8.11.2008 | 19:37
Orðspor Íslands stórlega skaddað á alþjóðavísu
Súrrealískt er að hlusta á fjölmiðlaumfjöllun um bankahrunið á Íslandi og niðursveifluna, sem enn er ekki orðin alvöru, enda botninn ekki orðinn algjör. Við eigum eftir að taka mikinn skell á öllum sviðum og færast mjög langt aftur í tímann í lífsgæðum. Lífsstandardinn á eftir að taka mikinn kipp þegar sverfur virkilega að. Ég óttast að við eigum enn eftir að taka þungan skell áður en alvöru botni verður náð.
Verst af öllu er að Ísland er orðið að skólabókardæmi á alþjóðavísu um þjóð sem fór fram úr sjálfri sér, týndi grunnlífsgildum sínum og gleymdi verðmætamatinu. Ég held að það verði sársaukafullt að upplifa það fall en kannski verður það einhver lexía.
![]() |
Ekkert land hrunið hraðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.11.2008 | 17:50
Er eggjakastið og grimmdin rétt mótmælaaðferð?
Kannski er þetta ofbeldi, grimmdin, hluti af því að mótmæla. En ég held að friðsamleg mótmæli þar sem skoðanir koma fram óhikað og einbeittur baráttuvilji sé besta leiðin til að vekja athygli á málstaðnum. Á þeim boðskap er hægt að komast mjög langt og stundum þarf ekki að grípa til hreins ofbeldis til að málstaðurinn hafi sigur. En það er erfitt fyrir suma að beina baráttueldinum að þeim sem barist er gegn nema ofbeldi eða skemmdarfýsn komi þar við sögu. En það er ekki góð aðferð og stundum getur hún snúist upp í andstæðu sína.
![]() |
Eggjum kastað í Alþingishúsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.11.2008 | 14:46
Silkihanskameðferð á Sigurði Einarssyni á Stöð 2
Mér er slétt sama hvort Davíð Oddsson hefur sagt eitthvað við þá Kaupþingsmenn eða hvort þeir þoli hann ekki. Ekkert af því skiptir máli. Nú þarf hinsvegar að spyrja alvöru spurninga þegar útrásarvíkingarnir eru annars vegar. Verklag þeirra og upphafin forysta hefur verið algjörlega innihaldslaus og útrásin dæmd sem hrein svikamylla. Mörg mál eru mikilvægari en þetta og það sýnir innhaldsleysi viðtalsins að þetta sé aðalfréttin.
![]() |
Sigurður: Lenti illilega saman við Davíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.11.2008 | 13:43
Obama styður Ísrael af krafti í baráttu gegn Íran
Vel hefur komið í ljós á síðustu dögum að Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, verður ötull málsvari Ísraels á forsetastóli. Þetta kemur fram í vali hans á Rahm Emanuel (sem gárungarnir nefna Rahm-bo) sem starfsmannastjóra Hvíta hússins og ennfremur af orðum Obama á fyrsta blaðamannafundi hans sem viðtakandi forseti um Íran. Ég get ekki heyrt mikinn mun á orðavali Obama og George W. Bush um Íran. Ríkisstjórn Obama verður á vaktinni vegna Írans og mun ekki hika við að beita valdi muni Íransstjórn halda áfram kjarnorkuframleiðslu sinni.
Í kosningabaráttunni varð vart við þann mikla misskilning að Obama myndi ekki taka upp sömu stefnu og Bush forseti í málefnum Írans og Ísraels. Það reynist markleysa, bæði þarf hann að tala eins og Bush forseti í þessum þýðingarmiklu málum til að ná til lykilhópa sem komu honum í forsetaembættið og auk þess vill hann ekki marka sig sem forseta sem veitir afslátt í utanríkis- og varnarmálum. Með þessu sýnir Obama að hann hefur í raun sömu stefnu í málefnum Ísraels og Írans og þeir sem hann barðist gegn í kosningabaráttunni innan flokks og utan.
Mér finnst samt valið á Emanuel ramma inn tryggð og stuðning Obama við Ísrael. Enginn einn maður gæti orðið meira andlit Ísraels og örlagavaldur í stjórnkerfinu en Rahm Emanuel. Með því að fela honum algjör völd í innra kerfi Hvíta hússins felast sterk skilaboð um utanríkisstefnu Obama-stjórnarinnar þó enn sé ekki vitað hver utanríkisráðherrann verður.
Reyndar er ég nokkuð handviss um að John Kerry verður utanríkisráðherra, enda sögusagnir um að hann sé að væla í Obama um að fá embættið, en hann hefur veikst mjög í sessi pólitískt eftir tapið í forsetakosningunum 2004. Svo er greinilega öruggt að Bob Gates, varnarmálaráðherra Bush-stjórnarinnar, mun halda áfram.
![]() |
Forystuhæfileikar Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)