Fjármálaeftirlitið skrifar upp á viðskipti Birnu

Einhvern veginn kom mér það ekki að óvörum að Fjármálaeftirlitið myndi skrifa upp á viðskipti Birnu Einarsdóttur í Glitni. Mér hefur fundist um nokkuð skeið að Fjármálaeftirlitið sé gjörsamlega steinsofandi stofnun sem er varla trúandi fyrir neinum hlut og hefur á sér merki sofandagangs og seinheppni í eftirlitshlutverki sínu. Nýjasta verkið sem felst í því að fela KPMG að fara yfir bankana og það sem gerðist þar er svo fyrir neðan allt að ekki er hægt að una við það.

Á sama hátt og saksóknararnir tveir voru ekki færir um að fara yfir þau mál er varla hægt að horfa til KPMG sem skrifaði upp á reikninga sumra útrásarfyrirtækjanna og verk þeirra og vegna tengsla forstjóra KPMG við forstjóra Stoða, svo fátt eitt sé nefnt. Mér finnst það ábyrgðarhluti að svona sé unnið og það er ekki hægt að una við það.

Ég veit ekki hvað skal halda um Birnu og viðskipti hennar. En þetta mál er á svo gráu svæði að það vekur fleiri spurningar en þetta hvítvottorð svarar í sjálfu sér. En Fjármálaeftirlitið er hætt að koma á óvart fyrir löngu. Þjóðin hefur algjörlega misst trúna á að það geti verið sá eftirlitsaðili sem fellir óháða dóma og tekur virkilega til.

mbl.is FME aðhefst ekki vegna viðskipta Birnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrílslæti í Alþingishúsinu

Ég get ekki sagt að mér finnist mikill sómi að því að vera með skrílslæti í þinghúsinu. Slíkt verður aðeins túlkað sem vanvirðing við þinghúsið og starfið sem þar fer fram. Allir sem eiga sæti á þingi hafa hlotið umboð þjóðarinnar og verið kjörnir til starfa og hafa fullan seturétt þar. Mótmæli gegn þeim sem þjóðin hefur kosið verður aldrei túlkað nema sem vanhugsuð framkvæmd. Allt í lagi er að tjá skoðanir sínar og hafa mótmæli með siðsamlegum mörkum en þetta fer yfir þau mörk og gott betur en það.

Mér finnst svolítið skrítið að sjá svona týpu af mótmælum þegar krónan styrkist dag frá degi og bensínverðið lækkar frá degi til dags. Hverju er þetta fólk eiginlega að mótmæla? Er þetta að snúast upp í Kárahnjúkamótmæli í Reykjavík? Mér sýnist það og líka satt best að segja ekki við þá þróun. Er þetta kannski mótmælin sem Hörður Torfason var að gefa í skyn eða er þetta algjörlega á ábyrgð nokkurra einstaklinga sem aðhyllast stjórnleysi og telja sæmilegt að mótmæla án ábyrgðar?

Mér er svosem sama. Svo er fólkið hissa á að lögreglan beiti valdi. Hver haldið þið að viðbrögðin hafi verið ef þetta gerðist í þinghúsinu í Washington eða London? Ég man þegar ég fór í þinghúsið í Washington fyrir nokkrum árum að fjögur til fimm öryggishlið voru á leiðinni frá Cannon-byggingunni yfir í þinghúsið og engum hleypt þar inn nema með passa. Við megum þakka fyrir að geta þó farið í þinghúsið okkar og fylgst þar með.

Ég held að það sé allt að því einsdæmi að fólk geti gengið beint inn í þinghúsið sitt og fylgst með umræðum og verið í sjónlínu við þingmennina sína í þingsal.


mbl.is Þingfundur hafinn á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama fórnar símanum, sígarettum og netfanginu

obama1
Ljóst er nú orðið að fórnarkostnaðurinn fyrir Barack Obama, verðandi forseta Bandaríkjanna, við flutninginn í Hvíta húsinu verður að láta af hendi Blackberry-símann sinn, hætta að reykja og senda tölvupóst. Obama sást varla án Blackberry-símans síns í kosningabaráttunni, notaði hann meira að segja þegar dætur hans voru að keppa í íþróttum og á löngum flugferðum vítt og breitt um Bandaríkin, auk þess að vera með hann á sér á kosningafundum og stuðningsmannasamkomum. Ekki er hefð fyrir því að forsetar hafi farsíma og mun Obama ætla að beygja sig undir ægivald leyniþjónustunnar í þeim efnum.

Nokkrir forsetaframbjóðendur töluðu mikið um það að þeir sendu ekki tölvupóst. George W. Bush sagði í kosningabaráttunni 2000 að hann væri ekki með netfang og hann hefur alveg örugglega ekki komið sér upp einu slíku í Hvíta húsinu. Að sögn gárunga sagði Al Gore eitt sinn að hann hefði fundið upp internetið svo hann hefur örugglega verið með netfang á árum sínum í Hvíta húsinu. Bill Clinton notaði ekki tölvupóst á árum sínum í Hvíta húsinu. John Kerry spurði eitt sinn á fundi fyrir reyndar þónokkuð löngu hvað þetta at-merki þýddi eiginlega.

Barack Obama var með mjög tæknivædda kosningabaráttu og ætlaði sér að nota netfang í Hvíta húsinu, en hefur sætt sig við boð leyniþjónustunnar um að gefa það eftir við flutninginn í Hvíta húsið. Hann hefur því engan einkapóst eftir 20. janúar en í staðinn munu skrifstofufólk hans fara yfir allt sem kemur til hans í gegnum póstinn á vefsíðu Hvíta hússins, rétt eins og var á dögum Clintons og Bush yngri. Eitt er þó ljóst: Obama mun væntanlega flytja vikulegt forsetaávarp sitt á netinu og hefur þegar byrjað á því eftir kosningasigurinn.

Og svo eru það reykingarnar. Obama ætlar að hætta að reykja endanlega við flutninginn en hefur átt erfitt með að gefa þann ósið upp á bátinn. Kjaftasögurnar segja að hann hafi lofað dætrunum og eiginkonunni að hætta að reykja ef hann yrði forseti, auk þess að gefa dætrunum hund. Hvort hann muni standast freistinguna að reykja ekki utan hins reyklausa Hvíta húss verður svo að koma í ljós.

En hver segir svo að það sé tekið út með sældinni að flytjast í 1600 Pennsylvaníu-stræti? Meira að segja valdamesti maður heims verður að gefa eftir það sem öðrum þykir sjálfsagt og sætta sig við að leyniþjónustan hefur sín boð og bönn fyrir yfirmann sinn.

mbl.is Obama lofar að reykja ekki í Hvíta húsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband