Verður Eurovision haldin á vellinum ef við vinnum?

Keflavíkurflugvöllur Ég glotti út í annað þegar að ég heyrði að Þórhallur og hans fólk hjá Sjónvarpinu væru farin að undirbúa sig undir að halda Eurovision á gamla varnarliðssvæðinu ef við vinnum keppnina á morgun. Kannski er eðlilegt að hafa plan í stöðunni og gott að Sjónvarpið sé farið að velta þessu fyrir sér.

Finn mikla eftirvæntingu eftir morgundeginum. Við erum eðlilega hungruð í sigur eftir slæmt gengi í Eurovision nær allan þennan áratug, eftir að Selma var nærri búin að vinna í Jerúsalem fyrir níu árum. Er líka við hæfi að vera sigurviss, við erum með besta lagið okkar klárlega í keppninni síðan þá og eðlilegt að við höfum trú á okkar fólki. Við unnum hálfan sigur svosem með því að komast áfram eftir svo langa ógæfusögu og við eigum alveg að geta komist mjög langt á morgun.

Flestir spá okkur sæti á topp tíu og ég held að við munum enda þar, alveg klárlega. Ef gæði laganna eru metin er alveg ljóst að við erum með lag sem hefur kraft og stöðu til að fara mjög langt. Og auðvitað eigum við að vera með á að við getum unnið keppnina. Ég man reyndar þegar að við tókum fyrst þátt með Gleðibankann fórum við eiginlega til Björgvins í Norge með það að markmiði að vinna. Íslenska keppnisskapið út í eitt.

Vonbrigðin þá voru mikil. Höfum svosem lært okkar lexíu. Þá var stóra spurningin hvar við gætum haldið keppnina ef við myndum vinna. Allir spurðu sig að því þegar að Sigga og Grétar voru í toppslagnum 1990 með Eitt lag enn og þegar að Nei eða já fór vildum við fara alla leið. Þeir sem héldu utan um málefni RÚV voru með öndina í hálsinum þegar að Selma leiddi atkvæðagreiðsluna 1999 og þá stóðum við næst sigri.
 
Við getum alveg haldið þessa keppni. Nóg af stöðum til að spá í að hafa keppnina. Við erum þekkt fyrir að vera frumlegheit og redda hlutunum á mettíma. Verð þó að viðurkenna að ég sá ekki þessa hugmynd Þórhalls fyrir, eins smellin og hún er. Ágætt innlegg í sigurtilfinninguna degi fyrir úrslitin.

mbl.is Evróvisjón á vellinum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk hitabylgja í kortunum

SólinVeðurspáin fyrir næstu dagana er alveg yndisleg. Hitabylgja í kortunum og stefnir í grillpartý hér allsstaðar á morgun samhliða Eurovision, sýnist mér. Verður allavega stuð og gleði á morgun, þegar að úrslitakeppnin fer fram. Svona spá er allavega algjör bónus við stemmninguna og eiginlega gulls ígildi.

Er líka mjög gott að fá svona góða tíð eftir veturinn. Eigum þetta öll svo vel skilið. Verður fróðlegt að sjá hvort við fáum jafngott sumar og í fyrra. Þá var mikil sól og mjög þurrt allt sumarið. Man varla eftir þurrari sumri, enda voru bændurnir fúlir og rigningardagarnir hér á Akureyri voru allavega léttilega teljandi.

En þetta er kærkomið fyrir okkur öll, verður syngjandi sæla þessa Eurovision-helgi.

mbl.is Næstum óraunveruleg veðurspá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk þjóðargleði - frábær árangur í Eurovision

Regína Ósk og Friðrik Ómar Eiginlega er það fyrst núna sem maður er að ná sér niður eftir gærkvöldið. Þvílík skemmtun í gærkvöldi. Algjörlega magnað. Þetta var auðvitað sannkölluð íslensk þjóðargleði, það var allavega fagnað alveg eins og við hefðum unnið keppnina. Eftir svo mörg ár í undankeppninni án nokkurs árangurs er þetta gleðilegur áfangi, hvað svo sem gerist á morgun. Allt í viðbót er plús.

Gleðin í gær var svo sönn. Finnst þetta jafnast eiginlega við gleðina eftir að við urðum í öðru sætinu árið 1999. Við vorum allavega komin í þörf fyrir því að fagna eftir mjög vond ár í Eurovision-keppninni. Höfum ekki verið í úrslitakeppninni síðan að Jónsi söng Heaven fyrir fjórum árum og löngu kominn tími til að við næðum lengra. Ef við hefðum ekki náð áfram með þessa flottu frammistöðu hefði verið hin stóra spurning hvað gæti þá eiginlega virkað á tónlistaráhugamenn Evrópu. En þetta gekk upp og gott betur en það.

Fannst reyndar merkileg tilviljun að við erum næst á eftir Póllandi á svið á morgun. Sama gerðist árið 1999. Selma Björnsdóttir var næst á svið eftir pólska laginu þá, sem ég man ekki hvað hét reyndar, enda minnir mig að því hafi ekki gengið sérstaklega vel. Pólska lagið er rólegt og vonandi mun stuðbylgjan í okkar lagi verða góð á eftir því. Held að við höfum verið heppin með okkar númer á úrslitakvöldinu.

Svo er auðvitað bara stuð og fjör á morgun, enn eitt Eurovision-partýið. Held að við getum verið stolt og ánægð hvernig sem fer úr þessu. Aðalmarkmiðið var að komast áfram, gera út af við bömmerinn mikla og þunglyndið yfir því að við næðum ekki upp úr undankeppninni. Úr þessu verður þetta bara stuð og gleði. Enda gerir okkar fólk sitt besta og gott betur en það.

mbl.is „Kom skemmtilega á óvart“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland áfram - glæsilegt hjá Frikka og Regínu

Regína Ósk og Friðrik Ómar Loksins, eftir fjögurra ára bið, tókst Íslandi að komast upp úr undankeppninni í Eurovision í kvöld. Glæsilegur árangur. Frikki og Regína Ósk stóðu sig alveg glæsilega og leiftraði af þeim krafturinn og keppnisgleðin í atriðinu, sem var gríðarlega vel unnið og þau sungu sig inn í úrslitakeppnina með miklum glans.

Var alltaf viss um að þeim tækist þetta, enda eru þau svo miklir fagmenn í sínu, gera þetta pró og flott, að annað kom varla til greina. Keppnin hefur verið ein vonbrigði fyrir okkur síðan að Birgitta Haukdal náði tólfta sætinu með Open Your Heart vorið 2003. Selmu Björnsdóttur, Silvíu Nótt og Eiríki Haukssyni mistókst að komast áfram og því er það svo sætt að loksins hafi það tekist, burtséð frá því hvað gerist á laugardaginn.

Mikil gleði braust út í partýinu sem ég var í áðan. Verð þó að viðurkenna þegar að umslagið með Albaníu var dregið upp, á undan því íslenska, hugsaði ég með mér hvort að þetta myndi virkilega ekki takast. Áhyggjur voru óþarfar og væntanlega hefur gleðiöskur landsmanna glumið í hverju húsi með sjónvarp í lagi þegar að umslagið íslenska var fiskað upp úr körfunni. Svo var sérstaklega flott að bæði Svíþjóð og Danmörku tækist að komast áfram, þó að við hötum flest Charlotte Nilsson Pirrelli út í eitt eftir að hún rændi sigrinum af Selmu okkar fyrir níu árum.

Mörg flott lög komust áfram, var mest hissa á því að Portúgal tækist að komast áfram og svo var valið á hinum gamaldags reynsluboltum frá Króatíu skemmtilega óvænt. Norrænu þjóðirnar mega vel við una og verða öll á sviðinu á laugardag. Er það í fyrsta skiptið í fjöldamörg ár sem samnorrænn bragur verður á úrslitakvöldinu. Vonandi græðum við á því.

Líst annars vel á þetta á laugardaginn. Lykilmarkmiðið var að sanna að við kæmumst upp úr fjandans undankeppninni og það tókst. Allt annað er og verður plús. En vonandi náum við allavega inn á topp tíu, efri hluti þess yrði yndisleg búbót fyrir söngfuglana okkar, sem hafa staðið sig svo vel. Fyrir þjóðina er þetta fersk og góð vítamínssprauta á vordögum.

Óska ykkur innilega til hamingju með glæsilegan árangur Frikki og Regína Ósk. Þið hafið unnið vel fyrir ykkar - mikið er það nú sætt að ógæfa undankeppnanna síðustu árin er að baki og loksins eigum við skemmtilegt laugardagskvöld yfir keppninni eftir sorrífíling síðustu ára.

mbl.is Ísland áfram í Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. maí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband