Einar og Ingibjörg Sólrún ósammála um hvalveiðar

Ingibjörg Sólrún Það er greinilegt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, og Einar Kristinn Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, eru algjörlega ósammála um hvalveiðar Íslendinga eins og fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þar töluðu þau hvort í sína áttina. Það blasir við að Samfylkingin heldur fast við andstöðu sína við hvalveiðarnar, en hún kom vel fram síðasta vetur er fráfarandi ríkisstjórn opnaði á þær.

Hvalveiðarnar voru svosem ekki stærsta málið í stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar en það blasti þó alltaf við að fylgst yrði með því hver yrði afstaða nýrrar ríkisstjórnar í þeim efnum. Það er nú að koma vel fram að afstaða flokkanna er óbreytt og því auðvitað spurt hvort verði ofan á, að halda fast við hvalveiðar áfram eða salta þær. Það er auðvitað alveg ljóst að hvalveiðarnar sem fór fram í fyrra skiluðu engan veginn þeim árangri sem að var stefnt. Þær ollu miklum vonbrigðum og skoðanir voru mjög skiptar um þær.

Í dag sendu nítján evrópskar ferðaskrifstofur Geir H. Haarde, forsætisráðherra, bréf þar sem þær lýstu yfir formlegum áhyggjum sínum af áhrifum hvalveiða á ferðamannastraum til landsins. Bréfið er sent í tengslum við fund Alþjóðahvalveiðiráðsins sem nú stendur yfir í Alaska. Þar munu væntanlega ráðast næstu skref málsins. Ef marka má afgerandi ummæli Ingibjargar Sólrúnar í kvöld má telja nokkuð öruggt að hvalveiðar við Ísland séu úr sögunni. Þessi ummæli verða enn meira áberandi eftir viðtal við Einar Kristinn á Sky í dag þar sem hann talar enn fyrir sömu skoðunum.

Það verður fróðlegt að sjá hvort þeirra verði ofan á í málinu. Ekki er hægt að tala báðum röddum af hálfu þessarar ríkisstjórnar öllu lengur að mínu mati. Það blasir við að taka verði afgerandi ákvörðun. Persónulega var ég fylgjandi hvalveiðum en ég verð að viðurkenna að efasemdir mínar í garð þeirra hafa aukist til muna eftir veiðarnar í vetur sem skiluðu fjarri því þeim árangri sem að var stefnt. Það verður að hugleiða vel hvort við séum ekki að fórna meiri hagsmunum fyrir minni í þeim efnum.

mbl.is Japanar segjast ekki hætta við áform um hnúfubakaveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn og Ingibjörg Sólrún sitja saman í þinginu

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar Mikið hefur verið rætt og ritað um það síðustu dagana að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sitji hlið við hlið á fundum ríkisstjórnar. Þar ræður engin tilviljun eins og bent hefur verið á og er það þeim eflaust ný upplifun að vinna saman sem samherjar og vera sessunautar á fundum ríkisstjórnar.

Ekki munu þau þó aðeins sitja saman í Stjórnarráðinu á ríkisstjórnarfundum heldur verða þau ennfremur sessunautar í þingsalnum frá og með þingsetningu á fimmtudag. Björn hefur setið lengst allra núverandi ráðherra í ríkisstjórn og situr því við hlið forsætisráðherra og formanns hins stjórnarflokksins, rétt eins og var á síðasta þingi, þegar að Björn sat við hlið Jóns Sigurðssonar, fyrrum formanns Framsóknarflokksins.

Það er svo sannarlega ekki tilviljun hvar ráðherrar sitja í þingsalnum og þar ræður allt í senn lengd ráðherrasetunnar, hvaða ráðuneyti ráðherrann stýrir, staða ráðherrans innan flokkanna, þingreynsla og aldur. Þannig að það er engin tilviljun hvernig þeim málum er uppraðað. Það verður áhugavert að sjá þau Björn og Ingibjörgu Sólrúnu hlið við hlið í þingstarfinu. Þau hafa lengi unnið á sama vettvangi en aldrei verið samherjar fyrr en nú. Það verður fróðlegt að fylgjast með því samstarfi.

Ummæli um samkynhneigð Stubbana afturkölluð

Stubbarnir Ekki kemur það nú að óvörum að hinn pólski umboðsmaður barna hafi dregið til baka umdeild ummæli sín um samkynhneigðar tengingar í Stubbana margfrægu. Þessi ummæli fóru held ég víðar en umboðsmaðurinn átti von á og vakti heimsathygli. Reyndar gekk þessi kona í sömu átt og sjónvarpspredikarinn nýlátni Jerry Falwell, sem lét orð í þessa átt falla fyrir sjö til átta árum að mig minnir. Þeim höfðu flestir gleymt held ég þegar að hin pólska tjáði sig.

Mér skilst að þessi umboðsmaður barna hafi reyndar gengið svo langt að tala um að biðja sálfræðinga að rannsaka hvort Stubbarnir ýttu undir samkynhneigð. Í dag er semsagt komið allt annað hljóð í strokkinn og eitthvað sem segir mér að pólskir forystumenn stjórnmálanna hafi tekið snarlega fram fyrir hendurnar á umboðsmanninum til að drepa umræðuna sem vakti heimsathygli.

Ég skrifaði aðeins um þetta í dag. Svosem litlu við það að bæta. Heilt yfir er þetta frekar hlægileg umræða finnst mér. Flestir líta held ég á Stubbana sem saklaust barnaefni, þó eflaust geti einhver sem horfir smátt á hlutina séð eitthvað sem aðrir sjá ekki.

mbl.is Umboðsmaður barna í Póllandi dregur ummæli sín um Stubbana tilbaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skeytasendingar milli Íslands í dag og Kastljóss

Þórhallur GunnarssonHvassyrtar skeytasendingar ganga nú á milli Steingríms Sævarrs Ólafssonar, ritstjóra Íslands í dag á Stöð 2, og Þórhalls Gunnarssonar, ritstjóra Kastljóss, um vinnubrögð hjá Ríkisútvarpinu. Steingrímur sakaði á vef sínum í dag Þórhall sem ritstjóra Kastljóss og dagskrármála Ríkissjónvarpsins um að standa í hótunum við fólk. Þórhallur hefur svarað fullum hálsi í fjölmiðlum nú eftir hádegið og segir skrif Steingríms vera tilhæfulaus með öllu.

Þetta eru mjög merkileg skot sem ganga þarna á milli. Steingrímur Sævarr ítrekar orð sín eftir ummæli Þórhalls og þarna er stál í stál og hvorugur gefur eftir. Það er skiljanlegt að það sé kalt á milli aðila, enda eru þetta þættir í samkeppni um áhorf. Þeir eru þó ekki á nákvæmlega sama tíma en dekka báðir tímann fyrir og eftir kvöldfréttatíma stöðvanna á milli sjö og átta. Það er auðvitað ekkert nýtt að tekist sé á um viðmælendur en þetta er nokkuð nýtt sjónarhorn að yfirmaður annars þáttarins beri það á borð að viðmælendum sé beinlínis hótað.

Það er ólíklegt að Steingrímur Sævarr og Þórhallur verði sammála um þessi mál. Það er þó greinilegt að harkan milli þáttanna er að aukast og ekki við því að búast að friðarandi sé þar á milli, en þetta er þó ansi hörð deila sýnist manni.


Áberandi tímamót í íslensku viðskiptalífi

Straumur-Burðarás Það er ekki hægt að segja annað en að íslenskt viðskiptalíf sé að verða alþjóðlegt. Ráðning William Fall, fyrrverandi forstjóra Alþjóðasviðs Bank of America, sem forstjóra Straums-Burðaráss markar áberandi tímamót í viðskiptalífinu hérlendis. Alþjóðlegi blærinn leynir sér ekki. Það eru auðvitað nokkur þáttaskil að maður af þessu kalíberi taki við íslenskum fjárfestingabanka.

Þetta er augljóslega mikill fengur fyrir bankann, enda er þetta maður með umtalsverða reynslu og greinilega mjög fær á sínu sviði. Ég man ekki til þess að erlendur maður hafi áður stýrt íslensku fyrirtæki af þessu tagi. Þetta er því nýr kafli sem er að opnast í íslensku viðskiptalífi og gott sýnishorn á það hversu alþjóðlegur bransinn er orðinn.

mbl.is Ráðning nýs forstjóra Straums-Burðaráss sögð marka tímamót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegur árangur

Það er gleðilegt að lesa fréttir af svona góðum árangri stúdenta við skólann sinn. Það er ánægjulegt að vita að metin í skólunum falla enn, þó að mörkin hækki sífellt nær upp í hæsta skalann. Um daginn sá ég frétt um stelpu sem var að mig minnir í Kvennaskólanum sem hlaut 10, hvorki meira né minna, í heildareinkunn. Þetta er glæsilegur árangur.

Rósa Björk þessi sem fréttin er um er að ég held dóttir Þórólfs Árnasonar, forstjóra og fyrrum borgarstjóra. Þannig að ekki á hún langt að sækja það að vera snjöll. Það er alltaf gaman af svona fréttum og vita að alltaf hækka mörkin og alltaf getur snilldin verið meiri en þeirra sem setja mörkin áður. Gaman til þess að vita að æska landsins er það klár.

mbl.is Með hæstu einkunn í sögu MH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrælöfugt barnaefni

Teletubbies Það er ekki hægt annað en að hlæja að ummælum hins pólska umboðsmanns barna um að barnaþættirnir um Stubbana séu að ýta undir samkynhneigð. Finnst þetta álíka fyndið og þegar að Guðbjörg Hildur Kolbeins sá klám í stellingu stelpunnar framan á Smáralindarbæklingnum á meðan að flestir sáu sárasaklausa uppstillingu í raun og veru. Það má svosem eflaust alltaf fá jafnvitlausa útkomu á hlutina og hugur manns segir eða sjá eitthvað annað en allir aðrir.

En samt sem áður finnst mér þetta nú svona frekar kostulegt allt saman. Þetta hefur í mínum augum alltaf verið barnaefni og ég hef ekki það suddalega sýn á lífið og tilveruna að sjá vísbendingar um samkynhneigð í þessum þáttum, það litla sem ég hef vissulega séð til þeirra. Öll höfum við eflaust okkar sjónarhorn á þætti af þessu tagi, en ég held að flestir hafi gapað af undrun yfir þessum ummælum. Enda hafa þau hlotið mikla umfjöllun að því er virðist um allan heim eftir því.

Ég efast um að krakkar sem horfa á þessa þætti skaðist andlega af áhorfinu og ennfremur efast ég um að þau fari að íhuga samkynhneigð yfir þættinum, sem stendur í eitthvað um 20-25 mínútur að ég held. Heilt yfir er þetta bara fyndin umræða finnst mér. Þetta hefur þó fengið þónokkra umfjöllun um allan heim. Í umfjöllun á vef BBC er vel fjallað um meginatriðin.

Heilt yfir finnst mér þetta þó eins og fyrr segir jafnfáránlegt og Smáralindarblaðsumræðan fyrir nokkrum mánuðum og efast um að þessir þættir verði merktir sem þrælöfugt barnaefni.

mbl.is Pólsk yfirvöld rannsaka hvort Stubbarnir séu samkynhneigðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband