Bush og Obama hittast - breytingar í sjónmáli

Bush- og Obama-hjónin
George W. Bush og Barack Obama hittast nú í fyrsta skipti í Hvíta húsinu, 70 dögum fyrir forsetaskiptin. Ég er viss um að allir fjölmiðlamenn vildu vera fluga á vegg á meðan þeir tala saman, væntanlega um lykilmálin Írak og efnahagsmálin, sem hafa sligað Bush að undanförnu, við lok seinna kjörtímabils hans. Þetta verða lykilmál fyrstu hundrað valdadaga Obama í Hvíta húsinu. Fylgst verður með hvaða afstöðu hann tekur í málum sem Bush hefur markað sem mjög mikilvæg og sett í forgang. Sum verða væntanlega slegin niður á meðan önnur verða unnin með öðrum hætti en ella hefði verið.

Forsetaembættið í Bandaríkjunum er mjög valdamikið. Forseti Bandaríkjanna getur unnið mál áfram án þess að þingið komi þar að og komið með fyrirskipanir og ákvarðanir sem taka gildi þegar í stað. Við getum verið viss um að Obama muni sem forseti taka eitthvað af slíkum ákvörðunum. Hann þarf þó varla að gera mikið af því á næstu mánuðum enda er þingið á valdi demókrata og engar breytingar framundan þar eftir áramótin nema þá að það styrkist enn frekar á valdi demókrata. Því má búast við miklu samstarfi á milli forsetans og þingsins, mun meira en síðustu tvö árin í miklum valdaátökum.

George W. Bush fer úr Hvíta húsinu sem óvinsælasti forseti bandarískrar stjórnmálasögu. Vald hans hefur gufað upp jafnt og þétt á seinna kjörtímabilinu og eftir að demókratar náðu þingdeildunum hafa áhrif hans sem forseta sífellt orðið minni. Kosningabaráttan um forsetaembættið hófst mjög snemma í ljósi þess og var sú dýrasta og lengsta sem sögur fara um. Bush var hinsvegar á fyrra kjörtímabili sínu og vel fram á hið seinna mjög valdamikill og hafði þingið mjög að baki sér.

Obama fær nú samskonar vald og getur tekið mjög afdrifaríkar ákvarðanir, rétt eins og Bush áður. Sumir segja að einsflokksvaldið sem Bush hafði hafi veikt stöðu hans mjög og hann villst af leið og misst fókusinn. Jafnan hefur verið sagt að það sé bölvun fyrir forseta að hafa þingið algjörlega með sér og forsetinn hafi algjört foringjaræði. Clinton vann slíkan sigur árið 1992 en missti þingið úr höndum sér í fyrstu þingkosningum sínum árið 1994. Honum var refsað mjög harkalega.

Obama þarf enn að bíða í sjötíu daga eftir því að taka við forsetaembættinu. Í fáum löndum þurfa kjörnir embættismenn að bíða lengur eftir að fá að setja mark sitt á embættið sem þeir hafa verið kjörnir í. En tíminn verður notaður vel. Skipa þarf jú ráðherra og embættismenn sem þurfa að koma fyrir þingið í samþykktarferli. Á meðan það stendur hefur Obama sinn tíma til að marka ríkisstjórn sinni stöðu og stefnu til að vinna eftir frá fyrsta degi.

mbl.is Obama í heimsókn hjá Bush
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kanski væri æskilegt að breytingar yrðu á fleiri stöðum!

Séra Jón (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband