda er mjög ólík eins og fyrr er að vikið, enda bakgrunnur þeirra ólíkur og ástæður þess að þeir eru umdeildir í þessum kosningum er vægast sagt ólík ennfremur. Það er sögulegt að það gerist að frambjóðendur lækki vegna yfirstrikunar og hefur að ég held ekki gerst frá árinu 1946, en þá reyndar féll frambjóðandi algjörlega út, enda var þá kjördæmaskipan með allt öðrum hætti.

Ég hef áður skrifað hér á þessum bloggvef um stöðu Björns og Árna og ég held að skoðanir mínar í þeim efnum séu vel ljósar.

mbl.is Árni og Björn færast niður um eitt sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukinn stuðningur við álver á Bakka

HúsavíkÞað er gleðiefni að sjá nýja skoðanakönnun sem sýnir að 69,5% íbúa á Norðausturlandi eru hlynnt byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Yfir 80% aðspurðra telja að bygging álvers myndi hafa jákvæð áhrif á búsetuskilyrði til lengri tíma á Norðurlandi. Þetta eru sterk skilaboð að mínu mati frá fólki hér, alveg afdráttarlaus.

Þetta er mjög mikilvæg framkvæmd fyrir íbúa í norðanverðum hluta þessa kjördæmis. Það var með réttu aðalkosningamálið víða hér á þessu svæði fyrir rúmri viku, einkum skipti máli fyrir Þingeyinga að þeir fái að nýta orku sína með þessum hætti. Þetta mikilvæga mál var rætt vel í kosningabaráttunni og kom vel fram að mér fannst í úrslitunum hér í Norðausturkjördæmi þann 12. maí hver hugur fólks til málsins sé.

Með réttu ætti að halda íbúakosningu í Norðurþingi um þetta mikilvæga mál. Það er talað fjálglega um íbúalýðræði og mikilvægi þess. Mér finnst oft andstæðingar stóriðju, sérstaklega vinstri grænir, vilja skakkt íbúalýðræði; þ.e.a.s. kosningar sem falla bara eftir þeirra skoðunum. Enda má ekki gleyma því að vinstri grænir í Hafnarfirði og fleiri reyndar töluðu með þeim hætti að það skipti í sjálfu sér engu máli hvað upp úr kössunum kæmi; samt yrði nei ofan á varðandi stækkun álvers Alcan.

En þetta eru góð skilaboð að mínu mati, skilaboð sem skipta miklu máli heilt yfir.


mbl.is Aukinn stuðningur við álver á Bakka á Norðausturlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er afhroð Framsóknarflokksins Halldóri að kenna?

Halldór Ásgrímsson Það er að verða ár liðið frá því að Halldór Ásgrímsson tilkynnti um pólitísk endalok sín í kastljósi fjölmiðlanna fyrir framan embættisbústað forsætisráðuneytisins á hinum sögufrægu Þingvöllum. Það er kaldhæðnislegt að nú sé grunnur lagður að nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á sama stað. Miklar sviptingar hafa verið í vikunni. Framsóknarflokkurinn varð fyrir sögulegu áfalli og er á leið í stjórnarandstöðu.

Það væri fróðlegt að vita hver skoðun Halldórs, sem nú er staddur í Kaupmannahöfn, í órafjarlægð frá stjórnmálatilverunni á Íslandi, er á hinum miklu tíðindum vikunnar; endalokum tólf ára stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem unnu saman lengst af með Halldór í forystu flokks síns. Þetta hafa verið vondir dagar fyrir Framsóknarflokkinn að undanförnu. Afhroðið sem kannanir höfðu sýnt æ ofan í æ var ekki umflúið og nú er flokkurinn staddur á krossgötum, verandi á leið í stjórnarandstöðu, eftir að hafa verið í ríkisstjórn nær samfellt frá árinu 1971, ef undan er skilið minnihlutastjórnartímabil Alþýðuflokksins 1979-1980 og Viðeyjarstjórnartímabilið 1991-1995.

Framsóknarflokkurinn var í rúst við endalok stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar og væringar sliguðu stjórnmálaferil leiðtogans er á hólminn kom. Honum var ekki sætt lengur vegna ólgu og hann gafst upp á limminu. Halldór Ásgrímsson var aðalleikari í íslenskum stjórnmálum til fjölda ára - var einn af þeim sem mestu réðu um forystu þjóðarinnar á seinustu áratugum. Hann markaði söguleg pólitísk skref. Það hvernig fjaraði undan honum, í senn miskunnarlaust og kuldalega vægðarlaust, var mjög athyglisvert. Maðurinn sem hafði pálmann í höndunum eftir þingkosningarnar 2003 og gat krafist forsætis út á oddastöðu sína gat ekki nýtt tækifærin og stöðuna.

Það varð að lokum ekki við neitt ráðið. Hann fjaraði út hratt og áberandi. Forætisráðherraferillinn varð sorgarsaga og ekki varð við neitt ráðið. Spunameistararnir klúðruðu meira að segja endalokunum er á hólminn kom. Halldór fór sneyptur af hinu pólitíska sviði. Halldór Ásgrímsson er nú á friðarstóli í Kaupmannahöfn sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Hann horfir á hnignun Framsóknarflokksins og vandræði flokksins úr fjarlægð. Það blandast engum hugur um að Framsóknarflokkurinn er í skelfilegri stöðu. Þar blasir við allsherjar uppstokkun á öllum sviðum, uppbygging frá grunni. Staðan er óneitanlega dökk.

Úrslit kosninganna voru áfellisdómur yfir Halldóri Ásgrímssyni. Flokkurinn hnignaði á lokaspretti hans valdaskeiðs og afhroðið hlýtur að vera eyrnamerkt honum, hinum misheppnaða forsætisráðherraferli sem varð flokknum dýrkeypt er á hólminn kom. Öll innri ólgan og sundrungin sem sliguðu flokkinn er brennimerkt persónu Halldórs Ásgrímssonar. Þó að hann hafi löngu yfirgefið sviðið er ósigurinn andlitsmerktur Halldóri. Þessi staða, sem best birtist með afhroðinu í Reykjavík, var auðvitað mikill banabeygur fyrir Halldórsarminn svokallaða sem nú stjórnar í gegnum Samvinnumanninn trygga Jón Sigurðsson, sem náði ekki kjöri á þing þrátt fyrir mikla baráttu.

Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum. Honum hefur oft tekist að redda sér úr miklum krísum á lokaspretti kosningabaráttu. Það tókst ekki núna. Allar vondu kannanirnar urðu að veruleika - það var kuldalegur veruleiki og það er augljóst að margir framsóknarmenn eiga erfitt með að horfast í augu við þann veruleika. Þjóðin sendi Framsóknarflokknum rauða spjaldið. Það er auðvitað mjög áberandi höfnun sem felst í þessum úrslitum. Hann heldur nú hinsvegar í endurhæfingu, rétt eins og lykilmenn fortíðar í flokknum á borð við Steingrím Hermannsson og Ingvar Gíslason boðuðu með áberandi hætti í fjölmiðlum. Hann byggir sig upp í kyrrþey.

Halldór Ásgrímsson og armur hans innan Framsóknarflokksins lagði langa lykkju á leið sína til að koma í veg fyrir að Guðni Ágústsson, höfðinginn frá Brúnastöðum, tæki flokkinn yfir. Það átti að leggja Guðna með Halldóri. Sú atburðarás fór úr böndunum þegar að Guðni strunsaði argur í bragði frá Þingvöllum eftir blaðamannafundinn fræga. Jón Sigurðsson var sóttur til verka. Valgerður Sverrisdóttir var sett fram fyrir Guðna í lykilráðuneyti, hún fór í utanríkisráðuneytið og Jón varð ráðherra mest áberandi ráðuneytis flokksins á vettvangi innanlands í staðinn.

Jón er í erfiðri stöðu rétt eins og flokkurinn með lamað umboð eftir að hafa verið hafnað í Reykjavík norður með kuldalega áberandi hætti. Hann er á jafn skelfilega vondum bletti á sínum pólitíska ferli og forverinn fyrir ári. En hvað gerist nú, verður Guðni sóttur til forystu þegar að allt er komið á vonarvöl? Það verður skondið að sjá.

Spennandi pólitískar pælingar í Silfri Egils

Silfur Egils Það var áhugavert að hlusta á pólitískar pælingar um stjórnarmyndun í Silfri Egils nú eftir hádegið. Þar var rætt um stöðu mála nú þegar að við blasir að Þingvallastjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar taki við völdum eftir nokkra daga. Þetta hefur auðvitað verið mjög merkileg vika, tólf ára stjórnarsamstarfi er lokið og miklar breytingar eru framundan eftir langt stöðugleikatímabil í íslenskum stjórnmálum.

Í byrjun þáttarins var líflegt uppgjör á vikunni. Þar ræddu Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Siv Friðleifsdóttir, fráfarandi heilbrigðisráðherra, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson, nýkjörnir alþingismenn, það sem hefur gerst í þessari líflegu viku. Það er mjög athyglisvert að sjá ástarhaturssamband Framsóknar og VG eftir dramatík síðustu daga nú þegar að þeir eru á leið í faðmlög í stjórnarandstöðu en það verður þó mjög mikið kæfingarfaðmlag fyrir báða aðila sýnist manni. Ill eru örlög Jóns og Steingríms J. segir maður bara.

Kristján Þór svaraði kostulegum aðfinnslum Sivjar mjög vel. Siv er greinilega í rosalegri fýlu yfir yfirvofandi valdamissi Framsóknarflokksins og horfir mjög napurt til vinstri grænna sem nýs partners í íslenskum stjórnmálum. Þetta eru merkileg örlög. Annars finnst mér að Siv megi vel við una. Það munaði aðeins hársbreidd á milli feigs og ófeigs hjá henni á kosninganótt. Hún náði naumlega kjöri á meðan að Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz féllu upp fyrir garðann pólitískt með athyglisverðum hætti á kosninganótt. Siv ætti ekki að vera í mikilli fýlu finnst mér, enda var hún stálheppin að haldast enn inni í leiknum. Þetta var tæpt hjá henni og það var ekki fyrr en með maísólinni að morgni sem hún rataði aftur inn á þing.

Kristján Þór kom vel fram í þessum þætti. Það er auðvitað mikilvægt að mínu mati að hann verði ráðherra nú í þessari Þingvallastjórn. Mér finnst hann eiga það skilið. Hann hefur verið í pólitík í tvo áratugi og verið þar framarlega í forystu. Kristján Þór er vissulega nýliði á Alþingi en reynsla hans er mikil á víðum pólitískum vettvangi. Hann leiddi Sjálfstæðisflokkinn til sögulegs kjördæmasigurs í Norðausturkjördæmi um síðustu helgi og á að njóta þess. Svo er mikilvægt að uppstokkun verði á landsbyggðarráðherrum Sjálfstæðisflokksins að mínu mati. Hann ætti að vera afgerandi góður valkostur til ráðherrasetu.

Í þessum þætti var gaman að sjá Steinunni Valdísi í nýju hlutverki; að tala vel um Sjálfstæðisflokkinn. Ég hef aldrei farið leynt með það að ég met Steinunni Valdísi mikils. Hún leiddi R-listann á erfiðum þáttaskilum eftir afsögn Þórólfs Árnasonar og var harðjaxl á sínum vettvangi við vondar aðstæður. Það var með ólíkindum að fólkið hennar í Samfylkingunni bakkaði hana ekki upp til forystu innan Samfylkingarinnar í kosningunum í fyrra. Hún var sem borgarstjóri í undarlegri aðstöðu vikurnar fyrir kosningar sem augljóslega borgarstjóri á útleið. Steinunn Valdís flaug merkilegt nokk á þing, eftir að margir höfðu afskrifað möguleika hennar.

Í sjálfu sér var þetta merkilegt spjall. Það er greinilegt að vinstri grænir horfast illa í augu við þann kaleik sinn að hafa klúðrað vinstristjórn. Ég get ekki annað sagt en að ég sé eilíflega þakklátur vinstri grænum fyrir það góðverk sitt, megi þeir hafa hrós fyrir.

Mun Jón Sigurðsson segja af sér formennsku?

Jón Sigurðsson Hávær orðrómur er nú uppi um að Jón Sigurðsson muni segja af sér formennsku í Framsóknarflokknum á miðstjórnarfundi í júní og hverfa úr stjórnmálum. Staða hans er orðin mjög erfið, allt að því vonlaus. Á næstu dögum missir Jón lyklavöldin að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og með því um leið stöðu sína á stjórnmálasviðinu í ljósi þess að honum mistókst að ná kjöri á Alþingi 12. maí sl.

Framsóknarflokkurinn varð fyrir sögulegu pólitísku áfalli í þessum alþingiskosningum. Mesta áfall hans var hiklaust afhroðið í Reykjavík. Þar þurrkaðist hann út - missti þrjú þingsæti. Leiðtogarnir Jón og Jónína Bjartmarz, fráfarandi umhverfisráðherra, náðu ekki kjöri og þingmennirnir Guðjón Ólafur Jónsson og Sæunn Stefánsdóttir, ritari Framsóknarflokksins, sem tók við þingsæti Halldórs Ásgrímssonar, fyrrum forsætisráðherra og flokksformanns, í september 2006, féllu ennfremur, sem var auðvitað gríðarlegt áfall þar sem þeim var eflaust síðar ætlaður mikilvægur sess í forystu flokksins, sérstaklega Sæunni sem var þegar komin alla leið til forystu en helst inni í lykilkjarnanum enn vegna ritarastöðunnar.

Staða Jóns Sigurðssonar hefði verið allt önnur hefði hann haldið ráðherrastól og verið áfram í fronti innan ríkisstjórnarinnar. Með því hefði hann haft lykilstöðu til að vera virkur þátttakandi í stjórnmálum bæði talsmaður innan þingflokks og í þingumræðum - leiða Framsóknarflokkinn innan þings og hafa alvöru hlutverki að gegna við að byggja flokkinn upp. Með endalokum stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hurfu þær vonir Jóns Sigurðssonar. Þegar að Samfylkingin tekur stöðu Framsóknarflokksins sem samstarfsaðili Sjálfstæðisflokksins missir Jón ekki aðeins lyklavöldin að ráðuneytinu heldur og í senn bæði aðkomu að Stjórnarráðinu og Alþingi Íslendinga.

Það er auðvitað martröð fyrir flokksformann að sitja eftir sem formaður flokks með umboð af æðstu samkundu hans en án hlutverks þess fyrir utan í íslenskum stjórnmálum. Þetta er sá veruleiki sem blasir við Jóni Sigurðssyni núna á næstu dögum. Það er napur veruleiki. Jón Sigurðsson gæti vissulega sem flokksformaður snúið hlutverki sínu við, haldið af velli lykilstjórnmála og verið verkamaður í innra starfinu, leitt innra starfið upp úr öldudalnum og verið frontur þeirrar vinnu, farið um landið, byggt upp grunnvinnu endurreisnar og blásið ferskum vindum í innra starf flokksins sem virðist vera í miklum molum eins og úrslit þingkosninganna báru glögglega vitni.

Það virðist harla ólíklegt að hann vilji halda til þeirra verka, vera í raun flokksformaður en utan mesta sviðsljóss stjórnmála. Sviðsljós íslenskra stjórnmála er það sem gerist innan veggja Alþingis og í ríkisstjórn. Það er ekki öfundsvert að vera flokksformaður í þeirri stöðu að eiga þar engan aðgang, standa eftir eins og ósýnilegur maður með engin áhrif í raun, nema mögulega innan flokksstofnana. Þegar að Geir Hallgrímsson náði ekki kjöri í alþingiskosningunum 1983 sem formaður Sjálfstæðisflokksins og Ólafur Ragnar Grímsson varð formaður Alþýðubandalagsins árið 1987 höfðu þeir aðkomu að þinginu sem varamenn, gátu komist inn. Svo heppinn er Jón Sigurðsson ekki.

Staða Jóns virðist ráðin. Orðrómur um afsögn hans af formannsstóli er orðin hávær og blasir við að örlagastundin nálgist. Talað er um miðstjórnarfund í Framsóknarflokknum innan skamms tíma, væntanlega í júní. Þar er líklegt að dragi til tíðinda. Jón Sigurðsson haldi af velli og yfirgefi stjórnmálin, nákvæmlega ári eftir að hann tók við ráðherraembætti þegar að Halldór Ásgrímsson yfirgaf stjórnmálaforystu á dramatískum blaðamannafundi á Þingvöllum, þeim sama stað sem er nú vettvangur stjórnarmyndunar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það verður kaldhæðnislegt ef svo fer að formennsku Jóns muni ljúka innan við ári eftir að hún hófst.

Að mörgu leyti er ekki hægt annað en kenna í brjósti um Jón í þessari skelfilegu stöðu sem við honum blasir örfáum dögum áður en hann missir lyklavöldin að ráðuneyti sínu. Það er skiljanlegt að hann hafi bognað í þeim þunga og misst stjórn á sér með dæmalausum pistlaskrifum á föstudag. Staða hans er erfið og fyrirfram séð glötuð. Það er skelfilegt að vera formaður flokks án þess að geta í raun haft áhrif út fyrir flokkinn, verið sýnilegur í stjórnmálum. En Jón má vera stoltur af mörgu sem hann gerði. Ég tel að hann hafi eflt flokkinn innan frá en mistekist að efla hann utan frá. Það var við ramman reip að draga.

Jón stóð frammi fyrir fyrirfram glötuðu verkefni og tröllvöxnu. Framsóknarflokkurinn var í rúst eftir misheppnaðan forsætisráðherraferil Halldórs Ásgrímssonar. Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við innan Framsóknarflokksins eftir afsögn Jóns Sigurðssonar. Varaformaður Framsóknarflokksins er Guðni Ágústsson, fráfarandi landbúnaðarráðherra. Í fyrra lagði armur Halldórs Ásgrímssonar langa lykkju á leið sína til að koma í veg fyrir formannskjör hans og hann lympaðist niður til áframhaldandi varaformennsku og lagði Jónínu Bjartmarz í þeim hasar. Siv Friðleifsdóttir fór fram gegn Jóni og tapaði. Fróðlegt væri að sjá landslag stjórnmálanna hefði Siv unnið það kjör.

Það blasir við að sundurlyndi er innan Framsóknarflokksins. Þar eru armar sem enn eru til staðar eftir væringar liðinna ára. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist verði Guðni Ágústsson flokksformaður við afsögn Jóns. Mun Siv leggja til við Guðna, verandi eini þingmaður flokksins á höfuðborgarsvæðinu? Halda væringarnar áfram? Það er það sem margir framsóknarmenn óttast. Sú umræða er hafin nú þegar að formaður Framsóknarflokksins hefur misst hlutverk sitt í íslenskum stjórnmálum og yfirgefur brátt sviðið. Tími átaka í Framsókn er rétt að hefjast. 

Þingvallastjórn með viðreisnarsvip í pípunum

Ingibjörg Sólrún og Geir Það er viðeigandi að ný viðreisnarstjórn sé mynduð á Þingvöllum og verði kennd við þann merka stað í íslenskri sögu. Fyrir einum og hálfum áratug var síðasta viðreisnarstjórn mynduð í Viðey af Davíð Oddssyni og Jóni Baldvin Hannibalssyni og var kennd við eyjuna. Ég man auðvitað mjög vel eftir vorinu 1991 þegar að sú stjórn var mynduð - mér fannst það mjög góð stjórn framan af og hún kom mjög fersk til verka og var öflug í upphafi, en sligaðist síðar af innanbúðarvandamálum Alþýðuflokksins.

Það er alveg ljóst að væntanleg ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur mjög sterkt umboð þegar að hún tekur til verka á næstu dögum. Hún hefur sterkt umboð til að koma öflugum verkum í framkvæmd og hefur ennfremur sterkt umboð til að tala af krafti máli sem hefur sterkt umboð frá kjósendum, ólíkt því sem endurmynduð stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á fjórða kjörtímabili hefði fengið. Hefði hún haldið áfram hefði þar farið lömuð stjórn með varla starfhæfan meirihluta og hver og einn einasti þingmaður hefði getað sagt með þjósti í krísu: "Hér er ég og þetta vil ég fá!". Það hefði verið ólíðandi ástand og ég held að hvorugur flokkurinn hefði getað verið sæll með sig yfir þeirri stöðu. Þetta var óstarfhæft dæmi. Það blasti sífellt betur við eftir því sem leið á vikuna.

Við fáum stjórn með skýrt umboð gangi það eftir sem allt stefnir í. Þarna fara jú þeir flokkar sem njóta stuðnings 2/3 hluta kjósenda. Á Þingvöllum er myndaður grunnur að stjórn þar sem hægt verður að vinna með elju og atorku að leiðarljósi. Eflaust verður horft í aðrar áttir en við sjálfstæðismenn gerðum með Framsóknarflokknum. Það er eðlilegt þegar að nýr grunnur er byggður á öðrum stað að þeir sem vinna vilji gera hlutina með öðrum brag. Síðasta viðreisnarstjórn hafði gott umboð til að horfa til nýrra tíma á öðrum grunni en missti móðinn vegna innanflokksklofnings Alþýðuflokksins sem endaði er á hólminn kom sem harmleikur fyrir alla þá sem voru í þeim flokki við stjórnarmyndun vorið 1991.

Margir framsóknarmenn með formann sinn í fararbroddi hafa í illsku sinni og gremjukasti kennt þessa nýju stjórn sem er í burðarliðnum við Baug. Það er mjög ómerkilegt finnst mér af þeirra hálfu. Þetta er eitthvað sem kom upp úr Guðna Ágústssyni að kvöldi uppstigningardags þegar að hann var hundfúll yfir sinni stöðu. Í illsku sinni kenndu framsóknarmenn sjálfstæðismönnum um að þeir væru að detta af stólum valda og áhrifa. Þeir mega ekki gleyma því að þjóðin kaus þá út. Framsóknarflokkurinn varð fyrir sögulegu áfalli í þessum kosningum - hann þurrkaðist út í Reykjavík og formaður flokksins féll mikla höfnun yfir sig í höfuðstaðnum. Hann hlaut ekki tiltrú kjósenda til að taka sæti á Alþingi. Staða hans er vond.

Ég skil ekki illsku sumra sem í gremjunni nota svona orð. Það er svosem þeirra mál. Það verður þó ekki tekið af þessum flokkum að þeir hafa sterkt umboð. Þegar að stjórnin tekur til valda hefur hún umboð sem skiptir máli að öllu leyti. Þetta er stjórn sem enginn efast um að hafi styrk og kraft til verkanna sem mestu skipta á akrinum. 

Það er mjög viðeigandi að stjórnin nýja verði kennd við Þingvelli. Það er ekki amalegt að vinna gott verk á svo sögufrægum stað og mjög viðeigandi að hún hafi þá góðu tengingu í nafngift.

Bloggfærslur 20. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband