Er afhroð Framsóknarflokksins Halldóri að kenna?

Halldór Ásgrímsson Það er að verða ár liðið frá því að Halldór Ásgrímsson tilkynnti um pólitísk endalok sín í kastljósi fjölmiðlanna fyrir framan embættisbústað forsætisráðuneytisins á hinum sögufrægu Þingvöllum. Það er kaldhæðnislegt að nú sé grunnur lagður að nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á sama stað. Miklar sviptingar hafa verið í vikunni. Framsóknarflokkurinn varð fyrir sögulegu áfalli og er á leið í stjórnarandstöðu.

Það væri fróðlegt að vita hver skoðun Halldórs, sem nú er staddur í Kaupmannahöfn, í órafjarlægð frá stjórnmálatilverunni á Íslandi, er á hinum miklu tíðindum vikunnar; endalokum tólf ára stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem unnu saman lengst af með Halldór í forystu flokks síns. Þetta hafa verið vondir dagar fyrir Framsóknarflokkinn að undanförnu. Afhroðið sem kannanir höfðu sýnt æ ofan í æ var ekki umflúið og nú er flokkurinn staddur á krossgötum, verandi á leið í stjórnarandstöðu, eftir að hafa verið í ríkisstjórn nær samfellt frá árinu 1971, ef undan er skilið minnihlutastjórnartímabil Alþýðuflokksins 1979-1980 og Viðeyjarstjórnartímabilið 1991-1995.

Framsóknarflokkurinn var í rúst við endalok stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar og væringar sliguðu stjórnmálaferil leiðtogans er á hólminn kom. Honum var ekki sætt lengur vegna ólgu og hann gafst upp á limminu. Halldór Ásgrímsson var aðalleikari í íslenskum stjórnmálum til fjölda ára - var einn af þeim sem mestu réðu um forystu þjóðarinnar á seinustu áratugum. Hann markaði söguleg pólitísk skref. Það hvernig fjaraði undan honum, í senn miskunnarlaust og kuldalega vægðarlaust, var mjög athyglisvert. Maðurinn sem hafði pálmann í höndunum eftir þingkosningarnar 2003 og gat krafist forsætis út á oddastöðu sína gat ekki nýtt tækifærin og stöðuna.

Það varð að lokum ekki við neitt ráðið. Hann fjaraði út hratt og áberandi. Forætisráðherraferillinn varð sorgarsaga og ekki varð við neitt ráðið. Spunameistararnir klúðruðu meira að segja endalokunum er á hólminn kom. Halldór fór sneyptur af hinu pólitíska sviði. Halldór Ásgrímsson er nú á friðarstóli í Kaupmannahöfn sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Hann horfir á hnignun Framsóknarflokksins og vandræði flokksins úr fjarlægð. Það blandast engum hugur um að Framsóknarflokkurinn er í skelfilegri stöðu. Þar blasir við allsherjar uppstokkun á öllum sviðum, uppbygging frá grunni. Staðan er óneitanlega dökk.

Úrslit kosninganna voru áfellisdómur yfir Halldóri Ásgrímssyni. Flokkurinn hnignaði á lokaspretti hans valdaskeiðs og afhroðið hlýtur að vera eyrnamerkt honum, hinum misheppnaða forsætisráðherraferli sem varð flokknum dýrkeypt er á hólminn kom. Öll innri ólgan og sundrungin sem sliguðu flokkinn er brennimerkt persónu Halldórs Ásgrímssonar. Þó að hann hafi löngu yfirgefið sviðið er ósigurinn andlitsmerktur Halldóri. Þessi staða, sem best birtist með afhroðinu í Reykjavík, var auðvitað mikill banabeygur fyrir Halldórsarminn svokallaða sem nú stjórnar í gegnum Samvinnumanninn trygga Jón Sigurðsson, sem náði ekki kjöri á þing þrátt fyrir mikla baráttu.

Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum. Honum hefur oft tekist að redda sér úr miklum krísum á lokaspretti kosningabaráttu. Það tókst ekki núna. Allar vondu kannanirnar urðu að veruleika - það var kuldalegur veruleiki og það er augljóst að margir framsóknarmenn eiga erfitt með að horfast í augu við þann veruleika. Þjóðin sendi Framsóknarflokknum rauða spjaldið. Það er auðvitað mjög áberandi höfnun sem felst í þessum úrslitum. Hann heldur nú hinsvegar í endurhæfingu, rétt eins og lykilmenn fortíðar í flokknum á borð við Steingrím Hermannsson og Ingvar Gíslason boðuðu með áberandi hætti í fjölmiðlum. Hann byggir sig upp í kyrrþey.

Halldór Ásgrímsson og armur hans innan Framsóknarflokksins lagði langa lykkju á leið sína til að koma í veg fyrir að Guðni Ágústsson, höfðinginn frá Brúnastöðum, tæki flokkinn yfir. Það átti að leggja Guðna með Halldóri. Sú atburðarás fór úr böndunum þegar að Guðni strunsaði argur í bragði frá Þingvöllum eftir blaðamannafundinn fræga. Jón Sigurðsson var sóttur til verka. Valgerður Sverrisdóttir var sett fram fyrir Guðna í lykilráðuneyti, hún fór í utanríkisráðuneytið og Jón varð ráðherra mest áberandi ráðuneytis flokksins á vettvangi innanlands í staðinn.

Jón er í erfiðri stöðu rétt eins og flokkurinn með lamað umboð eftir að hafa verið hafnað í Reykjavík norður með kuldalega áberandi hætti. Hann er á jafn skelfilega vondum bletti á sínum pólitíska ferli og forverinn fyrir ári. En hvað gerist nú, verður Guðni sóttur til forystu þegar að allt er komið á vonarvöl? Það verður skondið að sjá.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón

Athyglisverðar pælingar hjá þér Stebbi.  Ég held því fram að Framsókn sé í andarslitrunum.

Sigurjón, 20.5.2007 kl. 18:55

2 Smámynd: Fannar frá Rifi

Halldórsarmurinn verður að láta af völdum því greinilegt er að hann getur ekki byggt upp flokkinn. Gömlu samvinnumennirnir eru í engum tengslum við Ísland 21. aldarinnar. Þó Guðni sé forn í fari og tali þá er hann samt að mínu mati besta leiðtoga efnið þeirra. Hann er einnig mjög vinsæll og menn bera virðingu fyrir honum.

Venjulega þegar formaður hættir þá tekur varaformaðurinn við. Ef Jón Sigurðsson hættir þá á Guðni að fara upp og berjast um formannsstólinn.  

Fannar frá Rifi, 21.5.2007 kl. 00:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband