Vofir pólitísk feigð yfir heilbrigðisráðuneytinu?

Sú var tíðin að það jafngilti pólitískri feigð eða botnlausri ógæfu fyrir stjórnmálamann að taka við embætti heilbrigðisráðherra - vonlaust að höndla verkefnið, enda sparnaður sjaldan óvinsælli en í velferðarkerfinu. Þessu kynnist Guðlaugur Þór Þórðarson núna þegar hann þarf að skera niður tæpa sjö milljarða króna í krepputíð og þarf að taka á sig auknar óvinsældir. Sá sem er með svo stóran niðurskurðarhníf á lofti uppsker ekkert í staðinn nema botnlausar óvinsældir og allt að því hatur landsmanna sem sjá skrattann sjálfan í ráðherranum.

Forðum daga var þetta svipað. Hver man ekki eftir Sighvati Björgvinssyni sem var blóðugur upp fyrir axlir í niðurskurði í Viðeyjarstjórninni í upphafi tíunda áratugarins og barðist þar gegn nunnunum í Landakoti og fleirum þekktum postulum í velferðarkerfinu. Hann varð óvinsælasti maður landsins á einni nóttu í hlutverki sínu. Guðmundur Árni Stefánsson kom eins og kratariddarinn á hvíta hestinum inn í heilbrigðisráðuneytið úr bæjarstjórastólnum í Hafnarfirði og tók til við að sveifla niðurskurðarhnífnum. Hann endaði á kafi í drullupolli á mettíma.

Og hver man ekki eftir Ingibjörgu Pálmadóttur, sem þrátt fyrir að takast að höndla erfiða tíma í ráðuneytinu, bugaðist í önnum sínum og hneig niður í beinni sjónvarpsútsendingu. Hún var örvinda og búin á því og hætti í pólitík skömmu síðar, fór heim til að baka og elda fyrir strákana sína eins og margfrægt var. Fékk nóg. Ekki megum við heldur gleyma að sumir hafa höndlað verkefnið, en flestir þeirra hafa verið í ráðuneytinu á góðum tímum og komist hjá því að skera niður.

Og nú er Gulli kominn í þetta hlutverk. Brátt verður hann blóðugur upp fyrir axlir í niðurskurðinum og örugglega hataður og úthrópaður fyrir miskunnarleysi og skuggalega óvægni gegn þeim sem minna mega sín. Hver verða pólitísk örlög hans í þeim ólgusjó?

mbl.is Ráðherra segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Rétt.... gömul saga og ný... stjórnmálamaður í þessu ráðuneyti hættir vengjulega í pólitík skömmu seinna.

Jón Ingi Cæsarsson, 8.1.2009 kl. 12:46

2 identicon

Ég furða mig alla vega á ráðgjöfum hans. Fólk í heilbrigðiskerfinu, burtséð frá pólitík skilur ekki þessar ákvarðanir.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 13:56

3 Smámynd: Héðinn Björnsson

Þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir þarf að kynna þær vel og gefa fólki kost á að verja það sem er því mikilvægast. Þannig næst kannski ekki allt í gegn en þá tekst manni betur að dreyfa ábyrgðinni á að finna aðrar lausnir til sparnaðar.

Í þessu tilfelli er allt keyrt í gegn á hraða aðgerðarstjórnmálanna og fyrir vikið fer fólk í vörn og allt verður 100 sinnum erfiðara. Hvað sem Excel-skjölin segja að þá er ómögulegt að spara í heilbrigðiskerfinu ef starfsfólkið ekki ætlar að vera með í því. Það má vel vera að hægt verði að skera niður einhver störf en þau sem eftir verða verða þeim mun óskilvirkari.

Héðinn Björnsson, 8.1.2009 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband