18.6.2007 | 20:39
Litið bakvið tjöldin - er vændi á dansstöðunum?
Dægurmálaþættirnir hafa vakið umræðu um þessa umdeildu dansstaði sem eðlilegt er eftir umfjöllunina í Ísafold, þar sem sjónum var beint að Geira og Goldfinger. Væntanlega heldur sú umfjöllun áfram í næsta blaði þar ef marka má umfjöllun þeirra feðga Reynis og Jóns Trausta. Talað er jafnvel um að fleiri myndir birtist af heimsókn Gunnars Birgissonar á staðinn.
Ekki fylgdi sögunni hvaða staður þetta var sem Ísland í dag tók fyrir. Hinsvegar er alveg ljóst að meira er að gerast á þessum stöðum en látið er líta út fyrir ef marka má allavega þetta myndbrot sem kemur með athyglisvert sjónarhorn á veruleikann sem í gangi er. Kannski þetta verði heitasta umræðan í sumar. Hver veit.
Klippan úr Íslandi í dag
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.6.2007 | 19:50
Blair á útleið - nýjir tímar í breskum stjórnmálum
Um miðja næstu viku mun Tony Blair láta af embætti sem forsætisráðherra Bretlands og halda til annarra verkefna. Á sunnudaginn mun kjöri Gordon Brown sem eftirmanns hans á leiðtogastóli verða lýst formlega og tilkynnt hver verði varaleiðtogi flokksins. Sex þingmenn Verkamannaflokksins berjast um varaleiðtogastöðuna en aðeins Brown sækist eftir leiðtogastöðunni og er því sjálfkjörinn og bíður því aðeins eftir að taka við af Blair á næstu dögum.
Brotthvarf Tony Blair úr breskum stjórnmálum marka krossgötur í pólitíska landslaginu þar. Blair hefur verið einn valdamesti stjórnmálamaður heims í áratug og ríkt yfir flokknum í þrettán ár og eiginlega átt sviðið í breskum stjórnmálum frá kosningasigrinum 1997, er Íhaldsflokkurinn varð fyrir skaðlegum kosningaósigri, þeim mesta í sögu hans. Biðin eftir valdaskiptum í Bretlandi er þrátt fyrir það orðin löng. Frá árinu 2004 hefur verið ljóst að Blair færi ekki fram í fjórða skiptið í forystu flokksins og því hefur staðið langur biðleikur um völdin þar, sem hefur verið flokknum erfiður.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig að Gordon Brown markar sér völdin í Bretlandi þegar að Blair hefur loksins yfirgefið valdastólana og látið eftirmanninum sviðið eftir. Tony Blair og Gordon Brown hafa alla tíð verið mjög ólíkir stjórnmálamenn, þó þeir hafi lengi unnið saman og verið hið mikla tvíeyki valdanna frá kosningasigrinum 1997. Lengst af hefur samstarf þeirra verið markað af undirliggjandi fjandskap og metingi bakvið tjöldin. Það yfirbragð hefur markað bresk stjórnmál í ein sex til sjö ár hið minnsta og hefur aukist sífellt eftir því sem leið frá og Brown sýndi augljós merki þess að taka við valdataumunum.
Það er að sannast sífellt betur þessa síðustu daga stjórnmálaferils Blairs að Íraksmálið verður hans helsta pólitíska grafskrift, það sem hans verður helst minnst fyrir. Að því var varla stefnt fyrir nokkrum árum. En svo mun fara. Það mál hefur fylgt hefur eftir eins og skugginn í yfir fjögur ár. Flestir töldu reyndar sumarið 2003 og um haustið það ár að það myndi kosta hann embættið, en svo fór ekki. En það dró svo mjög máttinn úr honum að hann breyttist úr sigursælum stjórnmálamanni í mann sem hægt og hljótt þurrkaðist út.
Væntanlega mun Tony Blair nú taka að sér fyrirlestra og ferðalög um heiminn þar sem hann fer yfir stjórnmálaferilinn og verður álitsgjafi um málin í sviðsljósinu. Ekki ósvipað Bill Clinton, sem hefur á nokkrum árum breyst úr stjórnmálamanni í farandfyrirlesara með ákveðið pólitískt hjarta. Ekki kæmi svo að óvörum þó að Blair myndi leggjast bráðlega í það verkefni að skrásetja æviminningar sínar, sem margir hafa eflaust áhuga á.
Gordon Brown hefur mánuðum saman talið dagana og vikurnar þar til að Blair yfirgæfi hið pólitíska svið. Nú eru þáttaskil handan við hornið og hans pólitíska tækifæri blasir við. Hann ætlar sér að vinna í kosningunum 2009. Skoðanakannanir sýna að landsmenn líta á hann sem slitinn fulltrúa liðins valdatíma. Verkefni hans verður ærið frá og með þeirri stund er hann fær umboð drottningar.
18.6.2007 | 17:29
Skiljanleg gagnrýni Sturlu á kvótakerfið
Gagnrýni Sturlu Böðvarssonar, forseta Alþingis, á kvótakerfið í hátíðarræðu á Ísafirði hefur vakið mikla athygli. Segja má að hún hafi yfirskyggt þjóðhátíðarræðu forsætisráðherrans á Austurvelli í gær. Það er ekki óeðlilegt. Sjávarútvegsmál skipta byggðir landsins miklu máli og það vekur alltaf athygli þegar að talað er hreint út um málin. Skoðun Sturlu á kvótakerfinu vekja vissulega mikla athygli, enda fer þar einn af leiðtogum Sjálfstæðisflokksins á landsbyggðinni.
Mér finnst gagnrýni Sturlu á stöðu mála skiljanleg. Staðan á Vestfjörðum talar sínu máli, og reyndar víða um landið. Það er eðlilegt að velta stöðu mála fyrir sér og setja skoðanir sínar afgerandi fram. Það þarf varla að koma að óvörum að leiðtogi flokksins í kjördæmi sem hefur orðið fyrir hverju áfallinu á eftir öðru efist um stöðu kerfisins og komi fram með afgerandi ummæli í þeim efnum. Kvótakerfið fær mjög afgerandi einkunn hjá Sturlu og er gagnrýni hans mikil tímamót og markar viss þáttaskil, enda hefur umfjöllun um ræðuna sýnt það vel.
Ég hef tekið eftir því að sumir sem fjalla um ræðuna telja ástæður gagnrýni hans að finna í því að hann varð ekki ráðherra en þess í stað forseti Alþingis. Það tel ég ekki vera, mér finnst þetta eðlilegt mat og hugleiðingar stjórnmálamanns á þessu svæði. Svipað talar Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Það væri reyndar fróðlegt að heyra skoðun Einars Kristins Guðfinnssonar, sjávarútvegsráðherra, á þessari ræðu, en Einar Kristinn er nú eini ráðherra Norðvesturkjördæmis. Það verður hans að tilkynna á næstu dögum um fiskveiðikvóta næsta árs eftir svarta skýrslu frá Hafró.
Persónulega hef ég frekar verið fylgjandi kvótakerfinu en andvígur. Hinsvegar eru afgerandi agnúar á því kerfi. Þeir hafa verið að koma fram mjög vel að undanförnu. Það verður að stokka þetta kerfi upp að mínu mati. Að vissu leyti tek ég því undir gagnrýni Sturlu og hugleiðingar hans.
![]() |
Sturla: Kvótakerfið hefur mistekist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.6.2007 | 16:31
200 ára afmælis Jóns forseta minnst árið 2011

Það er ánægjulegt að halda eigi vel upp á afmæli Jóns. Hann var sjálfstæðishetja þjóðarinnar. Án hugsjónar hans, hugrekkis og framsýni hefðum við orðið mun fátækari að öllu leyti. Enda er hans framlags minnst með áberandi hætti, afmælisdagur hans varð þjóðhátíðardagur Íslands og hann sjálfur er því auðvitað í lykilhlutverki á þessum degi.
Ég fagna því að Sólveig Pétursdóttir, fyrrum forseti Alþingis, stýri þessari nefnd. Hún hefur leitt starf þingsins og unnið lengi á vettvangi stjórnmála. Þau tengsl koma að góðum notum við skipulag þeirra verkefna sem fylgja þessu nefndastarfi við að minnast ævi og verka Jóns Sigurðssonar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2007 | 14:27
Mikil mildi að ekki fór illa á Sæbraut
Það vekur mikla athygli að nú þegar að árið er næstum hálfnað hafa aðeins tveir látið lífið í umferðinni. Á þessum tímapunkti fyrir ári höfðu sjö eða átta látist. Júlí varð reyndar mjög vondur mánuður í umferðinni á síðasta ári. Svo er jafnan og því erfitt um að segja hvort að við sleppum algjörlega við stórslys í sumar, en vonandi mun svo fara auðvitað.
![]() |
Umferðarslys á Sæbraut |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.6.2007 | 12:07
Mun Eiður Smári fara til West Ham?

Eiður Smári fór nýlega á sölulistann hjá Barcelona ásamt sjö leikmönnum öðrum. Aðeins ár er liðið frá því að Eiður Smári samdi við Barcelona til þriggja ára og yfirgaf Chelsea, eftir sigursæla tíð þar, en hann skrifaði þar undir samninga 14. júní 2006.
Hlutirnir eru jafnan ekki lengi að breytast í þessum bransa. Það verður fróðlegt að sjá hvert að Eiður Smári muni fara gangi salan eftir. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Eggert Magnússon nær Eiði Smára í sitt lið. Honum er eflaust mikilvægt að styrkja liðið til muna fyrir næstu leiktíð.
![]() |
Býður West Ham 12 milljónir punda í Eið Smára? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2007 | 10:38
Hættir Alfreð Gíslason sem landsliðsþjálfari?

Alli hefur unnið gott verk með landsliðið. Á því leikur enginn vafi. Liðinu gekk mun betur en mörgum óraði fyrir á HM í Þýskalandi í janúar og farseðillinn á EM er tryggður. Þetta voru lykilmarkmið og við getum litið brosandi til þeirra, þó eflaust hefðum við viljað spila um medalíu í Þýskalandi. En samt sem áður, góð niðurstaða sem við gátum vel sætt okkur við. Niðurstaða sem jafnvel var betri en spár bjartsýnustu manna vikurnar á undan.
Alli er einn öflugasti handknattleiksmaður Íslands á 20. öld og varð íþróttamaður ársins 1989, á hátindi atvinnumannaferils síns. Alli Gísla hóf feril sinn hér heima á Akureyri með KA og spilaði þar til að hann hélt út. Hann kom aftur heim er atvinnumannaferlinum erlendis lauk árið 1991 og varð þjálfari KA í handbolta og leiddi liðið til bikarmeistara- og Íslandsmeistaratitils áður en hann hélt til Þýskalands í þjálfun. Hann veit hvað þarf til að sigla rétta leið og þekkir sigurtilfinningu sem leikmaður og þjálfari.
Við þurfum á honum að halda áfram áfram, að mínu mati, og vonandi mun hann ljá máls á þjálfun liðsins áfram. En kannski hefst leitin af þjálfara von bráðar. Hver veit?
![]() |
Mér leið alveg skelfilega á lokakaflanum" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.6.2007 | 02:30
Um Chaplin og þögla meistaraverkið hans
Sir Charlie Chaplin var eitt af stórmennum kvikmyndasögunnar á 20. öld. Látlaus en tilþrifamikill látbragðsleikur hans gerði hann að stórstjörnu og hann skipaði sér í sess með stærstu kvikmyndastjörnum þöglu myndanna. Síðar varð hann áhrifamikil stjarna í talmyndunum og markaði sér sess á nýjum forsendum. Ég á allar kvikmyndir Chaplins og hef unnað þeim öllum allt frá því að ég mat kvikmyndir sem þá miklu og ómetanlegu listgrein sem hún er.
Að mínu mati er Chaplin sá leikari þöglu myndanna sem best náði að gera talmyndirnar að sínu listformi. Það var ekki öllum leikurum þögla tímans gefið að ná inn í nýtt form og gera það að því listformi sem við ætti fyrir þá. Það gat Chaplin og hann gat framlengt vinsældir sínar og áhrif innan kvikmyndaheimsins með því. Af því leiðir auðvitað að kvikmyndaverk hans fyrir og eftir lok þögla tímans eru ómetanleg stórvirki kvikmyndasögunnar.
Chaplin kom til sögunnar í kvikmyndum sem hinn þögli flækingur sem lenti í röð tilvika sem hann réði ekki við en tókst á hendur. Bestu kvikmyndir ferilsins eru þær fyrstu að mínu mati. Það er auðvitað með ólíkindum hvernig þessi frábæri leikari talar til áhorfandans án orða og með látbragði. Best kemur þetta fram í kvikmyndunum City Lights, Gold Rush og The Kid. Allar eru þessar myndir gulls ígildi í kvikmyndasögunni og mörkuðu stöðu Charlie Chaplin sem leikara og frægð hans.
Best þessara hefur mér jafnan þótt The Kid. Það er eitthvað við látleysi hennar sem heillar mig alltaf mjög mikið. Fyrir nokkrum árum keypti ég The Kid á DVD - með fylgdi ómetanlegt aukaefni og tónlistin sem Chaplin samdi árið 1971 og er ómetanleg viðbót við myndina, þrátt fyrir að aðeins séu tæpir fjórir áratugir frá því að hann var bætti við. Chaplin var mjög liðtækur í að semja tónlist við myndir sínar síðar meir og hafa mörg kvikmyndatónverk hans hlotið mikla frægð.
Lagið Smile er sennilega hans besta tónsmíð. Það er lag sem algjörlega heillar alla sem heyrir. Það heyrðist fyrst í kvikmyndinni Modern Times árið 1936, en var þá án texta. Textinn fyllti upp í tónverkið með brilljans. Af kvikmyndatónunum er auðvitað tónlistin í The Kid algjörlega í sérflokki. Það er reyndar með ólíkindum að myndin hafi án tónlistarinnar verið í allan þennan tíma. Það er öllum ljóst að The Kid færði Chaplin frægðina. Hún er fyrsta stórmyndin hans.
Myndin segir sögu flækingsins sem fyrir tilviljun finnur kornabarn, sem varð viðskila við móður sína, á víðavangi. Hann fóstrar barnið sem sitt eigið væri en að því kemur að leiðir hans og móðurinnar liggja saman. Það er erfitt að lýsa þessari sögu með einfaldleika þó ekkert orð sé sagt í henni. Samleikur Chaplin og Jackie Coogan er frábær. Coogan átti leik ferilsins sem strákurinn en andstæðurnar á hans ferli voru miklar og lék hann undir lok ferilsins Fester frænda í Addams-fjölskyldunni.
Það var mjög notalegt seint að kvöldi 17. júní að rifja upp kynnin af þessum Chaplin-kvikmyndagullmola. Þessi mynd er og verður ein þeirra bestu í kvikmyndasögu 20. aldarinnar. Í senn markaði hún upphaf frægðarferils Charlie Chaplin og sýnir okkur að flóknar sögur þarf ekki að segja með orðum. Þær geta lýst sig sjálfar algjörlega með látbragðsleiknum einum saman. Ég hef lengi stúderað feril og ævi Chaplins, sem lést þrem dögum eftir fæðingu mína, á jóladag 1977.
Það er öllum ljóst sem kynna sér Sir Charlie Chaplin að æviferill hans var vafinn undarlegum blæ og persónan var mörgum hulin til fulls. Það þarf að mínu mati að lesa ævisögu hans og kynna sér líf leikarans á bakvið tjöldin til að skilja persónuna til fulls. Hann var enn flóknari karakter en flækingurinn sem hann lék svo oft með miklum glans.
En ekki verður af honum tekið að hann var snillingur í kvikmyndageiranum og án vafa er The Kid ein af þeim kvikmyndum sem stendur helst vörð um arfleifð hans í bransanum. Í raun snertir hún hjartað mitt alltaf þegar að ég sé hana - þannig að það er öllum gott að sjá hana reglulega. Hvet alla til að sjá hana hafi þeir kost á því.
The Kid - Trailer
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 02:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2007 | 02:05
Yndisleg og tölvulaus blíðviðrishelgi

Á laugardeginum var farið í Bárðardalinn og haldið upp á hálendið. Það var áð við Aldeyjarfoss. Þangað hafði ég aldrei farið áður merkilegt nokk, þrátt fyrir að hafa margoft farið í Bárðardalinn. Þessi viðbótargönguferð frá vegslóðanum var vel þess virði. Aldeyjarfoss hafði ég oft séð á ljósmyndum og sjónvarpsmyndum en það jafnast ekkert á við að sjá hann í návígi og virða hann fyrir sér. Gönguferðin að fossinum er ekkert svo rosalega löng en mjög hressandi og notaleg. Það var yndisleg gola þegar að ég var þar staddur og kyrrðin var engu lík.
Þess fyrir utan var unnið í allskonar lagfæringum við bústaðinn. Það stefnir í að stækka pallinn þar síðar í sumar, koma fyrir heitum potti væntanlega og fleiri verkefni blasa við. Það verður hressandi og gott. Á kvöldin var spilað og spjallað. Það er reyndar sjónvarp í bústaðnum og rafmagn, svo að hægt var að fylgjast með fréttum svosem og horfa á svona eins og eina til tvær bíómyndir. Í morgun var ansi notalegt að vakna snemma og hella sér upp á kaffi og lesa ritið Þjóðmál. Hafði ekki haft tíma til að lesa það áður og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Það er mjög vandað rit og skemmtilegt til lestrar. Mæli með því, eins og ávallt áður.
Horfði svo á útsendinguna frá hátíðarhöldunum á Austurvelli í morgun. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flutti, sem fyrr, góða og vandaða ræðu. Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, var líka með mjög innihaldsríka ræðu og sérstaklega er ég sammála áherslum hans þar varðandi mikilvægi þess að veita nýjum Íslendingum góðan stuðning í skólakerfi landsins. Það að kenna nýbúum íslensku er grunnatriði alls í þeirra aðlögun að okkar landi og er þeim sjálfur mikilvægur grunnur. Sólveig Arnarsdóttir stóð sig vel sem fjallkonan og á ekki langt að sækja vandaðan lestrarframburð, enda er faðir hennar Arnar Jónsson snillingur á því sviði.
Það var svolítið sérstakt að heyra fréttir af stöðunni á Akureyri. Það voru ekki gleðilegar fréttir og vekja okkur öll til umhugsunar. En helgin var annars góð og notaleg, það var virkilega notalegt að slappa af. Veðrið var yndislegur punktur yfir i-ið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)