Innihaldsleysi Jóhönnu falið með frasablaðri

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, faldi innihaldsleysi ríkisstjórnar sinnar með orðagjálfri og frasablaðri í stefnuræðu sinni í kvöld. Lítið virðist vera um marktækar lausnir á vanda þjóðarinnar á miklum örlagatímum en það hinsvegar poppað upp með einhverjum draumórum um breytingar sem henta betur hjá ríkisstjórn með fullt og óskorað umboð að loknum næstu alþingiskosningum. Eins og áður hafði komið vel fram í innihaldslausu Kastljósviðtali þar sem allt átti að skoða og kanna eftir að forysta Samfylkingarinnar hefur haft öll tækifæri til að láta til sín taka. Vegferðin virðist óttalega tilviljanakennd og marklaus - minnir helst á óvissuferð út í bláinn.

Með fullri virðingu fyrir alþýðukempunni Jóhönnu, sem vann stærstu sigra sína og átti mestu ósigrana og kollsteypurnar í rimmum við samherja sína, er hún eins og leikstjóri í leikriti sem enn er verið að skrifa og æfður einn kafli í einu, án þess að nokkur viti hvaða persónur eigi að vera í aðalhlutverki eða aukahlutverki. Hún virðist fela þá óvissu með tali um einhver hliðaráhrif leikritsins, t.d. hvernig sviðið eigi að vera og hvaða litir eiga að vera í bakgrunni. Fókusinn er ekki á miðju sviðsins þar sem allt á að gera.

Auk þess er handritshöfundurinn ekki traustari en svo að alls óvíst er að hann skrifi leikritið til enda og það endi jafnvel fyrir hlé. Þetta er í besta falli skondið en hinsvegar sorglegt, því spilað er með örlög heillar þjóðar og afleitt að samheldnin í verkunum sé ekki meiri og sundrungin vofir yfir leikritinu og alls óvíst að áhorfendurnir tóri fram í hlé við að horfa. Alls óvíst er hvernig leikrit þetta sé, þó flest bendi til að þetta endi í kuldalegum farsa eða tragikómedíu.

mbl.is Opnað fyrir persónukjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferski ráðherrann í 125 ára stjórninni

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, er eini pólitíski ráðherrann í nýju vinstristjórninni sem mér líst virkilega vel á, enda eina ferska andlitið í 125 ára stjórninni svokölluðu, sú eina sem hefur eitthvað nýtt fram að færa og er ekki hokin og þreytt við stjórnarskiptin. Fjarri því er að ég sé sammála Katrínu um alla hluti en mér finnst stíll yfir henni og eitthvað nýtt. Hún er af sömu kynslóð og ég - vissulega er ánægjulegt að einhver á þessum aldri verði ráðherra og yngt upp í pólitíkinni. Full þörf er á því einmitt núna.

En í staðinn velja vinstrimenn í nær alla stóla forystumenn sem eru fulltrúar gamla tímans, hafa annað hvort verið í ríkisstjórn eða setið mjög lengi í stjórnarandstöðu og eru þreytulegir, hreint út sagt. Einmitt á þessum tímum þurfum við að fá ferskt fólk til forystu og stokka upp í pólitíkinni. Fyrir því hef ég allavega talað að undanförnu með því að við þurfum nýja kynslóð til forystu, nýtt fólk til leiks og við fáum alvöru breytingar.

Þetta eru tímar breytinganna og allir flokkar eiga að svara því kalli.

mbl.is Vék stjórn LÍN frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur reynir að bjarga sér frá hruninu mikla

Ansi fyndið er að sjá hundakúnstir Baugsmanna við að bjarga fyrirtækinu þegar öll sund eru orðin lokuð fyrir vinnubrögðin á þeim bænum. Enn einu sinni á að reyna að kenna Davíð Oddssyni um hversu illa komið er fyrir viðskiptaveldinu og gengið sé eftir því að þeir standi við skuldbindingar og orð sín. Einu sinni gátu Baugsmenn leikið þennan leik með því að bendla nafn Davíðs við allt sem aflaga fór hjá þeim og óhæfuverkin þeirra. En þessi leikur hefur gengið of lengi og fáir sem trúa orðið nokkru einasta orði sem frá þessum mönnum kemur.

Eru þeir örugglega enn með einhverja skynsama pr-ráðgjafa hjá sér þeir Baugsmenn þegar þeir reyna að fiffa sig út úr þessu svona ómerkilega?


mbl.is Baugur í greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sturlu bolað burt - lyddurnar í Framsókn

Jæja, þá hefur Sturlu Böðvarssyni verið bolað af forsetastóli Alþingis með vantrausti á störf hans. Mér finnst það frekar ömurlegt að horfa upp á hversu ódýr Framsóknarflokkurinn er með því að standa að því að fella Sturlu. Framsókn sýnir lydduskap sitt með því að standa að þessu verki án þess að hafa tekið að sér setu í ríkisstjórn og vilji ekki bera ábyrgð á stjórn landsins á nokkurn hátt. Allt þetta gerir Framsókn án þess að fá taka á sig ábyrgð. Þeir ætla bara að njóta góðs af óhæfuverkum vinstristjórnarinnar. Þeir taka þau þó verk öll á sig og verða minntir á afstöðu sína.

Í stað Sturlu er settur lítt reyndur þingmaður, með innan við tveggja ára þingreynslu. Ekki hefur verið hefð fyrir því að í þingforsetastólnum sé maður eða kona með svo litla þingreynslu. Þó Guðbjartur Hannesson sé hinn mætasti maður og ég óski honum góðs í störfum sínum vorkenni ég honum að taka við þessu embætti við þessar aðstæður og þegar slík lágkúra vofir yfir öllum verkum þingsins í skjóli lydduskapar Framsóknar, sem fellir Sturlu af stóli en vill ekki taka neina ábyrgð á verkunum á sig, ætlar bara að reyna að fleyta sér áfram á því.

Með verkum dagsins hefur Framsókn fest sig í sessi sem hækja vinstriflokkanna og er ekki í öfundsverðri stöðu að fella reyndan og traustan mann úr forsetastóli, þegar mjög stutt er til alþingiskosninga. Ekki er hægt annað en hafa skömm á þessum vinnubrögðum Framsóknar.


mbl.is Guðbjartur kjörinn þingforseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel orðað hjá Geir

Ég er algjörlega sammála Geir H. Haarde, formanni Sjálfstæðisflokksins, um að væntanlegt forsetakjör í þinginu, þegar örfáar vikur eru til alþingiskosninga, er stórundarlegt og í raun ekkert nema valdagræðgi. Held að fullt traust ætti að geta verið milli flokkanna um vinnuna í þinginu næstu vikurnar, enda mikilvægt að ná samstöðu um flest mál.

Sturla Böðvarsson er vissulega flokksbundinn fulltrúi á Alþingi, en hann hlaut traust kjör til verka og hefur sitt umboð frá flokkunum á þingi. Því tel ég undarlegt að hann skuli ekki fá að leiða starfið áfram. Þetta lítur út eins og valdagræðgi af verstu sort.

mbl.is Takmarkalaus valdagræðgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Risaklúður hjá Obama - vandræðaleg byrjun

Barack Obama
Enginn vafi leikur á því að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur orðið fyrir þungu pólitísku áfalli vegna vandræðalegs brotthvarfs Tom Daschle úr staðfestingarferlinu í þinginu. Reyndar hefur flest gengið á afturfótunum hjá þeim sem áttu að kanna fortíð þeirra sem voru tilnefndir og greinilega verið haldið mjög illa á málum. Þrír hafa orðið að draga sig til baka vegna þess að þeir höfðu eitthvað óhreint í pokahorninu, þar af viðskiptaráðherraefnið, og sá fjórði, fjármálaráðherrann sjálfur, rétt slapp fyrir horn en naumlega þó.

Tom Dashcle átti að vera einn af lykilmönnum fyrstu hundrað daga valdaferils Obama forseta og leiða heilbrigðismálin, sem áttu að vera eitt aðalmálið, af festu og ábyrgð. Hann hafði leitt demókrata í öldungadeildinni mjög lengi og verið í fulltrúadeildinni ennfremur. Hann þótti hafa traustan prófíl og geta tekið verkefnið að sér. Í upphafi staðfestingarferlisins var farið um hann silkihönskum og talað um hann af virðingu af kollegum úr deildinni. En kusk fannst á hvítflibba hans og honum var gert ókleift að taka við embætti.

Obama er auðvitað skaddaður á eftir og hefur sjálfur viðurkennt hið augljósa, að hann klúðraði þessu og þeir sem hann treysti fyrir að leiða valferlið stóðu sig ekki í stykkinu. Eftir stendur hann með flækjufótinn. Barack Obama átti draumabyrjun fyrstu dagana eftir valdaskiptin í Hvíta húsinu en hefur síðan flækst í leiðindamál og misst greinilega draumasambandið við fjölmiðla sem hann hafði í forkosningabaráttunni. Fjölmiðlar voru skotnir í Obama og fóru um hann silkihönskum og fóru ekki leynt með það.

Greinilegt er að Obama missti traust þeirra þegar hann sór aftur embættiseiðinn í Hvíta húsinu með Roberts forseta hæstaréttar án þess að láta fjölmiðla vita og fór á fyrsta degi á svig við eigin reglur um opin samskipti í Hvíta húsinu og enga feluleiki framhjá landsmönnum og pressunni. Blaðafulltrúinn hans fékk þriðju gráðu yfirheyrslu á næsta blaðamannafundi og blaðamenn allt að því tóku Obama í gíslingu með spurningaflóði þegar hann heimsótti þá í blaðamannaherbergið síðar til að kaupa frið.

Obama forseti hefur líka misst metfylgið sem hann hafði í könnunum snemma janúarmánaðar og eftir að hann tók við forsetaembættinu. Enn hefur hann þó mælingu yfir 60% en það fer ört minnkandi. Ástarsamband fjölmiðla og Obama er lokið með dramatískum hætti og þeir hafa gengið mjög nærri honum vegna klúðursins með Daschle og aðra valkosti hans í þingferlinu. Í viðtali á CNN í kvöld tók Anderson Cooper Obama algjörlega fyrir og talaði hann í kaf, svo Obama viðurkenndi klúðrið.

Ég veit ekki hvernig Obama muni ganga á næstunni en byrjunin er eitt klúður fyrir hann. Ekki dugar lengur að hafa froðukennda frasa sem leiðarstef heldur alvöru forystu. Obama hefur að mörgu leyti þegar fallið á fyrsta prófinu og hlýtur að passa sig eigi hann ekki að verða flokkaður sem misheppnaður demókrataforseti ala Jimmy Carter eins og margir vilja gera og benda réttilega á að gæti hæglega gerst haldi hann áfram á sömu braut.


mbl.is Obama: Ég klúðraði þessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkur valkostur fyrir Framsókn

Eygló Harðardóttir hefur á nokkrum vikum komið sterk til leiks á Alþingi og í forystusveit Framsóknarflokksins á landsvísu - stimplað sig inn sem traust foringjaefni. Ég tel að það yrði sterkur leikur hjá framsóknarmönnum í Suðrinu að velja hana sem eftirmann Guðna Ágústssonar, ekki aðeins í þingsætið hans heldur í leiðtogastólinn í kjördæminu. Mér finnst reyndar blasa við að nýjir tímar verða hjá Framsókn í þessum kosningum. Mikið af nýjum nöfnum eru í umræðunni og sum komin þegar í pottinn.

Þegar liggur fyrir að allir forystumenn Halldórstímans í Framsóknarflokknum eru farin af sviðinu eða ætla að hætta nema Siv Friðleifsdóttir og mögulega Valgerður Sverrisdóttir. Miklar kjaftasögur eru þó um að hún muni draga sig í hlé og hleypa ungu mönnunum að, annað hvort Birkir Jón eða Höskuldur muni leiða listann í norðrinu og væntanlega kosið á milli þeirra enda hljóta þeir báðir að hafa metnað í leiðtogastólinn ef ég þekki þá báða rétt.

Framsókn mun undir forystu nýs formanns koma fram með nýja ásýnd í nær öllum kjördæmum, gott ef ekki öllum. Hann hefur náð flugi í könnunum en væntanlega mun tilhögun leiðtogasætanna og skipan listanna ráða miklu um hversu miklu flugi þessi gamli flokkur nær upp úr rústunum.

mbl.is Eygló býður sig fram í fyrsta sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband