Stjórnarflokkarnir skiptast á þingforsetastöðunni

Alþingi Eins og fram hefur komið hafa Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ákveðið að skipta embætti forseta Alþingis á milli sín á kjörtímabilinu. Fyrstu tvö ár kjörtímabilsins verður Sturla Böðvarsson, fyrrum samgönguráðherra, forseti Alþingis en Samfylkingin hlýtur embættið haustið 2009 og er orðrómur um að Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, verði þá forseti Alþingis og endi stjórnmálaferil sinn í því hlutverki.

Það eru merkileg tímamót að flokkar skipti embætti forseta Alþingis á milli sín. Það hefur þó áður verið tilkynnt við upphaf kjörtímabils að tveir skipti með sér embættinu en það þá verið innan eins flokks. Í upphafi síðasta kjörtímabils var Halldór Blöndal kjörinn áfram þingforseti en fyrir lá ákvörðun þingflokks Sjálfstæðisflokksins að Sólveig Pétursdóttir tæki við af honum um mitt tímabilið. Formlega hafa stjórnarflokkarnir reyndar ekki enn kynnt opinberlega þessa ákvörðun eða staðfest hana, en það hefur þó komið fram í fréttum að þetta hafi verið hluti samkomulags flokkanna um embætti.

Fram til þessa hefur flokkurinn sem fær forsetaembættið ráðstafað því samhliða ráðherrakapal sínum eftir alþingiskosningar. Með því hefur kristallast að embætti forseta Alþingis er í raun ráðherraígildi. Þingforsetinn hefur enda veglega skrifstofu í þinghúsinu, vel mannað starfslið, embættisbifreið og bílstjóra og öll þau þægindi sem ráðherra hefur í raun. Þrátt fyrir það hefur embættið fengið á sig blæ pólitískra endaloka og þeir sem taka við fundastjórn þingsins og gegna sáttasemjarahlutverki þar taldir komnir á pólitísk leiðarlok. Þannig hefur það verið um þingforseta alla tíð síðan að Salome Þorkelsdóttir varð þingforseti árið 1991.

Það verður fróðlegt að sjá þennan kapal. Enn er því ósvarað hver verði velferðarráðherra þegar að Jóhanna Sigurðardóttir verður forseti Alþingis og hvort að Sturla Böðvarsson verði óbreyttur þingmaður haustið 2009 eða ákveði að söðla um og halda í rólegheit eftirlaunanna eða nýtt verkefni utan stjórnmála. Orðrómur er um að Katrín Júlíusdóttir eða Steinunn Valdís Óskarsdóttir verði eftirmenn Jóhönnu, en sjálf hefur Jóhanna reyndar ekkert viljað gefa út um það hvort hún verði þingforseti, enda henni varla heppilegt við upphaf nýs ráðherraferils, sem markar upphaf endurkomu hennar í æðstu valdastóla.

Merkilegasti hluti þessa er þó sú staðreynd að tilkynnt sé fyrir þingatkvæðagreiðslu hver verði þingforseti. Með þessu hefur eðli kosningarinnar breyst til muna og embættið afgreitt sem hver annar ráðherrastóll í kapal flokksformanna við að manna stöður innan flokkanna, þar sem allir vilja verða ráðherrar en ekki allir fá það sem þeir vilja.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband