Valtýr víkur sæti - deilt um vanhæfi og tengsl

Valtýr Sigurðsson hefur tekið rétta ákvörðun með því að víkja úr rannsóknarferlinu á bankahruninu. Hinsvegar finnst mér eðlilegt að hann viðurkenni tengslin við son sinn, sem er forstjóri þess fyrirtækis sem er einn af aðaleigendum einkarekna Kaupþings. Þjóðin gat ekki sætt sig við að maður með svo mikil fjölskyldutengsl gæti stjórnað einhverri hlið rannsóknar á bankahruninu. Mun betra er að viðurkenna að ættartengslin rýra traust þjóðarinnar heldur en fara í einhvern feluleik með það.

Þjóðin hefur fengið nóg af hálfkveðnum vísum og tali um fjölskyldutengsl þeirra sem eiga að koma að rannsókninni, hvort sem er á frumstigi hennar eður ei. Allt verður að fara upp á borðið og þeir sem stýra málum verða að vera hreinir í málinu og hafnir yfir allan vafa um vanhæfi við rannsóknina. Eina vitið er að leita til erlendra óháðra aðila til að stýra rannsókninni.

Í svo fámennu landi verður erfitt að kafa djúpt og án þess að kjaftasögur um vanhæfi svífi yfir vötnum. Þetta verður að vera leiðangur sem treyst verður fyllilega.

mbl.is Valtýr rannsakar ekki starfsemi bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Obama standa undir öllum væntingunum?

Barack Obama
Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, á mikið og erfitt verk fyrir höndum, ekki aðeins næstu 75 dagana meðan hann mótar ríkisstjórn sína heldur fyrstu hundrað dagana í Hvíta húsinu - heimsbyggðin öll ber miklar væntingar til hans um að standa við loforð sitt um að breytingarnar verði alvöru en ekki bara orð á fjölprentuðum kosningaspjöldum. Væntingar vinstrimanna til Obama minna mjög mikið á væntingarnar sem þeir báru til þess að Tony Blair myndi breyta miklu þegar hann var kjörinn forsætisráðherra Bretlands í stórsigri Verkamannaflokksins árið 1997. Hann olli þeim vægast sagt miklum vonbrigðum.

Tony Blair varð sameiningartákn andstöðunnar gegn John Major og ríkisstjórn íhaldsmanna á miðjum tíunda áratugnum - andlit samstöðu gegn ráðandi valdhöfum og leiddi þá til glæsilegs kosningasigurs, sem komst í sögubækurnar. Blair var ungur og mælskur stjórnmálamaður sem náði að sameina fólk með ólíkar skoðanir, sérstaklega yngra fólk, að baki sér og mynda nýja blokk gegn þeirri sem hafði lengi ráðið ríkjum og var orðin mjög umdeild undir lokin. Frægðarganga Obama minnir ískyggilega mikið á það sem gerðist í Bretlandi á pólitískum örlagatímum um miðjan tíunda áratuginn. Kallað var eftir breytingum.

Erfitt er fyrir einn mann að standa undir öllu slíku. Stundum er auðveldara að stofna til byltingar en standa undir því sem fylgir henni, að byggja nýtt valdakerfi og ætla að snúa við því sem áður var og barist svo harkalega gegn. En demókratar fá gullið tækifæri í Washington til að standa við loforð sín. Obama mun sem forseti hafa þingið að baki sér og ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði til að láta breytingarnar rætast með þeim hætti sem hann vill en ekki aðrir. Ekki verður hann sligaður af andstöðunni sem mætti George W. Bush úr þinginu undir lok valdaferilsins.

Demókrataþingið er óvinsælla en George W. Bush en naut klárlega óvinsælda hans og vinsælda Obama í forsetakjörinu. Þeir fá hreint borð og traust umboð nú. Þegar Bill Clinton var kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember 1992 lofaði hann öllu fögru og vann rétt eins og Obama á boðskap um breytingar gegn gamalgrónu valdakerfi og þreyttum stjórnmálamönnum liðinna tíma. Clinton átti erfitt með að standa við loforðin þrátt fyrir að demókratar réðu báðum þingdeildum og fékk skell í þingkosningunum 1994. Hann náði þó endurkjöri í baráttu við Bob Dole 1996.

Þetta eru spennandi tímar, ekki aðeins í bandarískum stjórnmálum heldur í alþjóðastjórnmálum. Þetta ætti að verða upphaf á einhverju nýju, öll tækifæri eru fyrir hendi til að laga það sem aflaga hefur farið að mati demókrata með fyrsta þeldökka forsetann í sögu Bandaríkjanna við völd í Hvíta húsinu. Nú fá þeir tækifærið til að láta ljós sitt skína og sýna hvort demókratar geti gert betur en áður við forystu mála. Obama getur meira að segja reynt að gera betur en Blair gerði þegar hann lofaði breytingum en sveik það loforð eftirminnilega.

Ég vona allavega að vinstrimenn geti verið ánægðari með Obama en Blair. Nógu sárir og svekktir eru þeir þegar nafn hans ber á góma í dag, enda stóð hann ekki undir væntingum þeirra um breytingar. Hann fór frá völdum spilltur og þreyttur rétt eins og þeir sem hann barðist gegn. Obama virðist hafa stuðning víða að, þó mér finnist stuðningsyfirlýsing Silvio Berlusconi við hann ansi vel orðuð og kómísk.


mbl.is Sólbrúnn og sætur spámaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fótboltadraumur Björgólfs á leiðarenda

Ég hef frekar litla samúð með Björgólfi Guðmundssyni í þrengingum hans. Held að það væri mesti sóminn fyrir hann að losa um eignir og draga saman seglin nú þegar hann hefur tekið skellinn hérna heima. Efast um að almenningur sætti sig við annað. Þetta á við um fleiri útrásarvíkinga sem hafa flogið hátt í þeirri svikamyllu sem útrásin er orðin. Þetta er þjóðarskellur og ekki neitt annað í stöðunni en þeir sem leiddu hana sýni að þeir axli sína ábyrgð.

Enda gengur ekki að maður sem hefur misst allt út úr höndunum hér heima og skuldsett heila þjóð með ævintýramennsku haldi áfram eins og ekkert hafi í skorist með þessum hætti.

mbl.is Björgólfur íhugar að selja West Ham
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir reynir að koma í veg fyrir fjölmiðlalög

Ég skil yfirlýsingar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem svo að hann vilji koma í veg fyrir nauðsynlega lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum með því að gefa eftir, nú þegar hann hefur keypt upp alla einkareknu fjölmiðla landsins á nokkrum árum. Vel má vera að einhverjum þyki það nægilega góð trygging en ég tek hana ekki mjög gilda. Staðan nú er lexía fyrir þá sem börðust gegn fjölmiðlalögunum fyrir rúmum fjórum árum og töldu hana ónauðsynlega framkvæmd.

Vel hefur komið ljós að undanförnu að mikið ógæfuspor var að lagasetningin varð ekki að veruleika. Þeir sem efuðust sjá vonandi hlutina í öðru ljósi. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að fjórða valdið safnist allt á hendi eins manns, sem sér beinlínis hag af því að kaupa sér frið frá fjölmiðlaumfjöllun og stýra henni.


mbl.is Tilbúinn til að fara niður fyrir 40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Sarah Palin rísa upp á rústum repúblikana?

Sarah Palin
Ein stærsta spurningin í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum er hvort Sarah Palin, ríkisstjóri í Alaska, muni gefa kost á sér sem forsetaefni repúblikana í kosningunum 2012. Hún var nær algjörlega óþekkt þegar John McCain valdi hana sem varaforsetaefni sitt og hlaut eldskírn sína pólitískt í átökunum þá 70 daga sem hún var við hlið hans. Áður en efnahagslægðin skall á voru raunhæfar líkur á að Palin yrði varaforseti en þær vonir gufuðu upp í skugga efnahagskreppunnar þegar McCain hafði í raun tapað forsetakosningunum og náði ekki stuðningi óháðra.

En Palin fékk ókeypis auglýsingu og kynningu í þessum forsetakosningum og er orðin heimsþekkt. Ræða hennar á flokksþinginu í St. Paul stimplaði hana inn sem einn af framtíðarleiðtogum Repúblikanaflokksins hvort heldur er í starfinu á landsvísu eða sem leiðtogaefni í valdakerfinu í Washington. Hún naut þess klárlega að mörgu leyti að vera algjörlega utan við valdakerfið í Washington sem er rúið trausti en tapaði að sumu leyti líka fyrir reynsluleysi sitt í utanríkismálum. Samt hafði hún álíka litla þekkingu á því og Obama og Clinton þegar þeir fóru í forsetaframboð.

Eitt kom áþreifanlega í ljós í kosningabaráttunni. Sarah Palin sameinaði repúblikana til að vinna fyrir flokkinn, hún tryggði þátttöku þeirra sem þoldu ekki John McCain og fundu ekki farveg til þátttöku í kosningabaráttunni eftir að hann sigraði Mitt Romney. En hún varð mjög umdeild og sumir líktu henni við George W. Bush, sem var ríkisstjóri áður en hann fór í forsetaframboð. Hún færði McCain það sem honum vantaði áþreifanlega fyrir flokksþing repúblikana; fólksfjölda á framboðsfundum og áþreifanlega ánægju flokksmanna með að leggja flokknum lið á erfiðu kosningaári.

Örlög kosningaslagsins réðust meðal óháðu kjósendanna sem völdu breytingar í stað reynslunnar. Barack Obama sigraði þrátt fyrir að hafa ekki verið lengi á sviðinu og með litla ferilskrá í utanríkis- og varnarmálum. Hann ávann sér styrk og stuðning innan flokksins með einlægni og baráttugleði. Kannski verður Sarah Palin framtíðarstjarna fyrir repúblikana. Það verður vissulega undir henni sjálfri komið. Hún hefur persónulega styrkleika sem geta nýst repúblikunum nú þegar John McCain er úr myndinni.

Kannski verður ræða Söru Palin í St. Paul álíka sterkt leiðarljós fyrir innsta kjarnann í Repúblikanaflokknum og ræðan hans Barack Obama var fyrir demókrata á flokksþinginu í Boston. Tíminn einn mun leiða í ljós hver framtíð repúblikana verði á þessum þáttaskilum sem fylgja svíðandi tapi og miklu persónulegu áfalli fjölda forystumanna. Margir núllast út í þessu óveðri og helst þeir sem hafa verið of lengi á sviðinu. Kannski þurfa repúblikanar fulltrúa nýrra tíma rétt eins og demókratar.

mbl.is Næstu skref Palin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband