Hvað verður um Sturlu Böðvarsson eftir tvö ár?

Sturla Böðvarsson Sturla Böðvarsson tekur við embætti forseta Alþingis á fimmtudag. Það blasir þó við að hann muni aðeins gegna embættinu í tvö ár og þá muni þingmaður Samfylkingarinnar taka við, skv. samkomulagi við myndun ríkisstjórnar. Það er því ekki óeðlilegt að spurningar vakni hvað verði um Sturlu haustið 2009, hvort að hann verði óbreyttur þingmaður eða hljóti annað verkefni.

Það blasir við að ráðherraferli Sturlu er lokið og hann hefur ekki möguleika til að taka sæti í ríkisstjórn á þeim þáttaskilum nema þá að einhver af ráðherrum stjórnarinnar rými til fyrir honum. Ekki eru miklar líkur á að hann fari þangað aftur. Það virðist ekki líklegt í stöðunni nema þá að til hafi komið einhver flétta við myndun stjórnarinnar. Það bendir ekkert til þess að svo sé.

Eftir tvö ár hefur Sturla Böðvarsson verið alþingismaður í heil 18 ár. Hann var ráðherra samgöngumála í átta ár og tekur nú við forsetastöðunni sem er almennt metið sem ráðherraígildi. Það er að margra mati álitið endastöð stjórnmálanna fyrir flesta, eins og ég vék að hér fyrr í dag. Það er harla ósennilegt að Sturla vilji verða óbreyttur þingmaður árið 2009.

Það vakti athygli margra að á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á fimmtudag, þar sem Sturla lét formlega af ráðherraembætti, sagði hann aðspurður um framtíðina að fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að verða atvinnulaus - hann væri viss um að þá fengi hann stöðu sem myndi duga sér best. Þetta voru mjög opin orð og gáfu margt í skyn og gerðu fátt annað en auka spurningamerkin í stöðunni.

Fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi er Herdís Þórðardóttir, mágkona Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. Það er ekki ósennilegt að Herdís taki sæti á Alþingi við vistaskipti Sturlu, en þá verður hann að fá verkefni við hæfi, að eigin sögn. Þetta voru að mínu mati skilaboð um það að Sturla vill fá krefjandi verkefni í stöðunni sem þá blasir við. Ég get ekki ímyndað mér að í því felist óskir um að vera óbreyttur alþingismaður.

Eftir tvö ár verður Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri, sjötugur. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hver muni taka við af honum eftir tvö ár. Það er varla furða að nafn Sturlu beri á góma, en þar eru svo sannarlega verkefni sem Sturla hefur áhuga á að sinna - þar eru líka málefni sem skipta Norðvesturkjördæmi miklu máli.

Mun Jóhanna afsala sér ráðherrabílnum?

Jóhanna Sigurðardóttir Það vakti mikla athygli þegar að Jóhanna Sigurðardóttir afsalaði sér ráðherrabíl sínum og bílstjóra þegar að hún varð félagsmálaráðherra í júlí 1987. Fram að því hafði ekki tíðkast að ráðherrar afþökkuðu þessi þægindi embættisins og þótti þessi ákvörðun þriðju konunnar sem settist á ráðherrastól í stjórnmálasögu landsins því mjög athyglisverð. Þau sjö ár sem Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra var hún því á sínum einkabíl og án bílstjóra.

Nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir aftur tekið sæti í ríkisstjórn, eftir þrettán ára fjarveru. Það er að margra mati mikið pólitískt afrek fyrir Jóhönnu eftir allt sem á undan er gengið og fjöldi fólks talar um að tími Jóhönnu sé kominn aftur. Er það ekki undrunarefni, enda hefur Jóhanna gengið í gegnum margt á þessum árum. Sundrungin innan Alþýðuflokksins markaði endalok ráðherraferils hennar og ekki síður Jóns Baldvins og kratanna. En nú eru aðrir tímar.

Það verður athyglisvert að sjá hvort að Jóhanna Sigurðardóttir muni afsala sér ráðherrabílnum og bílstjóranum og gerir hið sama og hún gerði er hún var síðast ráðherra.

Verður Shimon Peres næsti forseti Ísraels?

Shimon Peres Flest bendir nú til þess að Shimon Peres, fyrrum forsætisráðherra Ísraels, verði næsti forseti Ísraels. Ísraelska þingið kýs forseta þann 13. júní nk. en þá lýkur kjörtímabili hins umdeilda Moshe Katsav, sem hefur verið umdeildur vegna hneykslismála. Kadima-flokkurinn hefur nú tilnefnt Peres sem forsetaefni sitt í kosningunni og búast má við að hann fái stuðning úr öðrum áttum líka. Peres sóttist eftir forsetaembættinu árið 2000 en varð þá undir í kosningu fyrir Moshe Katsav.

Peres, sem er kominn vel á níræðisaldur, er einn af lykilmönnum ísraelskra stjórnmála á 20. öld og var í áratugi áhrifamaður innan ísraelska Verkamannaflokksins. Peres sagði skilið við Verkamannaflokkinn í ársbyrjun 2006, eftir að hafa tapað fyrir Amir Peretz í leiðtogakjöri. Hann fylkti þá liði með fyrrum pólitískum andstæðingi sínum, Ariel Sharon, og stofnaði með honum Kadima-flokkinn og hefur verið aðstoðarforsætisráðherra Ísraels í nafni hans frá vorinu 2006.

Það hefur hinsvegar lengi háð Peres að honum tókst aldrei að leiða Verkamannaflokkinn til sigurs í þingkosningum. Hann hefur verið forsætisráðherra Ísraels þrisvar en alltaf tapað stólnum svo í kosningum. Hann var forsætisráðherra 1976-1977, 1984-1986 og að lokum 1995-1996. Hann tók í síðasta skiptið við embættinu eftir morðið á Yitzhak Rabin í nóvember 1995. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels með Yasser Arafat og Rabin árið 1994, í kjölfar sögulegs friðarsamkomulags, sem síðar rann út í sandinn. Hann nýtur virðingar um allan heim fyrir þau verk sín.

Árið 1993 kom Shimon Peres, þá utanríkisráðherra Ísraels, í opinbera heimsókn hingað. Í mótmælaskyni við Peres og ísraelsk stjórnvöld afþökkuðu forystumenn þáverandi stjórnarandstöðuflokka, meðal þeirra voru Ólafur Ragnar Grímsson, núv. forseti Íslands, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, núv. utanríkisráðherra, að sitja kvöldverðarboð Davíðs Oddssonar, þáv. forsætisráðherra, honum til heiðurs. Mánuði eftir heimsókn Peres tókust sögulegar sættir milli Ísraela og Palestínumanna, eftir umfangsmiklar samningaviðræður í Noregi.

Það var ógleymanlegt samkomulag, innsiglað með frægu handabandi Rabin og Arafat í Washington. Það vakti athygli fyrir nokkrum mánuðum að sami Ólafur Ragnar og vildi ekki hitta Shimon Peres árið 1993 hitti Ehud Barak, einn eftirmanna Peres sem leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Ísraels. Kaldhæðnislegt þótti það miðað við söguna.

Það kannski færi svo yrði Shimon Peres kjörinn forseti Ísraels á næstunni að hann kæmi hingað í opinbera heimsókn til mannsins sem ekki vildi sitja til borðs með honum í veislu fyrir einum og hálfum áratug?

mbl.is Peres útnefndur sem forsetaframbjóðandi Kadima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjóflóð í Hlíðarfjalli - ótrúlegt.... en satt

Hlíðarfjall Ég verð að viðurkenna að fyrstu viðbrögð mín þegar að ég heyrði af snjóflóði upp í Hlíðarfjalli voru að það gæti ekki verið. Það var enda ekki undarlegt, enda var þá gott veður í bænum og ég var nýkominn í afmælisveislu til Hönnu systur úr langri gönguferð í því sem ég taldi mikla blíðu og yndislegan sumardag eftir kuldatíð undanfarinna daga.

Það er þó auðvitað ljóst að þarna er meiri snjór en ég hafði áttað mig á. Hér í bænum er algjörlega snjólaust. Þegar að saman fer veður af því tagi sem verið hefur að undanförnu getur illa farið og snjóflóðamyndun hafist. Það er auðvitað hin mesta mildi að allt fór vel og þeir sjömenningar sem lentu í snjóflóðinu sluppu án teljandi meiðsla.

En þetta er áminning til fólks um að fara varlega upp í fjalli.

mbl.is Sjö manns lentu í snjóflóðinu í Hlíðarfjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarflokkarnir skiptast á þingforsetastöðunni

Alþingi Eins og fram hefur komið hafa Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ákveðið að skipta embætti forseta Alþingis á milli sín á kjörtímabilinu. Fyrstu tvö ár kjörtímabilsins verður Sturla Böðvarsson, fyrrum samgönguráðherra, forseti Alþingis en Samfylkingin hlýtur embættið haustið 2009 og er orðrómur um að Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, verði þá forseti Alþingis og endi stjórnmálaferil sinn í því hlutverki.

Það eru merkileg tímamót að flokkar skipti embætti forseta Alþingis á milli sín. Það hefur þó áður verið tilkynnt við upphaf kjörtímabils að tveir skipti með sér embættinu en það þá verið innan eins flokks. Í upphafi síðasta kjörtímabils var Halldór Blöndal kjörinn áfram þingforseti en fyrir lá ákvörðun þingflokks Sjálfstæðisflokksins að Sólveig Pétursdóttir tæki við af honum um mitt tímabilið. Formlega hafa stjórnarflokkarnir reyndar ekki enn kynnt opinberlega þessa ákvörðun eða staðfest hana, en það hefur þó komið fram í fréttum að þetta hafi verið hluti samkomulags flokkanna um embætti.

Fram til þessa hefur flokkurinn sem fær forsetaembættið ráðstafað því samhliða ráðherrakapal sínum eftir alþingiskosningar. Með því hefur kristallast að embætti forseta Alþingis er í raun ráðherraígildi. Þingforsetinn hefur enda veglega skrifstofu í þinghúsinu, vel mannað starfslið, embættisbifreið og bílstjóra og öll þau þægindi sem ráðherra hefur í raun. Þrátt fyrir það hefur embættið fengið á sig blæ pólitískra endaloka og þeir sem taka við fundastjórn þingsins og gegna sáttasemjarahlutverki þar taldir komnir á pólitísk leiðarlok. Þannig hefur það verið um þingforseta alla tíð síðan að Salome Þorkelsdóttir varð þingforseti árið 1991.

Það verður fróðlegt að sjá þennan kapal. Enn er því ósvarað hver verði velferðarráðherra þegar að Jóhanna Sigurðardóttir verður forseti Alþingis og hvort að Sturla Böðvarsson verði óbreyttur þingmaður haustið 2009 eða ákveði að söðla um og halda í rólegheit eftirlaunanna eða nýtt verkefni utan stjórnmála. Orðrómur er um að Katrín Júlíusdóttir eða Steinunn Valdís Óskarsdóttir verði eftirmenn Jóhönnu, en sjálf hefur Jóhanna reyndar ekkert viljað gefa út um það hvort hún verði þingforseti, enda henni varla heppilegt við upphaf nýs ráðherraferils, sem markar upphaf endurkomu hennar í æðstu valdastóla.

Merkilegasti hluti þessa er þó sú staðreynd að tilkynnt sé fyrir þingatkvæðagreiðslu hver verði þingforseti. Með þessu hefur eðli kosningarinnar breyst til muna og embættið afgreitt sem hver annar ráðherrastóll í kapal flokksformanna við að manna stöður innan flokkanna, þar sem allir vilja verða ráðherrar en ekki allir fá það sem þeir vilja.

Bloggfærslur 28. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband