10 í prófkjör sjálfstæðismanna í Norðaustri

Þá er ljóst að tíu hafa gefið kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, fimm konur og fimm karlar. Aðeins tveir þeirra gáfu kost á sér í síðasta prófkjöri í nóvember 2006 svo að ljóst er að mikil endurnýjun verður í forystusveit framboðslistans í þessum kosningum. Mikið af nýju fólki tekur þátt, sumir sem hafa aldrei verið virkir í flokksstarfinu og eflaust er það gott að fá inn nýtt fólk til framboðs og stokka vel upp.

Akureyringurinn Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA og fyrsti varaþingmaður flokksins í kjördæminu, gefur ekki kost á sér. Ég taldi allt þar til fyrir tæpri viku blasa við að hann færi fram aftur og finnst satt best að segja mikill sjónarsviptir af honum, enda grandvar og vandaður maður sem hefur staðið sig vel í sínum verkum. Ég skil samt ástæður þess að hann dregur sig í hlé og virði þá ákvörðun þó ég hefði viljað hann fram.

Þó finnst mér merkilegt á þessum breytingatímum í pólitísku starfi að fleiri gefi ekki kost á sér. Ég hugleiddi aldrei að gefa kost á mér. Ég hef hætt virkri þátttöku í pólitísku starfi og hef valið mér það hlutskipti sjálfur eftir áralanga þátttöku í innra starfi. Ég hafði klárað minn kvóta og það er ekkert sem kallar á mig að fara í slaginn aftur. Ég hef miklu meira gaman af pólitík úr þessu sæti sem ég er í núna og hef verið í að undanförnu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fyrsta þingsæti kjördæmisins og mikil tækifæri eru til uppstokkunar með brotthvarfi Ólafar Nordal og Þorvaldar Ingvarssonar úr pólitíska starfinu hér. Því vekur athygli hversu miklu færri fara fram hjá okkur en t.d. hinum flokkunum þremur sem hafa hér rótgróið bakland og trausta stöðu.

En ég fagna því að ný nöfn komi og óska öllum sem taka þátt velfarnaðar og hlakka til að kynnast þeim frambjóðendum sem ég þekki lítið sem ekkert.

mbl.is 10 í prófkjör D-lista í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð í Kastljósi - sprengjur á sprengidegi?

Fyrir sex árum var Davíð Oddsson í útvarpsviðtali á bolludegi. Viðtalið varð sögufrægt. Í dag á sprengidegi ætlar hann sér að mæta í Kastljósið og væntanlega tala hreint út. Ég geri ráð fyrir því að Davíð ætli í þessu viðtali að gera upp við allt sem er að gerast þessa dagana og ekki síður það sem hefur gerst síðasta árið, við allt og alla. Nauðsynlegt uppgjör að öllu leyti. Geri ráð fyrir að allir sem hafa snefilsáhuga á pólitík sitji við skjáinn.

Gott bréf hjá Eiríki. Annað kjaftshögg fyrir þessa völtu ríkisstjórn, á sömu stund og staðfest er að Ingimundur hefur verið fenginn til verka í Noregi, verið treyst þar. Þvílík niðurlæging fyrir þessa ríkisstjórn.

mbl.is Furðar sig á vinnubrögðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brottrekinn seðlabankastjóri nýtur trausts í Noregi

Mér finnst það mjög háðuglegt fyrir íslensku ríkisstjórnina sem bolaði Ingimundi Friðrikssyni úr Seðlabankanum að hann fari nú til verka í seðlabankanum í Noregi og njóti þar stuðnings og trausts til ráðgjafastarfa. Enn hefur því ekki verið svarað hvað Ingimundur gerði af sér til að hljóta slíka meðferð eftir áratuga störf í Seðlabankanum, síðustu þrjú árin sem seðlabankastjóri. Viðurkenning norskra yfirvalda á þekkingu og hæfni Ingimundar hlýtur því að vekja athygli og um leið vekja spurningar hvers vegna honum var bolað úr Seðlabankanum.

Ekki verður annað séð en Ingimundur hafi víðtæka þekkingu á þeim verkefnum sem sinna þarf í Seðlabanka hvar sem er í heiminum og Norðmenn gefa honum heldur betur uppreisn æru eftir átökin við forsætisráðherrann sem rak hann. Reyndar kvaddi Ingimundur með því að segja sjálfur upp og nennti ekki að standa í ströggli við ríkisstjórn sem rak hann vegna engra saka.

Einhverjir myndu telja kjarnyrt uppsagnarbréf hans blauta vatnstusku framan í forsætisráðherrann sem rak hann af pólitískum ástæðum.

mbl.is Ingimundur í norska seðlabankann?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eineltisvandamál á Selfossi

Einelti í skólakerfinu á ekki að líða. Fréttir af slæmum eineltismálum á Selfossi eru skelfilegar, sérstaklega ef satt er að ekki hafi verið tekið á þeim af hörku. Ég er ekki hissa á að slíkt einelti hafi skelfilegar afleiðingar, ekki aðeins fyrir þann sem fyrir því verður heldur og alla fjölskyldu viðkomandi. Fjöldi mála á Selfossi sem koma upp vegna klíkumyndunar og beins ofbeldis sem því fylgir eru þess eðlis að spurt er hvort ekki eigi að taka á því.

Þetta þarf að ræða af fullri hreinskilni, alls staðar í þjóðfélaginu. Glæpsamlegt ofbeldi í skugga eineltis er ekki líðandi, hvar sem það er, sérstaklega þegar það gerist í skólum landsins. Slíkt verður að stöðva. Mikilvægast af öllu er að viðurkenna vandann, gera hann opinberan og tala opinskátt um það.


mbl.is Einelti látið viðgangast á Selfossi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illuga Gunnarsson til forystu í Reykjavík

Ég er mjög ánægður með þá ákvörðun Illuga Gunnarssonar að sækjast eftir fyrsta sætinu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri í Reykjavík og styð hann heilshugar. Að mínu mati hefur Illugi verið í sérflokki þingmanna Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili og á nú að fara í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Illugi hefur víðtæka þekkingu á öllum helstu málaflokkum og er sérstaklega mikilvægur fyrir flokkinn í umræðum um efnahags- og umhverfismál.

Því er mikilvægt að hann fái góða kosningu í prófkjörinu. Ég styð Illuga til allra góðra verka!


mbl.is Illugi gefur kost á sér í 1. sæti í prófkjörinu í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeild sérfræðiaðstoð Guðlaugs Þórs

Ég er ekki undrandi á því að sérfræðiaðstoð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sé umdeild. Mér finnst það einum of að eyða 24 milljónum króna á vel innan við tveimur árum í slík verkefni og tel að slíkt muni ekki mælast vel fyrir sérstaklega á þessum tímum, eiginlega allt að því óverjandi, sama hver ráðgjöfin er. Verst af öllu er að sjá pr-ráðgjöf í þessum pakka og varla við því að búast að slíkt veki kátínu almennings á meðan skorið er víðtækt niður í heilbrigðisgeiranum.

Spyrja má sig hvort þessar uppljóstranir andstæðinga Guðlaugs Þórs muni skaða stöðu hans innan Sjálfstæðisflokksins. Varla mun það styrkja hann í það minnsta. Ég held að þetta verði honum skeinuhætt en hlýtur um leið að velta á því hvernig pressan tekur á því.


Bloggfærslur 24. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband