Vandræðin með bankaráðsformann Kaupþings

Brotthvarf Gunnars Arnar Kristjánssonar sem bankaráðsformanns Kaupþings eftir aðeins tvo daga er enn eitt klúðrið í sarpinn fyrir minnihlutastjórnina, og var varla bætandi á fyrir trúverðugleika hennar. Skýringarnar um að Gunnar Örn hafi ekki áttað sig á umfangi hlutverks formanns bankaráðsins og skyldum hans hljóma vægast sagt ótrúverðugar og vandræðalegar. Eitthvað annað hefur komið upp sem hefur leitt til þess að formaðurinn hrökklast frá.

Er kjaftasagan rétt um að kusk hafi verið á hvítflibba hans?


mbl.is Gunnar Örn hættir í bankaráði Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingjaskapur Steingríms J. og Jóhönnu

Mér finnst það algjör aumingjaskapur og pólitískur gunguskapur hjá Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, og Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að leggjast flöt niður og hætta við málssókn á hendur breskum stjórnvöldum. Hvað varð um hinar digurbarkalegu yfirlýsingar Steingríms J. að gefast ekki upp og taka þennan slag til enda. Ekki er orð að marka þessa ríkisstjórn og hún verður sífellt daprari og tragískari í verkum og orðum eftir því sem dögum hennar við völd fjölgar.

Við bætist að hún er stefnulaus og umkomulaus með öllu. Hefur engu komið í verk. Engu er líkara en hún hafi verið mynduð til að ráðast að einum manni og sparka tveimur út í leiðinni, þar af öðrum sem nú er treyst til verka í norska seðlabankanum, jú vegna þekkingar hans og hæfni. Þvílík niðurlæging. Nú bætist þessi aumingjaskapur við. Getur þessi ríkisstjórn orðið daprari en orðið er?

Ætla fjölmiðlamenn ekki að spyrja jarðfræðinginn í fjármálaráðuneytinu hvað varð um yfirlýsingarnar hans digurbarkalegu. Hann hefur varla undan við að éta allt ofan í sig blessaður.

mbl.is Hætt við málssókn gegn Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær frammistaða hjá Davíð í Kastljósinu

Davíð Oddsson í Kastljósi 24. febrúar 2009
Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, stóð sig vel í Kastljósi í kvöld. Hann talaði einlægt og heiðarlega um stöðuna; varði sig persónulega og fór yfir aðdraganda bankahrunsins og einkum verklag yfirstjórnar Seðlabankans - gerði hreint fyrir sínum dyrum. Mér fannst Davíð vera hreinskiptinn í þessu uppgjöri, hann talaði af yfirsýn um hvernig málið horfir við honum og gerði vel grein fyrir því hver sýn hans var á allar hliðar þess. Sennilega þarf að horfa tvisvar eða þrisvar á viðtalið til þess að skynja alla hluta þess, enda mjög yfirgripsmikið.

Held að þetta verði ekki síður eftirminnilegt viðtal, einkum þegar frá líður og bolludagsviðtalið á Morgunvakt Ríkisútvarpsins í mars 2003. Davíð er þeirrar náðargáfu gæddur að tala í fyrirsögnum og hafa lag á sjónvarpsmiðlinum betur en flestir aðrir hér á Íslandi. Hann var mjög sannfærandi og einlægur í þessu uppgjöri. Þetta mál hefur allt gengið mjög nærri honum og í raun má segja að Davíð sé að opna uppgjörsboxið á fullum krafti. Hann gefur það altént í skyn.

Davíð fór langleiðina með að gefa upp hversvegna hryðjuverkalögum var beitt á Ísland í október og sagðist hafa tilkynnt efnahagsbrotadeild RLR um stórundarleg hlutabréfakaup sjeiksins. Mjög fróðlegt bæði tvennt. Davíð veit mikið og getur komið með uppljóstranir sem varpar ljósi á stóran hluta atburðarásarinnar. Þessi saga er að flestu leyti ósögð en þarf að koma fram.

Davíð iðar greinilega í skinninu við að fara af fullum krafti í það uppgjör. Það verður að fara fram fyrr en síðar, svo mikið er víst. Davíð er að opna box sem getur orðið mörgum skeinuhætt.

mbl.is Helgi Magnús: Davíð sendi bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband