Mun Jón Sigurðsson segja af sér formennsku?

Jón Sigurðsson Hávær orðrómur er nú uppi um að Jón Sigurðsson muni segja af sér formennsku í Framsóknarflokknum á miðstjórnarfundi í júní og hverfa úr stjórnmálum. Staða hans er orðin mjög erfið, allt að því vonlaus. Á næstu dögum missir Jón lyklavöldin að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og með því um leið stöðu sína á stjórnmálasviðinu í ljósi þess að honum mistókst að ná kjöri á Alþingi 12. maí sl.

Framsóknarflokkurinn varð fyrir sögulegu pólitísku áfalli í þessum alþingiskosningum. Mesta áfall hans var hiklaust afhroðið í Reykjavík. Þar þurrkaðist hann út - missti þrjú þingsæti. Leiðtogarnir Jón og Jónína Bjartmarz, fráfarandi umhverfisráðherra, náðu ekki kjöri og þingmennirnir Guðjón Ólafur Jónsson og Sæunn Stefánsdóttir, ritari Framsóknarflokksins, sem tók við þingsæti Halldórs Ásgrímssonar, fyrrum forsætisráðherra og flokksformanns, í september 2006, féllu ennfremur, sem var auðvitað gríðarlegt áfall þar sem þeim var eflaust síðar ætlaður mikilvægur sess í forystu flokksins, sérstaklega Sæunni sem var þegar komin alla leið til forystu en helst inni í lykilkjarnanum enn vegna ritarastöðunnar.

Staða Jóns Sigurðssonar hefði verið allt önnur hefði hann haldið ráðherrastól og verið áfram í fronti innan ríkisstjórnarinnar. Með því hefði hann haft lykilstöðu til að vera virkur þátttakandi í stjórnmálum bæði talsmaður innan þingflokks og í þingumræðum - leiða Framsóknarflokkinn innan þings og hafa alvöru hlutverki að gegna við að byggja flokkinn upp. Með endalokum stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hurfu þær vonir Jóns Sigurðssonar. Þegar að Samfylkingin tekur stöðu Framsóknarflokksins sem samstarfsaðili Sjálfstæðisflokksins missir Jón ekki aðeins lyklavöldin að ráðuneytinu heldur og í senn bæði aðkomu að Stjórnarráðinu og Alþingi Íslendinga.

Það er auðvitað martröð fyrir flokksformann að sitja eftir sem formaður flokks með umboð af æðstu samkundu hans en án hlutverks þess fyrir utan í íslenskum stjórnmálum. Þetta er sá veruleiki sem blasir við Jóni Sigurðssyni núna á næstu dögum. Það er napur veruleiki. Jón Sigurðsson gæti vissulega sem flokksformaður snúið hlutverki sínu við, haldið af velli lykilstjórnmála og verið verkamaður í innra starfinu, leitt innra starfið upp úr öldudalnum og verið frontur þeirrar vinnu, farið um landið, byggt upp grunnvinnu endurreisnar og blásið ferskum vindum í innra starf flokksins sem virðist vera í miklum molum eins og úrslit þingkosninganna báru glögglega vitni.

Það virðist harla ólíklegt að hann vilji halda til þeirra verka, vera í raun flokksformaður en utan mesta sviðsljóss stjórnmála. Sviðsljós íslenskra stjórnmála er það sem gerist innan veggja Alþingis og í ríkisstjórn. Það er ekki öfundsvert að vera flokksformaður í þeirri stöðu að eiga þar engan aðgang, standa eftir eins og ósýnilegur maður með engin áhrif í raun, nema mögulega innan flokksstofnana. Þegar að Geir Hallgrímsson náði ekki kjöri í alþingiskosningunum 1983 sem formaður Sjálfstæðisflokksins og Ólafur Ragnar Grímsson varð formaður Alþýðubandalagsins árið 1987 höfðu þeir aðkomu að þinginu sem varamenn, gátu komist inn. Svo heppinn er Jón Sigurðsson ekki.

Staða Jóns virðist ráðin. Orðrómur um afsögn hans af formannsstóli er orðin hávær og blasir við að örlagastundin nálgist. Talað er um miðstjórnarfund í Framsóknarflokknum innan skamms tíma, væntanlega í júní. Þar er líklegt að dragi til tíðinda. Jón Sigurðsson haldi af velli og yfirgefi stjórnmálin, nákvæmlega ári eftir að hann tók við ráðherraembætti þegar að Halldór Ásgrímsson yfirgaf stjórnmálaforystu á dramatískum blaðamannafundi á Þingvöllum, þeim sama stað sem er nú vettvangur stjórnarmyndunar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það verður kaldhæðnislegt ef svo fer að formennsku Jóns muni ljúka innan við ári eftir að hún hófst.

Að mörgu leyti er ekki hægt annað en kenna í brjósti um Jón í þessari skelfilegu stöðu sem við honum blasir örfáum dögum áður en hann missir lyklavöldin að ráðuneyti sínu. Það er skiljanlegt að hann hafi bognað í þeim þunga og misst stjórn á sér með dæmalausum pistlaskrifum á föstudag. Staða hans er erfið og fyrirfram séð glötuð. Það er skelfilegt að vera formaður flokks án þess að geta í raun haft áhrif út fyrir flokkinn, verið sýnilegur í stjórnmálum. En Jón má vera stoltur af mörgu sem hann gerði. Ég tel að hann hafi eflt flokkinn innan frá en mistekist að efla hann utan frá. Það var við ramman reip að draga.

Jón stóð frammi fyrir fyrirfram glötuðu verkefni og tröllvöxnu. Framsóknarflokkurinn var í rúst eftir misheppnaðan forsætisráðherraferil Halldórs Ásgrímssonar. Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við innan Framsóknarflokksins eftir afsögn Jóns Sigurðssonar. Varaformaður Framsóknarflokksins er Guðni Ágústsson, fráfarandi landbúnaðarráðherra. Í fyrra lagði armur Halldórs Ásgrímssonar langa lykkju á leið sína til að koma í veg fyrir formannskjör hans og hann lympaðist niður til áframhaldandi varaformennsku og lagði Jónínu Bjartmarz í þeim hasar. Siv Friðleifsdóttir fór fram gegn Jóni og tapaði. Fróðlegt væri að sjá landslag stjórnmálanna hefði Siv unnið það kjör.

Það blasir við að sundurlyndi er innan Framsóknarflokksins. Þar eru armar sem enn eru til staðar eftir væringar liðinna ára. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist verði Guðni Ágústsson flokksformaður við afsögn Jóns. Mun Siv leggja til við Guðna, verandi eini þingmaður flokksins á höfuðborgarsvæðinu? Halda væringarnar áfram? Það er það sem margir framsóknarmenn óttast. Sú umræða er hafin nú þegar að formaður Framsóknarflokksins hefur misst hlutverk sitt í íslenskum stjórnmálum og yfirgefur brátt sviðið. Tími átaka í Framsókn er rétt að hefjast. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Egilson

Ætli Framsóknarflokkurinn að ná vopnum sínum verða þeir að byrja innan frá. Jón er ekki sá sízti sem í það veldist, aðeins spurning fyrir hann sjálfan hvort hans góða starfskrafti sé þar með vel valið.
Spurningin er miklu fremur sú hvort hlutverki xB í íslenzkum stjórnmálum er ekki hreinlega lokið. Hann er stórlega klofinn máalefnalega og hefur enga sérstöðu lengur útávið. Í meintri alsælu íslenzkrar tilveru eru menn orðnir svo ótrúlega sammála. Í fimmtungs alvöru væri kannski réttast fyrir xB að mynda sér sérstöðu með því að bjóða bara alls ekki fram í Reykjavík í næstu kosningum og mótmæla þannig meðferðinni sem hann hlaut í vali til Alþingis að þessu sinni.

Þorsteinn Egilson, 20.5.2007 kl. 09:01

2 Smámynd: Viðar Eggertsson

Eftir mikil átök og uppgjör mun Björn Ingi Hrafnsson taka alfarið við Framsóknarflokknum... svo ég einfaldi flókna atburðarás sem er framundan.

Viðar Eggertsson, 20.5.2007 kl. 09:31

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Hef hitt marga Framsóknarmenn og ég verð að hryggja þig Stefán með því að þessi spuni sem þú hefur eftir Agnesi Bragadóttur er alrangur. Ég hef ekki hitt einn einasta mann sem telur að Jón eigi að segja af sér. Framsóknarmenn bera mikið traust til hans og vita að hann er réttsýnn hugsjónamaður sem ber hag flokksins og samfélagsins fyrir brjósti. Rödd hans getur auðveldlega heyrst, en hérna fyrir sunnan er amk komin 21. öldin, svo Alþingistíðindi eru ekki lengur eini fjölmiðill stjórnmálaumræðunnar. Í raun fjölgar þingmönnum Framsóknar á Alþingi núna, erum með 7 í stað 6 áður, sem þurfa ekki sífellt að verja gjörðir ríkisstjórnarinnar, eigin manna og ekki síður gjörðir manna úr öðrum flokkum, yfirlestaðir af nefndarsetum osfrv. Nú er skemmtilegur tími framundan hjá Framsókn.

Gestur Guðjónsson, 20.5.2007 kl. 11:16

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég þekki ekkert til í Framsóknarflokknum en tek undir það með Gesti að það er lítið gefandi fyrir "fréttaskýringar" Agnesar Bragadóttur um pólitík. Gestur kallar það spuna sem hún skrifar um hans flokk og mér þykir það ekki ósennilegt  vegna þess að allt það sem hún hefur hingað til skrifað um Frjálslynda þar sem ég þekki vel til hefur eingöngu verið uppspuniog eða í besta falli hennar eigin heilaspuni.   Jón Sigurðsson tók við erfiðu búi ég þekki til hans persónulega og veit að það er mikið í hann spunnið.  Ég vil að lokum óska framsóknarmönnum til hamingju með árangur Bjarna Harðarssonar sem er með skemmtilegri mönnum á Suðurlandi.

Sigurður Þórðarson, 20.5.2007 kl. 11:59

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Þorsteinn: Já, það er alveg ljóst að Jón er búinn í pólitík nema innan frá í eigin röðum, ekki hefur hann neitt annað platform framundan nema þar.

Viðar: Ekki vafi, tel ég, að Björn Ingi Hrafnsson sé framtíðarleiðtogi Framsóknmarflokksins með einum hætti eða öðrum, altént í landsmálum og mun spila lykilhlutverk í fronti þar í alþingiskosningunum næstu.

Gestur: Ég þekki marga framsóknarmenn. Hér í Norðausturkjördæmi mun fyrr en síðar vakna upp ummæli um að þeir fái meiri sess, enda hélt flokkurinn nokkurn veginn sjó hér á meðan að hann leit í gras á höfuðborgarsvæðinu. Föðurbróðir minn var bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri og ég þekki marga framsóknarmenn. Það er alveg ljóst talandi við það fólk að því líkar ekki við forystu flokksins, sérstaklega eftir þetta afhroð. Jón er orðinn landlaus nema þá inn á við. Staða hans er dauðadæmd, let´s face it. Ég byggi þetta ekkert frekar á Agnesi, ég er sannfærður um að Jón verður farinn fyrir árslok úr formennsku, það er bara raunveruleikinn sem blasir við.

Sigurður: Jón hefði sem þingmaður haft hlutverk, haft tækifæri til að byggja upp með alvöru hætti. Hann náði ekki kjöri. Úr þessu er hann bara biðleikur.

Þrymur: Alveg pottþétt skipti framundan, einfalt mál.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.5.2007 kl. 14:40

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Hvort sem einstökum eða öllum framsóknarmönnum líkar það betur eða verr er það vonlaus staða að vera formaður í alvöru stjórnmálaflokki án launaðs starfs á hinu pólitíska sviði, -eða það sé í það minnsta í sjónmáli. Það getur enginn til lengdar verið slíkur foramður en staðið utan við störf alþingis og auk þess þurft að verja deginum og kröftum sínum við önnur óskyld störf sér til framfærslu.

Þannig að hvernig sem Jóni og Framsóknarflokknum líkar það er vart neinn annar leikur í stöðunni en Jón víki af velli.

Ef menn taka eldri dæmi af foringjum utan þings þá tóku þau Þorsteinn Pálsson og Ingibjörg Sólrún við formennsku varandi utan þings en höfðu ýmsa möguleika framundan á að komast inn sem svo voru nýttir, Þorsteinn varð ráðherra og Ingibjörg settist á þing í stað Bryndísar Hlöðversdóttur. Þá missti Ólafur Ragnar þingsæti sitt sem formaður en varð strax fjármálaráðherra.

Þar sem Framsóknarflokkur á engann þingmann í kjördæmi Jóns er ekki einusinni sá möguleiki til staðar að Jón komi inn í annars stað.

-Reyndar dettur mér í hug þegar ég skrifa þetta að Jón gæti komið í stað launaðs starfsmanns þingflokksins ef Framsóknarmenn kæra sig um það. Það er þó einskonar pólitískt sendlastarf sem langsótt er að formaður af tegund Jóns taki að sér.

- En í það minnsta verður Framsókn að leysa það að Jón hafi launað starf inni á sviðinu til að nokkur maður geti í alvöru verið formaður án þingsætis eða ráðherrastóls, - allir þurfa líka að sjá fyrir sér.

Helgi Jóhann Hauksson, 20.5.2007 kl. 14:46

7 Smámynd: Júlíus Valsson

Mjög góður pistill hjá þér Stefán!
Þó ég sé ekki Framsóknarmaður þá er mér ekki alveg sama um gamla íslenskukennarann minn í MR, Jón Sigurðsson. Stundum fannst mér hann þó vera dálítill monthani en það er bara betra. Það var ekki að ástæðulausu, að hann var valinn formaður Framsóknarflokksins, gleymum því ekki. Ég tel einnig, að á undanförnum dögum hafi hann sýnt dugnað og tekið tapi flokksins með karlmennsku og heiðarleika. Ímynd stjórnmálamannsins skiptir afar miklu máli, og ég held að Jón hafi þarna stimplað sig inn með jákvæðum hætti. Ég held að það væri því ekki skynsamlegt fyrir Framsókn að hafna honum.   

Júlíus Valsson, 20.5.2007 kl. 15:26

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Helgi Jóhann: Alveg sammála þér með framtíð Jóns. Hún er ráðin, það blasir við, en hann hefur mörg önnur tækifæri í stöðunni. Þetta er að mörgu leyti mikill hæfileikamaður en hann er staddur á röngum velli í lífinu. Það er bara þannig. Ég vona að honum gangi vel á öðrum vettvangi.

Þorsteinn Pálsson var reyndar orðinn þingmaður þegar að hann varð formaður Sjálfstæðisflokksins í nóvember 1983. Hann varð þingmaður í kosningunum í apríl 1983 en varð ekki ráðherra um vorið. Geir leiddi Sjálfstæðisflokkinn innan stjórnar um vorið, verandi utan þings, og var ráðherra þar til í janúar 1986. Um tíma veitti Ellert B. Schram, nýr þingmaður Samfylkingarinnar, honum rými eitt starfsárið og hliðraði til fyrir hann. Þorsteinn varð formaður í nóvember 1983 eins og fyrr segir en var formaður utan ríkisstjórnar þó í tvö ár eftir það. Þorsteinn varð fjármálaráðherra í uppstokkun innan flokksins í október 1985. Matthías Á. Mathiesen fór úr stjórn tímabundið en varð utanríkisráðherra í stað Geirs í janúar 1986.

Ólafur Ragnar féll af þingi í kosningunum 1983, var þingmaður 1978-1983 og náði ekki aftur kjöri á Alþingi fyrr en átta árum síðar, í kosningunum 1991. Hann varð flokksformaður í Alþýðubandalaginu 1987, þá utan þings og varð fjármálaráðherra í september 1988. Hann átti semsagt aðeins sæti á Alþingi sem þingmaður í tíu ár samtals, merkilegt nokk, árin 1978-1983 og 1991-1996, þegar að hann var kjörinn eftirmaður Vigdísar Finnbogadóttur á Bessastöðum.

Ingibjörg Sólrún varð flokksformaður í Samfylkingunni í maí 2005. Þá þegar var vitað að hún færi á þing, enda hafði Bryndís tilkynnt sín pólitísku endalok í febrúar 2005 og hún hætti 1. ágúst 2005 á þingi.

Júlíus: Jón er hinn mætasti maður. Staða hans væri allt önnur væri hann alþingismaður fyrir Reykjavík norður eða ráðherra næstu árin. Þá væri enginn að velta þessu fyrir sér. Án þessa er hann í raun landlaus. Það er napur veruleiki fyrir framsóknarmenn en hann blasir þó við og verður æpandi áberandi eftir að hann hefur skilað af sér lyklunum að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.5.2007 kl. 16:40

9 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Gott að fá þessar nákvæmari staðreyndir á hreint - takk! Merkilegt hvað getur skolast til í minninu hjá manni án þess maður átti sig á því. 

kv Helgi J H 

Helgi Jóhann Hauksson, 21.5.2007 kl. 01:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband