Dýrkeyptur slagur - sjálfstæðið í pólitík

Slagurinn um annað sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 2006, þar sem Björn Bjarnason og Guðlaugur Þór Þórðarson tókust á, verður eflaust lengi í minnum hafður. Ekki aðeins vegna þess að öllum áróðursbrögðum var beitt heldur hversu dýr hann var. Þau átök settu að mínu mati ný viðmið í peningaeyðslu í baráttu fyrir leiðtogasæti á framboðslista. Þessi átök kölluðu fram margfrægar átakalínur innan Sjálfstæðisflokksins sem að mestu höfðu fram að því tekist á innan Heimdallar, átakalínur sem höfðu ekki verið áberandi í Reykjavík í formannstíð Davíðs Oddssonar.

Greinilegt er á skrifum Björns Bjarnasonar í dag að hann telur að fjársterkir aðilar, sem var í nöp við hann eftir margfræg mál, hafi veitt keppinaut hans í prófkjörinu fjárstuðning og verið víðtækir bakhjarlar hans. Björn hefur sjálfur ekki tjáð sig opinberlega að ráði um þessi átök og helstu lykilmálefni hans, umfram það að gera upp úrslitin á yfirborðinu eftir prófkjörið. Nú hefur það breyst og greinilega má skilja Björn þannig að ekki hafi öll sú prófkjörssaga verið skráð enn af hans hálfu.

Eðlilegt er að velta fyrir sér þessu máli og hugleiða hverjir voru bakhjarlar framboðs sem vann af slíkum krafti, sem eiginlega er ekki dæmi um áður í íslenskum stjórnmálum. Þeir tímar eiga að vera liðnir að hægt sé að dæla peningum í prófkjörs- og kosningasjóði yfir viss mörk án þess að þurfa að gefa þau upp opinberlega. Laumuspilið um slíkt á að heyra sögunni til og þarf að taka á því.

Ég ætla að vona að prófkjörin í aðdraganda þingkosninganna 2007 hafi markað endalok peningaausturs manna utan úr bæ til stjórnmálamanna, sem bindur í raun endalok á þá tilburði að þeir séu í og með keyptir. Enginn vafi á að leika yfir verkum manna og því á allt bókhald prófkjörsframbjóðenda að verða lagt fram og til að sýna að þeir séu ekki háðir einhverjum.


mbl.is Enginn lagt meira á sig fyrir sæti á lista en Guðlaugur Þór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband