23.2.2009 | 22:46
Vestfirskir barnavagnadekkjaþjófar
Þeir sem hafa ekkert við tímann að gera nema að stela frá smábörnum eru ekki beint merkilegir. En vonandi gengur þeim betur við kassabílinn og geta fengið sér almennileg dekk án þess að leita til smábarnanna.
![]() |
Stálu dekkjum undan barnavagni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2009 | 17:15
Veikburða ríkisstjórn - vandræðagangur á Alþingi
Hvar eru hugmyndir hennar í efnahagsmálum til lausnar vandanum og hvar er skjaldborgin um heimilin? Þessi veikburða ríkisstjórn hefur eftir þrjár vikur ekki sýnt á sín spil ennþá og fáir vita fyrir hvað hún stendur í raun. Þegar við bætist að minnihlutastjórnin getur ekki haldið þingfundi vegna þess að þeir óttast að verða undir með eina málið sem þeir hafa náð samstöðu um en gleymt að framsóknarmenn ráða þó úrslitum verður niðurlægingin þess þá meiri.
Vandræðagangurinn á Alþingi er algjör og stjórnleysið mjög áberandi við þessar pínlegu aðstæður. Þessi farsi er mjög fyndinn en verst er að hann afhjúpar algjörlega veikleikana á þeim sem með valdið fara. Umboð þeirra er mjög takmarkað.
![]() |
Þingfundi enn frestað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2009 | 15:19
Höskuldur stöðvar Seðlabankafrumvarpið
Höskuldur Þórhallsson færir mjög sannfærandi rök fyrir afstöðu sinni. Enda er algjör óþarfi að samþykkja þessi lög með fljótaskrift og einhverju ofsakeyrslu á færibandinu. Reyndar hefur þetta frumvarp afhjúpað að þessi ríkisstjórn hefur ekki náð samstöðu um neitt nema semja frumvarp í skjóli nætur með ekkert annað markmið en losa sig við Davíð Oddsson, sama hvað það kostar. Flýtirinn og vandræðagangurinn í þessu máli hefur verið þeim frekar dýrkeyptur og greinilegt að framsóknarmenn vilja ekki samþykkja hvað sem er.
![]() |
Skynsamlegt að bíða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.2.2009 | 09:01
Slumdog vinnur 8 óskara - Bretar sigursælir
Bretar voru mjög sigursælir á Óskarsverðlaunahátíðinni í nótt. Kvikmyndin Slumdog Millionaire kom, sá og sigraði og hlaut 8 óskarsverðlaun, Danny Boyle hlaut leikstjóraóskarinn og breska leikkonan Kate Winslet hlaut loksins óskarinn í sjöttu tilraun sinni, en 33 ára gömul var hún yngsti leikarinn í sögu akademíunnar sem hafði tapað fimm sinnum. Sean Penn hlaut leikaraóskarinn fyrir túlkun sína á Harvey Milk, samkynhneigðum stjórnmálamanni í San Francisco sem var myrtur árið 1978, Heath Ledger, sem lést fyrir þrettán mánuðum, vann fyrir Dark Knight og spænska leikkonan Penelope Cruz fyrir leik í Woody Allen-mynd.
Með því að vinna átta óskarsverðlaun fer Slumdog Millionaire í flokk með kvikmyndunum Gone With the Wind, From Here to Eternity, Gandhi, On The Waterfront, Amadeus, My Fair Lady og Cabaret, sem náðu allar sama árangri. Aðeins sjö kvikmyndir hafa hlotið fleiri óskarsverðlaun í sögu akademíunnar en Slumdog; Ben-Hur, Titanic og The Lord of the Rings: The Return of the King sem hlutu ellefu óskarsverðlaun, West Side Story sem hlaut tíu óskarsverðlaun og The English Patient, Gigi og The Last Emperor sem hlutu níu óskarsverðlaun.
Loksins hlaut Kate Winslet óskarinn. Löngu kominn tími til. Hún hafði áður verið tilnefnd fyrir Sense and Sensibility, Titanic, Iris, Eternal Sunshine of the Spotless Mind og Little Children. Flutti trausta ræðu. Sagðist hafa beðið eftir þessu augnabliki síðan hún var átta ára. Pabbi hennar blístraði til hennar utan úr sal. Einlæg og traust ræða, tilfinningar og ekta bresk fágun sem einkenndu hana. Engin tár í tilfinningunum. Breskara verður það varla.
Sean Penn vann mörgum að óvörum fyrir stórfenglega túlkun sína á Milk. Mickey Rourke sat eftir með sárt ennið, en margir höfðu spáð honum hnossinu. Tap hans á SAG-verðlaununum var einkennandi um hvert stramurinn lá. Penn er orðinn eftirlæti akademíunnar, vann síðast óskarinn fyrir fimm árum fyrir leik sinn í Mystic River, og Hollywood gaf út sterka yfirlýsingu um andstöðu við samþykkt fylkisbanns á hjónaband samkynhneigðra í leiðinni.
Penn flutti frábæra ræðu, eins og hans er von og vísa. Talaði um pólitísku áherslurnar í valinu, sem eru augljósar, og um leið talaði hann vinalega til Rourke, kallaði hann bróður sinn. Penn hefur alltaf verið mjög pólitískur og ekki við öðru að búast en hann talaði vel um nýjar áherslur með Obama í Hvíta húsinu. Augljóst er að Penn lék Milk til að vekja athygli á pólitískum málstað sínum og vinnur á þeim grunni auk auðvitað sannkallaðrar stjörnutúlkunar.
Heath Ledger markaði söguleg skref með því að vinna óskarinn, eins og fyrr segir hér á vefnum, enda aðeins annar leikarinn í 81 ára sögu akademíunnar sem fær óskarinn eftir andlát sitt. Mjög tilfinningarík stund þegar foreldrar Heaths og systir hans fóru upp á svið til að taka við verðlaununum. Margir grétu og sýndu tilfinningar meðan Heath var minnst. Sigurinn er táknrænn að öllu leyti en er fyrst og fremst verðskuldaður heiður.
Penelope Cruz vann aukaleikkonuóskarinn, aðeins annar spænski leikarinn í sögu akademíunnar sem hreppir það hnoss. Javier Bardem var sá fyrsti er hann vann í aukaleikaraflokknum í fyrra fyrir stórleik sinn á Anton í No Country for Old Men. Cruz fer í fríðan hóp leikkvenna sem fær óskarinn eftir að hafa unnið með Woody Allen. Cruz er í sérflokki meðal evrópskra leikkvenna. Gott að Hollywood heldur áfram að heiðra evrópska leikara.
Handritsverðlaunin voru nokkuð fyrirsjáanleg, enda Slumdog og Milk sem báru þar af. Homminn Dustin Lance Black, sem skrifaði óskarshandritið að Milk, átti að mínu mati bestu ræðu kvöldsins þegar hann talaði um sigur samkynhneigðra á hátíðinni og hvaða merkingu niðurstaðan hefði fyrir sig og baráttuna sem Harvey Milk hóf í raun og gerði opinbera á áttunda áratugnum. Frábær ræða og mjög tilfinningarík. Wall-E vann svo verðskuldað sín verðlaun.
Verðlaunaathöfnin var í heildina mjög vel heppnuð. Í fyrsta skipti frá árinu 1985 stjórnaði grínisti ekki hátíðinni. Hugh Jackman fetaði nýjar slóðir sem kynnir og átti góða spretti, þó ekki hafi hann nú jafnast á við Billy Crystal, sérstaklega ekki í misjafnlega ágætu söngatriði í upphafi. Sumir hlutar þess voru lala og aðrir rétt rúmlega ágætir. Sviðinu var breytt, var hringlaga og skapaði það nálægð við fólk í sal og áhorfendur heima - tók smátíma samt að venjast því.
Óskarinn er kominn á níræðisaldur og ber aldurinn vel. Stjórnendur hátíðarinnar gerðu gott í að ferska aðeins upp á pakkann, breyta umgjörðinni verulega á sumum sviðum. Leitað var til fortíðar og yfirbragðið meira gamaldags en verið hefur. Þetta var vægast sagt notaleg andlitslyfting á gamalgrónum verðlaunapakka. Best af öllu fannst mér að fá fimm leikara til að afhenda leikverðlaunin, þar af þann sem vann í leikflokknum árið áður og auk þess fræg nöfn fyrri tíðar.
Gaman að sjá Evu Marie Saint, Goldie Hawn, Whoopi Goldberg, Christopher Walken, Robert DeNiro, Anthony Hopkins, Sophiu Loren, Kevin Kline, Ben Kingsley, Shirley MacLaine og Alan Arkin afhenda verðlaun. Saknaði samt myndaklippunnar með leikframmistöðu tilnefndra en góð viðbót var að talað var beint til þeirra um þá sjálfa og eiginleika persónanna sem þeir léku.
Allavega, þetta var gott show og gekk vel fyrir sig. Snarpt og vel gert. Stóra rúsínan í pylsuendanum fannst mér reyndar þegar Queen Latifah fór upp á svið og söng I´ll be seeing you á meðan minnst var látinna leikara og annarra sem tengst hafa kvikmyndum.
Frábær stemmning á meðan myndir af leikurunum Charlton Heston, Roy Scheider, Cyd Charisse, Richard Widmark, Paul Scofield, Paul Newman og fleirum runnu yfir á skjánum. Yndislegt og hugljúft. Viðeigandi að goðsögnin Newman ætti lokaorðið.
Í heildina frábært óskarskvöld og notaleg kvikmyndastemmning í Hollywood, sú besta í mörg ár. Skemmtilega bresk stemmning og svolítið hugljúft innst inni að sjá Slumdog-hópinn taka yfir Hollywood einu sinni.
![]() |
Viltu vinna milljarð? sigraði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt 24.2.2009 kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2009 | 03:29
Heath Ledger vinnur óskarinn fyrir Dark Knight

Heath Ledger varð fyrir stundu annar leikarinn í sögu Óskarsverðlaunanna til að hljóta Óskarinn eftir andlát sitt fyrir túlkun sína sem Jókerinn í The Dark Knight. Sir Peter Finch fékk óskarinn fyrir túlkun sína í Network árið 1977, tveimur mánuðum eftir andlát sitt. Ledger lést eins og kunnugt er í New York í janúar á síðasta ári, þegar hann var að ná hápunkti síns ferils og átti svo margt enn eftir.
Ledger var leiftrandi og yndislega illkvittinn sem Jókerinn - lagði allt í þessa túlkun og færði okkur enn dýpri og kuldalegri karakter en Jack Nicholson gerði í fyrstu Batman-kvikmyndinni fyrir tveim áratugum. Þetta er að mínu mati ein besta leikframmistaða áratugarins og ég er sannfærður um að hún hefði verið verðlaunuð þó hann hefði ekki dáið, hún er svo traust.
Í raun tel ég að hún verði ekki síður eftirminnileg í sögubókum framtíðarinnar en leiksigrar James Dean á sjötta áratugnum í East of Eden, Giant og Rebel Without a Cause, ógleymanlegum meistaraverkum sem halda minningu hans á lofti um eilífð. Dean dó ungur en afrek hans voru verðskuldaðir leiklistarsigrar sem eru í minnum hafðir.
Þrátt fyrir allt lofið hlaut Dean þó aldrei óskarinn, þó hann væri tilnefndur tvisvar eftir andlát sitt. Ekki hefur verið hefð fyrir því í Hollywood að leikarar fái óskarinn eftir andlát sitt, t.d. vann Spencer Tracy ekki fyrir stórleik sinn í Guess Who´s Coming to Dinner svo annað dæmi sé nefnt.
Ég fagna því að Hollywood hafi heiðrað minningu þessa hæfileikaríka og frábæra leikara með óskarsstyttu, ekki aðeins til minningar um ógleymanlega leiktúlkun merks leikara heldur sem minnisvarða um hvað hefði getað orðið.
Umfjöllun SFS um Heath Ledger í janúar 2008
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 03:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2009 | 00:55
Spádómar um Óskarsverðlaunin 2009
Óskarsverðlaunin verða afhent í 81. skiptið í Los Angeles í nótt. Óskarinn er án nokkurs vafa helsta kvikmyndahátíð sögunnar, ein mesta uppskeruveisla kvikmyndabransans og þar koma helstu leikarar og kvikmyndagerðarmenn samtímans saman.
Ég ætla hér og nú að pæla í verðlaununum og spá í úrslitin í nokkrum af helstu flokkunum, svona mér mest til gamans. Mikil vonbrigði eru þó að engin íslensk sjónvarpsstöð sýni frá hátíðinni. Önnur úrræði verða því að verða til að horfa á en stóla á Stöð 2.
Kvikmynd ársins
The Curious Case of Benjamin Button
Frost/Nixon
Milk
The Reader
Slumdog Millionaire
Pælingar: Allt frábærar kvikmyndir í algjörum sérflokki og mjög sigurstranglegar. The Curious Case of Benjamin Button er langdregin en heilsteypt og vönduð kvikmyndaútfærsla á ævi með öfugum formerkjum. Frost/Nixon færir okkur bakvið tjöldin í besta pólitíska viðtal sögunnar, þar sem Nixon reyndi að verja heiður sinn eftir niðurlægjandi valdamissi. Milk er heillandi saga af hinum samkynhneigða stjórnmálamanni Harvey Milk sem féll fyrir morðingjahendi árið 1978. The Reader er sannkölluð eðalmynd og Slumdog Millionaire einlæg og kjarnmikil.
Spá: Veðja á að Slumdog Millionaire fái óskarinn. Var sú mynd sem mér fannst pottþéttust sem kvikmyndaáhugamaður. Hafði einfaldlega allt, traustur heildarpakki. Sem pólitískur áhugamaður heillaðist ég samt að Frost/Nixon alveg frá upphafi til enda, traust kvikmynd að öllu leyti en þetta verður samt ekki árið hennar. Slumdog er blæbrigðarík og pottþétt, mannbætandi og traust. Mæli hiklaust með henni.
Leikstjóri ársins
David Fincher - The Curious Case of Benjamin Button
Ron Howard - Frost/Nixon
Gus Van Sant - Milk
Stephen Daldry - The Reader
Danny Boyle - Slumdog Millionaire
Er ekki í vafa um að Boyle vinnur óskarinn. Slumdog Millionaire er traust að öllu leyti og leikstjórann sem setti hana saman og gerði hana svo yndislega á að heiðra. Einfalt mál.
Leikari í aðalhlutverki
Richard Jenkins - The Visitor
Frank Langella - Frost/Nixon
Sean Penn - Milk
Brad Pitt - The Curious Case of Benjamin Button
Mickey Rourke - The Wrestler
Sean Penn og Mickey Rourke berjast um sigurinn í þessum flokki. Endurkoma Rourke er stórmerkileg og hann á sannkallaðan leiksigur í sinni rullu. Penn túlkar Harvey Milk af mikilli innlifun og snilld og á besta leik sinn síðan í Mystic River. Frank Langella er stórfenglegur í hlutverki Nixons forseta - túlkar hann bæði sem skúrk og fórnarlamb innri flækja. Brad Pitt á túlkun ferilsins í frábærri rullu. Vonast eftir því að Rourke vinni en hallast að því að Penn taki þetta.
Leikkona í aðalhlutverki
Anne Hathaway - Rachel Getting Married
Angelina Jolie - Changeling
Melissa Leo - Frozen River
Meryl Streep - Doubt
Kate Winslet - The Reader
Mér finnst blasa við að Kate Winslet vinni óskarinn. Fimm sinnum hefur hún tapað á óskarshátíð og oftast nær verðskuldað að sigra. Hennar tími er kominn. Ef hún tapar er ein ástæðan sú að myndin er mjög umdeild. Væri vissulega gaman að sjá Hathaway vinna, enda átti hún stórleik, og Meryl Streep, sem hefur ekki unnið óskar í 26 ár og hefur verið tilnefnd oftast allra leikara. En þetta er árið hennar Winslet.
Leikari í aukahlutverki
Josh Brolin - Milk
Robert Downey Jr. - Tropic Thunder
Philip Seymour Hoffman - Doubt
Heath Ledger - The Dark Knight
Michael Shannon - Revolutionary Road
Engin spurning. Heath Ledger vinnur óskarinn. Hann átti stórleik í hlutverki Jókersins í The Dark Knight og verðskuldar að sigra, enda að mínu mati ein besta leikframmistaða áratugarins.
Leikkona í aukahlutverki
Amy Adams - Doubt
Penélope Cruz - Vicky Cristina Barcelona
Viola Davis - Doubt
Taraji P. Henson - The Curious Case of Benjamin Button
Marisa Tomei - The Wrestler
Erfiðast að spá um úrslit í þessum flokki. Mér finnst Penelope Cruz verðskulda mest sigur, enda stórglæsileg í sinni mynd og var sigurstrangleg fyrir nokkrum árum fyrir túlkun sína í Volver. Viola Davis var hinsvegar frábær í Doubt og Amy Adams átti stórleik í sömu mynd ennfremur. Henson var yndisleg í BB. Held að þetta verði árið hennar Cruz.
Þrátt fyrir að engin sé sjónvarpsútsendingin vona ég að þeir sem geta horft og eins sem skanna netið í staðinn skemmti sér vel. Sendi hinsvegar skammarkveðjur til Stöðvar 2 fyrir að úthýsa keppninni!
Fróðleikur um Óskarsverðlaunin - samantekt SFS 2008
![]() |
Óskarinn afhentur í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |