Richardson afþakkar - niðurlæging fyrir Obama

Bill Richardson og Barack Obama
Brotthvarf Bill Richardson, ríkisstjóra í Nýju-Mexíkó, frá útnefningarferli í embætti viðskiptaráðherra er mikið pólitískt áfall fyrir Barack Obama, verðandi forseta Bandaríkjanna - það fyrsta sem hann verður í raun fyrir eftir að hann náði útnefningu demókrata og vann forsetakosningarnar í nóvember. Mál Rod Blagojevich er af allt öðrum toga og tengist forsetanum verðandi með allt öðrum hætti. Aðeins er mánuður liðinn frá því að Obama kynnti Richardson til leiks sem ráðherra í stjórn sinni og augljóst var að honum var ætlað stærra hlutverk og annað ráðuneyti síðar meir.

Eiginlega er það ótrúlegt að þetta mál hafi ekki komið upp áður og í raun orðið til að slá Richardson út af borðinu sem ráðherraefni, allavega í upphafi forsetatíðar Obama. Greinilegt er að einhver mistök hafa orðið, annað hvort hefur Richardson ekki komið heiðarlega fram með mál sem gætu skaðað hann eða þá að ekki hefur verið kannað betur hvað gæti leynst undir niðri. Þetta hefði þó orðinn enn meira högg fyrir Obama ef upp hefði komist í útnefningarferlinu fyrir þingnefndum og öldungadeildinni.

Bill Richardson reyndi allt sem hann gat til verða utanríkisráðherra í ríkisstjórn Obama og háði mikla baráttu bakvið tjöldin við fyrrum samherja sinn Hillary Rodham Clinton. Richardson sneri baki við Clinton-hjónunum, eins og frægt er orðið, með stuðningsyfirlýsingu við Obama á föstudeginum langa í fyrra. Clinton-hjónin litu á ákvörðun Richardsons sem vinslit, enda var hann ráðherra í Clinton-stjórninni, og enn er ekki gróið um heilt þar á milli.

Richardson taldi ákvörðunina myndu tryggja honum lykilembætti en svo fór ekki. Hillary náði hnossinu. Nú þarf hann að afþakka þó það sem hann fékk. Þetta er mikil pólitísk niðurlæging, ekki aðeins fyrir hann heldur forsetann verðandi. Þarna fór eitthvað meira en lítið úrskeiðis í vinnuferlinu, en þó hefði orðið enn verra hefði Richardson bakkað frá þessu í þingferlinu.

Þar með kvarnast úr hinni sögufrægu tilraun til að velja með sér hóp keppinauta um forsetaembættið til verka. Þar horfði Obama til Lincolns og hafði valið þrjá andstæðinga sína í forkosningaferlinu; Biden sem varaforseta, Hillary sem utanríkisráðherra og Richardson sem viðskiptaráðherra.


mbl.is Afþakkar embætti viðskiptaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband