Amma Obama deyr rétt fyrir opnun kjörstaða

Barack Obama fær fréttirnar um lát ömmu sinnar
Enginn vafi leikur á því að Barack Obama verður kjörinn 44. forseti Bandaríkjanna á morgun. Vafinn er sá eini hversu stór sigurinn muni verða. Í kvöld lést amma hans, Madelyn Dunham, aðeins örfáum klukkustundum áður en kjörstaðir opna. Stóra spurningin er nú hversu stór samúðarbylgjan til Obama mun verða. Ég tel, eins og bandarískir fréttaskýrendur, að hún verði nokkuð traust og geti fært honum ríki sem honum óraði ekki fyrir að vinna fyrir nokkrum mánuðum, þar af mjög traust repúblikanaríki á öllum venjulegum mælikvörðum.

Menn eru farnir að velta fyrir sér hvort hann vinni traustari sigra en Bill Clinton tókst 1992 og 1996. Tel það ekki óhugsandi. Ég tel að hann fái traust umboð. Á ekki von á mjög spennandi kosninganótt. Tel að þetta ráðist mjög fljótlega af stöðunni á Austurströndinni. Vinni Obama Bush-ríki frá árinu 2004, skömmu eftir miðnættið að íslenskum tíma; Virginíu, Flórída, Georgíu og Norður-Karólínu, plús Indiana og Ohio, eru örlögin ráðin, enda þá í raun ljóst að McCain getur ekki unnið.

Tel alveg öruggt að Obama fái vel yfir 300 kjörmenn í kosningunum og myndi jafnvel telja að hann gæti farið yfir 330. Clinton hlaut 370 kjörmenn árið 1992 og 379 árið 1996. Fái Obama yfir 350 og sigraði í nokkrum repúblikanaríkjum gæti hann tryggt eyðimerkurgöngu repúblikana um nokkuð skeið. Fái demókratar 60 sæti í öldungadeildinni eru þeir með öll völd í höndum sér og geta ráðið algjörlega einir hver fær sæti John Paul Stevens í hæstarétti.

Nafn Hillary Rodham Clinton hefur verið nefnt í því samhengi - samið hafi verið við Clinton-hjónin að hún fái eitthvað traust í sinn hlut fyrir stuðninginn á lokasprettinum sem hefur skipt miklu máli, sérstaklega í Ohio og Flórída, lykilríkjunum 2000 og 2004 sem hafa mikil áhrif á niðurstöðuna nú. Hillary hefur verið mjög dugleg að vinna fyrir Obama, enn duglegri en bjartsýnustu mönnum þorði að óra fyrir. Flokkshollustan er henni mikilvæg, en einhver loforð hafa verið gefin tel ég.

Hvað varðar öldungadeildina tel ég að stóru úrslit kvöldsins verði hvort Liddy Dole, eiginkona Bob Dole, nái endurkjöri í N-Karólínu. Felli Kay Hagan hana af sínum stóli verða það söguleg úrslit og táknræn endalok á pólitískri sögu Dole-hjónanna. Vinni demókrati gamla sætið hans Jesse Helms er sögulegur sess þessara kosninga endanlegur. Það yrðu virkileg söguleg þáttaskil.

Bob Dole tapaði fyrir Clinton forseta fyrir tólf árum - beið þá hreinlega afhroð - og hætti þá í öldungadeildinni, þar sem hann hafði verið flokksleiðtogi repúblikana um langt skeið. Dole var stríðshetja, eins og John McCain - gleymum því ekki. John Kerry er í þeirri kategóríu ennfremur. Ekki virðist titillinn stríðshetja hafa úrslitaáhrif.

mbl.is Amma Obama látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ágætur pistill. En Obama verður 45. maðurinn sem kjörinn verður forseti Bandaríkjanna, sennilega gleymir þú Al Gore sem var 43. maðurinn sem kjörinn var forseti Bandaríkjanna.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 4.11.2008 kl. 00:34

2 identicon

Ég efast um að hann slái Clinton við. Ég bara sé það ekki gerast. En svo er að sjá hversu stóran sigur hann vinnur. Aðal spennan gengur út á það.

Óskar Örn Arnarson (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 01:25

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

er á sama máli og Laissez-Faire/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 4.11.2008 kl. 08:41

4 Smámynd: Fannar frá Rifi

Kristján. Al Gore var aldrei svarinn inn í embætti Forseta.

Fannar frá Rifi, 4.11.2008 kl. 09:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband