Gríðarlegt klúður Gylfa - ómerkileg framkoma

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, fór mjög illa að ráði sínu þegar hann tilkynnti um endalok Spron á laugardegi án þess að hafa undirbúið starfsmennina undir áfallið mikla. Öllum er ljóst að nær allir starfsmenn hafa misst vinnuna. Að tilkynna slíka niðurstöðu án þess að hafa hag fólksins sem vann hjá fyrirtækinu að leiðarljósi er hrein lágkúra og þessum umboðslausa ráðherra algjörlega til skammar.

Þessi viðskiptaráðherra hefur reyndar áður afhjúpað sig sem algjöran fimmaurabrandara, einkum í grein til Tryggva Þórs Herbertssonar. Þar talar hann eins og pólitískur fulltrúi, en ekki umboðslaus ráðherra í boði vinstriflokkanna, sem völdu hann til verka í hreinum pópúlisma og hafa sleppt honum lausum eins og grimmum varðhundi, sem eigandinn ætlar þó ekki að bera neina ábyrgð á.

Ég tek undir með starfsfólki Spron. Þessi ráðherra er hreinn brandari og ætti að skammast sín fyrir framkomuna á þeim sem missa vinnuna hjá þessu forna fjármálaveldi.

mbl.is Tilfinningaríkur fundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ási á Rifi sigrar Einar - sterkur listi í Norðvestri

Ég vil óska Ása á Rifi, Ásbirni Óttarssyni, innilega til hamingju með glæsilegan sigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann sigrar Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrum ráðherra, í leiðtogaslagnum og stimplar sig hressilega inn í forystusveit flokksins á landsvísu með því. Sigur Ása á Rifi er auðvitað mjög stór í ljósi þess að hann hefur lítið verið áberandi í landsmálapólitík en staðið sig þess þá heldur mjög vel í sveitarstjórnarmálunum og unnið sín verk traust og vel, er þekktur fyrir að hafa staðið sig vel í pólitískri baráttu. Grandvar og vandaður maður í hvívetna.

Í fjórum efstu sætunum eru sveitarstjórnarmenn úr Norðvesturkjördæmi. Aðeins Einar er eftir af forystusveit síðustu ára og tap hans eru vissulega mjög merkileg skilaboð og ákall flokksmanna í kjördæminu um breytingar og í raun má segja að kosning Eyrúnar og Birnu í efstu sætin sé það líka. Eyrún hefur staðið sig vel í bæjarpólitíkinni á Tálknafirði og Birna á Ísafirði. Ég óttaðist það mjög við fyrstu tölur að þær myndu strika hvor aðra út, enda koma þær af sama svæði kjördæmisins og eru báðar úr sveitarstjórnarpólitíkinni.

Athygli vekur einna helst hversu vond úrslitin eru fyrir Akranes. Beggi Óla nær í fimmta sætið en Eydís og Þórður ná ekki í hóp sex efstu. Akranes er stærsta þéttbýlissvæði kjördæmisins, eins og allir vita. Sama gerðist reyndar í prófkjörinu 2002 þegar Guðjón Guðmundsson, þáverandi alþingismaður, varð fjórði og datt í kjölfarið út af þingi.

Ég tel að flokksmenn á þessu svæði hafi valið mjög góðan lista. Þar er mikil endurnýjun, nýr leiðtogi kemur nýr til verka í landsmálunum og tvær traustar konur eru í baráttusætunum. Þessi listi ætti að geta náð góðu og traustu fylgi á þessu svæði.


mbl.is Ásbjörn vann baráttuna við Einar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór Júlíusson í formannsframboð

Ákvörðun Kristjáns Þórs Júlíussonar, leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fyrrverandi bæjarstjóra hér á Akureyri, um að gefa kost á sér til formennsku í flokknum hleypir lífi í landsfund Sjálfstæðisflokksins um næstu helgi. Ég tel það jákvætt og gott að kosið verði um formennskuna í líflegri kosningu milli sterkra valkosta. Mikilvægt er að landsfundurinn verði vinnufundur þar sem unnið verður í stefnumótun til næstu ára og kosin ný og traust forysta með afgerandi umboð eftir líflega kosningabaráttu.

Tími sjálfkjörinna formannsefna er liðinn að mínu mati. Eðlilegt er að flokksmenn fái að velja milli frambjóðenda með afgerandi stefnumótun að leiðarljósi og geri upp um hvert skuli stefna. Ekki aðeins skuli kosið um stefnu í vissum málaflokkum heldur fái flokksmenn að taka af skarið með hvernig formaður stýrir þeirri vinnu á næstu árum. Mikilvægt er að stokka flokkinn upp í samræmi við þá líflegu kosningabaráttu. Nýr formaður kemur mun betur frá landsfundi eftir slík átök og þannig uppgjör.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur á tímamótum nú eftir átján ára samfellda valdasetu í landsmálum, lengst af í forystusess ríkisstjórnar landsins. Í upphafi þess tímabils var kosið milli sterkra formannsefna og framtíðin mörkuð. Svipað uppgjör og þáttaskil verða að eiga sér stað nú. Því er ekki hægt annað en fagna því að sá valkostur sé til staðar á landsfundi um næstu helgi.

mbl.is Kristján Þór í formannskjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðastríð í beinni útsendingu



Jade Goody var algjörlega óþekkt þegar hún tók þátt í raunveruleikaþættinum Big Brother árið 2002, en náði að nota sviðsljósið sem farmiða inn í heimsfrægð á einni nóttu. Hún veiktist af krabbameini og háði mjög opinbera baráttu gegn sjúkdómnum í kastljósi fjölmiðla. Jade nýtti fjölmiðlaathyglina til að vekja athygli á sjúkdómnum og sjálfri sér, varð talsmaður á opinberum vettvangi allt til síðustu stundar.

Síðustu mánuðir á ævi hennar voru dókúmenteraðir frá upphafi til enda. Hún seldi fjölmiðlum algjöran aðgang að einkalífi sínu undir lokin. Þeir fengu aðgang að henni á sjúkrahúsi, fulla aðkomu að brúðkaupi hennar og Jack Twist. Hver mínúta varð að augnabliki í kastljósi fjölmiðla. Sjaldan áður hefur ein persóna kvatt og deilt síðustu augnablikum í fjölmiðlum.

Sumum fannst þetta sjúkt en aðrir dáðust að styrk hennar. Jade Goody mun væntanlega aldrei gleymast. Fólk verður svo að meta hvort dauðastríð í beinni útsendingu sé viðeigandi endalok baráttu eða siðlaust fjölmiðlaaugnablik. Allt hefur sinn tilgang sagði frægur fjölmiðlakóngur eitt sinn. Jade Goody lifði eftir því mottó til hinstu stundar allavega.


mbl.is Jade Goody látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband