4.1.2009 | 23:00
Richardson afþakkar - niðurlæging fyrir Obama
Brotthvarf Bill Richardson, ríkisstjóra í Nýju-Mexíkó, frá útnefningarferli í embætti viðskiptaráðherra er mikið pólitískt áfall fyrir Barack Obama, verðandi forseta Bandaríkjanna - það fyrsta sem hann verður í raun fyrir eftir að hann náði útnefningu demókrata og vann forsetakosningarnar í nóvember. Mál Rod Blagojevich er af allt öðrum toga og tengist forsetanum verðandi með allt öðrum hætti. Aðeins er mánuður liðinn frá því að Obama kynnti Richardson til leiks sem ráðherra í stjórn sinni og augljóst var að honum var ætlað stærra hlutverk og annað ráðuneyti síðar meir.
Eiginlega er það ótrúlegt að þetta mál hafi ekki komið upp áður og í raun orðið til að slá Richardson út af borðinu sem ráðherraefni, allavega í upphafi forsetatíðar Obama. Greinilegt er að einhver mistök hafa orðið, annað hvort hefur Richardson ekki komið heiðarlega fram með mál sem gætu skaðað hann eða þá að ekki hefur verið kannað betur hvað gæti leynst undir niðri. Þetta hefði þó orðinn enn meira högg fyrir Obama ef upp hefði komist í útnefningarferlinu fyrir þingnefndum og öldungadeildinni.
Bill Richardson reyndi allt sem hann gat til verða utanríkisráðherra í ríkisstjórn Obama og háði mikla baráttu bakvið tjöldin við fyrrum samherja sinn Hillary Rodham Clinton. Richardson sneri baki við Clinton-hjónunum, eins og frægt er orðið, með stuðningsyfirlýsingu við Obama á föstudeginum langa í fyrra. Clinton-hjónin litu á ákvörðun Richardsons sem vinslit, enda var hann ráðherra í Clinton-stjórninni, og enn er ekki gróið um heilt þar á milli.
Richardson taldi ákvörðunina myndu tryggja honum lykilembætti en svo fór ekki. Hillary náði hnossinu. Nú þarf hann að afþakka þó það sem hann fékk. Þetta er mikil pólitísk niðurlæging, ekki aðeins fyrir hann heldur forsetann verðandi. Þarna fór eitthvað meira en lítið úrskeiðis í vinnuferlinu, en þó hefði orðið enn verra hefði Richardson bakkað frá þessu í þingferlinu.
Þar með kvarnast úr hinni sögufrægu tilraun til að velja með sér hóp keppinauta um forsetaembættið til verka. Þar horfði Obama til Lincolns og hafði valið þrjá andstæðinga sína í forkosningaferlinu; Biden sem varaforseta, Hillary sem utanríkisráðherra og Richardson sem viðskiptaráðherra.
![]() |
Afþakkar embætti viðskiptaráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.1.2009 | 15:56
Tala Ingibjörg og Þorgerður fyrir sömu ríkisstjórn?
Mér fannst það pínlegt fyrir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að Þorgerður Katrín og Ingibjörg Sólrún sendu út á sama klukkutíma gjörólíkar yfirlýsingar um ástandið á Gaza-svæðinu - svo ólíkar að þær geta varla báðar verið skoðun ríkisstjórnar Íslands. Tala Þorgerður Katrín og Ingibjörg Sólrún virkilega fyrir sömu ríkisstjórn þegar sú önnur segir að ekki sé unnt að fordæma ástandið og hin segist fordæma það.
Hvernig er það annars; er síðasta límið í þessu stjórnarsamstarfi að bresta? Þorgerður Katrín var jú guðmóðir þessarar ríkisstjórnar eins og frægt er orðið.
![]() |
Fordæmir innrás á Gasa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.1.2009 | 15:39
Stjórnarsamstarf án heilinda
Æ betur kemur í ljós að engin heilindi eru lengur eftir í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að undanförnu bera glögglega vitni um það, einkum talið um þingkosningar í vor sem virðast hafa komið Geir Haarde og Þorgerði Katrínu mjög á óvart. Miðað við viðbrögð Þorgerðar mætti reyndar helst ætla að það sé eitthvað sem er á skjön á við það sem leiðtogar flokkanna hafa komið sér saman um. Lítil heilindi eru eftir í samstarfi þegar svona gjörólíkur tónn er á milli aðila.
Þegar að Ingibjörg Sólrún sagði að örlög samstarfsins réðust af útkomu landsfundar Sjálfstæðisflokksins túlkaði ég það sem hótun. Erfitt annað. Með þeim orðum var hún að stilla samstarfsflokki upp við vegg og hóta þeim sem sitja landsfundinn stjórnarslitum ef þeir gerðu ekki það sem henni þóknaðist. Þetta var hótanastíll sem ekki hefur heyrst lengi, enda er kjölfesta í samstarfi heilindi og sveigjanleiki. Þar sem ekki eru sömu skoðanir er reynt að ná málamiðlun, ella slíta því samstarfi.
Ég hef á síðustu vikum orðið sífellt hrifnari af þeirri hugmynd að kosið verði á þessu ári, þar sem þetta stjórnarsamstarf er að mörgu leyti komið á endastöð. Líka er mikilvægt að þeir sem eru á vaktinni leitist eftir endurnýjuðu umboði - kjósendur felli sinn dóm yfir þeim sem hafa ráðið för. Þar verði farið yfir allar hliðar mála og gert upp við liðna tíð, síðustu mánuði, sem eru þó eins og heil eilífð í örlagakapal þjóðarinnar.
Verst af öllu er að vera með ríkisstjórn sem er sammála um það eitt að halda völdum en getur ekki verið samstíga í verkum og orði. Þá er ekkert annað að gera en halda í kosningar og stokka spilin upp.
![]() |
ESB aðeins átylla fyrir stjórnarslitum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.1.2009 | 00:46
Barn misnotað í áróðursskyni á Austurvelli
Mér finnst eitthvað mjög rangt við þá framsetningu að stilla átta ára gömlu barni upp á svið fyrir framan hóp fólks til að öskra slagorð ofan í þá sem þar eru komnir og öskrin og fagnaðarlætin sem koma frá því. Þetta er misnotkun af versta tagi. Ætlar einhver að segja manni að þetta átta ára barn hafi algjörlega talað frá eigin hjarta um þessi hitamál samtímans. Hvernig á átta ára barn að meðtaka allt sem er að gerast og tala til fjöldahreyfingar um þjóðmál svo trúverðugt sé?
Þarna var farið yfir strikið.
![]() |
Mótmælt á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |