Sigga hafnað þrisvar - stórskandall í Idol

Maður er eiginlega alveg orðlaus eftir að horfa á mistökin gríðarlegu í Idol. Þvílíkur skandall. Meðferð stjórnenda þáttarins og dómnefndar á Sigga, frænda mínum frá Eskifirði, er alveg rosaleg. Fyrst er honum sagt að hann komist áfram úr kosningunni. Svo er það dregið til baka og annar tekur sætið vegna mistakanna þáttastjórnenda. Svo velur dómnefndin annan mann áfram og hafnar Sigga. Svo er tilkynnt um eitt aukasæti og stigahæsti tapari kvennaliðsins valin áfram og Sigga enn hafnað.

Þetta var einum of - til skammar fyrir einn sjónvarpsþátt. Er ekki lágmark að fara fram á fagmennsku í þáttastjórn og í dómnefndinni. Hún stóð sig engan veginn í kvöld. Valdi keppanda áfram sem var mun síðri en Siggi og fékk þar að auki mjög lélega dóma. Nú allt í einu vigtaði frammistaða kvöldsins ekkert heldur eitthvað allt annað. Þetta er nú meira klúðrið.

Menn verða að standa betur að málum eigi þessi þáttur að hafa snefil af trúverðugleika!


Kópavogur með Íslandsmetið í Útsvari

Vil óska Hafsteini, Víði og Kristjáni til hamingju með að sigra í Útsvari og tryggja þar með Kópavogi Íslandsmetið í Útsvari annað árið í röð. Hef fylgst með Útsvari af miklum áhuga í vetur. Þetta er ágætis spurningaþáttur, í og með svolítið dreifaralegur og skemmtilega hallærislegur í einfaldri umgjörð sinni.

Litasamsetningin í settinu og kynningarstiklunni, auk hins einfalda en smellna stefs er hallærisleg en flottur heildarpakki utan um pottþétt form á sjónvarpsefni sem allir fylgjast með, allavega með öðru auganu þó þeir vilji ekki viðurkenni það og stundum þeim báðum.

Alltaf er gaman að horfa á spurningaþætti og stemmningin var hin besta í þessum pakka. Þóra og Sigmar hafa staðið sig vel að halda utan um þáttinn. Liðin oftast nær verið mjög góð og fókusinn er hraður og góður.

Sumir hafa ekki tekið sig alvarlega, sem er mjög gott í og með. Enda á þetta að vera mest til gamans gert og baráttuhugurinn í keppninni á að vera að standa vörð um heiður sinnar heimabyggðar.

Sumir hafa gagnrýnt að keppnin sé að verða vettvangur fornra Gettu betur kappa. Má vera. Kannski er ágæt blanda að hafa þá inn á milli. En það er gott að hafa metnað í þessari keppni með öðru.

mbl.is Kópavogur vann Útsvarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg könnun frá stuðningsmönnum GÞÞ

Kjörfundur er hafinn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar er fjöldi góðs fólks í kjöri og ég vona að þar takist vel til að velja sigurstranglega lista. Mér finnst merkilegt að á fyrri kjördegi birti stuðningsmenn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar skoðanakönnun sem þeir hafa gert sjálfir án atbeina óháðra aðila til að sýna fram á styrkleika síns manns. Þetta er með furðulegri könnunum sem ég hef séð mjög lengi, enda er þar hvergi hægt að sýna fram á hver gerði viðkomandi könnun eða hvort hún sé trúverðug.

Þetta er eitthvað undarlegt trix, innlegg í umræðuna, sýnist mér. Miðað við vinnubrögðin í símhringingum og fleiru sem ég hef heyrt af síðustu daga finnst mér þetta ekki vegleg viðbót fyrir þá sem harðast ganga fram í skítkasti og óhróðri. Þetta eru vinnubrögð sem eru sorgleg í prófkjörsátökum pólitískra samherja, sem eru eins og leðjuslagur. Þetta eru vinnubrögð sem mér hugnast ekki.

Ég hvet flokksmenn í Reykjavík til að kjósa Illuga Gunnarsson í fyrsta sætið!

mbl.is Stuðningsmenn Guðlaugs segja hann hafa forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilega léleg auglýsing hjá Símanum

Ný auglýsing Símans hefur vakið mikla athygli, fyrst og fremst fyrir það hvað hún er léleg. Fyrirtækið hefur þó grætt mikið umtal á því, eins og öðrum auglýsingum, en nær samhljóma álit flestra sem ég hef talað við er að hún fari meira í pirrurnar á þeim en Jesú-auglýsingarnar margfrægu með Jóni Gnarr. Fjöldi fólks hefur skráð sig í facebook-hóp gegn auglýsingunni, enda sé hún algjört bruðl og ekki í takt við stöðuna.

Nú bætist við að Neytendastofa vill stöðva birtingu auglýsingarinnar, enda sé hún á gráu svæði. Blasir reyndar við, enda dansað vægast sagt á línunni.

mbl.is Vilja stöðva auglýsingar Símans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús Þór reynir að fella Guðjón Arnar

Eftir mikinn ósigur í prófkjöri Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi ákveður Magnús Þór Hafsteinsson að ráðast gegn formanninum Guðjóni Arnari Kristjánssyni, húsbónda sínum og yfirmanni. Magnús Þór er jú launaður aðstoðarmaður Guðjóns, á þingmannalaunum, og hefur setið í hans skjóli eftir að hafa fallið af þingi fyrir tveimur árum. Þetta mótframboð kemur í beinu framhaldi af því að Magnús Þór var niðurlægður í eigin kjördæmi, eftir að hafa tapað fyrir Sigurjóni Þórðarsyni en ekki lagt í leiðtogaframboð gegn Guðjóni Arnari.

Framboðið virðist því örvæntingarfull tilraun hans til að halda sér í forystu Frjálslynda flokksins og bjarga því sem bjargað verður. Hefði þetta átt að vera trúverðugt hjá Magnúsi Þór hefði hann átt að fara í leiðtogaframboð í Norðvesturkjördæmi. Hann studdi andstæðing sinn og yfirmann (fyndin blanda reyndar) en snýst gegn honum síðar meir. Ég man reyndar ekki þess dæmi að sérstakur aðstoðarmaður flokksformanns á Íslandi gefi kost á sér gegn yfirmanni sínum og læriföður á meðan viðkomandi er enn á launaskrá.

En Frjálslyndi flokkurinn minnir orðið frekar á dýragarð þar sem öll dýrin reyna að bjarga sjálfu sér. Flokkurinn er að verða nær fylgislaus í könnunum og virðist búinn að vera á flestum vígvöllum nema í Norðvesturkjördæmi. Þar er sjálfur formaðurinn í framboði. Hann kom flokknum á kortið í gamla Vestfjarðakjördæmi árið 1999 og dró með sér Sverri á þing. Alla tíð síðan hefur hann dregið vagninn, síðast í kosningunum 2007.

Hefði það gerst í einhverjum alvöru stjórnmálaflokki að aðstoðarmaður flokksformanns og einstaklingur sem hefur alltaf verið á mála hjá viðkomandi, ítrekað bjargað hjá honum, myndi það vekja athygli. En það gerir það varla þegar Frjálslyndir eru annars vegar.

mbl.is Magnús Þór stefnir á formanninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í prófkjör - góður framboðsfundur

Notaleg og góð stemmning var á fundi frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi á Hótel KEA í kvöld . Mjög vel var mætt á fundinn, en bæta þurfti við stólum í fundarsalnum vegna fjöldans sem þar var saman kominn. Það var virkilega ánægjulegt að sjá þennan mikla og lifandi áhuga flokksmanna koma svo vel fram í þessari góðu fundarsókn, en það er varla furða að svo sé, enda er þetta prófkjör mikilvægt okkur öllum sjálfstæðismönnum hér og áríðandi að flokkurinn velji sterkan lista.

Fundurinn snerist að mestu um efnahagsmálin, mál málanna á þessari stundu fyrir landsmenn alla. Tryggvi Þór Herbertsson var að mínu mati stjarna fundarins, enda talað um hans sérsvið langmest og ég tel að staða hans hafi styrkst mjög í baráttunni síðustu dagana. Miðað við frammistöðuna á fundinum tel ég mikinn meðbyr með honum og skoðunum hans. Auk þess var gaman að hlusta á nýju frambjóðendurna; þau Jens Garðar, Kristínu Lindu, Björn, Önnu Guðnýju, Sigurlaugu, Gunnar Hnefil og Soffíu.

Miklar breytingar eru framundan í þessu prófkjöri. Aðeins tveir frambjóðendur úr síðasta prófkjöri haustið 2006 gefa kost á sér aftur, þingmennirnir Kristján Þór og Arnbjörg. Ólöf Nordal og Þorvaldur Ingvarsson hafa horfið af pólitíska sviðinu hér og haldið til annarra verkefna. Af listanum í kosningunum 2007 er aðeins einn annar frambjóðandi í prófkjörinu, bóndinn Kristín Linda. Því er mikil uppstokkun og verður fróðlegt að sjá hvernig fer.

Baráttan um annað sætið er mikill Austfjarðaslagur. Þar er fyrir Arnbjörg Sveinsdóttir en Soffía Lárusdóttir og Tryggvi Þór sækjast eftir því sæti. Tel ekki síður spennandi að sjá hver muni ná þriðja sætinu, baráttusætinu okkar í þessum kosningum. Það val mun skipta miklu máli.

Ég hvet alla flokksmenn til að mæta á kjörstað á laugardag og taka þátt - velja forystusveitina í vor og ný þingmannsefni.

Bloggfærslur 13. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband