6.5.2007 | 20:21
Kristján Þór vill stjórnarsamstarf með Samfylkingu

Þessar skoðanir eru í takt við ummæli Kristjáns Þórs á borgarafundi Stöðvar 2, 4. apríl sl, um að þjóðin sé að kalla eftir breytingum í stjórnarsamstarfi vegna vondrar stöðu Framsóknarflokksins. Í raun þurfa þessi ummæli varla að koma að óvörum enda er Sjálfstæðisflokkurinn hér á Akureyri í meirihlutasamstarfi með Samfylkingunni. Kristján Þór var bæjarstjóri á Akureyri í sjö mánuði með stuðningi bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar eins og flestum er kunnugt.
Þessi afstaða vekur athygli vissulega á lokaspretti kosningabaráttunnar. Þetta ómar í takt við skoðanir Halldórs Blöndals, fráfarandi kjördæmaleiðtoga okkar, sem sagði á súpufundi á Dalvík rétt fyrir kosningarnar 2003 að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að horfa til samstarfs með VG félli stjórnin í þeim kosningum. Þessi ummæli á Dalvík að þessu sinni eru greinilega sterkari í umræðunni. Það er skiljanlegt svosem að Dalvíkingurinn Kristján Þór vilji tala skýrt til síns fólks.
Stóri dómurinn á það hvað gerist þó verður á laugardaginn. Fyrst og fremst verður fylgst með því hvort að ríkisstjórnin haldi velli. Kannanir benda mun sterkar til þess nú en á lokasprettinum vorið 2003 að hún haldi velli. Staða hennar virðist vera traustari nú en þá. Falli stjórnin koma aðrir kostir upp á borðið. Á það ber þó að minnast að það þarf ekki að þýða áframhaldandi samstarf þó stjórnin haldi. Árin 1991 og 1995 héldu ríkisstjórnir velli en þeim var ekki haldið áfram, enda studdust þær við naumasta mögulega meirihluta, 32 þingsæti.
En örlögin ráðast á laugardaginn með dómi þjóðarinnar. Það gerist ekki á fundi á Dalvík, þó að allar pólitískar pælingar skipti jú alltaf máli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.5.2007 | 19:00
Nicolas Sarkozy kjörinn forseti Frakklands
Nicolas Sarkozy, fyrrum innanríkisráðherra Frakklands, hefur verið kjörinn forseti Frakklands. Hann tekur við embættinu og lyklavöldum í Elysée-höll af Jacques Chirac í næstu viku, fimmtudaginn 17. maí nk. Sigur Sarkozys var nokkuð afgerandi, hann hlaut rúmlega 53% atkvæða en Segolene Royal, frambjóðandi sósíalista, hlaut tæp 47% atkvæða.
Sigur Sarkozy hefur verið í kortunum mánuðum saman. Hann hlaut rúmlega 30% í fyrri umferð forsetakosninganna 22. apríl sl. og leiddi í öllum könnunum á þeim tveim vikum sem síðan hafa birst. Hann hefur verið með forskot á Segolene Royal er spurt hefur verið um afstöðu til þeirra beggja allt frá því í janúar.
Nicolas Sarkozy verður fyrsti forseti Frakklands sem fæddur er eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Hann fæddist í París þann 28. janúar 1955. Nicolas Sarkozy hefur tekið þátt í stjórnmálum allt frá unglingsárum. Hann hefur unnið sig hægt og rólega upp í pólitísku starfi á hægrivængnum frá ungliðastarfinu. Sarkozy var innanríkisráðherra Frakklands 2002-2004 og 2005-2007 og fjármálaráðherra Frakklands 2004-2005. Hann hefur leitt UMP-blokk hægrimanna frá árinu 2004.
Sarkozy fær sterkt umboð til valda. Kjörsókn í þessum forsetakosningum var hin mesta frá árinu 1965 er Charles De Gaulle var kjörinn í síðasta skiptið á litríkum stjórnmálaferli. Nicolas Sarkozy tekur við völdum í Elysée-höll á bylgju mikils stuðnings. Hann er þó mjög umdeildur stjórnmálamaður og hefur ekki hikað við að stuða á löngum ferli. Þingkosningar fara fram í næsta mánuði í Frakklandi - þar verður fyrsta prófraun Sarkozy á forsetastóli.
![]() |
Samkvæmt útgönguspám í Frakklandi fær Sarkozy 52-55% atkvæða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.5.2007 | 17:59
Veikindi Ólafs Ragnars

Það er ekki óeðlilegt að ætla miðað við aðstæður að um ofþreytu sé að ræða. Ekki virðist vera um hjartveikikvilla að ræða og fréttatilkynningar gefa ekki til kynna að hann hafi fengið áfall af einhverju tagi. Um ónot virðist vera að ræða og mikil þreytuviðbrögð. Væntanlega verður meira fjallað um þetta eftir að forsetinn hefur undirgengist einhverjar rannsóknir.
Ég sendi Ólafi Ragnari góðar kveðjur og óskir um góðan bata.
![]() |
Forsetinn við góða heilsu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2007 | 17:18
Norðausturkjördæmi

Norðausturkjördæmi nær frá Siglufjarðarkaupstað í norðri til Djúpavogshrepps í austri og er víðfeðmasta kjördæmi landsins. Norðausturkjördæmi var myndað í kjördæmabreytingunni árið 2000 úr tveim kjördæmum; Norðurlandskjördæmi eystra og Austurlandskjördæmi.
Eina breytingin var þó sú að Siglufjörður og nærsveitir sem áður tilheyrðu Norðurlandskjördæmi vestra færðist yfir í Norðausturkjördæmi og Hornafjörður og nærsveitir sem áður tilheyrðu Austurlandskjördæmi færðust yfir í Suðurkjördæmi.
Á kjörtímabilinu hafa þingmenn kjördæmisins verið 10 talsins; níu kjördæmasæti og eitt jöfnunarsæti. Svo verður áfram eftir kosningarnar 12. maí nk.
Umfjöllun um Norðausturkjördæmi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.5.2007 | 15:27
Vænleg staða Sjálfstæðisflokksins - Jón ekki inni

Samfylkingin stendur þónokkuð fjarri kjörfylginu í Reykjavík norður vorið 2003, en þá varð flokkurinn sjónarmun stærri en Sjálfstæðisflokkurinn en fáir hafa átt von á að þeir næðu að halda velli. Fylgi VG er greinilega að síga þessa dagana og sést það vel á kjördæmakönnunum sem sýna flokkinn mun lægri en hann lengi vel var í kosningabaráttunni. Þetta sést líka vel í Fréttablaðskönnun í dag. Frjálslyndir og Íslandshreyfingin eru nokkuð frá því að ná inn manni. Þar berjast hin fornu frjálslyndu skötuhjú Magnús Þór og Margrét harðri baráttu.
Sjálfstæðisflokkurinn: 40,4% (35,5%)
Samfylkingin 26,3% (35,8%)
VG: 17,8% (9,7%)
Framsóknarflokkurinn: 7% (11,6%)
Frjálslyndi flokkurinn: 4,9% (5,5%)
Íslandshreyfingin: 3,6%
Þingmenn skv. könnun
Guðlaugur Þór Þórðarson (Sjálfstæðisflokki)
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Pétur H. Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson
Sigríður Ásthildur Andersen
Össur Skarphéðinsson (Samfylkingu)
Jóhanna Sigurðardóttir
Helgi Hjörvar
Katrín Jakobsdóttir (VG)
Árni Þór Sigurðsson
Fallnir skv. könnun
Magnús Þór Hafsteinsson
Guðjón Ólafur Jónsson
Það er auðvitað athyglisverðast að sjá enn og aftur vonda stöðu Framsóknarflokksins í Reykjavík. Jón Sigurðsson mælist enn utan þings, en er þó greinilega að bæta við sig á lokasprettinum miðað við aðrar kjördæmakannanir. Það eru mikil tíðindi að formaður Framsóknarflokksins standi jafnilla og raun ber vitni. Þetta hefur þó gerst áður. Kosningabaráttan 2003 var erfið í Reykjavík fyrir Halldór Ásgrímsson, sem lengst af baráttunni mældist ekki inni. Honum tókst með ævintýralegri lokasveiflu að fara inn við annan mann. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer nú.
Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig kjördæmakjörnum þingmanni í Reykjavík norður og er yfir 40% markinu, vel yfir kjörfylginu 2003, er Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra, leiddi flokkinn þar í sinni síðustu kosningabaráttu. Barist er fyrir því að tryggja stöðu Sigríðar Ásthildar Andersen - skv. þessari mælingu er hún nokkuð vel trygg inn. Óvíst er um hverjir yrðu jöfnunarmenn en skipting þeirra verður enn meira spennandi nái minnstu flokkarnir ekki kjördæmakjöri. En þetta er vissulega mjög góð staða fyrir sjálfstæðismenn, enda með ferskan lista. Ungur en reyndur stjórnmálamaður leiðir listann og þar eru tvær öflugar kjarnakonur í mikilvægum sætum.
Samfylkingin er að missa talsvert fylgi frá kosningunum 2003, en ég held að fáir hafi átt von á að flokkurinn næði jafngóðri kosningu og þá. Þarna eru kjördæmaleiðtogar flokksins í borginni; Össur og Jóhanna, efst á lista og með Helga Hjörvar og Steinunni Valdísi í næstu sætum. Það er greinilegt að Samfylkingin er farin að ná aftur til sín kvennafylginu sem þau voru farin að missa með svo áberandi hætti. Enda er greinilegt á vali Jóhönnu í kjördæmaþáttinn að það á að reyna að tala kvennafylgið í þessa átt með áberandi hætti. Talið um Steinunni segir líka sitt.
VG bætir við sig mjög miklu fylgi frá þingkosningunum 2003, en hefur lækkað skv. nýlegum kjördæmakönnunum eins og víða um land. Þarna mælist Árni Þór Sigurðsson inni sem kjördæmakjörinn, en gæti orðið mjög tæp í þeirri stöðu sem hefur sýnt sig vel síðustu dagana. Það er líka mjög afgerandi ljóst að VG er að taka af Framsókn. Vinstrafylgið sem hefur verið hjá Framsókn þarna er greinilega að fara yfir til Katrínar og hennar fólks. Það gæti farið svo að þetta yrði slagur milli Jóns og Árna Þórs um kjördæmasæti.
Frjálslyndir missa nokkuð fylgi frá síðustu kosningum. Magnús Þór Hafsteinsson virðist kolfallinn í þessari mælingu og virðist vera að missa fylgi á lokasprettinum. Margréti Sverrisdóttur gengur ekkert greinilega með Íslandshreyfinguna í því sem átti að vera besta kjördæmi flokksins. Það verða stórtíðindi ef hin fornu frjálslyndu skötuhjú slá hvort annað út eins og mælingin sýnir klárlega æ ofan í æ.
Þetta er athyglisverð staða í borginni vissulega. Þarna virðist allt geta gerst í raun hvað varðar tæpustu sætin en vond staða Framsóknar vekur mesta athygli. Það verða stórtíðindi fari úrslit á þennan veg og Jón nái ekki inn, þó líkur á kjöri hans aukist við hverja könnun. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer.
Það eru aðeins sex dagar til kosninga og spennandi lokasprettur framundan síðustu sólarhringana í baráttunni.
![]() |
Gallupkönnun: Formaður Framsóknar nær ekki kjöri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2007 | 14:16
Hver verður næsti forseti Frakklands?

Sarkozy vann sigur í fyrri umferðinni, þann 22. apríl, með rúmlega 30% atkvæða en Royal hlaut rúm 25%. Næst þeim varð miðjumaðurinn Francois Bayrou með tæp 20%. Þjóðernisöfgamaðurinn Jean-Marie Le Pen sem komst óvænt í seinni umferð forsetakosninganna 2002 fékk rúm 11% þá. Kjörsókn í þessari fyrri umferð forsetakosninganna var hin mesta frá forsetakosningunum 1974, er Valery Giscard d´Estaing var kjörinn eftirmaður Georges Pompidou.
Flestir hafa í gegnum þessa kosningabaráttu talið að þetta yrði einvígi Sarkozy og Royal. Fjölmiðlar í Frakklandi hafa allt frá vorinu 2006 talað um forsetakosningarnar 2007 sem Sarko-Sego kosningar. Þau eru hefðbundnar andstæður vinstri og hægri og því eru valkostirnir eins afgerandi og þeir geta í raun orðið fyrir franska kjósendur. Þungu fargi var létt af sósíalistum við úrslit fyrri umferðarinnar, þó að Sarkozy hafi unnið Royal, enda óttuðust margir að eins færi fyrir Royal og Lionel Jospin vorið 2002 er hann var sleginn harkalega út af taflborði franskra stjórnmála í einu höggi er hann tapaði mjög óvænt.
Þessar kosningar marka endalok litríks stjórnmálaferils Jacques Chirac, forseta Frakklands, sem hefur verið lykilspilari í frönskum stjórnmálum í áratugi og verið áberandi þar allt frá valdadögum stríðskempunnar Charles De Gaulle. Það verður fróðlegt hver úrslit verða í dag - einu kappræður kosningabaráttunnar fóru fram í vikunni. Þar missti Royal stjórn á sér í garð Sarkozy, en það funaði á milli þeirra. Kannanir hafa sýnt mjög vel að bilið breikkaði milli Sarko og Sego eftir kappræðurnar.
Forseti Frakklands er einn af lykilleikmönnum stjórnmálanna, bæði innan Evrópusambandsins og á alheimsvísu, enda einn valdamesti stjórnmálamaður heims. Það verður fylgst vel með því hvort að hægri- eða vinstribylgja verður í Frakklandi í dag er nýr húsbóndi í Elysée-höll verður kjörinn.
Það hefst nýr tími í frönskum stjórnmálum í dag hvernig sem fer. Nýr forseti verður fyrsti franski þjóðhöfðinginn fæddur eftir seinni heimsstyrjöldina og verður því leiðtogi nýrra tíma nú þegar að Jacques Chirac hættir.
![]() |
Sego eða Sarko? Vinstri eða hægri? Vinna eða velferð? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.5.2007 | 02:26
Viðbrögð framsóknarmanna við Jónínumálsskrifum

Það eru auðvitað misjafnar skoðanir á skrifunum, enda varla við öðru að búast. Ég held að þessi vefur væri ekki spennandi ef allir sem hér koma inn væru sammála hverju orði. Met það mikils þó að heyra í fólki um skrifin, þetta mál og svo bara varðandi kosningarnar. Fæ miklu meiri komment en bara hér á vefnum. Það er alltaf gaman að lesa tölvupóst frá þeim sem lesa. Þeir sem eru ósammála senda oft ágætis línu, stundum koma miður skemmtileg komment frá nafnlausum en flestir eru kurteisir og málefnalegir.
Persónulega tel ég að mjög margir hafi verið mun hvassari í skrifum um þetta Jónínumál en ég. Vissulega hef ég skrifað um það nokkrar færslur og velt upp álitaefnum og óhikað haft á því skoðanir, enda hví ekki? Við lifum í samfélagi skoðana, fólk er að blogga allan daginn til að hugsa um það sem er að gerast, koma skoðunum niður á blað fyrir sig og þá sem vilja líta í heimsókn. Þegar að ég byrjaði að blogga skrifaði ég bara fyrir mig og nokkra félaga sem höfðu gaman af að lesa. Lesendahópurinn hefur stækkað talsvert. Ég hef þó ekkert breyst.
Ég skrifa þegar að ég finn hjá mér þörf að gera það. Stundum skrifa ég mikið, stundum lítið. Stundum skrifa ég hikandi til að pæla mig áfram í málinu, stundum með hvöss og afgerandi skrif. Þó koma þau öll frá hjartanu, enda á maður að skrifa sé maður sannfærður um hvað sé rétt. Ég hef aldrei verið halelúja-maður fyrir einn flokk eða einhvern einn mann. Það er enginn fullkominn í þessum heimi. Sjálfur þoli ég ekki þá sem verja sinn flokk algjörlega út í dauðann. Það er mikilvægt að þora að vera gagnrýninn, meira að segja á garðinn sinn.
Þannig skrifa ég og þannig verður þetta bara. Það gildir það sama um þetta Jónínumál eins og skrifin um veðrið á Akureyri. Vilji ég skrifa og telji þörf á að koma einhverri skoðun frá mér kemur hún bara. Svo fæ ég bara viðbrögð. Eina sem ég vil er málefnalegt spjall um skrifin. Sjálfur hef ég alla tíð vanið mig á að vera málefnalegur og reyna að skrifa með þeim forsendum um öll mál. Og ætlast ekki til annars en að þeir sem svari geti verið málefnalegir líka.
Þeir sem hafa eitthvað að segja en vilja ekki segja það hér geta óhikað haft samband. Það er alltaf gaman að kynnast góðu fólki með skoðanir. Það er líka stóri kosturinn við þennan vettvang að maður kynnist alltaf nýju fólki og böndin við góða vini sem lesa verða alltaf traustari. Það er engin skylda hér að vera sammála um allt.
Jónínumálið er bara eitt þeirra mála sem þarf að skrifa um í dagsins önn og það gerum við svo mörg, held að ég hafi hvorki verið orðhvatastur í þeim efnum eða svosem hógværastur - en mitt á milli einhversstaðar, en það er þá bara gott að fá viðbrögð þeirra sem lesa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)