14.2.2009 | 21:27
Hversu margir munu stinga af til Tortola?
Þeir tímar eiga að vera liðnir að þjóðin láti bjóða sér hálfkveðnar vísur og snúning í lygahringekjunni hjá þessum mönnum. Staðreyndir tala sínu máli nú þegar og í raun ljóst að þarna hefur óeðlilega verið staðið að málum og þjóðin verið höfð að fífli með ómerkilegum útúrsnúningum líkt og fyrrnefndu Silfursviðtali.
Stóra spurningin nú er hvort þessir menn muni hjálpa þjóðinni á þessum örlagatímum eða stinga af til Tortola með allan sinn auð endanlega. Velji þeir seinni kostinn verða þeir landflótta ræflar sem missa endanlega allan trúverðugleika hér heima. Þá verður Tortola þeirra föðurland.
![]() |
Skattaskjólin misnotuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.2.2009 | 19:34
Valdatafl í Samfó - ábyrgð Ingibjargar Sólrúnar
Mér finnst felast í orðum Ingibjargar Sólrúnar að hún ætlar að koma heim af sólarströnd, fara beint inn á landsfund Samfylkingarinnar og í ríkisstjórn og biðja um nýtt umboð til verka. Auðvitað er það hennar val að horfast ekki í augu við eigin mistök og endalaust klúður Samfylkingarinnar á hennar vakt, sem flokkurinn hefur enn ekki axlað ábyrgð á, enda enn við völd. En ég held að landsmenn hljóti að hugleiða ábyrgð hennar og velta fyrir sér hvort hún sé sá forystumaður sem geti leitt þjóðina betur en á meðan hún var í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Ég held að plott Ingibjargar sé að halda áfram og tryggja Degi B. Eggertssyni varaformennskuna og segja svo af sér þegar vel hentar fyrir hana. Ergó Dagur verði formaður flokksins þegar frá dregur án kosningar beint í embættið. Þetta hljómar eins og hið fullkomna lýðræði Samfylkingarinnar sem ætlar að halda áfram með sama liðið í öllum stólum fyrir næstu kosningar og reyna að telja fólki trú um að þeir hafi axlað einhverja ábyrgð án þess þó að hafa gert það.
Þetta er frekar ódýrt lið í pólitík.
![]() |
Ingibjörg Sólrún ekki að hætta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.2.2009 | 16:54
Jón Baldvin afskrifar ISG - hvað með unga fólkið?
Merkilegast af öllu því sem Jón Baldvin segir þó snýr að framtíðinni. Sýn hans á framtíðina er að gamla settið taki við Samfylkingunni og leiði hana á þessu umbrotaári í íslenskum stjórnmálum, Jóhanna eða hann eigi að taka við forystunni af sér yngra fólki. Þetta er dæmigert fyrir þessa kynslóð stjórnmálamanna sem kann ekki að hætta í pólitík og telur sig miðpunkt allra hluta og sé ómissandi. Við höfum séð svona fólk í öðrum flokkum, ekkert síður mínum, og alltaf verður maður jafnhissa á hrokanum og stærilátunum að það eitt sé fullkomið til verka.
Ætlar Samfylkingin virkilega að velja fólk um sjötugt til forystu þegar þarf að taka til í íslenskum stjórnmálum, fá nýja sýn og stöðumat. Er þetta breytingin sem fólk vill. Hvað segir unga fólkið í Samfylkingunni. Vill það ekki að nýtt fólk nýrra tíma leiði þessi umskipti frekar en fólk fortíðarinnar eins og Jón og Jóhanna, það gamla haturstvíeyki sem gekk frá Alþýðuflokknum?
![]() |
Jón vill að Ingibjörg víki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.2.2009 | 14:55
Valgerður Sverrisdóttir hættir í stjórnmálum

Valgerður Sverrisdóttir, fyrrum ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur nú ákveðið að gefa ekki kost á sér í þingkosningunum í vor og hætta virkri pólitískri þátttöku. Mikil eftirsjá er af Valgerði úr pólitísku starfi hér, enda held ég að allir hafi virt mikils pólitíska elju hennar og góð verk fyrir Norðausturkjördæmi og Norðurlandskjördæmi eystra áður, þrátt fyrir að margir hafi verið ósammála henni um leiðirnar að markmiðum fyrir svæðið og í pólitískum hitamálum á landsvísu. Hún markaði söguleg skref sem kona í karlaflokki á borð við Framsóknarflokkinn og komst áfram á eigin krafti.
Valgerður vann hér á svæðinu sinn mesta pólitíska sigur, þegar hún fór inn við fjórða mann í kosningunum 2003 í Norðaustri, sem enginn átti von á enda tók Framsókn þær kosningar síðustu tíu daga baráttunnar, og mesta ósigur, þegar hún fór ein inn í gamla Norðurlandskjördæmi eystra árið 1999, sem var sögulegt afhroð. Valgerður vann svo mikinn varnarsigur hér í kjördæminu í kosningunum 2007 þegar flokkurinn náði þremur þingsætum þvert á nær allar kosningaspár. Eftir þær kosningar leiddi Valgerður kjördæmi með þrjá þingmenn af sjö hjá Framsókn á landsvísu.
Valgerður hefur alla tíð verið vinnusöm í pólitík og lagt sig alla í verkefnin sem henni er treyst fyrir - hún hefur haft traust samherja sinna til verka. Valgerður hefur alltaf verið hörkutól í pólitísku starfi. Hún þorði alltaf að láta vaða og gerði hlutina eftir sínu höfði. Þó stundum hafi oft verið harkalega að henni sótt, innanflokks sem utan, stóð hún sem sigurvegari eftir öll átökin. Ekki fyrr en kom að hruni bankanna og uppgjörinu við það varð hún að láta í minni pokann og taka þann skell á sig með sitjandi forystu frá gamla Halldórstímanum.
Valgerði tókst að ná lausu þingsæti Ingvars Gíslasonar árið 1987 er mjög var tekist á um hann og sigraði þar marga öfluga karlmenn. Sótt var að sætinu hennar fyrir kosningarnar 1995 og í aðdraganda kosninganna 1999 sóttust hún og Jakob Björnsson fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, um leiðtogastólinn er Guðmundur Bjarnason hætti (og fór í Íbúðalánasjóð). Valgerður valtaði yfir hann. Hún vann svo leiðtogasæti flokksins í Norðausturkjördæmi með glans fyrir kosningarnar 2003 og vann Jón Kristjánsson í drengilegri baráttu norðurs og austurs.
Valgerður hefur því alltaf þurft að berjast fyrir sínu og ávallt haft betur innan síns flokks. Valgerður Sverrisdóttir er mikil kjarnakona. Hún er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér. Ég verð að viðurkenna að ég hef dáðst að elju hennar, sérstaklega þegar hún var utanríkisráðherra. Þrátt fyrir annir og fundi um allan heim var hún mætt á fundi og samkomur hér í Norðaustri. Þar sást best kraftur hennar.
Í gegnum kynni mín af henni hef ég kynnst öflugri og beittri konu sem talar af krafti þegar að hún hefur skoðanir. Það er mikilvægt að svoleiðis fólk sé í stjórnmálum. Þrátt fyrir allt tel ég að hún verði metinn einn sterkasti forystumaður Framsóknarflokksins á síðustu áratugum og augljóst er að hún markaði söguleg þáttaskil fyrir konur í Framsókn með verkum sínum.
![]() |
Valgerður ekki í framboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.2.2009 | 01:33
Rotin vinnubrögð og siðleysi felldu bankana
Æ betur sést að rotin vinnubrögð og blint siðleysi felldu bankana og fjármálakerfi landsins í raun. Vandinn var að stóru leyti heimatilbúinn. Þeir sem réðu för gleymdu sér í sukki og svínaríi, hættu að velta fyrir sér aðalatriðum málsins blindaðir af peningagræðgi og siðleysi á meðan allt fór á versta veg. Aukaatriðin réðu för þegar þurfti að hafa augun opin og horfa gagnrýnt og heiðarlega á stöðu þjóðarinnar. Drambið var falli næst.
Miðað við skrifin um vinnubrögðin í bönkunum er sláandi að ekkert skyldi gert og enginn hafi vaknað fyrr en úti í skurði. Enn eru sumir meira að segja að velta fyrir sér hvernig við lentum úti í skurði og vilja kenna öðrum um það. Staðreyndin var sú að örfáir menn spiluðu þjóðina út í öngstræti eymdar og skelfingar og við misstum yfirsjón á fjöregginu sjálfu, því allra mikilvægasta sem til er.
Þetta er heiðarleg umfjöllun um starfið í bönkunum og vonandi verður þetta öllum víti til varnaðar - lærdómur um að nýja Ísland verði byggt upp heiðarlega og hugleitt hvað skiptir mestu í máli í staðinn fyrir stundargræðgi og hagsmuni.
![]() |
Reynslulausir réðu í bönkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |