Léleg tilraun til að réttlæta Kryddsíldarmótmælin

Ekki finnst mér tilraunir þeirra sem stöðvuðu formenn flokkanna í að tjá sig um þjóðmálin í Kryddsíld á gamlársdag hafa verið árangursríkar. Ekki hefur þeim tekist að tjá sig trúverðugt um tilganginn á bakvið það að stöðva þáttinn og heiðarlega umræðu um landsmálin. Einar Már, sá mikli penni og rithöfundur, gerir heiðarlega tilraun með sínu líkingamáli en eftir sem áður vantar eitthvað trúverðugt í lýsingarnar.

Því miður gengu þeir sem réðust að Hótel Borg og vildu komast inn alltof langt og fóru yfir strikið margfræga með því að skera á kapla og ráðast að fólki sem var aðeins að sinna sinni vinnu. Ég hugleiði reyndar enn hvort það sé tilgangur út af fyrir sig að ætla að stöðva fólk sem er að sinna sinni vinnu, sem það hefur verið kjörið til, og koma í veg fyrir að það geti talað um þjóðmálin og sinnt sínum störfum.

Sjálfur hef ég oft gagnrýnt Stöð 2 og eigendur hennar. Flestir ættu að vita það. Hinsvegar fannst mér það vanhugsað að leyfa ekki forystumönnum þjóðarinnar að tala í þessum þætti og ætla beinlínis að eyðileggja einn vinsælasta sjónvarpsþátt landsins. Allir hafa jú haft skoðanir og einhvern áhuga á Kryddsíldinni ef þeir á annað borð fylgjast með stjórnmálum. Enda þarna fólk með ólíkar skoðanir.

Uppgjör á gamlársdegi hefði átt að fara fram. Við getum svo haft hvaða skoðanir sem við viljum á því og fellt okkar dóma. Skoðanamyndun er ekki bönnuð í landinu og við höfum öll okkar rétt á að tjá okkur. Við sjáum það vel á blogginu, sem dæmi, að allir hafa sínar skoðanir og eru óhræddir við að tjá sig heiðarlega undir nafni. Nafnleysingjarnir verða alltaf sér á báti, hversu ólíkir sem þeir annars eru.

Ekkert réttlætir ofbeldi og skemmdarverk. Því dæmir þetta sig sjálft, hversu mjög sem Einar Már reynir að réttlæta það.

mbl.is Kryddlegin Baugshjörtu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einmitt, ofbeldi er aldrei réttlætanlegt hver sá sem tilgangurinn er.  Ofbeldi leiðir aðeins af sér meira ofbeldi.

Júlía Helgadóttir (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 12:53

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ég veit ekki hvernig staðan er norðan heiða Stefán, en hér sunnan þeirra er staðan að minnsta kosti sú að mikill meirihluti fólksins VILL EKKI hafa þetta fólk áfram sem forystumenn þjóðarinnar og um það snúast mótmælin. Fólki er orðið nokk sama hvað þeim finnst og enginn tilgangur í því að hlusta á orðræðu þeirra og hora á ánægju þeirra við að hlusta á sjálfa sig. Þeir hafa ekki fært fram neinar langtíma lausnir enn sem komið er og hafa þó haft til þess að verða 4 mánuði.

Þjóðin (eða um 70% hennar skv. skoðanakönnunum) er búin að fá nóg af valdhegðun Sjálfstæðisflokksins og hrokans sem felst í því að sitja áfram "no matter what" og trúa því enn að engum öðrum sé treystandi til verksins.

Allir eru því sammála að til þess að hefja endurreisnar tímann þarf að ríkja almennt traust í samfélaginu, og það traust næst ekki meðan að núverandi ríkisstjórn situr sem fastast. Standi þau undir því trausti fæst það aðeins sannað með endurnýjuðu umboði í kosningum.

Baldvin Jónsson, 18.1.2009 kl. 13:10

3 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Stefán, þú segir í pistlinum hér fyrir ofan:

Ég hugleiði reyndar enn hvort það sé tilgangur út af fyrir sig að ætla að stöðva fólk sem er að sinna sinni vinnu, sem það hefur verið kjörið til, og koma í veg fyrir að það geti talað um þjóðmálin og sinnt sínum störfum.

Ég er ekki frá því að margir velti fyrir sér þessa dagana. Af hverju var þetta fólk ekki stöðvað fyrir löngu. Þeir sem ekki fengu að ljúga meiru að okkur á gamlársdag eru fólk sem vílar ekki fyrir sér að fara á svig við lög og beita klíkuskap í hvívetna í sínu starfi.

Seðlabankastjóri hefur skipað sjálfur, eða látið skipa fyrir sig, vini, spilafélaga, son og frændfólk í opinberar stöður, stundum án auglýsinga, annars þvert á fagnefndir. Þá lagði hann niður heilu stofnanirnar ef þeim varð á að pirra hann eitthvað. Ekki má gleyma minnisvörðunum tveimur sem hann lét reisa sér, kassann í tjörninni, sem breytti öllum fallegu húsunum við Tjarnargötuna í kofa og Perlunni sem Orkuveitan var látin borga. Að ógleymdu gullkorninu í Kastljósi: Við borgum ekki skuldir óreiðumanna. Það féll aldeilis í góðan jarðveg. 

Forsætisráðherra hefur enn ekki fundið hryggjarstykkið úr sjálfum sér til að víkja þessum spillta seðlabankastjóra úr starfi. Þá virðist hann ekki hafa mikil samskipti við konu sína um stjórnarsetu hennar í FL Group, einhverri mestu svikamillu með almenningshlutafélag sem Íslendingar hafa séð.

Fjármálaráðherra er í braski með eignarhluti í fjármálastofnunum. Seldi hlut í SpH á 50 millur, en vill ekki gefa upp hvað hann á mikið í Byr ásamt öllum alræmdustu útrásarvíkingunum. Ráðuneytisstjóri hans seldi 120 milljón króna hlut í Landsbankanum eftir að hafa fengið innherjaupplýsingar sem síðan var stungið undir stól. Ekki gleyma hvern Árni skipaði í héraðsdóm eftir að dómsmálaráðherra mælti með honum.

Menntamálaráðherra á maka sem makaði krókinn í Kaupþingi. Var með  rúmar 10 milljónir í laun á mánuði þar, átti svo að fá að græða á 500 milljóna króna hlutabréfastöðu í Landsbankanum sem hann fékk lánað fyrir, en þarf ekki að standa skil á þótt allt hafi farið á versta veg. Ekki gleyma tveimur ferðum með fríðu föruneyti til Kína á ÓL fyrir milljónir á kostnað skattgreiðenda. Þá má telja upp hundruð milljóna í gæluverkefni suður með sjó, sem voru í óþökk íþróttaháskólans að Laugum og Fjörukráarinnar í Hafnarfirði. Ekki er menntakerfið betra eftir en áður.

Svona get ég lengi talið, en nenni ekki. Þá spyr ég aftur: Heldur þú að það séu ekki margir í dag sem velti fyrir sér hvers vegna þetta fólk var ekki stoppað fyrir löngu?

Sigurður Ingi Jónsson, 18.1.2009 kl. 13:12

4 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Stefán Friðrik - hefur þú séð afsökunarbréfið sem 365 miðlar sendu þessum níðingum, sem eyðilögðu einn kapal.  Þar viðurkenna þeir að hafa rangfært að tækjabúnaður hafi skemmst.

En elsku kallinn minn - þú eins og við hin, börn þín og barnabörn munu greiða sitt gjald til keisarans.

Vona að þú munir þá sáttur sýna börnum þínum þitt framlag til baráttunnar 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 18.1.2009 kl. 14:12

5 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

„[...] að stöðva þáttinn og heiðarlega umræðu um landsmálin“

hahahaa

þú hlýtur að vera að spauga?

Brjánn Guðjónsson, 18.1.2009 kl. 17:26

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Auðvitað var þetta heiðarleg umræða, Brjánn. Þarna voru leiðtogar allra flokka landsins, fólk með mjög ólíkar skoðanir. Ætlarðu kannski að reyna að segja mér að allir sem sátu við borðið hafi verið sammála og því hafi umræðan verið dæmd til að vera léleg á þeim forsendum?

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.1.2009 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband