Jón Sigurðsson á útleið - orðrómurinn magnast

Jón SigurðssonTilraunir Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, til að slá á orðróminn innan úr Framsóknarflokknum um yfirvofandi afsögn hans af formannsstóli hafa aðeins magnað hann til muna. Það er enda ljóst að þeir fjölmiðlar sem hafa fjallað um þessi tíðindi með áberandi hætti standa við sína umfjöllun, enda með trausta heimildarmenn innan úr innsta hring, og reyndar má segja að umfjöllun Arnars Páls Haukssonar í hádegisfréttum RÚV í dag hafi verið mjög vel unnin sérstaklega.

Það er greinilegt á fréttum að stuðningur við Jón innan þingflokksins er hverfandi og svo virðist vera sem að valdabaráttan sé þegar hafin með þeim spuna sem birtist með umfjöllun Steingríms Sævarrs Ólafssonar, fyrrum aðstoðarmanns Halldórs Ásgrímssonar, í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöld. Það var umfjöllun klárlega byggð á afgerandi heimildum, enda standa þátturinn og ritstjóri hans við umfjöllunina. Þeir eru auk þess fáir sem vilja leggja peningana sína undir að þar sé farið rangt með.

Á morgun missir Jón Sigurðsson ráðherrastól sinn í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu þegar að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tekur formlega við völdum. Með því missir Jón stöðu sína í íslenskum stjórnmálum utan flokksins. Fá dæmi eru fyrir því, sérstaklega í seinni tíð, að flokksformenn leiði flokka sína án hlutverks í stjórnmálum út fyrir flokksstofnanir, með þingsetu eða varaþingmennsku, setu í ríkisstjórn eða í sveitarstjórnum.

Með ríkisstjórnarskiptum stendur Jón aðeins eftir sem flokksformaður og ekki hluti þingflokksins né getur setið þingfundi eftir það. Staða hans er með því ráðin, enda eru stjórnmál dagsins í dag byggð mjög á því að flokksformenn hafi hlutverki að gegna út fyrir flokka sína. Þetta er vissulega vond staða en hún blasir nú við og ekkert sem breytir henni. Jón fórnaði sér að mörgu leyti fyrir flokk sinn í fyrrasumar er hann tók sæti í ríkisstjórn og gaf upp á bátinn seðlabankastjórastöðu.

Það er skiljanlegt að Jón vilji yfirgefa sviðið við þessi þáttaskil og telji rétt að flokkurinn fái annan forystumann, enda er hann í raun utan helstu hringiðu stjórnmálanna með ríkisstjórnarskiptum. Það verður fróðlegt að fylgjast með stöðunni innan Framsóknarflokksins samhliða formannsskiptum innan við ári eftir að Jón tók við formennsku af Halldóri Ásgrímssyni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll Stebbi. Ertu nokkuð að fara í Krossferð um Jón og Flokkinn?

Ég segi nú bara svona. Ástríða þín á okkur er orðin furðu mikil...

Kveðja norður,

Sveinn Hjörtur , 22.5.2007 kl. 16:28

2 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Gleymdi. HÉR er mynd sem þú mátt nota þegar þú birtir Jón. Þessi er svo flott finnst þér ekki?

Sveinn Hjörtur , 22.5.2007 kl. 16:32

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Heill og sæll Sveinn

Ég fjalla um stjórnmál hér. Þetta er mjög mikið í umræðunni og fer ekki minnkandi eftir umfjöllun Denna í Íslandi í dag, sem virtist vera lokastaðfesting á þessum málum vegna innanbúðartengsla hans yfir í vissan hluta valdakjarnans í Framsóknarflokknum. Þetta verður mikið rætt á næstunni, sérstaklega eftir ríkisstjórnarskiptin.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.5.2007 kl. 16:33

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir það Svenni.

Ég vil annars að það komi fram hér að ég tel Jón Sigurðsson heiðarlegan, vandaðan og traustan mann. Sögulegur kosningaósigur Framsóknarflokksins þann 12. maí sl. var ekki ósigur Jóns Sigurðssonar, þetta var ósigur Halldórs Ásgrímssonar að mínu mati. Áfellisdómur yfir sundrungunni sem einkenndi lokasprett valdaferils Halldórs innan ríkisstjórnar og Framsóknarflokksins. Það er einfalt mál.

Hver svo sem framtíð Jóns verður er ég þess fullviss að honum séu allir vegir færir að loknu stjórnmálastarfi. Meginhluti ævi hans hefur verið á öðrum vettvangi og það fer gott orðspor af honum, enda maður sem hefur alltaf lagt sig allan fram og unnið vel. Hann fórnaði sér flokkinn sinn, sem var aðdáunarvert góðverk af hans hálfu í þeirri vondu stöðu sem flokkurinn var í við afsögn Halldórs.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.5.2007 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband