Absúrdismi og mannamunur á borgarafundi

Ég er alveg hættur að skilja borgarafundina sem haldnir eru vegna kreppunnar. Þeir fóru vel af stað, en eru komnir út í móa. Absúrdismi og mannamunur standa upp úr eftir þann í kvöld. Þar var einn ræðumanna með grímu fyrir andlitinu og vildi ekki láta nafns síns getið, lét eins og hann væri staddur undir nafnleynd á spjallvef. Auk þess er greinilegt að ekki er sama hverjir tala á fundinum og reynt að hefta málfrelsi sumra því það sem þeir segja hentar mögulega ekki þeim sem halda fundinn.

Þetta bæði hlýtur að leiða til þess að fundurinn missir marks, enda munaði litlu að hann endaði í rugli. Mér finnst stórundarlegt að þeir sem ávarpa svona fund og eru væntanlega að tala fyrir einhverjum boðskap geti ekki komið fram undir nafni og tjáð skoðanir sínar óhikað með heiðarlegum hætti, en ekki með blammeringum og óábyrgu tali þar sem engin persóna er á bakvið. Reyndar finnst mér merkilegt hvað gríman er að verða mikil táknmynd hjá hópnum sem mótmælir án Harðar.

Enda er greinilegt að það eru að myndast tvær hreyfingar mótmælenda, annar sem hugsar með höfðinu og vill vera ábyrgur í orði og verki og svo þeir sem vilja ekki bera ábyrgð á mótmælunum og ganga skrefinu lengra - telja ekkert heilagt og kallar sig þegar glæpamenn. Þetta er merkilegur fylkingamunur. Hitt er svo undarlegt að þeir sem koma á fundinn til að tjá sig fái ekki að gera það, þegar allir vita hver viðkomandi aðili er. Þetta heitir mannamunur á góðri íslensku sagt.

Stóra málið í þessu öllu er að mótmælendur ganga ekki í takt. Þeir eru í nokkrum fylkingum og ganga misjafnlega langt, enda sumir í mótmælum af ábyrgð en aðrir af ábyrgðarleysi. Aðrir fá svo greinilega ekki að vera með, ekki nógu verðmætir. Þetta er að verða að absúrdisma í bestu mynd orðsins.

mbl.is Lá við að fundurinn leystist upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirring stjórnmálanna

Varla er mikið að gerast í pólitíkinni í Frakklandi, á þessum örlagatímum, þegar aðalfréttin er hver sé barnsfaðir dómsmálaráðherra Frakklands. Kannski skiptir þetta máli fyrir einhverja, en hver er fréttin í þessu þegar alheimskerfið í efnahagsmálum brennur og miklar væringar í alþjóðastjórnmálum. Ég er ekki viss um að ég nennti að fylgjast með slíku dúllutali, séð og heyrt pólitík, ef hún gerðist hér. Hvar er forgangsröðin í umræðunni?

Hitt er svo annað mál að einhverjir eru uppteknir í því að velta fyrir sér hvort ráðherrann sé kannski að verða mágkona forsetans og vilji velta fyrir sér smáatriðunum í einkalífi hennar. Mér finnst samt svona pólitík innan í pólitíkinni ekki merkileg og eiginlega er þetta hluti af veruleikafirringu fortíðarinnar þegar fólk var að velta fyrir sér ómerkilegu hlutunum en gleymdi þeim merkilegu.

Við sjáum þetta vel hérna heima því við gleymdum okkur oft í smáatriðunum í einkalífi stjórnmálamanna og hvar þeir væru í glasi í kokteilboði og við hvern þeir skáluðu frekar en hugleiða aðalatriðin, undirstöður og lykilatriði samfélagsins. Þess vegna sváfum við á verðinum þegar allt fór á versta veg.

mbl.is Barnsfæðing vekur umtal í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vofir pólitísk feigð yfir heilbrigðisráðuneytinu?

Sú var tíðin að það jafngilti pólitískri feigð eða botnlausri ógæfu fyrir stjórnmálamann að taka við embætti heilbrigðisráðherra - vonlaust að höndla verkefnið, enda sparnaður sjaldan óvinsælli en í velferðarkerfinu. Þessu kynnist Guðlaugur Þór Þórðarson núna þegar hann þarf að skera niður tæpa sjö milljarða króna í krepputíð og þarf að taka á sig auknar óvinsældir. Sá sem er með svo stóran niðurskurðarhníf á lofti uppsker ekkert í staðinn nema botnlausar óvinsældir og allt að því hatur landsmanna sem sjá skrattann sjálfan í ráðherranum.

Forðum daga var þetta svipað. Hver man ekki eftir Sighvati Björgvinssyni sem var blóðugur upp fyrir axlir í niðurskurði í Viðeyjarstjórninni í upphafi tíunda áratugarins og barðist þar gegn nunnunum í Landakoti og fleirum þekktum postulum í velferðarkerfinu. Hann varð óvinsælasti maður landsins á einni nóttu í hlutverki sínu. Guðmundur Árni Stefánsson kom eins og kratariddarinn á hvíta hestinum inn í heilbrigðisráðuneytið úr bæjarstjórastólnum í Hafnarfirði og tók til við að sveifla niðurskurðarhnífnum. Hann endaði á kafi í drullupolli á mettíma.

Og hver man ekki eftir Ingibjörgu Pálmadóttur, sem þrátt fyrir að takast að höndla erfiða tíma í ráðuneytinu, bugaðist í önnum sínum og hneig niður í beinni sjónvarpsútsendingu. Hún var örvinda og búin á því og hætti í pólitík skömmu síðar, fór heim til að baka og elda fyrir strákana sína eins og margfrægt var. Fékk nóg. Ekki megum við heldur gleyma að sumir hafa höndlað verkefnið, en flestir þeirra hafa verið í ráðuneytinu á góðum tímum og komist hjá því að skera niður.

Og nú er Gulli kominn í þetta hlutverk. Brátt verður hann blóðugur upp fyrir axlir í niðurskurðinum og örugglega hataður og úthrópaður fyrir miskunnarleysi og skuggalega óvægni gegn þeim sem minna mega sín. Hver verða pólitísk örlög hans í þeim ólgusjó?

mbl.is Ráðherra segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmenningarleg slagsmál í Hlíðunum

Enn einu sinni heyrum við í fréttum af fjölmenningarlegum slagsmálum á milli hópa útlendinga í Reykjavík. Vissulega er til of mikils ætlast að allir þeir innflytjendur sem hingað koma séu hvítþvegnir englar en það verður að taka á málum þeirra sem ráðast að öðru fólki og standa að klíkumyndun til að vega að öðrum innflytjendum eða fara fram með hreinu ofbeldi, hvort sem það er til að níðast á öðrum hópnum eða þær séu báðir jafnsekir um ofbeldið.

Mér finnst þetta mjög dapurleg þróun og á henni verður að taka með öllum tiltækum ráðum. Sjálfsagt er að bjóða innflytjendur velkomna til landsins og það ber að varast að dæma þá alla eftir svörtu sauðunum í hópi þeirra. En því er ekki að neita að þetta er ekki góð þróun - það er að verða einum of mikið af ofbeldisverkum sem tengja má við innflytjendur.

Leitt er ef borgarhverfin breytast í Harlem vegna innbyrðis átaka innflytjenda og færir okkur inn í annan menningarheim en við þekkjum og viljum örugglega ekki horfa þegjandi á í nærmynd.


mbl.is Hópslagsmál í Lönguhlíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband