Amma Obama deyr rétt fyrir opnun kjörstaða

Barack Obama fær fréttirnar um lát ömmu sinnar
Enginn vafi leikur á því að Barack Obama verður kjörinn 44. forseti Bandaríkjanna á morgun. Vafinn er sá eini hversu stór sigurinn muni verða. Í kvöld lést amma hans, Madelyn Dunham, aðeins örfáum klukkustundum áður en kjörstaðir opna. Stóra spurningin er nú hversu stór samúðarbylgjan til Obama mun verða. Ég tel, eins og bandarískir fréttaskýrendur, að hún verði nokkuð traust og geti fært honum ríki sem honum óraði ekki fyrir að vinna fyrir nokkrum mánuðum, þar af mjög traust repúblikanaríki á öllum venjulegum mælikvörðum.

Menn eru farnir að velta fyrir sér hvort hann vinni traustari sigra en Bill Clinton tókst 1992 og 1996. Tel það ekki óhugsandi. Ég tel að hann fái traust umboð. Á ekki von á mjög spennandi kosninganótt. Tel að þetta ráðist mjög fljótlega af stöðunni á Austurströndinni. Vinni Obama Bush-ríki frá árinu 2004, skömmu eftir miðnættið að íslenskum tíma; Virginíu, Flórída, Georgíu og Norður-Karólínu, plús Indiana og Ohio, eru örlögin ráðin, enda þá í raun ljóst að McCain getur ekki unnið.

Tel alveg öruggt að Obama fái vel yfir 300 kjörmenn í kosningunum og myndi jafnvel telja að hann gæti farið yfir 330. Clinton hlaut 370 kjörmenn árið 1992 og 379 árið 1996. Fái Obama yfir 350 og sigraði í nokkrum repúblikanaríkjum gæti hann tryggt eyðimerkurgöngu repúblikana um nokkuð skeið. Fái demókratar 60 sæti í öldungadeildinni eru þeir með öll völd í höndum sér og geta ráðið algjörlega einir hver fær sæti John Paul Stevens í hæstarétti.

Nafn Hillary Rodham Clinton hefur verið nefnt í því samhengi - samið hafi verið við Clinton-hjónin að hún fái eitthvað traust í sinn hlut fyrir stuðninginn á lokasprettinum sem hefur skipt miklu máli, sérstaklega í Ohio og Flórída, lykilríkjunum 2000 og 2004 sem hafa mikil áhrif á niðurstöðuna nú. Hillary hefur verið mjög dugleg að vinna fyrir Obama, enn duglegri en bjartsýnustu mönnum þorði að óra fyrir. Flokkshollustan er henni mikilvæg, en einhver loforð hafa verið gefin tel ég.

Hvað varðar öldungadeildina tel ég að stóru úrslit kvöldsins verði hvort Liddy Dole, eiginkona Bob Dole, nái endurkjöri í N-Karólínu. Felli Kay Hagan hana af sínum stóli verða það söguleg úrslit og táknræn endalok á pólitískri sögu Dole-hjónanna. Vinni demókrati gamla sætið hans Jesse Helms er sögulegur sess þessara kosninga endanlegur. Það yrðu virkileg söguleg þáttaskil.

Bob Dole tapaði fyrir Clinton forseta fyrir tólf árum - beið þá hreinlega afhroð - og hætti þá í öldungadeildinni, þar sem hann hafði verið flokksleiðtogi repúblikana um langt skeið. Dole var stríðshetja, eins og John McCain - gleymum því ekki. John Kerry er í þeirri kategóríu ennfremur. Ekki virðist titillinn stríðshetja hafa úrslitaáhrif.

mbl.is Amma Obama látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

50 milljarða skuldir afskrifaðar í Kaupþingi

Nú hefur verið staðfest, sumpart með þögninni, að sögusagnir um tugmilljarða afskriftir skulda í Kaupþingi eru réttar. Þetta er grafalvarlegt mál og eðlilegt að þjóðin sé mjög reið yfir þessum siðlausa og ógeðslega verknaði. Hvernig er hægt að treysta Kaupþingi sem stofnun í samfélaginu eftir þetta? Getur ríkið rekið banka undir þessu nafni eftir svona verknað, burtséð frá því hvort hann hafi verið gerður á vakt fyrri eigenda? Ég stórefast um það.

Ég er ansi smeykur um að ýmislegt miður geðslegt leynist undir yfirborðinu í þessu bankahruni. Svona massíf afskrift skulda hlýtur að leiða til þess að þjóðin fari í byltingarhug, nú þegar heimili landsins eru að sligast, skuldir aukast og atvinnuleysi er að aukast. Örlagatímar eru framundan í samfélaginu og við horfumst í augu við mjög kuldalega tíð í efnahagsmálum þjóðarinnar í skammdegistíðinni.

Svona frétt ein og sér kveikir elda í samfélaginu. Þetta getur almenningur ekki sætt sig við. Nú þurfa allir landsmenn að sýna reiði sína og kraft með því að tala gegn þeim sem fremja svo siðlausan og ógeðfelldan verknað. Þetta er blaut tuska framan í almenning í þessu landi.

Og þögnin er algjör. Enginn ráðamanna vill láta ná í sig núna. Þetta er vandræðaleg þögn. Hvar er eftirlitskerfið í landinu? Hvernig getur Fjármálaeftirlitið látið sjá sig sem ábyrgan aðila eftir svona verklag?

mbl.is Engar niðurfellingar hjá Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlegar ásakanir í fjöldatölvupósti - svar takk!

Reiði almennings er mikil vegna bankahrunsins. Hún er skiljanleg, enn skiljanlegri verður hún ef þessi skilaboð í fjöldatölvupósti eru rétt. Ég hef fengið marga pósta senda og finnst mikilvægt að birta hann hér. Þessu þarf Fjármálaeftirlitið að svara eigi það að vera trúverðugt með Jónas Fr. og KrataJón Sigurðsson í fararbroddi!

"Yfirmaður áhættustýringar Kaupþings tapaði 2 milljörðum (mest tekið að láni) og allar skuldir hreinsaðar við hann og mörg hundruð aðra bankastarfsmenn sem tóku lán frá 10-1000 milljónir til að kaupa hlutabréf,sumir fengu sér cruiser 100 jeppa, fjármögnuðu heimsreisur og lúxusheimili. Allar skuldir hreinsaðar upp svo þeir geti hafið störf í nýju ríkisbönkunum okkar. Rökin sem FME og ráðamenn færa fyrir þessu er að það sé ómögulegt að manna yfirmannastöður í nýju bönkunum nema þetta sé gert, því lögum samkvæmt mega gjaldþrota einstaklingar ekki starfa fyrir banka!!!

Fyrir mér er þetta stríðsyfirlýsing við okkur venjulegu borgarana í þessu landi sem erum flest með lán í þessum bönkum. Ef skuldir og sukk þessara óreiðumanna eru sópaðar útaf borðinu þá vil ég að það sama gangi yfir alla!!!!!! tugþúsundir töpuðu stórum hluta af sparnaði sínum, tugþúsundir venjulegra hluthafa í bönkunum töpuðu öllu sínu.... ég gæti haldið endalaust áfram... ég hef aldrei reiðst eins mikið á ævi minni og þegar ég heyrði þetta.

Þetta er hámark spillingarinnar og hvet ég ykkur til að hafa samband við sem flesta og beina reiði ykkar að þingmönnum okkar. Þetta endar með ofbeldi annars."


Rauðsól Jóns Ásgeirs rís upp í fjölmiðlabransanum

raudsol
Ég trúði nú mátulega þeim fréttaskrifum í Mogganum (með undirtitlinum Rauðsól) að sameining Árvakurs og 365 væri úr sögunni. Veit ekki hvort þetta átti að vera spuni eða tilraun til að afsaka að einn maður er orðinn drottinn allsherjar á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Rauðsól Jóns Ásgeirs verður svo sterkt dómínerandi afl í samfélaginu með fjölmiðlavaldi sínu að ekkert annað hefur sést áratugum saman. Nema þá að við viljum fara að hugsa til Murdochs, Berlusconi og annarra slíkra risa sem hafa notað vald sitt mjög einbeitt til að búa í haginn fyrir sjálfan sig.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst Rauðsól svolítið kómískt nafn. Kannski hefði Maístjarnan eða Dagsbrún (æ ég gleymdi því að þessir menn eru búnir að nauðga því fræga verkalýðsnafni) verið betra. Er þetta Rauðsól Baugs eða Samfylkingarinnar? Kannski verður lógó Rauðsólar sama rauðsólin og Samfylkingin notar?

mbl.is Árvakur verði almenningshlutafélag á næstu árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameiginleg ábyrgð margra á þjóðarvanda

Ég er alveg sammála norska hagfræðingnum Andreassen um ábyrgð á vanda íslensku þjóðarinnar. Hún er margra aðila, enginn einn maður hefur stýrt þessari för. Eigi að kenna einum embættismanni eða þrem í besta falli um vanda þjóðarinnar hlýtur að vera spurt um þá sem voru yfirmenn þeirra og horfðu á allt gerast. Þetta er stærra mál en svo að einn maður hafi verið meinsemd alls. Fjöldi manns, pólitískt kjörnir fulltrúar og embættismenn, gerðu ekkert þó öll aðvörunarljós ættu að hafa kviknað.

Mér finnst fáir eins billegir þessa dagana og forystumenn Samfylkingarinnar. Þeir eru á kafi í að spinna atburðarás til að kusk falli ekki á þá. Samt var þetta lið með viðskiptaráðherrann og formanninn í stjórn Fjármálaeftirlitsins, stofnunar sem steinsvaf svefninum langa þegar hún átti að vaka. Samfylkingin getur ekki kastað ábyrgðinni frá sér. Með ríkisstjórnarþátttöku síðustu sautján mánuði hefur hún haft öll tækifæri til að snúa af leið og gera hlutina öðruvísi en aðrir.

Hún gerði það ekki og bendir því ekki trúverðugt í aðrar áttir. Þrátt fyrir lekann í ríkisstjórnarherberginu og tilraunir til að spinna atburðarásina frá Björgvin og Jóni Sigurðssyni er það ekki ábyrgt. Samfylkingin ætti að líta í eigin barm og tala við þá menn sem hún valdi til að vera á vakt, en brugðust algjörlega. Þangað ættu þau að beina reiði sinni, eigi að taka mark á tali þeirra.

mbl.is „Hefði átt að vera búið að stoppa ykkur fyrir löngu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband