Af hverju var Björgvin G. svo illa upplýstur?

Merkilegast af öllu sem fullyrt er um aðdraganda bankahrunsins er hve Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, var illa upplýstur um mörg mál á leynifundum leiðtoga stjórnarflokksins með eða án seðlabankastjórum. Æ betur kemur í ljós að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir talaði ekki við hann um öll mál. Mér finnst koma mjög vel fram í málflutningi Davíðs Oddssonar í viðskiptanefnd í morgun að Björgvin hafi verið utan við stóran hluta málsins og í raun hafi utanríkisráðherrann haldið utan um bankamálin af hálfu Samfylkingarinnar, eða í það minnsta verið verkstjóri ákvarðana þar innanborðs.

Ummæli Davíðs vekja vissulega mikla athygli, bæði í dag og áður á fundi Viðskiptaráðs. Þar talar hann um samtöl við forystumenn stjórnarflokkanna án Björgvins G. Sigurðssonar sem virðist hafa verið utangarðs í mikilvægum samtölum. Skiptir þá litlu hversu mikið var vitað um bankahrunið eða hversu miklu líkar væru á því að það gæti gerst. Þetta er meira en lítill farsi. Mér finnst merkilegt sem er að koma í ljós hversu lítið Ingibjörg og Björgvin ræddu þessi mál ef rétt er.


mbl.is Ingibjörg: Aldrei talað um 0% líkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsöm ákvörðun Valgerðar Sverrisdóttur

Ég tel að það sé skynsamlegt hjá Valgerði Sverrisdóttur að gefa ekki kost á sér til formennsku í Framsóknarflokknum. Með þessu opnar hún fyrir kynslóðaskipti í forystusveit flokksins og tryggir að hann geti stokkað sig upp án aðkomu þeirra sem hafa tilheyrt forystunni í formannstíð Halldórs Ásgrímssonar. Ekki er ósennilegt að næsti formaður Framsóknarflokksins verði einhver af þeim þingmönnum sem hefur setið mjög skamman tíma á þingi eða jafnvel maður utan þings sem býr flokkinn undir kosningar á nýjum forsendum.

Eina manneskjan í forystusveit Halldórstímans sem eftir er á sviðinu sem hefur stöðu í formennskuna er væntanlega Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður. Mér finnst samt af umræðunni að dæma að líklegt sé að Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, sækist eftir formennskunni og auk þess Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður héðan frá Akureyri. Yfirlýsing Höskuldar í dag um að hann velti fyrir sér framboði er reyndar svo afgerandi að hún hljómar helst sem leiðtogaframboð í Norðausturkjördæmi fyrir næstu kosningar.

mbl.is Formaður fram að flokksþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð sniðgengur íslensku fjölmiðlana

Mér finnst Davíð Oddsson senda mikil og öflug skilaboð til íslensku fjölmiðlanna, bæði í viðtalinu við danska blaðið og með því að veita kínverskum fjölmiðli einkaviðtal við sig í dag, eftir fundinn í viðskiptanefnd. Þeir fengu lítinn sem engan aðgang að honum í morgun. Þetta getur ekki orðið flóknara en orðið er. Hann sendir þvílíku skammtana til fjölmiðlanna og segir reyndar í danska viðtalinu að hefðu fjölmiðlarnir í landinu virkað en ekki verið málpípa auðmannanna sem þá áttu hefðu þeir getað staðið sig í stykkinu.

mbl.is Miserfitt að hætta í pólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð minnir á sig og tekur sér stöðu á sviðinu

Ég túlka ummæli Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, sem svo að hann viti eitthvað sem er svo nýtt og alvarlegt í samhengi aðdraganda þess að Bretar beittu hryðjuverkalögum á Íslendinga að það myndi valda miklum stormi hér á Íslandi. Eflaust mun það koma fram þó síðar verði og setja mark sitt á umræðuna.

Hann heldur því fyrir sig, þó mér gruni að vitneskja hans sé almennari en mörgum óri fyrir. Þar séu upplýsingar sem snerti ráðamenn landsins og einhver samskipti á milli þeirra innbyrðis eða við bresk stjórnvöld nema þá hvort tveggja sé.

Davíð minnir klárlega á sig í dag. Hann leysir ekki algjörlega frá skjóðunni en segir samt svo margt. Með viðtalinu við danska blaðið um framtíð sína hefur hann þó sagt að ábyrgðina á hruninu taki hann ekki á sig.

Mér finnst felast í tjáningu og framkomu Davíðs að hann muni berjast til loka, ef ekki aðeins við forna pólitíska andstæðinga heldur og mun frekar þá innan Sjálfstæðisflokksins sem hafa opnað á að hann hætti.

Þetta heitir á góðri íslensku að vígbúast.

mbl.is Davíð ber fyrir sig bankaleynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk endurkoma Davíðs í kortunum

Davíð Oddsson og Geir H. Haarde
Yfirlýsing Davíðs Oddssonar um pólitíska endurkomu er mjög afgerandi. Verði hann neyddur til að axla ábyrgð á vanda sem er í raun á ábyrgð ríkisstjórnarinnar mun hann snúa á ný í stjórnmál. Ég undrast það ekki, enda myndi hann þá taka slaginn og ljúka ferlinum með því að byggja nýja stöðu á öðrum vettvangi. Þetta gerði dr. Gunnar Thoroddsen eftir að hann hafði tapað forsetakosningum árið 1968 og orðið hæstaréttardómari en ákvað að snúa aftur þegar dr. Bjarni Benediktsson lést árið 1970. Hann varð áhrifamaður fram á áttræðisaldur og náði forsætisráðherraembættinu sjötugur að aldri. Ein merkilegasta pólitíska endurkoman í íslenskri sögu.

Davíð segir tvennt með þessari yfirlýsingu; ef hann verður neyddur af ríkisstjórninni til að taka á sig skellinn muni það þýða ósjálfrátt að hann taki slaginn við þetta fólk og freista þess að taka frumkvæðið í baráttunni. Auk þess er hann auðvitað að gefa í skyn að sú barátta verði mjög hörð og hann spari sig hvergi í uppljóstrunum og lykilupplýsingum. Í þessu getur falist fyrirboði um endurkomu í forystu Sjálfstæðisflokksins eða stofnun nýs flokks fari svo að Sjálfstæðisflokkurinn taki upp afgerandi Evrópustefnu á landsfundi í næsta mánuði. Þetta eru því auðvitað mikil tíðindi, en þurfa ekki að koma að óvörum eftir orð sumra síðustu dagana.

Sumir segja að Davíð Oddsson hafi aldrei hætt í pólitísku starfi og verið á sviðinu allan tímann. Hann hefur auðvitað mikla nærveru, er sigursælasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar að mjög mörgu leyti, enginn hefur lengur verið forsætisráðherra en Davíð og hann hefur verið í forystusveit í íslensku samfélagi í raun síðan hann varð oddviti borgarstjórnarflokksins árið 1980. Hann hefur alltaf talað í fyrirsögnum og átt auðvelt með að ná sviðsljósinu. En samt fannst mér hann láta eftirmönnum sínum í forystunni fá mjög gott svigrúm til að vinna málin áfram og þvældist lítið fyrir þeim innan flokksins í beinu starfi hans. En Davíð er Davíð. 

Þessi yfirlýsing er fyrirboði um að hann ætli sér ekki að fara þegjandi af sviðinu ef í harðbakkann slær, ætli að berjast alla leið. Svo verður að velta fyrir sér hvað gerist í Sjálfstæðisflokknum á næstu mánuðum. Öllum er ljóst að skilaboð Davíðs eru einföld. Hann muni ekki sætta sig við að taka skellinn fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins í efnahagshruninu.

mbl.is Davíð: „Þá mun ég snúa aftur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástþór borinn út af skipulagsfundi borgarafundar

Mér finnst það svolítið merkilegt sem fram kemur á bloggvef Ástþórs Magnússonar í kvöld að hann hafi verið borinn út með valdi af þremur mönnum af skipulagsfundi fyrir borgarafundinn í Háskólabíói næsta mánudagskvöld. Veit ekki hvort það kemur að óvörum að nærveru hans sé ekki óskað en mér finnst þetta svolítið sérstök vinnubrögð hjá þeim sem ætla að hafa borgarafund fyrir fólkið og fá fólk með ólíkar skoðanir þar að borðinu, ef frásögnin er rétt hjá Ástþóri.

Kannski er það virðingarvert að þessi hópur komi í veg fyrir afskipti annarra af samkomunni en mér finnst undarlegt að þeir sem vilja áheyrnarfulltrúa á fundum stjórnvalda komi í veg fyrir að aðrir sitji fundi þeirra sjálfra. Ég heyrði um daginn að komið hefði verið í veg fyrir að sumir hefðu borið fram spurningar á borgarafundinum. Heyrði nafn vörubílstjóra nefnt. Ætli það hafi verið sá frægi Sturla sem segist ætla að bjóða sig fram næst, þó ekki fyrir frjálslynda.

Annars fannst mér borgarafundurinn vel heppnaður. Vel af sér vikið hjá ráðherrunum, einkum leiðtogum stjórnarflokkanna, að mæta og tala við fólk. Þessi fundur var upplýsandi og ágætur að mörgu leyti.

mbl.is Forseti ASÍ á borgarafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu traust verður samstarf Obama og Cameron?

Obama og Cameron
Ef marka má stöðuna á hinu pólitíska sviði í dag munu Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, og David Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, þurfa að vinna vel saman á næstu árum, sérstaklega ef Cameron verður húsbóndi í Downingstræti 10 eftir næstu þingkosningar í Bretlandi. Sögusagnir af samskiptum þeirra og stirðum samtölum í London í Evrópuför Obama í júlí vekur samt spurningar um hversu vel þeir muni ná saman.

Báðir eru þeir fæddir á sjöunda áratugnum og hefur tekist að leiða flokka sína úr eyðimerkurgöngu í pólitískri baráttu; Obama eftir tvo ósigra demókrata í forsetakjöri og Cameron eftir þrjá ósigra breskra íhaldsmanna. Mér finnst kjaftasögurnar um að Obama hafi fundist Cameron léttvigtarmaður í ósamræmi við samskipti þeirra í sumar og sérstaklega þegar hluti einkasamtals þeirra varð opinber vegna þess að þeir voru nálægt hljóðnemum fjölmiðla.

Þó að Obama og Cameron séu úr flokkum sem taldir eru til hægri og vinstri er þar með fjarri því sagt að kuldi verði í samskiptum þeirra síðar meir. Þegar George W. Bush var kjörinn forseti Bandaríkjanna í stað Bill Clinton fyrir átta árum áttu flestir von á því að samskipti hans og Tony Blair yrðu mjög stirð og erfið, einkum í ljósi þess hversu vel Blair og Clinton náðu saman auk þess sem eiginkonur þeirra voru í miklum samskiptum.

Engu að síður varð Tony Blair einn nánasti bandamaður Bush á forsetaferli hans og fylgdi honum alla leið í Íraksstríðinu. Allt þar til Blair hvarf af hinu pólitíska sviði voru samskipti þeirra mjög mikil og var þeim líkt við fóstbræður þegar Blair flutti úr Downingstræti 10. Samskipti Gordon Brown og Bush hafa verið lágstemmdari en samt talsverð.

Þegar kemur að því að vinna saman skipta flokkstengsl ekki öllu máli eða ólíkar grundvallarskoðanir í pólitík. Þetta sannast allavega á Bush og Blair sem voru eins og ein heild að margra mati í huga þeirra sem áður áttu von á því að þeir gætu ekki unnið saman.

mbl.is Ekki hrifinn af Cameron
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband