28.6.2007 | 21:58
Grimmileg örlög hundsins Lúkasar
Það hefur verið ömurlegt í dag að hlusta á fréttir af grimmilegum örlögum hundsins Lúkasar, sem á að hafa verið drepinn hér á Akureyri um þjóðhátíðarhelgina. Málið hefur verið í kastljósi fjölmiðlanna í dag, sem er eðlilegt, enda eru allar lýsingar af þessu máli og hvernig lífinu var murkað úr þessu dýri ógeðfelldar. Það er með ólíkindum að heyra af grimmd fólks.
Ég sá viðtal við stelpuna sem átti hundinn á N4 í kvöld og ég finn mjög til með henni, enda er þetta allt eins ömurlegt og getur verið. Það er auðvitað með ólíkindum að hún hafi ekki getað fengið allavega að jarða hundinn sinn og í alla staði er þetta sorglegt mál. Ég verð að segja alveg eins og er að þeir sem svona ógeðsverk vinna eru ekki beysnir karakterar.
Það virðist hafa verið mikið fjallað um þessi mál á vefsíðum í dag. Það er ekki líklegt að þessu máli ljúki í bráð, enda hefur málið verið kært og vitni er að árásinni á hundinn sem virðist geta gert grein fyrir því hverjir standi þar að baki. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næst í þessu máli, sem er allt hið ógeðfelldasta.
![]() |
Hundrað manns á kertavöku til minningar um hundinn Lúkas |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.6.2007 | 16:48
Jóhanna velur Hrannar - skemmtileg kergja
Það er svolítið fyndið að fylgjast með þessu. En ég spyr nú bara, er einhver hissa á þessu vali? Hrannar vann ötullega í Þjóðvaka með Jóhönnu og sama gerði mamma hans, Kristín Á. Ólafsdóttir, fyrrum borgarfulltrúi og varaformaður Alþýðubandalagsins, og stjúpi, Óskar Guðmundsson. Þetta val ætti ekki að koma þeim að óvörum sem þekkja eitthvað til Jóhönnu og hennar innstu kjarna. En samt virðist það koma á óvart. Það er svolítið athyglisvert eiginlega.
Hrannar var reyndar auðvitað ágætlega þekktur stjórnmálamaður í denn. Hann var annar aðilinn í pólitíska dúó-inu Arnarsson & Hjörvar sem voru í glampa sviðsljóssins í borgarstjórnarkosningunum 1998. Þrátt fyrir ólgu í upphafi tókst honum loksins að ná sæti í borgarstjórn og sat þar þangað til að hann var látinn gossa í prófkjöri árið 2002. Síðan hefur hann verið til hliðar í flokknum og verið misjafnlega áberandi. Hann hefur t.d. moggabloggast eins og flestir muna vel eftir.
Kjaftasögurnar segja að Jóhanna verði aðeins félagsmálaráðherra í tvö ár. Henni er ætlað að taka við af Sturlu Böðvarssyni haustið 2009 og þá mun sennilega Steinunn Valdís eða Kata Júl fara í Hafnarhúsið sem nýr ráðherra. Það er ansi ólíklegt að þær muni minnast gömlu góðu daganna með Hrannari jafn fallega og Jóka þegar að kemur að vali aðstoðarmanns.
28.6.2007 | 15:51
Baugsmálið fer í enn einn hringinn í viðbót

Þetta mál virðist ætla að velkjast um í kerfinu nær endalaust. Það virðist alltaf vera leið með áfrýjunum eða annarri efnislegri meðferð ef einhverjir liðir hafa ekki verið teknir fyrir. Ég er fyrir lifandis löngu hættur að skilja þetta mál og hvað þá að gera á milli aðalpunkta þess og aukaatriðanna. Þetta hefur allt öðlast ígildi lönguvitleysu hinnar mestu, altént í augum okkar sem fylgjumst með fréttunum.
Það er erfitt um að segja hvort að einhversstaðar í þessari lönguvitleysu sé að finna einhver viðunandi sögulok. Það virðist ekki vera von á raunhæfum endalokum hér heima, enda virðist svo geta farið að málið fari út til efnismeðferðar fyrir dómstólum erlendis. Ég myndi allavega ekki útiloka þann snúning svo að endaleysan haldi áfram og fari að leita að endanum á sér úti í heimi.
![]() |
Jón Ásgeir sýknaður en Tryggvi og Jón Gerald sakfelldir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2007 | 15:00
Tony Blair hylltur að pólitískum leiðarlokum

Ég dáðist mjög að hlutverki hans í kjölfar dauða Díönu. Hann lét gamlar hefðir og venjur lönd og leið og lagði til verka við að minnast hennar, þó að greinileg kergja væri bakvið tjöldin. Ég fer aldrei ofan af því að glæstasta stund Tonys var þegar að hann ávarpaði bresku þjóðina í Sedgefield að morgni 31. ágúst 1997. Sú ræða súmmaði algjörlega upp stöðuna. Hún var örlagavaldur. Hún kom af stað bylgjunni miklu sem síðar var nærri búin að taka með sér Elísabetu II og granda lykilstöðu hennar, í ljósi þess að hún lét ekki segjast og hélt til London til að halda utan um þjóð í sorg. Hún áttaði sig seint og um síðir. Ég er þess fullviss að ef Blair hefði ekki leiðbeint hinni lífsreyndu drottningu þessa haustdaga hefðu gullnu dagar hennar liðið undir lok.
Margir hafa spurt sig hvort að Tony Blair hafi verið að reyna að leika Margaret Thatcher allan sinn stjórnmálaferil. Að vissu marki má segja það. Hann auðvitað gjörbreytti Verkamannaflokknum. Hann á þó ekki heiðurinn af því einn. Þar átti John Smith lykilþátt ennfremur en honum entust ekki lífsins dagar til að koma því í framkvæmd. Blair gerði stefnuna að sinni og fullkomnaði hana. New Labour var skothelt plagg í kosningunum 1997 og það var grunnur nýrra tíma. Þó gengið hafi svona og svona er öllum ljóst hvaða áhrif breytingarnar vorið 1997 höfðu. Blair var auðvitað aldrei verkalýðskrati eða kommi. Hann var hægrikrati sem hélt flokknum á miðju og gat höfðað til hægrimanna. Þar lá stærsta farsæld flokksins.
Tony Blair ríkti lengi. Sama hversu molnaði undan honum var komið í veg fyrir hrapið á þeim stað sem hættulegastur var og hann náði alltaf að bjarga sér. Undir lokin varð staðan vissulega mjög erfið en það er auðvitað aðdáunarvert hversu vel honum tókst að halda lykilstöðu. Meira að segja tókst honum, þvert á flestar spár, að bjarga sér frá nöprum endalokum eftir sjálfsmorð dr. Davids Kelly, sem var auðvitað hreinn harmleikur pólitískt og persónulega, Cash-for-honours fíaskóið og síðast en ekki síst tapið auðmýkjandi í þinginu í nóvember 2005. Í síðastnefnda tilfellinu stóð hann sennilega tæpast, enda var naumur þingmeirihluti honum skaðlegur enda höfðu andstæðingarnir í flokknum hann í spennitreyju.
Tony Blair fer þreyttur frá völdunum. Það blasir við öllum. Það var samt ótrúlega öflug stund í breska þinginu í gær þegar að hann var hylltur af nær öllum þingmönnum, meira að segja af þeim sem harðast hafa barist við hann. Þetta eru auðvitað tímamót, enda var Blair forsætisráðherra í áratug og hafði barist við fimm leiðtoga Íhaldsflokksins á tíu árum sínum sem forsætisráðherra. Í því kristallast sterk staða Blairs sem og auðvitað skelfileg staða Íhaldsflokksins sem nú fyrst er að ná vopnum sínum. Mér fannst Blair eiga skilið hyllingu við leiðarlok. Þar var ekki spurt að pólitískum línum. Sérstaklega var kveðja Ian Paisley til Blairs mikil tímamót og vakti athygli. Ennfremur talaði David Cameron virðulega um Blair.
Hvað svo sem segja má um Tony Blair má þó fullyrða að hann var aldrei mikill maður þingsins. Hann þoldi ekki gamlar hefðir breska þingsins og reyndi að forðast sem mest umræður þar og starfið þar, meira að segja á meðan að hann var í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins fram til 1997. Þetta var ekki besti vettvangur hans. Það kemur því varla að óvörum að hann kveðji þingið um leið. Ég held að hann hefði fúnkerað illa við hlið vinstrisinnuðustu þingmannanna á öftustu bekkjunum sem gerðu honum lífið hvað mest leitt undir lokin. Það hefur reyndar ekki gerst frá dögum Sir Anthony Eden að forsætisráðherra fari um leið af þingi. Það er lítil sem engin hefð fyrir því að slík vistaskipti verði um leið.
Í ósigri eða endalokum getur mesti sigurinn falist. Þetta kom vel fram þegar að Margaret Thatcher var í raun sett af sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Það voru nöpur endalok. Daginn sem hún sagði af sér leiftraði hún af fjöri og orðfimi sem aldrei fyrr í þingumræðum. Flestir sem upplifðu að sjá þann dag muna eftir henni berjast af fimi við Neil Kinnock, í bláu dragtinni sinni og sennilega með flottustu hárgreiðsluna. Þrátt fyrir niðurlægjandi endalok gat hún gert stund endalokanna að sínum og náði að bægja frá mestu gagnrýni. Þetta tókst líka Tony Blair á stund endaloka. Hann stjórnaði þeim og var klappaður upp eins og leikari eftir sinn glæsilegasta leiksigur.
Gordon Brown er enginn Tony Blair. Þeir eru gjörólíkir eins og dagur og nótt. Það á eftir að sjást enn betur þegar að nýji húsbóndinn í Downingstræti sýnir á spil sín, betur en nú þegar hefur gerst. Tony Blair var pólitískt sjarmatröll sem heillaði jafnvel andstæðinga sína með ótrúlegum hætti fyrir áratug, að vissu marki með því að kasta streng yfir til þeirra og eigna sér hluta fylgis þeirra til að komast sjálfur til valda. Brown er maður af öðru tagi.
Þrátt fyrir óvinsældir síðasta kastið fer kannski svo að menn sakni bráðum sjarmatröllsins Tony Blair. Hver veit. Allavega var hylling hans að leiðarlokum sönn, bæði í tilliti eftirsjár og gleði.
Tengdir pistlar SFS
Áratugur frá kosningasigri Verkamannaflokksins
Þáttaskil framundan í Verkamannaflokknum
Martröð í Downingstræti
Fjarar undan Tony Blair
Líður að lokum hjá Tony Blair
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.6.2007 | 13:46
Gordon Brown hristir rækilega upp í breskri pólitík
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hefur kynnt ráðherralista nýrrar ríkisstjórnar sinnar. Þar eru mjög miklar breytingar á ráðherrahóp frá því sem var undir lokin í forsætisráðherratíð Tony Blair. Það fór eins og ég spáði að valdamiklum ráðherrum Blair-tímans sem enn voru eftir var vísað á dyr, sumir þeirra halda ekki einu sinni sæti sínu. Brown sagði við komuna í Downingstræti 10 að stokkað yrði upp. Það verður bæði í málefnum sem og fólki.
Brown forsætisráðherra rauf eldgamlar hefðir strax við valið á ráðherrunum í stjórn sinni. Hann sat á þingskrifstofu sinni í Westminster frá því síðdegis í gær eftir valdaskiptin og fram á nótt við að ljúka við ráðherrahrókeringarnar en ekki á forsætisráðherraskrifstofunni í Downingstræti. Það hefur jafnan mátt sjá ráðherrana sem fjúka og eða eflast í uppstokkun koma og fara af fundi forsætisráðherrans í Downingstræti, en það varð auðvitað ekki nú. Margaret Thatcher, John Major og Tony Blair hikuðu aldrei við að láta svipuna falla á ráðherrum með þessum hætti í kastljósi fjölmiðla.
Stærstu tíðindi þessa ráðherrakapals eru auðvitað þau að David Miliband, umhverfisráðherra, verður utanríkisráðherra Bretlands og um leið einn valdamesti stjórnmálamaður landsins. Staða Miliband sem framtíðarleiðtoga Verkamannaflokksins og krónprins við hlið forsætisráðherrans er staðfest með þessu og leikur með því enginn vafi á því að þeir hafa gert einhvers konar samkomulag sín á milli um að Miliband nyti þess mjög færi hann ekki fram gegn Brown í leiðtogakjöri við brotthvarf Tony Blair. Það er spurning hvort að Granita-samkomulag Blairs og Browns hafi öðlast nýtt líf með öðru letri hjá Brown og Miliband. Ég get ekki betur séð en að þarna sé kominn sá sem á að erfa völdin.
Margaret Beckett, fráfarandi utanríkisráðherra, er kastað á dyr með ótrúlega nöprum hætti að því er virðist. Beckett var ekki aðeins fyrsta konan sem varð utanríkisráðherra, heldur einnig fyrst kvenna sem leiðtogi og varaleiðtogi Verkamannaflokksins. Hún var varaleiðtogi við hlið Johns Smith og var leiðtogi í nokkrar vikur árið 1994 þegar að hann féll frá og þangað til að Tony Blair tók við. Hún var traustur stuðningsmaður Blairs og var sett á þennan póst fyrir ári eftir afhroðið í byggðakosningum til að verjast mönnum Browns. Hún nýtur nú ekki stuðnings til að halda áfram. Þetta eru stórtíðindi, enda hefur Beckett verið framlínukona í flokknum frá leiðtogadögum Jim Callaghan.
Önnur risavaxin tíðindi er skipun Jacqui Smith sem innanríkisráðherra. Hún verður fyrsta konan á þeim pósti og verður ennfremur einn valdamesti stjórnmálamaður landsins. Innanríkisráðuneytið hefur alla tíð verið mikið karlaveldi og því auðvitað tíðindi að kona taki sæti ráðherra þar. Þetta er auðvitað eitt mest áberandi ráðuneytið í breskum stjórnmálum og þar eru mörg helstu lykilmálin undir. Þannig að við eigum svo sannarlega eftir að sjá mikið af Jacqui Smith, sem greinilega er orðin forystukona innan flokksins við þessar hrókeringar, þó ný sé. Það kemur engum að óvörum að Alistair Darling taki við af Brown sem fjármálaráðherra, enda hafa þeir verið alla tíð mjög nánir.
Svo vekur auðvitað athygli að Alan Johnson fari í heilbrigðismálin. Hann var menntamálaráðherra en fær nú mun stærri sess og er það greinilega sárabót eftir tapið í varaleiðtogakjörinu. Johnson hefði án efa orðið varaforsætisráðherra ala John Prescott hefði hann unnið. Það er greinilegt að enginn annar hefði haft stöðu í það, enda ekki skipað í embættið. Ekki mun honum skorta verkefnin í heilbrigðismálunum. Þetta verður lykilmál leiðtogaferils Browns. Það hefur öllum orðið ljóst af tali hans undanfarna daga. Athygli vekur að Jack Straw snýr aftur, ári eftir að honum var sparkað úr utanríkismálunum, hann verður nú dómsmálaráðherra. Hann var kosningastjóri Browns í vor.
Mér finnst merkilegt að Des Browne haldi varnarmálunum og að Peter Hain fái stöðuhækkun eftir afhroð í varaleiðtogakosningu, hann fær lífeyris- og atvinnumálin. Brown tekur þá merkilegu ákvörðun svo að splitta menntamálaráðuneytinu upp, sem hefur verið mjög stór póstur alla tíð, í skólamál eftir fjölskyldu- og grunnskólamálum og í háskóla- og fræðslumál. Ed Balls, sem er einn nánasti lykilmaður við hlið forsætisráðherrans, verður ráðherra fyrri flokksins og John Denham hins. Svo fær James Purnell menningarmálin - Tessu Jowell er sparkað. Hilary Benn fær umhverfismálin frá Miliband og Ruth Kelly er lækkuð í tign, missir samfélagsmálin til Hazel Blears og fær samgöngumál.
Í heildina eru þetta miklar sviptingar og áhugavert að kynna sér þær. Yfir öllu þessu er yfirskrift þess sem allir vissu reyndar að myndi gerast og það er að Brown ætlar sér ekki að taka við því sem Tony Blair gerði. Það er öllu snúið við, áherslur hafa breyst. Þeir hafa gjörólíkar skoðanir á því hverjir eigi að vera í lykilhóp þeirra verka og við blasir að nýjir tímar eru framundan í breskum stjórnmálum eftir þessa risauppstokkun í bresku ríkisstjórninni. Það efast allavega enginn um það núna hver ræður.
Tími Gordons Brown er runninn upp og hann hefur sýnt það og sannað að tími hópanna í kringum hann eru komnir og þar verði horft fram á veginn en ekki aftur. Sagt er skilið við leiðsögn Tony Blair og horft til nýrra tíma. Það eru grunnskilaboð þessara miklu sviptinga. Og við blasir auðvitað að áherslurnar verða aðrar. Það sést best af grimmilegum örlögum þeirra sem nánastir voru Blair. Sé þeim ekki sparkað eru þeir komnir út í horn með einum eða öðrum hætti.
Ráðherrakapall Gordons Brown
![]() |
Brown kynnir ráðherralista sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2007 | 00:26
Minningarorð sem vekja fólk til umhugsunar
Eins og ég hef áður sagt hér dáist ég að þeim krafti sem felast í skrifum Einars á sannri raunastundu. Það er mikið átak að opna hug sinn og innri baráttu á tímum sorgar og harmleiks vegna andláts dóttur sinnar. Það er líka opnuð öll sagan á bakvið manneskjuna sem dó, öll skelfingin sem þau hafa þurft að gera upp eftir þetta dauðsfall er lagt á borðið fyrir almenning í skrifunum. Þetta er greinilega hans leið til að kalla á umræðu og kalla ennfremur á það að eitthvað sé gert við þeim vanda sem klárlega er til staðar.
Ég held að allir sem lesið hafa þessa grein hafi hugsað mjög um þessi mál síðustu dagana, auk auðvitað þeirra sem syrgja Susie Rut mest. Sorgin verður opinberuð og öll sorgarsagan er lögð á borðið fyrir lesendur, bæði til umhugsunar og þess að tryggja að þessi mál hverfi ekki í gleymskunnar dá þó að þau séu fyrir framan nefið á okkur jafn nöpur og þau eru óneitanlega. Það er óeðlilegt að sofa þessi mál, jafn skelfileg og þau eru almennt, af sér.
Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að heyra ummæli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, um að þetta mál brýni sig og yfirvöld til verka. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur frá stjórnvöldum. Skrifin hafa vakið athygli og nú er kominn tími til að eitthvað róttækt gerist í þessum efnum. Gagnrýnin á Vog vekur mesta athygli. Málefni þess heyra undir heilbrigðisráðherra og fróðlegt að sjá hvort og þá hvað hann muni gera í þeim efnum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)