Ágúst Ólafur ekki ráðherra - Jóhanna á fornar slóðir

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og SamfylkingarSamfylkingin hefur nú samþykkt stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki og valið ráðherra sína. Mikla athygli vekur að Ágúst Ólafur Ágústsson verður ekki ráðherra þrátt fyrir að vera varaformaður Samfylkingarinnar og hljóta þessi tíðindi að vera gríðarlegt pólitískt áfall fyrir hann. Það hafði vakið mikla athygli að hann var ekki með sömu vigt í stjórnarmyndunarviðræðum og varaformaður Sjálfstæðisflokksins og staðfestist staða hans í þessu vali.

Það eru merkileg tíðindi að Jóhanna Sigurðardóttir snýr aftur í félagsmálaráðuneytið eftir þrettán ára fjarveru, en hún var ráðherra málaflokksins árin 1987-1994, er hún sagði skilið við Alþýðuflokkinn. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti verður nú skipt upp og mun Björgvin G. Sigurðsson verða viðskiptaráðherra og Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, verður iðnaðarráðherra. Merkilegur hluti ráðherrakapalsins er svo auðvitað að mínu mati að Þórunn Sveinbjarnardóttir verður umhverfisráðherra, þrátt fyrir að vera þriðja á lista Samfylkingar í Kraganum og þau sem fyrir ofan hana eru sitja eftir.

Kristján L. Möller, leiðtogi Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, verður nú samgönguráðherra í stað Sturlu Böðvarssonar. Kristján er auðvitað þingmaður okkar hér og hinn vænsti maður. Hann verður eini ráðherra kjördæmisins allavega fyrst í stað. Það er auðvitað mjög afleitt að enginn ráðherra komi frá Sjálfstæðisflokknum í kjördæminu. En ég vil samt sérstaklega óska Kristjáni Möller til hamingju með ráðuneytið og vona að hann muni nú taka til við að efna öll þau fögru fyrirheit sem hann talaði um á mörgum sviðum. Fróðlegt verður reyndar hvort að hann stendur við stóru orðin sín og ríkisvæðir Vaðlaheiðargöngin eins og hann talaði um í vor.

Áfall Ágústs Ólafs er augljóslega mikið. Það hlýtur að gengisfella hann verulega sem stjórnmálamann og varaformann stjórnmálaflokksins að vera ekki einn af sex ráðherrum flokksins og fá t.d. Björgvin fyrir framan sig í dæmið. Þetta eru merkileg tíðindi og greinilegt að pælingar fólks um undarlega stöðu hans í stjórnarmyndunarviðræðum áttu fullkomlega rétt á sér og vel það. Hans staða er ekki beysin eftir þennan dóm sem þessi ráðherrakapall er fyrir hann

En hér er semsagt tillaga formanns Samfylkingarinnar um skipan embætta sem var samþykkt í kvöld:

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra
Kristján L. Möller, samgönguráðherra
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokksformaður


mbl.is Þrjár konur og þrír karlar ráðherrar fyrir Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlaugur Þór ráðherra - Björn áfram í ríkisstjórn

Guðlaugur Þór Þórðarson Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hefur nú samþykkt stjórnarsamstarf með Samfylkingunni í Valhöll. Ráðherralisti Sjálfstæðisflokksins hefur verið kynntur. Björn Bjarnason verður áfram dómsmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson verður fyrsti heilbrigðisráðherrann á vegum flokksins í tvo áratugi. Það er sérstaklega mikið gleðiefni að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti verði nú sameinuð. Það er fyrir löngu kominn tími til. Einar Kristinn Guðfinnsson verður ráðherra nýs ráðuneytis.

Sturla Böðvarsson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, sem verið hefur samgönguráðherra í átta ár, eða frá árinu 1999, missir nú ráðherrastól sinn og verður forseti Alþingis, en samgönguráðuneytið færist nú yfir til Samfylkingarinnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, verður áfram menntamálaráðherra. Það eru auðvitað mikil vonbrigði fyrir okkur sjálfstæðismenn í Norðausturkjördæmi að fá ekki ráðherrastól. Þetta eru mjög vond tíðindi eftir sögulegan kosningasigur hér.

Arnbjörg Sveinsdóttir verður áfram þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og Árni M. Mathiesen verður áfram fjármálaráðherra, sem eru vissulega mjög merkileg tíðindi og staðfesta mjög vel sterka stöðu Árna innan Sjálfstæðisflokksins, en hann leiddi flokkinn til glæsilegs kosningasigurs í Suðurkjördæmi í þessum kosningum. Það eru vissulega vonbrigði að aðeins ein kona sé ráðherra en annað var ekki í spilunum miðað við prófkjörin á vegum flokksins þar sem flokksmenn sjálfir völdu stöðu ráðherraefnanna.

En hér er listinn yfir ráðherra og önnur embætti sem þingflokkurinn gerði tillögu um í kvöld á fundi sínum í Valhöll.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra
Einar Kristinn Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis
Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður


mbl.is Guðlaugur Þór verður heilbrigðisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg Sólrún verður utanríkisráðherra

Ingibjörg Sólrún Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, verður utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem tekur við völdum á fimmtudag. Ingibjörg Sólrún verður önnur konan í íslenskri stjórnmálasögu sem verður utanríkisráðherra. Valgerður Sverrisdóttir, fráfarandi utanríkisráðherra, varð fyrsta konan í embættinu er hún tók við þann 15. júní 2006.

Það þótti alltaf líklegra að Ingibjörg Sólrún yrði utanríkisráðherra í stjórninni. Skv. þessu blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram fjármálaráðuneytinu og verður fróðlegt að sjá hvort að Árni M. Mathiesen gegnir því embætti áfram.

Ráðherrar stjórnarinnar verða valdir í kvöld. Tillögur formanna flokkanna um ráðherraskipan verða tilkynntar eftir fundi æðstu stofnana Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar en þingflokkar þeirra verða að staðfesta það val.

Óbreyttur ráðherrafjöldi - jöfn kynjaskipting Samfó

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Flokksráð Sjálfstæðisflokksins og flokksstjórn Samfylkingarinnar koma saman til að fjalla um stjórnarsáttmála flokkanna eftir nokkra klukkutíma og brátt liggur fyrir hverjir skipi ráðherrasæti í stjórninni. Ljóst er nú að ráðherrafjöldi verður óbreyttur, tólf sæti, líkt og var í fráfarandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Jafnframt er ljóst að jöfn kynjaskipting verður í ráðherraliði Samfylkingarinnar.

Það þarf svosem varla að koma að óvörum sú yfirlýsing Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, að jöfn kynjaskipting verði í þeirra hópi. Hún hafði tekið það fram á flokksfundum í vetur að færi flokkurinn í ríkisstjórn yrðu hlutföll kynjanna jöfn og það eru flokkssamþykktir fyrir því að jöfn kynjaskipting eigi að vera til staðar í þessu tilfelli. Þetta vekur vissulega athygli, en það virðast sömu, eða allavega mjög lík, sjónarmið uppi til þessara mála og var innan Framsóknarflokksins, en þar hafa um nokkuð skeið verið jöfn hlutföll, ef undan er skilinn forsætisráðherraferill Halldórs Ásgrímssonar.

Ég hef persónulega aldrei talað fyrir því að festa þessi hlutföll í sessi. Mér finnst mikilvægt að uppröðun ráðherrasæta eða embætta að öðru leyti eigi ekki að ráðast einvörðungu eftir kynferði. Vissulega er mikilvægt að konur eigi sína fulltrúa, en mér finnast þetta undarleg viðmið sem fest í sessi með þessum hætti. Mér finnst vissulega mjög mikilvægt að konur hafi tækifæri og stuðning til verka. Það er þó ekki eðlilegt að binda þessa stöðu óháð öllum viðmiðum. Konur eiga að hljóta embætti af þessu tagi vegna verðleika sinna og krafts í stjórnmálastarfi en engu öðru. Hafi konur stuðning til verka og ráðherrasetu í þessu tilfelli hafa þær afgerandi stuðning.

Það verður fróðlegt að sjá stöðu mála með kvöldinu. Það virðist ekki hafa náðst samstaða eða sameiginlegur grunnur innan flokkanna um að stokka upp skipan ráðuneyta eða grunnmála Stjórnarráðsins. Hinsvegar hafa einhver verkefni verið færð á milli. Í ljósi þessa er ljóst að stólarnir eru tólf, sex hjá hvorum flokki. Þrjár konur verða ráðherrar innan Samfylkingarinnar og því ljóst að ekki munu allir kjördæmaleiðtogar Samfylkingarinnar, sem flestir voru karlkyns, verða ráðherrar að þessu sinni.

Þetta verður merkilegur kapall sem verður áhugavert að sjá ráðast með kvöldinu.

mbl.is Ingibjörg Sólrún: Skipting kynja í ráðherraembættum jöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Sigurðsson á útleið - orðrómurinn magnast

Jón SigurðssonTilraunir Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, til að slá á orðróminn innan úr Framsóknarflokknum um yfirvofandi afsögn hans af formannsstóli hafa aðeins magnað hann til muna. Það er enda ljóst að þeir fjölmiðlar sem hafa fjallað um þessi tíðindi með áberandi hætti standa við sína umfjöllun, enda með trausta heimildarmenn innan úr innsta hring, og reyndar má segja að umfjöllun Arnars Páls Haukssonar í hádegisfréttum RÚV í dag hafi verið mjög vel unnin sérstaklega.

Það er greinilegt á fréttum að stuðningur við Jón innan þingflokksins er hverfandi og svo virðist vera sem að valdabaráttan sé þegar hafin með þeim spuna sem birtist með umfjöllun Steingríms Sævarrs Ólafssonar, fyrrum aðstoðarmanns Halldórs Ásgrímssonar, í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöld. Það var umfjöllun klárlega byggð á afgerandi heimildum, enda standa þátturinn og ritstjóri hans við umfjöllunina. Þeir eru auk þess fáir sem vilja leggja peningana sína undir að þar sé farið rangt með.

Á morgun missir Jón Sigurðsson ráðherrastól sinn í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu þegar að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tekur formlega við völdum. Með því missir Jón stöðu sína í íslenskum stjórnmálum utan flokksins. Fá dæmi eru fyrir því, sérstaklega í seinni tíð, að flokksformenn leiði flokka sína án hlutverks í stjórnmálum út fyrir flokksstofnanir, með þingsetu eða varaþingmennsku, setu í ríkisstjórn eða í sveitarstjórnum.

Með ríkisstjórnarskiptum stendur Jón aðeins eftir sem flokksformaður og ekki hluti þingflokksins né getur setið þingfundi eftir það. Staða hans er með því ráðin, enda eru stjórnmál dagsins í dag byggð mjög á því að flokksformenn hafi hlutverki að gegna út fyrir flokka sína. Þetta er vissulega vond staða en hún blasir nú við og ekkert sem breytir henni. Jón fórnaði sér að mörgu leyti fyrir flokk sinn í fyrrasumar er hann tók sæti í ríkisstjórn og gaf upp á bátinn seðlabankastjórastöðu.

Það er skiljanlegt að Jón vilji yfirgefa sviðið við þessi þáttaskil og telji rétt að flokkurinn fái annan forystumann, enda er hann í raun utan helstu hringiðu stjórnmálanna með ríkisstjórnarskiptum. Það verður fróðlegt að fylgjast með stöðunni innan Framsóknarflokksins samhliða formannsskiptum innan við ári eftir að Jón tók við formennsku af Halldóri Ásgrímssyni.


Siv kjörin þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Siv Friðleifsdóttir Það kemur ekki að óvörum að heyra af því að Siv Friðleifsdóttir, fráfarandi heilbrigðisráðherra, hafi verið kjörin þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hún hefur auðvitað langa þingreynslu að baki, hefur setið á þingi frá árinu 1995 og verið ráðherra nær samfellt frá 1999. Aðeins Valgerður Sverrisdóttir, fráfarandi utanríkisráðherra, og Guðni Ágústsson, varaformaður flokksins og fráfarandi landbúnaðarráðherra, hafa lengri þingreynslu innan flokksins en Siv.

Á móti kemur að Siv hefur aldrei verið þingmaður í stjórnarandstöðu á sínum þingferli, sem bæði Valgerður og Guðni upplifðu hinsvegar á Viðeyjarstjórnarárunum. Það verða því þáttaskil fyrir hana að verða óbreyttur þingmaður í stjórnarandstöðu þegar að hún missir lyklavöldin í heilbrigðisráðuneytinu á morgun. Hún hefur eins og fyrr segir verið áhrifamikil í stjórnmálum. Hún var mjög virk í starfi þingsins 1995-1999 og varð umhverfisráðherra vorið 1999 en missti þann stól í hrókeringunum sem fylgdu dýrkeyptri forsætisráðherratign Halldórs Ásgrímssonar. Hún varð svo aftur ráðherra árið 2006 eftir að hafa verið formaður þingnefnda um skeið.

Siv er auðvitað í mjög sterkri stöðu að mörgu leyti innan flokksins, þó varla verði talað um sterka stöðu svosem heilt yfir þegar að Framsóknarflokkurinn á í hlut þessa dagana. Hún er nú skyndilega orðin eini þingmaður Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu, en flokkurinn missti þrjú af fjórum þingsætum sínum á svæðinu í kosningunum 12. maí. Það er öllum ljóst að flokkurinn er í molum á þessu svæði, en Siv má teljast heppin að hafa náð aftur naumlega inn á þing með maísólinni að morgni eftir kjördag.

Það eru spennandi tímar innan Framsóknarflokksins. Varla eru þeir þó gleðilegir. Formaðurinn er á útleið á næstu dögum og enn einn forystuhasar framundan. Það verður ekki síðra átakasumar um völdin innan flokksins þetta sumarið en var í fyrrasumar, þegar að Halldór steig niður af sínum stalli. Nú er flokkurinn hinsvegar valdalaus í landsmálum og lamaður að mjög mörgu leyti. Algjör naflaskoðun og grunnendurskoðun blasir þar við.

Siv stefnir eflaust á lykilstöðu í þeim forystukapal. Það verður fróðlegt hvort að þingflokksformennskan verði henni einhver stökkpallur í þeim efnum.

mbl.is Siv kjörin formaður þingflokks Framsóknarflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingvallastjórnin tekur við völdum á fimmtudag

Geir og Ingibjörg Sólrún Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tekur við völdum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á fimmtudagsmorgun. Vinna við stjórnarmyndun er á lokastigi og hafa Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir rætt einslega við þingmenn flokka sinna í morgun. Flokksráð Sjálfstæðisflokksins og flokksstjórn Samfylkingarinnar hafa verið boðuð til fundar í kvöld og því ljóst á allri stöðu mála að flokkarnir hafi náð samkomulagi.

Mikil uppstokkun verður samhliða stjórnarskiptum. Framsóknarflokkurinn er að fara í stjórnarandstöðu í þriðja skiptið á 36 ára tímabili, en hann sat í stjórn 1971-1979, 1980-1991 og frá 1995. Það stefnir því í mikla uppstokkun. Það er ennfremur sögulega athyglisvert að meginpólar til hægri og vinstri vinni saman sem hin stóra samsteypa. Þetta er mjög öflugur ríkisstjórnarkostur. Þetta er enda stjórn með mikinn stuðning og um leið mikið umboð frá landsmönnum til verka.

Það verður áhugavert að sjá hverjir verði ráðherrar í nýrri ríkisstjórn, en fyrir liggur að ákvörðun um það verði kynnt á þingflokksfundum að loknum flokksfundum í kvöld.

mbl.is Formenn ræða við þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundur boðaður í flokksráði Sjálfstæðisflokksins

Fundur hefur nú verið boðaður í flokksráði Sjálfstæðisflokksins í kvöld kl. 19:00 í Valhöll að Háaleitisbraut 1 í Reykjavík. Þar mun verða tekin afstaða til nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég sit í flokksráði Sjálfstæðisflokksins og hef því fengið fundarboð. Það blasir því við að ný ríkisstjórn taki við á næstu dögum og vinna við myndun stjórnar sé á lokastigi og lokafrágangur standi nú yfir.

Það hefur tekið skamman tíma að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Aðeins örfáir dagar eru liðnir frá því að Geir H. Haarde fékk umboð til myndunar meirihlutastjórnar og dagarnir sem síðan hafa liðið hafa verið vel nýttir til verka.


Bloggfærslur 22. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband