Dýrkeyptur slagur - sjálfstæðið í pólitík

Slagurinn um annað sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 2006, þar sem Björn Bjarnason og Guðlaugur Þór Þórðarson tókust á, verður eflaust lengi í minnum hafður. Ekki aðeins vegna þess að öllum áróðursbrögðum var beitt heldur hversu dýr hann var. Þau átök settu að mínu mati ný viðmið í peningaeyðslu í baráttu fyrir leiðtogasæti á framboðslista. Þessi átök kölluðu fram margfrægar átakalínur innan Sjálfstæðisflokksins sem að mestu höfðu fram að því tekist á innan Heimdallar, átakalínur sem höfðu ekki verið áberandi í Reykjavík í formannstíð Davíðs Oddssonar.

Greinilegt er á skrifum Björns Bjarnasonar í dag að hann telur að fjársterkir aðilar, sem var í nöp við hann eftir margfræg mál, hafi veitt keppinaut hans í prófkjörinu fjárstuðning og verið víðtækir bakhjarlar hans. Björn hefur sjálfur ekki tjáð sig opinberlega að ráði um þessi átök og helstu lykilmálefni hans, umfram það að gera upp úrslitin á yfirborðinu eftir prófkjörið. Nú hefur það breyst og greinilega má skilja Björn þannig að ekki hafi öll sú prófkjörssaga verið skráð enn af hans hálfu.

Eðlilegt er að velta fyrir sér þessu máli og hugleiða hverjir voru bakhjarlar framboðs sem vann af slíkum krafti, sem eiginlega er ekki dæmi um áður í íslenskum stjórnmálum. Þeir tímar eiga að vera liðnir að hægt sé að dæla peningum í prófkjörs- og kosningasjóði yfir viss mörk án þess að þurfa að gefa þau upp opinberlega. Laumuspilið um slíkt á að heyra sögunni til og þarf að taka á því.

Ég ætla að vona að prófkjörin í aðdraganda þingkosninganna 2007 hafi markað endalok peningaausturs manna utan úr bæ til stjórnmálamanna, sem bindur í raun endalok á þá tilburði að þeir séu í og með keyptir. Enginn vafi á að leika yfir verkum manna og því á allt bókhald prófkjörsframbjóðenda að verða lagt fram og til að sýna að þeir séu ekki háðir einhverjum.


mbl.is Enginn lagt meira á sig fyrir sæti á lista en Guðlaugur Þór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hverja er Cosser leppur í Moggakaupum?

Flest bendir nú til þess að lítt þekktur Ástrali, Steve Cosser, sé að fara að eignast Morgunblaðið. Mér finnst eðlilegt að velta því fyrir sér hvort þessi maður sé ekki leppur. Því ætti Ástrali að kaupa gjaldþrota íslenskt blað, eða altént blað í miklum rekstrarerfiðleikum? Hvaða tækifæri sér hann í því að kaupa eitt elsta og virtasta blað landsins, sérstaklega eftir að hafa gengið í gegnum mikinn öldudal. Mér finnst eiginlega blasa við að einhver af útrásarvíkingunum sé að nota nafn hans til að eignast blaðið.

Ætla menn í fjölmiðlabransanum ekki að rekja þessa áströlsku slóð til enda? Eða þorir því enginn. Hvaða hagsmuna er þessi maður að gæta og hverja er hann að fronta?


mbl.is Cosser ræðir við Fréttablaðsmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegur bandarískur raunveruleiki

Dapurlegra er en orð fá lýst að lesa fréttir af því að bandarískur strákur hafi ákveðið að drepa ófríska sambýliskonu pabba síns, að því er virðist að tilefnislausu. Þó að bandarískt samfélag sé að mörgu leyti óútreiknanlegt er þetta svo kaldrifjaður verknaður að það er ekki nema von að spurt sé hvernig að börn komist í skotvopn með þessum hætti og brenglist svona gjörsamlega.

Þetta mál minnir á mörg þekkt af þessu tagi í bandarísku samfélagi þar sem hin fullkomna fjölskylda býr í flottu hverfi en eitthvað er þar stórlega að. Erfitt er að fá svör við stóru spurningum þessa máls. Fyrstu viðbrögðin verða þó eðlilega undrun. Þó bandarískt samfélag sé óútreiknanlegt og kaldrifjað hlýtur þetta að teljast merki um veikar stoðir samfélags.

Er tölvuleikjaveruleikinn, þar sem hægt er að skjóta niður fólk endalaust, og kuldalegt efni þar sem morð og óhugnaður er aðalefnið að hafa slík áhrif á ungt fólk að það geti verið svo kaldrifjað að slátra sínum nánustu, jafnvel algjörlega af tilefnislausu? Ekki nema von að spurt sé.

Rætt hefur verið mörgum sinnum á undanförnum árum um skotvopnaeign í Bandaríkjunum; hversu auðveldlega ungt fólk geti komist í skotvopn og misst algjörlega stjórn á sér; nægir þar að hugsa til fjöldamorðanna í bandarískum skólum. Við höfum séð slíkar árásir hér á Norðurlöndum.

Erfitt er að finna einhverja eina töfralausn. Ein þeirra er þó að endurskoða byssulög og herða viðurlög til muna en það er ekki ein gullin töfralausn, enda hefur sannast að sé nógu kaldrifjaður vilji að baki þess að gera slíkt og hugurinn að baki er brenglaður getur fátt stöðvað hann.

En þegar að ellefu ára gamalt barn getur framið slíkan verknað og hafa aðgang að vopnum er eðlilegt að spurningin sé hvað sé eiginlega að gerast. Hvar er samfélagið að bresta?

Vonandi leggjast Bandaríkjamenn nú í alvöru pælingar um skotvopnavandann og hvað sé að gerast í þeirra samfélagi.

mbl.is 11 ára drengur ákærður fyrir morð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband