Rannsaka verður málefni Giftar

Ég er ekki hissa á því að Vopnafjarðarhreppur vilji láta rannsaka málefni Giftar. Mjög mikla ólykt leggur af vinnubrögðum í fyrirtækinu og full þörf á að öllum spurningum þar verði svarað hreint út. Leyndarhjúpurinn yfir Gift verður aðeins til að magna upp kjaftasögurnar um hvernig haldið var á málum. Ekki verður annað séð þó en þar hafi verið sýslað með fé án umboðs og eftirlitsaðilarnir hafi gjörsamlega sofið á verðinum.

Ég velti fyrir mér hvort þetta verði eitt mesta fjársvikamál Íslandssögunnar, einn mesti þjófnaðurinn? Það væri þá eftir öðru sem þeir er halda utan um sjóðina þar í kring hafa gert.

mbl.is Vilja opinbera rannsókn á fjárþurrð Giftar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páll líti sér nær og skeri niður laun og jeppa

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, ætti að líta sér nær og skera niður jeppann sinn margfræga og launin sín (meira en hann gerði í dag) fyrst leggja á í raun niður svæðisstöðvarnar og veikja undirstöður dagskrárgerðar hjá RÚV. Mér finnst þessi niðurskurður mjög skrítinn í því ljósi að Páll lætur ekki jeppann fara í niðurskurð og lækkar ekki meira launin sín. Hann hefði getað lagt meira að mörkum sjálfur og er ekki trúverðugur í þessum yfirlýsingum sínum um niðurskurðinn.

Nú er eðlilegt að spyrja sig að því hvort Páll verði sá maður að leggja jeppanum. Þeir eru fáir sem verja jepparuglið hans og fer örugglega fækkandi eftir þessar erfiðu aðgerðir, ætli hann sér að halda honum eftir það sem á undan er gengið.

mbl.is Meiri aðgerðir en starfsfólk vænti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgardagur fyrir svæðisstöðvar Ríkisútvarpsins

Mér finnst það afleit skilaboð sem sýnd eru með því að leggja niður mestallt starf á svæðisstöðvum Ríkisútvarpsins, í raun leggja í rúst allt það góða starf sem þar hefur verið unnið í rúma tvo áratugi, á meðan Páll Magnússon heldur jeppanum sínum. Hver er forgangsröðin hjá þessu liði? Hefði ekki verið nær að skera niður sporslur og fríðindi toppanna fyrst og fara svo í uppstokkun. Þetta eru ekki góð skilaboð. Krafa dagsins er því burt með jeppann. Hreint út sagt.

Þetta er sannarlega sorgardagur fyrir fjölmiðil sem á tyllidögum stillir sér upp sem fjölmiðli allra landsmanna. Eftir daginn í dag er það blaður bara orðaflaumur á blaði.


mbl.is 700 milljóna sparnaður hjá RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur dagur hjá Ríkisútvarpinu

Jæja, þá er niðurskurðarhnífurinn reiddur til höggs í Efstaleitinu. Þetta er svartur dagur á þeim bænum og mikill hrollur verið meðal starfsmanna í dag. Niðurskurðurinn er auðvitað stórtíðindi, enda hefur RÚV jafnan ekki beitt uppsögnum til að taka til í rekstri sínum og láta enda ná saman. Mörgum fannst það blóðugt þegar farið var í uppsagnir fyrr á árinu og þeir sem voru höggnir af voru fréttamenn í svæðisútvörpum víða um land. Nú er verið að tala um þrjátíu stöður þvert yfir skalann.

Auðvitað er ljóst að RÚV þarf að taka til hjá sér eins og aðrir. En umfang uppsagnanna er meiri en við höfum vanist áður á þeim bænum og hlýtur að vekja spurningar um hversu mikið þær komi niður á gæði dagskrár og þess góða efnis sem við höfum getað treyst á að komi frá RÚV. Og auðvitað er ömurlegt fyrir starfsmenn að heyra fréttir um að hinn eða þessi fái uppsagnarbréf áður en að uppsögnum kemur. Þetta er auðvitað óþægileg staða.

En það er auðvitað löngu vitað að erfiðir tímar eru framundan á fjölmiðlamarkaði hérna heima. Niðurskurður og hagræðing verður einkennisorð þar á næstunni, eins og víða annarsstaðar. Með því er auðvitað ljóst að gæði dagskrár minnkar og ekki er sjálfgefið að við fáum sömu góðu þjónustu hjá fjölmiðlum og áður var.

mbl.is Boðað til starfsmannafundar hjá RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar voru eftirlitsaðilarnir í málefnum Giftar?

Þegar farið er yfir sögu Giftar og fall þess á undanförnum mánuðum verður ekki hjá því að komist að spyrja hvar eftirlitsaðilarnir voru? Steinsváfu þeir algjörlega? Ekki verður annað séð. Og hvernig er hægt að láta milljarða hverfa eins og töframaður á sama tíma og fyrirtækin sem mennirnir eiga, eru með nóg af peningum. Þetta þarf að rannsaka.

mbl.is Hart tekist á í stjórn Giftar á meðan verðmæti brunnu upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiljanleg óánægja atvinnurekenda í nýju landslagi

Ég skil vel gremju og óánægju atvinnurekenda með hið nýja landslag sem fylgir lagasetningu um gjaldeyrismál. Með því að fleyta krónunni ekki að fullu verður ríkisvaldið enn meira en flestum óraði fyrir þegar bankarnir hrundu. Þarna tekur ríkið sér völd sem við höfum oft heyrt um en aldrei viljað heimfæra á Ísland. Get ekki sagt að mér finnist þetta ánægjulegt skref, en eitt er þó ljóst og það er að stjórnvöld taka mikla áhættu, einkum forystumenn Sjálfstæðisflokksins þar sem haftapólitík hefur ekki verið hátt skrifuð.

Vilhjálmur Egilsson, sem var þingmaður Sjálfstæðisflokksins í rúman áratug og lengi formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, veit alveg hvað hann segir. Varnaðarorð hans og atvinnurekenda almennt er skiljanlegur. Þetta er nýtt landslag. Reyndar er óvissuferðin algjör. Eitt er þó ljóst og það er að stjórnvöld eru tilbúin í mjög vandasamar aðgerðir til að reyna að reisa samfélagið við aftur. Kannski veitir ekki af því að stokka spilin upp og setja umgjörð sem eftir verður tekið.

En erfitt verður að vera í mikilli hugsjónapólitík fyrir suma þingmenn Sjálfstæðisflokksins á meðan þeirri óvissuferð stendur. Svo mikið er víst.

mbl.is Mun stórskaða viðskiptalífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband