18.1.2009 | 16:36
Ný framsóknarstjarna - vandræðalegt klúður
Ég vil óska Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni til hamingju með glæsilegt formannskjör í Framsóknarflokknum. Kjör hans markar kynslóðaskipti og þáttaskil fyrir Framsókn. Ekki er langt síðan hann gekk í flokkinn og hann er ekki markaður neinum fyrri átökum í flokknum og kemur inn á eigin vegum en ekki annarra. Hann ætti því að geta leitt flokkinn af braut sundrungar og óheilinda og gefið þeim sóknarfæri í átökum næstu mánaða, en æ líklegra er að kosningar verði á árinu.
En mitt í þessum sögulegu þáttaskilum Framsóknar verður eitt vandræðalegasta klúður sem ég hef séð og heyrt af í íslenskri stjórnmálasögu. Lýst er yfir formannskjöri Höskuldar Þórhallssonar og hann rétt að fara að flytja sigurræðu sína þegar ljóst er að tölum hefur verið víxlað. Þetta er eitthvað svo dæmigert fyrir fyrri klúður framsóknarmanna og lánleysi þeirra. En vonandi er fall fararheill í þessum efnum.
En niðurlæging Halldórsarmsins margfræga er staðreynd í þessum úrslitum. Valinn fulltrúi þeirra fær afhroð og valinn er á formannsstólinn ungur og frambærilegur maður sem getur virkilega sagt að hann sé fulltrúi nýrra tíma, enda nýr í pólitík og hefur margt gott fram að færa - getur í raun og sann verið nýtt leiðarljós Framsóknarflokksins og kannski bjargvættur hans ef honum gengur vel í embætti.
![]() |
Sigmundur kjörinn formaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2009 | 14:51
Óvænt úrslit hjá Framsókn - afhroð hjá Páli
Greinilegt er á úrslitum fyrri umferðar í formannskjöri Framsóknarflokksins að þingfulltrúar vilja nýtt upphaf hjá flokknum og hafa afgerandi hafnað valkosti hins gamalkunna Halldórsarms. Afhroð Páls Magnússonar verður ekki túlkað nema sem skipbrot þeirrar klíku sem hefur ráðið völdum í flokknum frá því að Steingrímur Hermannsson fór í Seðlabankann árið 1994 og lét Halldóri Ásgrímssyni eftir völdin í flokknum.
Greinilegt er að fjölmargir hafa vanmetið sérstaklega styrk Höskuldar Þórhallssonar, alþingismanns. Hann græðir á því að vera sitjandi þingmaður og vera mjög öflugur fulltrúi nýrra tíma. Sama gildir um Sigmund Davíð sem hefur komið sem ferskur vindblær í þessa kosningu, táknmynd nýjunga og breytinga, sem Framsókn þarf sannarlega á að halda. Páll, sem hefði átt möguleika áður fyrr, á ekki séns í þessu árferði.
Fróðlegt að sjá hvernig fer á eftir, en úrslitin verða ekki túlkuð, á hvorn veginn sem fer, en sem sigur þeirra sem hafa gagnrýnt Halldórsarminn og verklag hans. Varla þarf að efast um eftir þessa kosningu að Siv verði varaformaður, en greinilegt er að hennar fulltrúar hafa unnið vel á bakvið tjöldin til að stöðva Pál Magnússon frá því að vinna formennskuna.
![]() |
Höskuldur og Sigmundur áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2009 | 12:26
Léleg tilraun til að réttlæta Kryddsíldarmótmælin
Því miður gengu þeir sem réðust að Hótel Borg og vildu komast inn alltof langt og fóru yfir strikið margfræga með því að skera á kapla og ráðast að fólki sem var aðeins að sinna sinni vinnu. Ég hugleiði reyndar enn hvort það sé tilgangur út af fyrir sig að ætla að stöðva fólk sem er að sinna sinni vinnu, sem það hefur verið kjörið til, og koma í veg fyrir að það geti talað um þjóðmálin og sinnt sínum störfum.
Sjálfur hef ég oft gagnrýnt Stöð 2 og eigendur hennar. Flestir ættu að vita það. Hinsvegar fannst mér það vanhugsað að leyfa ekki forystumönnum þjóðarinnar að tala í þessum þætti og ætla beinlínis að eyðileggja einn vinsælasta sjónvarpsþátt landsins. Allir hafa jú haft skoðanir og einhvern áhuga á Kryddsíldinni ef þeir á annað borð fylgjast með stjórnmálum. Enda þarna fólk með ólíkar skoðanir.
Uppgjör á gamlársdegi hefði átt að fara fram. Við getum svo haft hvaða skoðanir sem við viljum á því og fellt okkar dóma. Skoðanamyndun er ekki bönnuð í landinu og við höfum öll okkar rétt á að tjá okkur. Við sjáum það vel á blogginu, sem dæmi, að allir hafa sínar skoðanir og eru óhræddir við að tjá sig heiðarlega undir nafni. Nafnleysingjarnir verða alltaf sér á báti, hversu ólíkir sem þeir annars eru.
Ekkert réttlætir ofbeldi og skemmdarverk. Því dæmir þetta sig sjálft, hversu mjög sem Einar Már reynir að réttlæta það.
![]() |
Kryddlegin Baugshjörtu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2009 | 00:32
Þreytuleg sparnaðarsöngvakeppni
Greinilegt er að sparað er eins og mögulegt má vera í söngvakeppninni að þessu sinni. Glamúrkjólar Ragnhildar Steinunnar eru komnir í geymsluna og hún látlaust klædd með Evu Maríu, aldrei þessu vant. Svo er gamla sviðsmynd þáttarins hennar Ragnhildar Steinunnar búin að fá nýtt hlutverk í söngvakeppninni. Eitthvað hljóta menn að spara með því að hætta með sérhönnuð dress og að byggja sérstakt svið fyrir fjóra til fimm þætti í sjónvarpssal.
En reyndar má tónlistin eiga það að hún sameinar fólk og flestir horfa á þetta hvort sem þeim svo líkar eður ei. Allir tala um þetta, hvort sem þeir tala showið í kaf eða lofsyngja það. En ég velti fyrir mér hvernig lögin hljómuðu sem var hafnað, miðað við það sem komið er þetta árið af lögunum sem hlutu náð fyrir augum dómnefndar.
Eitt að lokum, finnst ykkur ekki eins og mér að sumir brandarar þeirra Evu og Ragnhildar séu frekar ódýrir?
![]() |
Lögin sem komust áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)