Baugur gjaldþrota - endanlegt fall útrásarinnar

Gjaldþrot Baugs markar mikil þáttaskil í íslensku viðskiptalífi. Þetta mikla fall er í raun hið endanlega skipbrot íslensku útrásarinnar. Í sögubókum framtíðarinnar mun útrásinni á undanförnum árum verða lýst sem mikilli loftbólu, sem var að mestu án innihalds og hrein svikamylla. Þessi leiðarlok markar því um leið endalok mikils sjónarspils.

Mikið var talað gegn þessum sjónhverfingum í bissness. Þeir sem gagnrýndu hana voru úthrópaðir í samfélaginu. Þeir höfðu allir rétt fyrir sér. Á þá átti að hlusta og taka meira mark á þeim. Þeir standa uppi sem boðberar sannleikans.

En hvað verður um bissness Baugsmanna hér á Íslandi? Á maður að trúa því að ekki verði gengið á Haga. Á viðskiptagjörningur Baugsfeðga varðandi Haga að verða endanleg niðurstaða. Varla getur það gengið upp.

mbl.is Ósk um gjaldþrotaskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing og réttlæti í reynd í VR - dræm kjörsókn

Úrslitin í formannskjörinu í VR markar þáttaskil. Fyrst og fremst um mikilvægi endurnýjunar - kallað er eftir nýjum tímum. Ég held að félagsmenn hafi viljað virkja lykilorð félagsins í reynd: Virðing og réttlæti. Eitt vekur þó athygli, umfram annað. Kjörsókn er mjög dræm. Aðeins fjórðungur félagsmanna fer á netið og tekur þátt í mjög auðveldri og aðgengilegri kosningu. Þetta hlýtur að vera gott dæmi um almennt áhugaleysi á kosningu og er svarti bletturinn á annars merkilegri útkomu.

En kannski er þetta bara svona. Þegar kosið er um heildarsamninga og leitað eftir rödd hins almenna félagsmanns taka mjög fáir þátt. Víða eru svo stjórnir slíkra verkalýðsfélaga ákveðnar í bakherbergjum og settir upp miklir múrar henni til varnar. Þetta er ekki bara í VR, heldur víða um land. Mjög sjaldgæft er að alvöru átök verði um forystuna og sótt að henni með því að krefjast kosningar, enda þarf mikið afl til að setja saman lista og formannsefni þarf að fara langa leið til að ná settu marki.

Gunnar Páll Pálsson gerði að sumu leyti margt gott, framan af sínum ferli. Hann markaði VR traust markmið og innleiddi margt jákvætt. Honum varð hinsvegar sjálfum stórlega á. Hann kom ekki hreint fram, baðst ekki afsökunar og sýndi alvöru iðrun þegar á reyndi. Hann fær líka þungan skell.

mbl.is Kaupþingsmálið vó þungt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristinn formaður VR - Gunnari Páli hafnað

Ég fagna því hversu traustan sigur Kristinn Örn Jóhannesson vann í formannskjöri VR. Gunnari Páli Pálssyni, fráfarandi formanni, er hafnað alveg afdráttarlaust. Ég verð þó að viðurkenna að ég var farinn að halda að Gunnar Páll myndi græða á því að tveir sóttu að honum og vinna kosninguna vegna þess.

En þetta eru afgerandi úrslit, krafa um breytingar og horft verði fram á veginn í stað þeirrar sukkuðu sýnar sem einkenndi fortíðina, ákvarðanir fortíðar á vakt fráfarandi formanns. Fólki var nóg boðið af þeim vinnubrögðum.

Óska Kristni Erni til hamingju með glæsilegt kjör og óska honum góðs gengis í störfum sínum.

mbl.is Kristinn kosinn formaður VR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið spil hjá Baugi - blekkingarleikur á endastöð

Augljóst er að blekkingarspilið hjá Baugi er búið - leikritið mikla og farsinn er á enda og tjaldið er fallið. Eftir stendur stórskuldug þjóð í rústunum sem þessir menn skilja eftir sig. Þetta eru bitur og erfið endalok fyrir viðskiptaveldi Jóns Ásgeirs. Þau koma þó varla nokkrum manni að óvörum. Varað hefur verið við þessum leiðarlokum í mjög langan tíma og þau ættu að vera fyrirsjáanleg. 

Á síðasta hring blekkingarhringekjunnar átti enn að reyna að ljúga þjóðina uppfulla af því að Davíð Oddsson væri stóri glæponinn í þessari svikamyllu og hann væri vondi kallinn sem væri að ganga frá dýrlingunum og englaveldinu Baugi.

Flestir sjá orðið hvað er satt og logið í þessu blekkingarspili. Tjaldið er fallið og auðjöfrarnir með. Enginn mun hugga þá í kjölfarið.

mbl.is Frekari greiðslustöðvun hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónudýrkunin í Samfylkingunni

Ég hef beðið eftir því alla þessa viku að Jóhanna Sigurðardóttir komi fram klökk og með brostna röddu og segist taka við flokksformennsku í Samfylkingunni, vegna fjölda áskorana, og einróma stuðnings flokksmanna. Hún hafi alltaf gert allt fyrir jafnaðarstefnuna og skorist ekki undan áskorunum sem berist til hennar frá öllum flokksmönnum. Þetta er svo fyrirsjáanlegt, enda mun þetta enda svona. Ég vissi alltaf að dramatíkin myndi verða við för, enda eru bestu pr-sérfræðingar landsins og spunameistarar í þessum flokki. Þeir eiga eftir að spinna Jóhönnu upp.

Þrátt fyrir þetta sá ég hreinlega ekki fyrir að persónudýrkunin í Samfylkingunni myndi ná slíkum hæðum að gengin yrði blysför til Jóhönnu í kvöld. Þvílík over-dramatísatíon! Ég veit ekki hvað hefði gerst ef slíkt hefði verið gert innan Sjálfstæðisflokksins. Hugleiðið hvað Samfylkingarmenn hefðu sagt ef gengin hefði verið blysför til einstaklings í Sjálfstæðisflokknum ef hann hefði ekki strax gefið kost á sér. Alla jafna gildir að menn hafi áhuga og metnað á flokksformennsku og vilji taka hana að sér til að marka áhrif á flokkinn sinn í einhver ár, en verði ekki tímabundin lausn.

Í Samfylkingunni ganga menn blysför í stað þess að senda bara skeyti til hvatningar. Ætli menn syngi Fósturlandsins Freyja á leiðinni?

mbl.is Blysför til Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljótaskrift á stjórnarskrá í kosningabaráttu

Mér finnst vinnubrögðin í stjórnarskrármálinu ekki til sóma. Ekki er eðlilegt að ætla að keyra stjórnarskrárbreytingar í gegnum þingið þegar kosningabarátta er hafin, ríkisstjórnin umboðslítil og ekki unnið vel að málum. Augljóst er að vinnulagið er flausturskennt og unnið í kappi við tímann. Aldrei hefur gefist vel að breyta stjórnarskrá án samstöðu þegar rúmur mánuður er til alþingiskosninga og með svona miklum hraða. Enda hafa stjórnarskrárbreytingar ekki farið í gegnum þingið án samkomulags allra flokka í hálfa öld.

Sérstaklega er afleitt að ætla að breyta kosningalögunum þegar kosningarnar eru handan við hornið. ÖSE hefur þegar gert athugasemdir við þetta verklag hér. Enda hefur aldrei gefist vel að breyta stjórnarskrá þegar leikurinn er hafinn. Talað hefur verið um hjá ÖSE að glapræði sé að gera slíkt árið fyrir kosningar, hvað þá örfáum dögum eða vikum fyrir kosningar. Þetta er algjört rugl. Ætla þingmenn virkilega að breyta kosningabaráttunni í hreinan skrípaleik.

Mikilvægt er að breyta stjórnarskrá. Slíkt verður þó að gera af þingmeirihluta með sterkt umboð og afdráttarlausan stuðning þjóðarinnar. Slík staða er ekki uppi núna þegar umboð þingsins er mjög veikt og það verður kosið á næstu vikum.

mbl.is Umræðu um stjórnarskrárfrumvarp frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband