Davíð í góðu skjóli af verkum Ögmundar

Skemmtilegasta frétt dagsins hlýtur að vera að Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og alþingismaður að auki, hafi tryggt svo mjög réttindi opinberra starfsmanna að erfitt verði fyrir hundraðdaga vinstristjórnina að láta Davíð Oddsson, Eirík Guðnason og Ingimund Friðriksson fara. Eflaust verður það mjög dýrt og mikið verk fyrir vinstrimenn að leggja í. Um Davíð hljóta að gilda reglur um opinbera starfsmenn, þó mörgum sé mjög illa við hann.

En hvernig er það með hann Ögmund, þarf hann ekki að segja af sér sem formaður BSRB þegar hann verður heilbrigðis og félagsmálaráðherra (skv. almannarómi) í vinstrabixinu? Svona svo hann sé ekki bullandi vanhæfur.

mbl.is Davíð undir væng Ögmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðmundur fetar í fótspor feðranna

Ég er ekki hissa á því að Guðmundur Steingrímsson ætli sér að feta í fótspor feðranna Hermanns og Steingríms og sækjast eftir leiðtogastól Framsóknar í Norðvestri, þar sem afinn vann sögulega sigra í Strandasýslu og faðirinn náði metorðum út á forna frægð hans. Stóra spurningin er þó hvort samstaða náist meðal framsóknarmanna á svæðinu um að skipta út Magnúsi Stefánssyni sem vann fullnaðarsigur á Sleggjunni fyrir síðustu kosningar og velja Guðmund sem lítið hefur afrekað pólitískt nema að vera afkomandi föður síns og afa.

Guðmundur kemur væntanlega sterkur inn sem fulltrúi nýju tímanna í flokknum og gæti passað vel við hlið Sigmundar Davíðs og þeirra Birkis Jóns og Höskuldar hér í Norðaustrinu. Þar sem Valgerður mun sennilega hætta er stóra spurningin hvor þeirra taki við hér.

En kannski fara ættartengslin langt með það að redda honum pólitískum metorðum. Greinilegt er að sumarbústaðatengingin skiptir eðlilega lykilmáli.


mbl.is Guðmundur: Stefnir á fyrsta sætið í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Baldvin hundfúll með valið á Jóhönnu

Augljóst er að Jón Baldvin Hannibalsson er hundfúll með valið á Jóhönnu Sigurðardóttur sem væntanlegum forsætisráðherra. Hann hefur í viðtali við Mogga og Stöð 2 í gærkvöldi gert mun meira úr göllum Jóhönnu en kostum og talað hana niður sem sterkan valkost á þessum örlagatímum. Enn eimir eftir af harðvítugum persónulegum átökum þeirra sem enduðu með því að þau gátu ekki rúmast í einum flokki undir forystu beggja. Vandamál þeirra urðu meiri en svo að einn smáflokkur gæti rúmað það. Hatur þeirra á hvoru öðru var ekki aðeins persónulegt heldur pólitískt og eyðilagði Alþýðuflokkinn sem stjórntækan stjórnmálaflokk.

Í raun má segja að fáir pólitískir samherjar hafi rifist meira og unnið meira gegn hvoru öðru en Jón Baldvin og Jóhanna. Eflaust mætti skrifa heila bók um samskipti þeirra eða öllu heldur samskiptaleysi á vinstristjórnarárunum 1988-1991 og í Viðeyjarstjórninni meðan þau gátu unnið saman og komist fyrir í forystu eins flokks. Hámarki náði þessi ólga með heiftarlegum átökum á flokksþingi Alþýðuflokksins 1990 og 1994, þar sem Jóhanna fékk endanlega nóg og gaf kost á sér gegn Jóni Baldvini í formannskjöri en tapaði og yfirgaf flokkinn við svo búið.

Átök þeirra á milli náðu það miklum dramatískum hæðum á flokksþinginu í Hafnarfirði árið 1990 að þau rifust heiftarlega á ræðum á fundinum og hnakkrifust þegar þau stóðu saman á sviðinu í þingsal eftir að hafa verið endurkjörin formaður og varaformaður. Frægar eru myndirnar af því þegar tókust saman í hendur og fögnuðu en rifust eins og hundur og köttur og Jóhanna var rauð af reiði í framan. Eftir þetta færðust þau sífellt í sundur og endaði með því að Jóhanna sagði af sér varaformennsku árið 1993 en hélt áfram sem félagsmálaráðherra.

Þá var leitað til Rannveigar Guðmundsdóttur sem bráðabirgðavalkosts í varaformennsku en valdaátökum frestað fram að flokksþingi 1994. Þar fór Jóhanna fram en beið meiri ósigur en mörgum hafði órað fyrir. Ræða hennar á því augnabliki er söguleg pólitískt og fleyg hafa orðið lokaorðin: Minn tími mun koma. Nú fimmtán árum síðar verður hún forsætisráðherra og nær því embætti sem Jón Baldvin vildi alltaf en hafnaði þegar vinstriflokkarnir buðu honum það reyndar árið 1991 - þá valdi hann frekar að gera Davíð Oddsson að forsætisráðherra.

Pólitíska sagan mun meta Jón og Jóhönnu sem eitt eldfimasta pólitíska par íslenskrar stjórnmálasögu. Samskipti þeirra og hitinn þeirra á milli er með því dramatískara í seinni tíð og nægar sögur að segja af því. Enn eimir eftir því þegar Jón Baldvin gerir upp við Jóhönnu og horfir greinilega ekki brosmildur fram á veginn með hinn endanlega pólitíska sigur hennar.

mbl.is „Jóhanna vinnusöm en þröngsýn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumar eftiráskýringar í Samfylkingunni

Eftir því sem meira heyrist af vinnubrögðum Samfylkingarinnar á lokaspretti ríkisstjórnarsamstarfsins því ómerkilegri verða þau og augljóst að leitað var að öllum útgönguleiðum og tylliástæðum til að slíta því. Nú er ljóst að enginn tíu atriða listi var lagður fram og því um að ræða auma eftiráskýringu Samfylkingarinnar til að láta hlut sinn í endalokunum líta betur út en ella. Öllum er ljóst að örlög samstarfsins voru ljós nokkru áður en Ingibjörg Sólrún kom heim frá Stokkhólmi og í raun að reynt var að búa til endalokin með óraunhæfri kröfu um forsætisráðherrastólinn.

Nú er t.d. ljóst að Jóhanna Sigurðardóttir var ekki rædd sem forsætisráðherraefni fyrr en að loknum þingflokksfundi Samfylkingarinnar í hádeginu á mánudag og þá sem útspil þegar sjálfstæðismenn voru að slíta - rætt var um fjögur til sex nöfn áður en hún kom fram, þó hún væri presenteruð sem einhver bjargvættur þingræðisins til að skapa þrýsting á sjálfstæðismenn. Önnur nöfn sem voru nefnd áður voru öll utan þings; t.d. Helga Jónsdóttir, besta vinkona ISG, Þórólfur Árnason, Dagur B. Eggertsson og að sumir segja Jón Sigurðsson.

Heilindin í þessu samstarfi voru löngu farin og segja má að þau einu sem eftir voru síðustu vikur var náið persónulegt samstarf Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar. Það samstarf hélt miklu lengur en stjórnarsamstarfið sjálft.


mbl.is „Ótrúlega ómerkilegt“ af Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umboðsmaður Íslands afþakkar aðstoðarmannslaun

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég vonaði að aðstoðarmenn þingmanna myndu lenda í niðruskurðartillögum ríkisstjórnarinnar í fjárlagavinnunni, enda er margt mikilvægara en standa í slíku dútli á þessum örlagatímum þjóðarinnar. Mér finnst þó heiðarlegt og gott þegar einn þeirra, umboðsmaður Íslands sjálfur, Einar Bárðarson, afþakkar launin í yfirvofandi prófkjörsbaráttu og kosningabaráttunni.

Merkilegt annars að Kjartan Ólafsson hafi umboðsmann popparanna sem aðstoðarmann sinn. Á hann aðeins að redda ímyndarmálunum hans? Grunar það, enda margir sem vita ekki hver þingmaðurinn er.

mbl.is Einar af launaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband