Seinheppni Bjarna - vandræðalegt sjálfsmark

Ég held að Bjarni Harðarson sé seinheppnasti þingmaðurinn á Íslandi í dag. Ég hef sjaldan hlegið eins mikið og þegar ég las um misheppnaða en frekar vandræðalega bréfasendingu Bjarna til fjölmiðla þar sem hann ætlaði að fá aðstoðarmann sinn til að senda bréf tveggja framsóknarmanna gegn Valgerði Sverrisdóttur á fjölmiðla en stóð ekki betur að verki en hann sendi allt heila dæmið undir eigin nafni út.

Er þetta ekki eitt traustasta en vandræðalegasta pólitíska sjálfsmark seinni tíma? Ég held að Bjarna verði lengi minnst fyrir þennan fjöldapóst sinn. Það er einfaldlega ekki hægt að sökkva neðar en í þetta fen sem Bjarni kom sér í.

Hvað er eiginlega að verða um Framsóknarflokkinn? Tekst þeim virkilega að drepa flokkinn fyrir aldarafmælið 2016? Afrek það.

Bush og Obama hittast - breytingar í sjónmáli

Bush- og Obama-hjónin
George W. Bush og Barack Obama hittast nú í fyrsta skipti í Hvíta húsinu, 70 dögum fyrir forsetaskiptin. Ég er viss um að allir fjölmiðlamenn vildu vera fluga á vegg á meðan þeir tala saman, væntanlega um lykilmálin Írak og efnahagsmálin, sem hafa sligað Bush að undanförnu, við lok seinna kjörtímabils hans. Þetta verða lykilmál fyrstu hundrað valdadaga Obama í Hvíta húsinu. Fylgst verður með hvaða afstöðu hann tekur í málum sem Bush hefur markað sem mjög mikilvæg og sett í forgang. Sum verða væntanlega slegin niður á meðan önnur verða unnin með öðrum hætti en ella hefði verið.

Forsetaembættið í Bandaríkjunum er mjög valdamikið. Forseti Bandaríkjanna getur unnið mál áfram án þess að þingið komi þar að og komið með fyrirskipanir og ákvarðanir sem taka gildi þegar í stað. Við getum verið viss um að Obama muni sem forseti taka eitthvað af slíkum ákvörðunum. Hann þarf þó varla að gera mikið af því á næstu mánuðum enda er þingið á valdi demókrata og engar breytingar framundan þar eftir áramótin nema þá að það styrkist enn frekar á valdi demókrata. Því má búast við miklu samstarfi á milli forsetans og þingsins, mun meira en síðustu tvö árin í miklum valdaátökum.

George W. Bush fer úr Hvíta húsinu sem óvinsælasti forseti bandarískrar stjórnmálasögu. Vald hans hefur gufað upp jafnt og þétt á seinna kjörtímabilinu og eftir að demókratar náðu þingdeildunum hafa áhrif hans sem forseta sífellt orðið minni. Kosningabaráttan um forsetaembættið hófst mjög snemma í ljósi þess og var sú dýrasta og lengsta sem sögur fara um. Bush var hinsvegar á fyrra kjörtímabili sínu og vel fram á hið seinna mjög valdamikill og hafði þingið mjög að baki sér.

Obama fær nú samskonar vald og getur tekið mjög afdrifaríkar ákvarðanir, rétt eins og Bush áður. Sumir segja að einsflokksvaldið sem Bush hafði hafi veikt stöðu hans mjög og hann villst af leið og misst fókusinn. Jafnan hefur verið sagt að það sé bölvun fyrir forseta að hafa þingið algjörlega með sér og forsetinn hafi algjört foringjaræði. Clinton vann slíkan sigur árið 1992 en missti þingið úr höndum sér í fyrstu þingkosningum sínum árið 1994. Honum var refsað mjög harkalega.

Obama þarf enn að bíða í sjötíu daga eftir því að taka við forsetaembættinu. Í fáum löndum þurfa kjörnir embættismenn að bíða lengur eftir að fá að setja mark sitt á embættið sem þeir hafa verið kjörnir í. En tíminn verður notaður vel. Skipa þarf jú ráðherra og embættismenn sem þurfa að koma fyrir þingið í samþykktarferli. Á meðan það stendur hefur Obama sinn tíma til að marka ríkisstjórn sinni stöðu og stefnu til að vinna eftir frá fyrsta degi.

mbl.is Obama í heimsókn hjá Bush
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða Geirs miðað við aðstæður

Ég verð að viðurkenna að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur mun meira persónufylgi en mér óraði fyrir, sérstaklega í ljósi fylgismælinga Sjálfstæðisflokksins að undanförnu. Þetta eru mjög erfiðir tímar og það er fjarri því sjálfgefið að þeir sem eru við völd hafi ríflega meirihluta þjóðarinnar á bakvið sig. Sterk staða Geirs við þessar aðstæður er mjög mikils virði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og gefur til kynna að hann hafi mun meiri stuðning en flokkurinn getur vænst við þessar aðstæður.

Þrátt fyrir allt sé Geir traustsins verður í erfiðri stöðu. Ég held að Geir njóti þess mikið að vera rólegur og yfirvegaður auk þess sem hann er hagfræðingur, hefur yfirsýn sem slíkur. Slíkt skiptir máli í erfiðri stöðu og gefur væntingar um að þjóðin horfi til hans sem þess leiðtoga sem geti leyst málin og komið hlutunum á hreyfingu. Hinsvegar er fjarri því alltaf svo að þeir sem taka erfiðar ákvarðanir njóti þjóðarhylli og enginn getur búist við slíku á þessari stundu.

mbl.is Ríflega helmingur ánægður með Geir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli kjarninn í forystu - tryggir Obama breytingar?

Obama
Ég er ekki hissa á því að Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, ætli að breyta ýmsum lykilákvörðunum þegar við embættistöku sína. Hann verður, til að koma til móts við þá sem kusu hann til að tryggja breytingar, að koma með sýnilegar áherslur um nýja ríkisstjórn strax á fyrstu dögum forsetaferilsins. Ég held samt að ekki verði aðeins verði horft til þess að hann ógildi eða slái niður ákvarðanir og hugmyndir sem George W. Bush hefur unnið að í Hvíta húsinu á síðustu mánuðum heldur og mun frekar því sem framtíðin ber í skauti sér. Hann þarf að ganga miklu lengra.

Mér fannst það mjög athyglisvert að sjá hvernig tónað var niður talið um breytingarnar á blaðamannafundinum í Chicago á föstudag og í yfirlýsingum innan úr innsta hring hjá Obama. Mikið var talað um að allt taki sinn tíma. Þetta minnir illilega á það þegar Bill Clinton kom sér til verka eftir kosningasigurinn 1992. Í upphafi valdaferilsins voru nokkrar lykilákvarðanir slegnar niður en svo róaðist mjög yfir mannskapnum. Talið um breytingarnar gleymdist í öllum fagnaðarlátunum. Væntingar eru alltaf of miklar en nú skipta þær virkilega máli.

Tók eftir því að Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, kom í fjölmiðla í gær og varaði við of miklum væntingum til Obama. Hann þyrfti sinn tíma til að láta verkin tala. Mér fannst þetta koma úr hörðustu átt. Ef einhver stjórnmálamaður var talsmaður breytinga og ætlaði að láta verkin tala en varð lítið sem ekkert úr verki er það Tony Blair. Sagan hefur heldur ekki farið mildilegum tökum um hann og valdaferilinn, sem þótti í meira lagi misheppnaður. Vinstrimennirnir sem lofsungu hann í kosningabaráttunni 1997 urðu illa sviknir.

Mér finnst stóru tíðindin frá Chicago þó vera þau að Obama stólar mjög mikið á hópinn sem var í kringum Bill Clinton á forsetaferli hans og innsta kjarna gömlu valdatíðar demókrata á tíunda áratugnum. Sá hópur leiðir valdaskiptin og fær að öllum líkindum feitustu bitana, helstu ráðherrastólana.

Ég er algjörlega sammála Dick Morris um að þetta séu stóru tíðindin. Fulltrúar Clinton-tímans fá sinn sess, rétt eins og hefði Hillary Rodham Clinton verið kjörin forseti Bandaríkjanna. Lítið breytist.

mbl.is Obama hyggst snúa ákvörðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumir útúrsnúningar hjá Hannesi

Mér finnst yfirlýsing Hannesar Smárasonar vera frekar furðulegt samansafn af aumum útúrsnúningum. Ef þetta er allt svona einn stór misskilningur, sem fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins, hvers vegna getur Hannes þá ekki bara gefið upp af hverju Ragnhildur Geirsdóttir hætti sem forstjóri FL Group eftir nokkurra mánaða starf og stjórnarmenn í fyrirtækinu, þ.á.m. Inga Jóna Þórðardóttir, forsætisráðherrafrú, gengu á dyr. Ef þetta er ekki ástæðan væri áhugavert að Hannes færi lið fyrir lið í gegnum það.

Vissulega er ömurlegt að fylgjast með því hvernig farið var með FL Group í stjórnartíð Hannesar en enn verra er að bjóða fólki upp á svona útúrsnúninga. En kannski er það skiljanlegt að halda eigi þessu showi áfram og halda að fólk taki þessar útskýringar trúanlegar. Mér fannst áhugavert að rifja upp Kastljósviðtalið við Hannes Smárason haustið 2005 í Sjónvarpinu í kvöld þar sem hann var spurður beint út í þessar ávirðingar. Þá neitaði hann. RÚV ætti að setja þetta viðtal í heild sinni á netið eða sýna valda kafli í Kastljósi.

Ég fæ ekki betur séð en það sé verðugt verkefni að fara yfir sögu þessa fyrirtækis og hvernig þar var unnið. Fjölmiðlar munu vonandi standa undir nafni í þeirri yfirferð.

mbl.is Hannes vísar ásökunum á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband