Djöfull í mannsmynd

Eftir því sem Josef Fritzl talar meira um ástæður meðferðar sinnar á eigin dóttur verður það óhugnanlegra og sorglegra - hann er einfaldlega djöfull í mannsmynd. Mjög undarlegur er að hann reyni að milda álit fólks á sér með því að vitna í að hann hafi nú verið fórnarlamb sjálfur, sé annað hvort geðveikur eða bugaður af eigin lífsreynslu forðum daga. Þetta er útspil til að reyna að milda dóminn. Dæmt til að mistakast.

Öll verk þessa manns síðasta hálfan þriðja áratuginn sýna og sanna að maðurinn var viti sínu fjær, hreinlega djöfull í mannsmynd. Óhugur almennings er skiljanlegur og eðlilega er talað um dauðadóm. Æ fleiri styðja að taka upp dauðadóm í Austurríki svo taka megi Fritzl af lífi. Dómharkan er eðlilegt, enda velta allir fyrir sér hvernig nokkur maður geti komið fram við afkomendur sína með svo djöfullegum hætti.

Lýsingarnar á því hvernig hann gat spunnið verk sín áfram allan þennan tíma eru í senn sorglegar og ógnvekjandi. Sá maður sem getur beitt fólk af eigin holdi og blóði svo ógeðslegri meðferð er auðvitað fjarri því að vera heill á geði og væntanlega átti heldur enginn von á því. Þetta mál er fyrst og fremst áfellisdómur yfir þeim sem rannsökuðu það og áttu að kveikja á perunni.

Veigamiklar staðreyndir, sem gátu aldrei myndað heilstæða og eðlilega mynd, um Fritzl og heimilisaðstæður hans, auk þess karaktereinkenni hans og fyrri afbrot áttu að leiða menn rétta leið löngu fyrr. Þessi djöfull í mannsmynd mun vonandi hljóta makleg málagjöld að lokum.


mbl.is „Notaði hana eins og leikfang“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tryggvi Þór stimplar sig inn í kosningabaráttuna

Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og verðandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, stimplar sig traust og vel inn í kosningabaráttuna með tillögum sínum. Þetta eru þó ekki nýjar tillögur, enda komu þær fyrst fram í október/nóvember 2008 - áður en Sigmundur Davíð og félagar hans í Framsókn tóku þær eftir og kóperaði.

Ég varð mjög var við að tillögur Tryggva Þórs slógu í gegn í prófkjörsbaráttunni hjá okkur sjálfstæðismönnum. Hann stóð sig langbest allra á framboðsfundi hér á Akureyri á fimmtudag. Sumir frambjóðendur ætluðu þar að sækja að Tryggva vegna þessara tillagna og reyna að láta þær líta út eins og barnalegar eða óraunhæfar.

Tryggvi Þór skaut alla slíka gagnrýni niður, næsta auðveldlega. Vissulega er eðlilegt að ræða þessar tillögur og eiga um þau skoðanaskipti. Þeir sem vilja skjóta þær niður verða þó að koma með konkrett tillögur en láta ekki skjóta sig svona á færi. Eiginlega lágmark.

mbl.is Tryggvi Þór: 20% af skuldum heimilanna verði felldar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttir útreikningar - stjórnlagaþing verður dýrt

Nú er ljóst að Geir Haarde og Birgir Ármannsson höfðu rétt fyrir sér þegar þeir spáðu að stjórnlagaþing myndi kosta einn og hálfan milljarð plús. Þeir voru gagnrýndir harðlega fyrir útreikninga sína og sumir gengu svo langt að segja að þeir ofreiknuðu kostnaðinn. Hið opinbera hefur nú svarað með því að staðfesta orð þeirra og farið yfir tvo milljarða reyndar. Ergó: stjórnlagaþingið, hliðarþing við Alþingi, mun því verða mjög dýrt fyrir skattborgara.

Mér finnst eðlilegt að velta því fyrir sér hvort rétt sé að setja tvo milljarða plús í þetta verkefni. Ég hef hingað til haldið að það sé verkefni alþingismanna, kjörnum af landsmönnum öllum, að setja lög og vinna að málum. Þeir eiga ekki að vera til skrauts þegar kemur að slíkum lykilmálum sem þeim ber full skylda að vinna að.

Þeir sem hátt tala um að breyta þurfi stjórnarskrá á örfáum dögum, í fljótaskrift og án samráðs allra flokka, eru ekki mjög trúverðugir í þessu máli. Reyndar finnst mér aðeins einn flokkur heiðarlegur í stuðningi við stjórnlagaþing. Vinstriflokkarnir eru bara að slá pólitískar keilur með orðum sínum og verkum þessa dagana.

Gott dæmi er persónukjörið. Í miðjum átökum í prófkjörum um allt land er sveigt af leið og talað um persónukjör eftir innan við 40 daga í alþingiskosningum. Er þessu fólki virkilega alvara?

mbl.is Stjórnlagaþing kostar 1,7 til 2,1 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logos vinnur úr málum Baugs - er þetta í lagi?

Gjaldþrot Baugs er risavaxið í Íslandssögunni. Því vekur eðlilega athygli að Erlendur Gíslason, lögmaður hjá Logos, sé valinn skiptastjóri þrotabúsins. Tengsl Logos við Baug eru augljós og endanlega staðfest nú. Er þetta í lagi? Ætlar þjóðin virkilega að láta þetta yfir sig ganga? Er að eðlilegt að lögmaður þessarar lögfræðistofu taki öll völd í þessu mikla þrotabúi - staða skiptastjóra er jú gríðarlega sterk í þessu ferli.

Allar vanhæfisreglur hljóta að verða virkar í þessu máli - allar bjöllur hljóta að klingja. Miklu skiptir að mál á borð við þetta sé hafið yfir allan vafa og augljóst sé að unnið verði heiðarlega og vel. Enginn vafi má vera þar. Varla er hægt að finna stofu sem tengist fyrirtækinu Baugi með jafn afgerandi hætti og Logos.

Þessi tengsl eru nú endanlega staðfest. Hafa vissir menn aðra í vasanum endalaust? Þennan gjörning verður að stöðva!


mbl.is Logos vann fyrir Baug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átti Jón Ásgeir snekkjuna og flugvélina?

Varla er nokkur hissa á því að Jón Ásgeir hafi selt snekkjuna og flugvélina, enda Baugur kominn á hausinn og blekkingarhjólið verið stöðvað. Á þessi tilkynning að fá þjóðina til að vorkenna honum eða til að róa landsmenn? Þeir fái á tilfinninguna að Jón Ásgeir ætli nú að slá af í lífsstandard og taka því rólega. Meira ruglið.

En stóra spurningin er sú hver átti þessa snekkju og flugvél. Napra staðreyndin virðist vera sú að bankarnir hafi átt þetta allt og fjármagnað þessa vitleysu. Kjaftasagan um íbúðina í New York var jú sú að hún hafi verið lánuð í topp af Landsbankanum. Tekin svo upp í skuldahítina.

Ég sá um daginn hina miklu frétt að Jón Ásgeir hefði verið á farrými skör neðar en Saga Class og verið mjög órólegur. Efast um að margir gráti í takt við þessa aumu pr-mennsku vissra aðila.


mbl.is Jón Ásgeir selur snekkju og flugvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband